Stofnun Þjóðveldisins

Hugleiðingar um tengsl.

Sigurbjörn Svavarsson

„Fræðimenn deila um hvort fjórðungaskiptingu landsins hafi verið komið á með Úlfljótslögum og stofnun Alþingis 930 eða með skipan fjórðungsþinga 965. Fjórðungsskipting landsins í sögunum eru oftast tengd saman með skipan fjölda þinga í fjórðungi og höfuðhofa í hverjum þingi. Með þeirri skipan verða til goðorðin. Ef sú skipan komst ekki á árið 930, gat ekki verið um að ræða 36 goða í Lögréttu við stofnun Alþingis.“

Hversvegna og hverjir réðu því, og hvernig var Þjóðveldinu komið á? Áleitnar spurningar og einföldu svörin er; Af nauðsyn, fyrsta og önnur kynslóð landnámsmanna réði því og lögin réðu því hvernig það var gert. En það er ávallt fróðlegt að skoða þessa þætti nánar og sjá hvernig tengsl fortíðar og þeirra tíma öfl innan frá og utan mótuðu framvinduna.

Hverjir sögðu söguna, -persónur og leikendur?

Ari fróði segir í Íslendingabók sinni hvaðan hann dregur fram söguna :

1. Frá Íslands byggð. Ísland byggðist fyrst úr Norvegi á dögum Haralds hins hárfagra, Hálfdanarsonar hins svarta, í þann tíð, að skilningi og sögn þeirra Teits, fóstra míns, þess manns, er ég kunni spakastan, sonar Ísleifs biskups, og Þorkels, föðurbróður míns, Gellissonar, er langt mundi fram, og Þuríðar Snorradóttur goða, er bæði var margspök og sannfróð, er Ívar Ragnarsson loðbrókar lét drepa Edmund inn helga Englakonung. En það var átta hundruð og sjö tugum vetra eftir burð Krists, að því er ritað er í sögu hans. Ingólfur hét maður norrænn, er sannlega er sagt, að færi fyrst þaðan til Íslands, þá er Haraldur hinn hárfagri var sextán vetra gamall, en í annað sinn fáum vetrum síðar. Hann byggði suður í Reykjarvík. Þar er Ingólfshöfði kallaður fyrir austan Minþakseyri, (milli Ingólfshöfða og Hjörleifshöfða,  innskot SS) sem hann kom fyrst á land, en þar Ingólfsfell fyrir vestan Ölfossá, er hann lagði sína eigu á síðan. Í þann tíð var Ísland viði vaxið á milli fjalls og fjöru. Þá voru hér menn kristnir, þeir er Norðmenn kalla Papa, en þeir fóru síðan á braut, af því að þeir vildu eigi vera hér við heiðna menn, og létu eftir bækur írskar og bjöllur og bagla. Af því mátti skilja, að þeir voru menn írskir. En þá varð för manna mikil mjög út hingað úr Norvegi, til þess uns konungurinn Haraldur bannaði, af því at honum þótti landauðn nema. Þá sættust þeir á það, að hver maður skyldi gjalda konungi fimm aura, sá er eigi væri frá því skildugur og þaðan færi hingað. En svo er sagt, að Haraldur væri sjö tugi vetra konungur og yrði áttræður. Þau hafa upphaf verið að gjaldi því, er nú er kallað landaurar, en þar galst stundum meira, en stundum minna, uns Ólafur hinn digri gerði skírt, at hver maður skyldi gjalda konungi hálfa mörk, sá er færi á milli Norvegs og Íslands, nema konur eða þeir menn, er hann næmi frá. Svo sagði Þorkell oss Gellisson.

2. Frá landnámsmönnum og lagasetning. Hrollaugur, sonur Rögnvalds jarls á Mæri, byggði austur á Síðu. Þaðan eru Síðumenn komnir. Ketilbjörn Ketilsson, maður norrænn, byggði suður að Mosfelli hinu efra. Þaðan eru Mosfellingar komnir. Auður, dóttir Ketils flatnefs, hersis norræns, byggði vestur í Breiðafirði. Þaðan eru Breiðfirðingar komnir. Helgi inn magri, norrænn, sonur Eyvindar Austmanns, byggði norður í Eyjafirði. Þaðan eru Eyfirðingar komnir. En þá er Ísland var víða byggt orðið, þá hafði maður austrænn fyrst lög út hingað úr Norvegi, sá er Úlfljótur hét, svo sagði Teitur oss, og voru þá Úlfljótslög kölluð, – hann var faðir Gunnars, er Djúpdælir eru komnir frá í Eyjafirði, – en þau voru flest sett at því, sem þá voru Gulaþingslög eða ráð Þorleifs hins spaka Hörða-Kárasonar voru til, hvar við skyldi auka eða af nema eða annan veg setja. Úlfljótur var austur í Lóni. En svo er sagt, að Grímur geitskör væri fóstbróðir hans, sá er kannaði Ísland allt at ráði hans, áður alþingi væri átt. En honum fékk hver maður penning til á landi hér, en hann gaf fé það síðan til hofa.

3. Frá alþingissetning. Alþingi var sett at ráði Úlfljóts og allra landsmanna, þar er nú er, en áður var þing á Kjalarnesi, það er Þorsteinn Ingólfsson landnámamanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar og höfðingjar þeir, er að því hurfu……

Sögumaðurinn.- Ari fróði Þorgilsson (f. 1067 – d. 9. nóvember 1148) var prestur, fræðimaður og rithöfundur. Hann er talinn fyrstur manna til þess að rita sögur á norrænu (forníslensku), fornar og nýjar. Hann er talinn helsti höfundur Íslendinga-bókar og Landnámu,  tveggja helstu heimildanna um landnám og byggð Íslands.

