Drengurinn horfði út um gluggann á sumarhúsinu og sá hvar maður var að elta eitthvað í móunum þar skammt frá. Maðurinn hljóp hálf boginn með prik í hendi og lamdi ótt og títt að einhverju sem fór á undan honum. Drengurinn var spenntur, hvað skyldi maðurinn vera að elta? Fugl kannski?
Drengurinn flýtti sér út á sólpall til að fylgjast betur með þessum eltingarleik, en þegar hann kom út var maðurinn snúinn við og hættur að elta það sem hann var á eftir.
Þar sem hann stóð þarna á sólpallinum, kom mórauður refahvolpur allt í einu hlaupandi úr móunum og stökk uppí fang hans. Skrítið,
drengnum brá ekkert við þetta. Hann horfði bara framan í nef refsins sem var í fangi hans. Refurinn horfði stórum rólegum augum á móti.
„Hvað sumir menn geta verið frekir, hann er búinn að elta mig hér um alla móa,“ sagði refurinn.
„Af hverju?“ svaraði drengurinn hissa. „Ef maður réttir þeim litla fingur þá vilja þeir gleypa alla höndina,“ sagði refurinn spekingslega.
„Hvað áttu við?“ spurði drengurinn. „Ég byrjaði að leika við stelpuna hans þarna við bústaðinn þeirra og þá hann kom út með látum og reyndi að berja mig. Öskraði eins og vitlaus maður og konan hans líka, síðan elti hann mig þar til hann gafst upp. Hvað er eiginlega að þessu fólki?“ stundi refurinn.
„Ég veit það ekki, ætli hann hafi ekki verið hræddur,“ svaraði drengurinn. Hann var að reyna að vera mannalegur. „Hræddur, við hvað,..mig? Hræddur við mig?“ hváði Rebbi. „Nei, hræddur um að þú myndir bíta stelpuna hans,“ sagði drengur láróma, rétt þorði að nefna þetta eins og hann væri hræddur um að móðga Rebba.
„Heyrðu, heyrðu, BÍDDU nú við! Af hverju ætti ég að bíta lítið barneins og mig?“ Rebbi varð (?) hneykslaður af annarri eins hugsun. „Heldur þú virkilega að það hafi verið þess vegna sem hann reyndi að berja mig? Virkilega?“
Nú var drengurinn orðin nokkuð öruggur með sig, hann hafði líklega hitt naglann á höfuðið. „Já, þetta hefur verið ástæðan fyrir þessum viðbrögðum hans,“ svaraði hann.
„Já þú segir það, en af hverju var þá konan hans alltaf að kalla NÁÐU SKOTTINU?“
Drengnum brá, ætli maðurinn hafi viljað fá borgað fyrir skottið? Hann skammaðist sín fyrir þetta. Hann reyndi að breiða yfir þessa skömm gagnvart refnum. „ Heldurðu ekki að hún hafi frekar kallað NÁÐU Í SKOTTIÐ Á HONUM.“
Rebbi varð hugsi; „Hver er munurinn?“ Drengurinn vildi ekki hætta sér frekar út í þessa umræðu og spurði þess í stað, „hvernig stendur á því að þú talar svona skýrt mál og svo skilur þú mig líka?“
„Ja, já við skiljum hvorn annan og ég skil alla sem skilja mig!“
Drengurinn hugsaði augnablik um þessi orð refsins. „Heyrðu, heldur þú að þú munir skilja vin minn sem er með mér hér í bústaðnum?“
„Já örugglega ef hann skilur mig,“ svaraði Rebbi.
Þeir fóru inn og hittu þar vininn sem var að spila í leikjatölvu.
„Vá, hvað ertu með? Ref? En flott,“ sagði vinurinn og var auðsjáanlega hrifinn af refnum.
„Já, hann stökk bara upp í fangið á mér hér fyrir utan, hann er rosalega gæfur. Viltu halda á honum?“ Drengurinn rétti vini sínum hvolpinn. „Ha, nei…, ég hef aldrei haldið á ref.“ Hann dustaði kjöltu sína eins og til að afsaka sig að vilja ekki refinn í fangið. „Hann er skítugur,“ sagði hann í afsökunartón. „Allt í lagi, en þú getur talað við hann, hann skilur þig,“ sagði drengurinn ákveðinni röddu, eins og til að hvetja vin sinn.
Vinurinn horfði skringilega á drenginn, var hann að gera að gamni sínu? „Skilur hann þig?“ spurði vinurinn. Það var vantrú í röddinni.
„Já, hann skilur allt sem ég segi, segðu eitthvað og sjáum til hvort hann skilur það,“ svaraði drengur glaðlega. Vinurinn hikaði, en sagði upphátt og skýrt: „komdu hérna Rebbi, sestu og vertu kyrr.“ Refurinn svaraði ekki og horfði bara á vininn.
Drengurinn leit á refinn: „hvað, skilur þú hann ekki?“
„Hvernig á ég að skilja þetta, það kom bara eitthvað hljóðarugl, það var ekki mitt mál.“
„Þitt mál? Hvað áttu við,“ hváði drengurinn.
„Það sem ég segi, ég skildi ekkert af því sem hann var að segja,“ svaraði Rebbi.
„Hvernig skilur þú þá mig?“ Drengurinn var hissa. Hann gekk út á veröndina með hvolpinn í fanginu.
„Nú, af því að þú talar mitt mál.“ Refurinn horfði stórum augum á drenginn.
Nú var drengurinn orðinn meira en hissa. „Þú talar og skilur mitt mál, af hverju skilur þú þá ekki vin minn?“
„Ég veit það ekki, minn kæri, ég veit bara að við tveir skiljum hvorn annann,“ svaraði Rebbi litli um leið og hann stökk úr fang drengsins og hvarf út í móa.
Lokað er fyrir athugasemdir.