Ari var sonur Þorgils Gellissonar á Helgafelli, (bróðir Þorkels, sem Ari vitnar til sem eins heimildarmanns síns) en afi hans var Gellir Þorkelsson (sonur Guðrúnar Ósvífursdóttur) goðorðsmaður á sama stað og voru þeir komnir í beinan karllegg frá Þorsteini rauð, syni Auðar djúpúðgu. Föðuramma Ara og kona Gellis var Valgerður Þorgilsdóttir af ætt Hörða-Kára. Þorgils faðir Ara drukknaði í Breiðafirði þegar Ari var barn en Gellir afi hans dó í Hróarskeldu á heimleið úr Rómarferð 1073. Móðir Ara var líklega Jórunn Hallsdóttir Þórarinssonar í Haukadal.

Þegar Ari var sjö ára var honum því komið í fóstur hjá móðurafa sínum Halli Þórarinssyni hinum spaka í Haukadal og var hjá honum næstu 14 árin. Ari kallar Hall ágætastan ólærðra manna og segir að hann hafi verið bæði minnugur og sannfróðan. Hallur var svo gamall að hann mundi eftir að hafa verið skírður af Þangbrandi biskupi og kristniboða Ólafs helga þriggja ára gamall, og var það vetri fyrir kristnitöku. Síðu-Hallur Þorsteinsson lét einnig skírast og Hjalti Skeggjason og Gissur hvíti Teitsson, Ketilbjarnarsonar frá Mosfelli, og margir höfðingjar aðrir segir í Íslendingabók.

Ari var nemandi Teits Ísleifssonar að Haukadal eins og fyrr er nefnt, hlaut klassíska menntun og lærði latínu og nam einnig ýmsan annan fróðleik. Að námi loknu var Ari vígður af Gissuri biskupi Ísleifssyni og gerðist prestur á Stað á Ölduhrygg, sem nú heitir Staðarstaður, en lítið er vitað um ævi hans eftir það. Hann virðist þó hafa verið talinn til höfðingja og kann að hafa átt goðorð eða hluta af goðorði, enda átti Ari Þorgilsson sterki sonarsonur hans hálft Þórsnesingagoðorð.

Ari segist hafa skrifað Íslendingabók fyrir biskupana Þorlák Runólfsson (1086-1133) og Ketil Þorsteinsson (1075-1145) og ljóst er að baki gerð Íslendingarbókar og hugsanlega Landnámu sem skrifuð var einhvern tíma á árabilinu 1122-1132 stóðu því kristnir Haukdælir og Hólabiskup tengdur þeim, miklir og víðsigldir lærdómsmenn sem Ari hafði aðgang að auki hinna fyrrnefndu Þorkels, Teits og Þuríðar, sem og Ísleifi biskup og Halli fóstra sínum, sem fæddir voru um aldarþúsundin og mundu sögur afa og ömmu sinna, sem voru fyrsta og önnur kynslóð landnámsmanna. Það fólk mundi eflaust vel stofnun Alþingis og setningu Úlfljótslaga.

Ari segist hafa umskrifað Íslendingabók eftir yfirlestur biskupanna og Sæmundar fróða, líklega á árunum 1134-1138, og er það sú gerð sem varðveist hefur. Hann mun einnig hafa skrifað eða átt þátt í frumgerð Landnámu; Haukur Erlendsson segir í eftirmála Hauksbókar að Ari og Kolskeggur vitri hafi fyrstir skrifað um landnámið. Mjög líklega er bændatalið sem gert var í undirbúningi að Tíundarlögum 1097 hafi verið efniviður í Landnámu og Íslendingabók.

Þegar Snorri Sturluson var þriggja ára,  bauð Jón Loftsson í Odda, sonarsonur  Sæmundar fróða, honum fóstur eftir að hafa verið fenginn til að skera úr erfðadeilu sem Hvamm-Sturla átti í og ólst Snorri því upp á því mikla fræðasetri sem Oddi var á þeim tíma og hlaut þar menntun sína.

Í Prologus að Heimskringlu segir Snorri Sturluson (1179-1241) svo um Ara prest: „Ari prestur hinn fróði Þorgilsson Gellissonar ritaði fyrstur manna hér á landi að norrænu máli fræði bæði forna og nýja. Ritaði hann mest í upphafi sinnar bókar um Íslandsbyggð og lagasetning, síðan frá lögsögumönnum, hversu lengi hver hafði sagt, og hafði það áratal fyrst til þess er kristni kom á Ísland, en síðan allt til sinna daga. Hann tók þar og við mörg önnur dæmi, bæði konungaævi í Noregi og Danmörk og svo í Englandi eða enn stórtíðindi er gerst höfðu hér í landi og þykir mér hans sögn öll merkilegust. Var hann forvitri og svo gamall að hann var fæddur næsta vetur eftir fall Haralds Sigurðarsonar. Hann ritaði, sem hann sjálfur segir, ævi Noregskonunga eftir sögu Odds Kolssonar Hallssonar af Síðu en Oddur nam að Þorgeiri afráðskoll, þeim manni er vitur var og svo gamall að hann bjó þá undir Nesi er Hákon jarl hinn ríki var drepinn. Í þeim sama stað lét Ólafur konungur Tryggvason efna til kaupvangs þar sem nú er.

Teitur son Ísleifs biskups var með Halli í Haukadal að fóstri og bjó þar síðan. Hann lærði Ara prest og marga fræði sagði hann honum, þá er Ari ritaði síðan. Ari nam og marga fræði að Þuríði dóttur Snorra goða. Hún var spök að viti. Hún mundi Snorra föður sinn en hann var þá nær hálffertugur er kristni kom á Ísland en andaðist einum vetri eftir fall Ólafs konungs hins helga. Það var eigi undarlegt að Ari væri sannfróður að fornum tíðindum, bæði hér og utanlands, að hann hafði numið að gömlum mönnum og vitrum en var sjálfur námgjarn og minnugur.“

Ari og Þuríður spaka Snorradóttir (1024-1112) voru skyld, langamma Ara í föðurætt, Helga Einarsdóttir Þverærings Eyjólfssonar var systir Hallfríðar Einarsdóttir móður Þuríðar spöku.

Þær systur Helga, Hallfríður og Valgerður, amma Markúsar Skeggjasonar lögsögumanns samtímamanns og frænda Ara voru dætur Guðrúnar Kryppsdóttur, (950) hreðu Þórissonar, Þóris sonar Hörða-Kára, og því náskyld Úlfljóti lögsögumaður. Ari fróði var því beinn afkomandi Krypps hersis Þórðarsonar  sem drepin var af  mönnum Haraldar konungs og segir af í Þórðar saga hreðu og Þorsteins söga uxafóts.

Nokkrar sögupersónur:

Ísleifur Gizurarson (fæddur 1006 – dáinn 5. júlí 1080) var fyrsti Skálholtsbiskup á Íslandi í kjölfar kristnitökunnar. Foreldrar hans voru Gissur hvíti Teitsson af ætt Mosfellinga og einn helsti leiðtogi kristinna manna við kristnitökuna, og þriðju konu hans, Þórdísar Þóroddsdóttir. Faðir hans setti son sinn til mennta, fylgdi honum út þegar hann fór til náms í Saxlandi „ok seldi hann til læringar abbadísi einni í borg þeiri er Herfurða (Herford) heitir. Ísleifr kom svá til Íslands at hann var prestr ok vel lærðr,“ segir í Hungurvöku. Ísleifur tók svo við goðorði föður síns og bjó í Skálholti.

Árið 1056, þegar Ísleifur var fimmtugur, var hann vígður biskup af Aðalbjarti erkibiskupi í Brimum, raunar bæði yfir Íslandi og Grænlandi, en ekki er vitað til þess að hann hafi nokkurn tíman sinnt því síðarnefnda. Hann kom heim ári síðar og bjó áfram í Skálholti, sem var eign hans en ekki eiginlegur biskupsstóll. Þar stofnaði hann skóla. „En er það sáu höfðingjar og góðir menn að Ísleifur var miklu nýtri en aðrir kennimenn, þeir er á þvísa landi næði, þá seldu honum margir sonu sína til læringar og létu vígja til presta,“ segir Ari fróði í Íslendingabók. Á meðal nemenda hans var Jón Ögmundarson, sem síðar varð fyrstur biskup á Hólum.

Ísleifur lést í Skálholti hinn 5. júlí 1080 og hafði þá verið biskup í 24 ár. Kona hans var Dalla Þorvaldsdóttir og áttu þau synina Þorvald bónda í Hraungerði, Teit og Gissur, sem varð biskup eftir föður sinn.

Hallur hinn spaki Þórarinsson í Haukadal, sá hinn sami og mundi er Þangbrandur skírði hann þrevetra, var fæddur árið 996 og lést níutíu og fjögurra ára 1090. Hann gekk í þjónustu Ólafs helga Haraldssonar Noregskonungs ungur og var farmaður um hríð, „fór milli landa og hafði félag Ólafs konungs hins helga og fékk af því uppreist mikla. Var honum því kunnigt um ríki hans. Hallur átti þátt í komu tveggja fyrstu trúboðsbiskupanna sem Ólafur sendi til Íslands,[1] líklega um 1020-30, annar var engilsaxneskur, Bjarnharður Vilráðsson hin bókvísi sem kom með kirkjuvið og var hér í fimm ár og hinn Kolur, saxneskur, sem andaðist fyrstur biskupa á Íslandi og jarðsettur var í Skálholti. Hallur bjó í Haukadal í tæpa sjö tugi ára og fóstraði Teit Ísleifsson eins og fyrr sagði (d. 1110), sem stofnsetti þar síðar skóla.

Haukdælir.

Teitur Ísleifsson margláti (um 1040 – d. 1110) höfðingi og prestur í Haukadal og ættfaðir Haukdælaættar, sonur Ísleifs Gissurarsonar biskups bróðir Gissurar biskups, var einnig fóstraður hjá Halli Þórarinssyni í Haukadal. Mjög líklegt er að hann hafi farið utan til náms eins og bróðir hans, enda varð hann helsti lærifaðir margra presta og biskupa. Haukadalur var mikið fræðasetur og Teitur kenndi mörgum öðrum ungum mönnum. Þar á meðal voru tveim biskupum, Þorláki Þórhallssyni og Birni Gilssyni. Ari kallar Teit fóstra sinn og vitnar oft til hans í Íslendingabók, segir þar að hann hafi verið sá maður er hann kunni spakastan. Kona Teits var Jórunn eða Jóreiður Einarsdóttir. Dóttir þeirra var Rannveig, kona Hafliða Mássonar goðorðsmanns á Breiðabólstað í Vesturhópi. Sonur Teits og Jórunnar var Hallur Teitsson biskupsefni.

Gissur Ísleifsson (1042 – 1118) var biskup Íslands frá 1082, annar í röðinni, en frá 1106 biskup í Skálholtsbiskupsdæmi því það ár var Hólabiskupsdæmi stofnað og var Jón Ögmundsson tekinn til biskups þar. Gissur lærði á Saxlandi eins og faðir hans og var vígður prestur á unga aldri. Hann kom heim og kvæntist Steinunni Þorgrímsdóttur (f. um 1042. d. eftir 1118), sem áður hafði verið gift Þóri Skegg-Broddasyni á Hofi í Vopnafirði. Gissur var mikill maður og vel bolvexti, bjarteygður og nokkuð opineygður; tígulegur í yfirbragði og manna góðgjarnastur, rammur að afli og forvitri, segir í Hungurvöku. Hann ferðaðist mikið til útlanda og þau hjón fóru bæði í suðurgöngu til Rómar. Hann var erlendis 1080, þegar faðir hans dó en kom heim sumarið eftir og var þá valinn biskup.


[1] Íslandssaga til okkar daga.

Gissur fór til Saxlands að taka vígslu en þá hafði erkibiskupinn þar verið sviptur embætti. Hann fór þá til Rómar á fund Gregoríusar páfa 7., sem sendi hann til Hardvigs erkibiskups í Magdeburg og þar fékk hann vígslu 1082. Hann var þá fertugur að aldri. Hann settist að í Skálholti þegar heim kom. Eftir að Dalla móðir hans lést gaf hann jörðina til biskupsstóls ásamt ýmsum öðrum eignum og mælti svo um „að þar skyldi ávallt biskupsstóll vera meðan Ísland væri byggt og kristni má haldast“, eins og segir í Hungurvöku. Hann byggði líka kirkju í Skálholti og hélt þar skóla eins og faðir hans hafði gert.

Gissur var helsti frumkvöðullinn að því, að tíund yrði lögtekin á Íslandi og náðist það fram á Alþingi árið 1097. Hann lét telja búendur á landinu og „voru þá í Austfirðingafjórðungi sjö hundruð heil en í Rangæingafjórðungi tíu en í Breiðfirðingafjórðungi níu en í Eyfirðingafjórðungi tólf“, segir í Íslendingabók.

Gissur lést í Skálholti árið 1118 eftir að hafa verið biskup í 36 ár. Hann átti son og dóttur með konu sinni og fjóra syni aðra, en aðeins einn þeirra, Böðvar, lifði þegar faðir þeirra lést og einnig lifði dóttirin Gróa. Maður hennar var Ketill Þorsteinsson Hólabiskup. Gróa gerðist seinast nunna og dó í Skálholti eftir 1152.

Ætt Haukdæla og Mosfellinga

             Ketilbjörn „gamli“ Ketilsson 870              Helga Þórðardóttir 885      
                               Afkomendur                       
  Teitur Ketilbjarnason                      Þormóður Ketilbjarnason

Gissur „hvíti“ Teitsson                    Þórhalla Þormóðsdóttir   
          (952)                                                        (940)
Ísleifur Gissurarson biskup         Þórarinn Þorkelsson     
1006 – 5. 7 1080                                        (970)
Gissur Ísleifsson biskup             Hallur  Þórarinsson Haukdal   –    Þorlákur Þórarinsson
      1042 – 1118                                                  996-1090                                    (1010)
 Teitur Ísleifsson                                     Jóheiður Halldóttir                    Runólfur Þorláksson
    (1065) – 1118                                                (1045)                                          (1050)            
  Hallur Teitsson biskupsefni                  Ari fróði Þorgilsson              Þorlákur Runólfsson biskup
         (1090)-1150                                            1067-1148                                 1086-1133   

Þorlákur Runólfsson (1086 – 1133) var biskup í Skálholti frá 1118. Faðir hans var bróðursonur Halls Þórarinssonar í Haukadal en móðir hans dóttir Snorra Þorfinnssonar í Glaumbæ og hann var því barnabarnabarn Þorfinns karlsefnis og Guðríðar Þorbjarnardóttur. Þorlákur stundaði nám hjá frændum sínum í Haukadal. Gissur Ísleifsson kaus hann sem eftirmann sinn. Þorlákur færðist undan í fyrstu, meðal annars vegna þess hve ungur hann var, en fór þó utan og var vígður af Össuri erkibiskupi í Lundi 28. apríl 1118. Í Hungurvöku er honum þannig lýst að hann hafi verið meðalmaður að vexti, langleitur og ljósjarpur á hár, þokkagóður, en kallaður ekki vænn maður af alþýðu né allskörugur að ávarpi velflestra manna, og þótti ekki líkjast biskupsefni þegar hann kom til útlanda.

Þegar hann kom heim til Íslands var Gissur biskup nýlega dáinn og settist Þorlákur að í Skálholti. Ásamt Katli Þorsteinssyni Hólabiskup stóð hann fyrir innleiðingu kristniréttar eldri með aðstoð Sæmundar fróða. Hann hafði skóla í Skálholti eins og fyrirrennarar hans á biskupsstóli og fóstraði Gissur Hallsson frá Haukadal. Hann dó í Skálholti 1133.

Ketill Þorsteinsson (latína Ketillus Thorsteini filius,[1] 1075–7. júlí 1145) var biskup á Hólum frá 1122 til dauðadags, 1145, eða í 23 ár. Faðir Ketils var Þorsteinn Eyjólfsson (Guðmundssonar ríka á Möðruvöllum í Eyjafirði) Föðuramma hans var Ingvildur Síðu-Hallsdóttir. Móðir ókunn. Ketill fæddist og hefur líklega alist upp á Möðruvöllum. Síðar tók hann við staðarforráðum þar og varð með mestu höfðingjum norðanlands. Hann mun hafa verið með í ráðum þegar biskupsstóll var settur á Hólum 1106. Ketill var kjörinn biskup eftir Jón Ögmundsson og var vígður af Össuri erkibiskupi í Lundi 12. Febrúar 1122.  Þingeyraklaustur var formlega stofnað 1133 í biskupstíð Ketils, þó að hugsanlegt sé að þar hafi verið vísir að klaustri fyrir. Ketill var vinsæll maður og virtur og hefur haft menningarlegan metnað. Í formála Íslendingabókar segist Ari fróði hafa gert hana fyrir biskupana, Ketil Þorsteinsson og Þorlák Runólfsson, og þeir lesið hana yfir og sett fram tillögur um breytingar og viðauka. Kristinréttur hinn forni eða Kristinréttur eldri var settur í tíð þessara sömu biskupa, 1122-1133, og er hann stundum kenndur við þá. Össur erkibiskup átti nokkurn þátt í að ráðist var í að semja og lögtaka kristinréttinn. Ketill andaðist að Laugarási í Biskupstungum 7. júlí 1145, þar sem hann var staddur í tilefni af samkomu í Skálholti.

Kona Ketils var Gróa Gissurardóttir, dóttir Gissurar Ísleifssonar Skálholtsbiskups, og því af ætt Haukdæla. Sonur þeirra var: Runólfur Ketilsson prestur.

Þörf á röð og reglu

Á fyrstu áratugum landnámsins réðu fornar siðvenjur ríkjum eins og þær voru í fyrri heimkynnum landnámsmanna, innan ættar sem utan. Þegar líður á og landnámum fjölgar og þeim skipt upp, verða sífellt til ný landamörk, núningur milli nágranna og ágreiningur rís vegna landamerkja, vegna beitarafrétta, vegna merkinga skepna m.a. Því fylgja átök og mannavíg og síendurteknar hefndir, og kröfur um skaðabætur. Allt þetta skapaði glundroða í samfélaginu og þegar Ísland var talið fullbyggt um 920 sáu vitrir menn að setja þyrfti almennar réttarreglur og úrskurðavald fyrir allt landið.

Á tímabilinu 900-920 er talið að mesta innstreymi fólks til landsins hafi átt sér stað. Það hefur leitt til átaka um landnæði eins og mörg dæmi í Íslendingasögunum bera með sér. Þetta hefur ýtt undir að eldri landnemar og höfðingjar hafi séð nauðsyn til að koma á styrkari lagagrundvelli og stjórn í landinu. Þeir þekktu það frá fyrri heimkynnum sínum að almenn viðurkenning á reglum og siðvenjum hélt samfélögum í skorðum. Þar giltu lög og reglur sem tóku á deilum manna og voru viðurkenndar. Þing og dómar skipaðir jafningjum voru virtir, ella voru menn dæmdir í útlegð og eigur þeirra gerðar upptækar. Einn var þó munurinn, miðstýrt vald var ekki til staðar á nýnumdu landi eins og í gömlu löndunum þar sem staðbundið vald var í höndum þinga, höfðingja og konunga. Sjá má af Íslendingasögunum að siðvenjur ættarsamfélaga réð á fyrstu áratugum landnámsins, hefndarskyldan og samstaða ættarinnar gengur þar skýrt í gegn.

Í þessu ástandi hafa helstu ættir gömlu landsnámsmanna komið sér saman um að koma á samræmdum lögum og réttarkerfi (þingum og dómum) sem og miðstýrðu valdskerfi með stofnun Alþingis í stað konungsvalds, „því menn sáu þörf þess að „ein lög giltu á öllu landinu“ segir í Íslendingabók,  og komið yrði á samræmdu réttarkerfi í landinu.    

Hver var Úlfljótur lögmaður?

Í Landnámu, segir svo í Melabók hinni yngri:

Úlfljótur hét maður norrænn, systurson Þorleifs spaka. Hann kom út í Lóni og keypti land at Þórði Skeggja alt fyrir austan Jökulsá. Enn þá er hann var nær hálf sextugur að aldri, fór hann utan og var þar þrjá vetur með Þorleifi frænda sínum; þeir samanskrifuðu lög þau, er hann hafði út og voru kölluð Úlfljótslög. Enn er hann kom út, þá var sett alþingi, og höfðu þá allir ein lög hér á landi og voru þau nokkurn veg samin eftir Gulaþingslögum. …“

Ari er ekki margmáll um Úlfljót í upphafi Íslendingabókar hér að framan. Hann nefnir ekkert um ætt hans og ber Teit fóstra sinn fyrir  orðunum um Úlfljót.  Það er dálítið sérstakt því Ari var af sömu ætt og Úlfljótur, ætt Harðar-Kára. Ari, Úlfljótur og Þuríður Snorradóttir, sem mundi og sagði Ara margt, var einnig af þeirri ætt.

Úlfljótur er í sumum sögum sagður landnámsmaður á Austurlandi, að hann hafi numið land austur í Lóni og hafi búið í Bæ. Úlfljótur er sagður sonur Þóru dóttir Harðar-Kára, en afkomendur Harðar-Kára Áslákssonar frá eyjunni Jaðri í Noregi voru með ríkustu og voldugustu mönnum á þeim tíma í Noregi og miklir bandamenn Haraldar Hárfara. Í viðauka Melabókar hinnar yngri (Landnámsbókar) segir að hann hafi verið maður norrænn, frændi Þorleifs spaka, dóttursonur Harða-Kára og frændi Hrafna-Flóka. Í Íslendingabók segir Ari fróði hann vera „austrænan“ (norskan).

Hið rétta er að hann var ekki landnámsmaður, heldur kom út og keypti Úlfljótur þá landnám Þórðar skeggs (f. 840) sem hafði numið land á milli Jökulsár og Lónsheiðar og hafði búið í Bæ í tíu vetur áður en hann seldi og flutti sig í Leiruvog neðan Mosfellsheiði og bjó á Skeggjabrekku. Ætlað er að Úlfljótur hafi verið komin austur í Lón um árið 910, á fimmtugsaldri, fæddur um 865.

Miðað við hve mikilvægt hlutverk hans er í stofnun Þjóðveldisins, er lítið sagt um hann í Sagnaritunum, þar er einungis móður hans getið, Þóru Hörða-Káradóttir Áslákssonar, en ekki föður, sem er óvenjulegt um svo mikilvægan mann í Íslandssögunni.  Ekki er rakið hvers vegna, né hvaðan Úlfljótur kemur til Íslands (um 910). Á þessum tíma var mikill straumur landnema til landsins sem hröktust frá Englandi, Skotlandi og Írlandi vegna sigra innfæddra á víkingum og hugsanlegt að hann hafi komið þaðan og hafi dvalið þar langdvölum, í ljósi þess að faðir Úlfljóts er ekki getið, vekur upp spurningar hver hann var. Úlfljótur hefur ekki átt arf til landa eða eigna til að snúa til til Noregs, þó af ríkri og voldugri ætt væri. Það að Úlfljótur hafi keypt landnám Þórðar skeggs Hrappssonar bendir til tengsla á milli þeirra, Þórður hafði dvalið á Englandi, enda kvonfang hans frá Englandi, Vilborg Ósvaldsdóttir, sögð dóttir Ósvalds helga Englakonungur og Úlfrúnar Játmundardóttir. Þeir Þórður skeggi og Úlfljótur hafa líklega verið í góðum tengslum og Úlfljótur hafi komið að ráði Þórðar með fólk og bústofn austur í Lón, en Þórður flutt sig inn í landnám Ingólfs Arnarssonar frænda síns.

Miðað við hve seint Úlfljótur kemur til Íslands (um 910) og þá hálffimmtugur og væntanlega lítt kunnugur öðrum landnámshöfðingjum, en fær áratug seinna það mikla hlutverk að sækja og setja lög fyrir landið, hlýtur hann að hafa notið virðingar og meðmæla áhrifamanna sem dugðu til samþykkis annarra mestu höfðingja landsins til verksins. En þá er að skoða hverjir tengjast Úlfljóti og hverjir gætu hafa ráðið því því að hann tók verkefnið að sér.


[1] Þórður skeggi var tengdafaðir Ketilbjörns gamla Ketilssonar, Í Landnámabók segir að Ketilbjörn hafi komið til landsins þegar land var víða byggt með sjó og lent skipi sínu, Elliða, í ósum þeirra áa sem síðan heita Elliðaár. Helga kona Ketilbjarnar var dóttir Þórðar skeggja, landnámsmanns á Skeggjastöðum í Mosfellssveit, og höfðu þau vetursetu hjá honum fyrsta veturinn.

Í Vatnshyrnu eru eftirfarandi brot úr Þórðar sögu hreða:

Þessi voru börn Hörða-Kára: Þorleifur hinn spaki, Ögmundur, Ölmóður hinn gamli, Þórður hreða, Þóra móðir Úlfljóts er lög hafði til Íslands. Ögmundur var faðir Þórólfs skjálgs, föður Erlings á Sóla. Ölmóður hinn gamli var faðir Áskels, föður Ásláks Fitjaskalla, föður Sveins bryggjufóts, föður Bergþórs bukks, föður Sveins.

…..Þórður hét maður son Hörða-Kára, mikill að virðingu. Hann var höfðingi yfir þeim héruðum er honum voru nálæg. Hann var hersir að nafnbót en jörlum var hann framar að mörgum hlutum. Hann hafði fengið göfugt kvonfang. Hann átti við húsfreyju sinni þrjá sonu og eina dóttur. Hét hinn elsti Steingrímur, annar Klyppur, þriðji Eyjólfur en dóttir Sigríður. Öll voru börn þeirra mannvænleg. Klyppur var þó fyrir þeim bræðrum. Allir voru þeir miklir menn og furðulega sterkir, vænir og stórmannlegir sem þeir áttu kyn til. Sigríður systir þeirra var allra kvenna vænust og ofláti mikill og skapstór. Hún var allra kvenna högust þeirra er þar óxu upp henni samtíða...Og sem þeir bræður voru nær fulltíða menn tók Þórður faðir þeirra sótt og andaðist og var útferð hans vegleg ger eftir fornum sið. Og er erfið var drukkið fæddi húsfreyja Þórðar sveinbarn, bæði mikið og frítt. Því var nafn gefið og vildi húsfreyja að Þórður héti eftir föður sínum, kveðst það hyggja að verða mundi mikilmenni ef í ætt brygði. Og er Þórður óx upp var hann mikill og sterkur, vænn og stórmannlegur, harðger, óvæginn við alla þá sem honum var lítt við en vinsæll við alþýðu. Hann var mildur af fé og blíður viðmælis, vinfastur. Hann var gleðimaður mikill og manna fimastur við alla leika. Syndur var hann hverjum manni betur og skáld gott.….Þóttust þeir bræður nú vita að þeir mundu eigi mega haldast við innanlands fyrir ríki Haralds konungs og Gunnhildar (eftir að Klyppur drap Sigurð konung og féll einnig, bróðir Haraldar konungs). Frændur þeirra og vinir fýstu þá að selja jarðir sínar til lausafjár og lögðu það til að Þórður skyldi leita til Íslands, sögðu þangað mart stórmenni komið og hafa landflótta orðið fyrir Noregskonungum. Þá svarar Þórður: „Ekki hafði eg ætlað að flýja óðul mín. En með því að margir göfgir menn hafa sér þetta látið nægja að byggja Ísland þá má vera að slíkt nokkuð liggi fyrir.“

Síðan bjóst Þórður til Íslandsferðar og með honum bræður hans, Steingrímur og Eyjólfur, og Sigríður systir hans. Þau höfðu of lausafjár. Hann hafði nítján menn á skipi með sér. Síðan lét hann í haf. Það var öndvert sumar. Þeir voru mánuð í hafi og komu við Vestmannaeyjar og sigldu svo vestur fyrir landið og svo norður fyrir Strandir og lögðu þar inn á flóann og nær hinu nyrðra landinu og sigldu inn í einn fjörð og tóku þar land nær veturnóttum. Skjótt komu menn til þeirra. Þeir spurðu hvað fjörður sá héti er þeir voru að komnir. Þeim var sagt að þeir voru komnir í Miðfjörð. Þeir lentu í Miðfjarðarósi. Þá var Miðfjörður albyggður.“

Sögumaður Þórðar sögu hreðu þekkir auðsjáanlega ættarsöguna vel og ekki er ólíklegt að Ari fróði skrifi þessa sögu eftir frænku sinni, Þuríði Snorradóttur goða sem líklega hafði hana frá ömmu sinni Guðrúnu Klyppsdóttur Þórðarsonar Hersis eldri. Þórður yngri og systkini flýja til Íslands með Guðrúnu dóttir Klyppsdóttir bróðurdóttir sinni undan hefnd Haraldar konungs, eftir að þeir bræður drápu Sigurð konung, bróðir Haraldar konungs.

Þórður varð auðugur af smíðum sínum og bjó á Miklabæ í Skagafirði og kvæntist Ólöfu Hrollaugsdóttur, Steingrímur og Eyjólfur bjuggju að Ósi Miðfirði, Sigríður fór til Noregs gift Ásbjirni „veisugalti“ Þorsteinssyni. Þórður gifti Guðrúnu Klyppsdóttur hersis bróðurdóttur sína Einari Þveræing Eyjólfssyni og voru þessi börn þeirra: Járnskeggi, Klyppur, Þorleifur og Áslákur, Halldóra, Hallfríður, Helga, Jórunn, Valgerður og Vigdís.

En það sérstæða í ætt Höfða-Kára er að móðir Úlfljóts, Þóra, systir Þórðar hreðu, Ögmundar, Ölmóðs og Þorleifs spaka, er sögð móðir Hákons Aðalsteinsfóstra. Í Haraldar sögu Hárfagra segir Snorri Sturluson svo frá um fæðingu Hákons:

„Þá er Haraldur konungur var nær sjöræðum gat hann son við konu þeirri er Þóra er nefnd Morsturstöng. Hún var æskuð úr Morstur. Hún átti góða frændur. Hún var í frændsemistölu við Hörða-Kára.

Þannig að í fljótu bragði virðist sem Úlfljótur sé hálfbróðir Hákonar Aðalsteinsfóstra Noregskonungs, en aldursmunarins vegna getur það ekki staðist. Árið 920 fer Úlfljótur líklega til Noregs að sækja lögin og þá sagður hálf sextugur og samkvæmt því hafa fæðst um 865, en Hákon er fæddur um 920 og tekur við konungstign 16 ára gamall 936-7. Móðir Úlfljóts getur varla verið fædd síðar en 850 og því of gömul til að eiga Hákon 920. Hér getur því aðeins verið um að ræða nöfnur og frænkur og sú yngri, Þóra Morsturstöng, kennd við eyna Morstur, en ekki eyna Jaðar eins og móðir Úlfljóts. Móðir Hákons var líklega afkomandi móðursystkina Úlfljóts. Engu að síður voru Hákon konungur og Úlfljótur náskyldir. 

Þó Úlfljótur hafi kannski ekki verið í hópi helstu höfðingja landsins, hefur einhver vissa verið um lögþekkingu hans og ættartengsl hans við Þorleif hinn spaka, Hörða-Kárasonar, sem talinn var manna vitrastur og mestur lögspekingur í Noregi, sem hefur valdið því að honum var fengið þetta verkefni og sendur til Noregs til að kynna sér lög og reglur, því menn sáu þörf þess að „ein lög giltu á öllu landinu“. Hann dvaldi í Noregi í þrjá vetur og „samskrifaði“ lög í samráði við frænda sinn, Þorleif hinn spaka, sem svipaði mjög til norsku Gulaþingslaganna  „hvar við skyldi bæta eða af taka“.

Hverjir stóðu að baki för Úlfljóts til Noregs?

Íslendingabók Ara er ekki löng en athyglisvert er að í öðrum kafla sem ber nafnið Landnámsmenn og lögsetning segir aðeins af fjórum landnámsmönnum og afkomendum þeirra

Hrollaugur, sonur Rögnvalds jarls á Mæri, byggði austur á Síðu. Þaðan eru Síðumenn komnir. Ketilbjörn Ketilsson, maður norrænn, byggði suður að Mosfelli hinu efra. Þaðan eru Mosfellingar komnir. Auður, dóttir Ketils flatnefs, hersis norræns, byggði vestur í Breiðafirði. Þaðan eru Breiðfirðingar komnir. Helgi inn magri, norrænn, sonur Eyvindar Austmanns, byggði norður í Eyjafirði. Þaðan eru Eyfirðingar komnir“ og síðan við um  Úlfljót og afkomendum hans Djúpdælum.

Er Ari að gefa í skyn að þessi fjórir höfðingjar hafi ráðið utanför Úlfljóts og lagasetningu? Um 910-20 þegar ákveðið var að koma á einum lögum í landinu eru ættir þessara landnámsmanna þær stærstu og áhrifamestu í landsfjórðungunum og virðast einnig vera það þegar fyrstu biskupar kristninnar eru valdir. Enda má segja að höfðingjar þessara ætta hafi verið með þeim fyrstu sem tóku skírn af Þangbrandi árin fyrir kristnitökuna.

Hrollaugur Rögnvaldsson 860-935 átti Goðorð Hrollaugsniðja í Sunnlendingafjórðungi við stofnun Alþingis 930,

Ketilbjörn Ketilsson 870-945, hafði Goðorð Mosfellinga og Haukdæla, Mosfelli Grímsnesi í Sunnlendingafjórðungi,

Afkomandi Auður Djúpúðgu, Þórður gellir Ólafsson Hvammi 900-965 hafði Hvammsverjagoðorð í Vestfirðingafjórðungi.

Afkomandi Helga “magra, Ingjaldur Helgason Þverá Eyjaf. 865- , hafði Esphælingagoðorð í Norðlendingafjórðungi.

Í ellefta kafla Íslandsbók sem ber heitið Biskupaættir eru þessir sömu landnámsmenn nefndir sem ættfeður biskupa:

Þetta er kyn biskupa Íslendinga og ættartala:

Ketilbjörn landnámsmaður, sá er byggði suður að Mosfelli hinu efra, var faðir Teits, föður Gissurar hins hvíta, föður Ísleifs, er fyrstur var biskup í Skálaholti, föður Gissurar biskups.

Hrollaugur landnámsmaður, er byggði austur á Síðu á Breiðabólstað, var faðir Össurar, föður Þórdísar, móður Halls á Síðu, föður Egils, föður Þorgerðar, móðir Jóns Ögmundssonar, er fyrstur var biskup að Hólum.

Auður landnámskona, er byggði vestur í Breiðafirði í Hvammi, var móðir Þorsteins hins rauða, föður Óleifs feilans, föður Þórðar gellis, föður Þórhildar rjúpu, móður Þórðar hesthöfða, föður Karlsefnis, föður Snorra, föður Hallfríðar, móður Þorláks, er nú er biskup í Skálaholti, næstur Gissuri.

Helgi inn magri landnámamaður, sá er byggði norður í Eyjafirði í Kristnesi, var faðir Helgu, móður Einars, föður Eyjólfs Valgerðarsonar, föður Goðmundar, föður Eyjólfs, föður Þorsteins, föður Ketils, er nú er biskup at Hólum, næstur Jóni Ögmundarsyni.

Þó þessir nefndu landnámsmenn séu aðeins fjórir sem Ari gefur í skyn að hafi ráðið lagasetningunni 930 af 36 goðum, voru þeir tengdir um allt land með venslum og má nefna að tveir þessara landnámsmanna ( Auður, Helgi) eru af ætt Bjarna Bunu Veðrar-Grímssonar.  Hersi í Noregi og sá þriðji Ketilbjörn tengdur þeim.

 Þórðar skeggi Hrappson (Bjarna Bunu), kom til landnáms að Leirvogi að ráði Ingólfs Arnarsonar frænda síns segir, annar staðar segir að Öndvegissúlur hans hafi fundist þar. En Ingólfur Arnarson var frændi Þórðar og kominn af Birni bunu í fjórða lið. Þórður kom þangað úr Lóni eftir 10 ár þar eystra, en það landnám seldi hann Úlfljóti. Það má segja að einkennileg sé sagan um að Öndvegissúlur Þórðar hafi fundist eftir tíu ár og það í miðju landnámi Ingólfs Arnarsonar og mitt á meðal mestu frændmenna hans. Þórður bjó svo að Skeggjabrekku á milli Leirvogsár og Úlfarsá. Hann átti Vilborgu Ósvaldsdóttur konungs og Úlfrúnar hinnar óbornu, dóttur Játvarðar Englakonungs. Þeirra börn voru Þuríður kona Eiríks Hróaldssonar á Hofi í Goðdölum, Helga kona Ketilbjörns Ketilssonar og Arndís kona Þorgríms „goða“ Helgasonar „bjólu“.

Í nágrenni Þórðar skeggja bjuggu þessir ættingjar hans og Ingólfs. Sannkallað ættarmót Bjarna Bunu Veðrar-Grímssonar.  Hersi í Noregi:

Helgi bjóla Ketilsson bjó á Hofi Kjalarnesi. Helgi var sonur Ketils flatnefs Hersi í Noregi og Höfðingja Suðureyja við Skotastrendur, bróðir Hrapps faðir Þórðar Skeggs. Helgi Bjóla  og Þórður Skeggi voru því bræðrasynir.

Ketill og Hrappur voru bræður Auðar djúpúðgu í Dölum, Björns austræna landnámsmanns sem bjó í Bjarnarhöfn. og Þórunnar hyrnu konu Helga magra Eyvindarsyni, helsta landnámsmanni í Eyjafirði.

Helgi bjóla fór til Íslands úr Suðureyjum mjög snemma á landnámsöld og var hinn fyrsta vetur undir þaki Ingólfs Arnarsonar í Reykjavík frænda síns. Svo nam hann land á Kjalarnesi með ráði Ingólfs og bjó þar síðan. Hann hafði verið skírður en hefur vísast verið blendinn í trúnni; í Kjalnesinga sögu er honum svo lýst að hann hafi verið „nýtmenni mikið í fornum sið, blótmaður lítill, spakur ok hægur við alla“ og þar er kona hans sögð hafa verið Þórný dóttir Ingólfs Arnarsonar. Synir hans voru Víga-Hrappur, Eilífur, Arngrímur, Kollsveinn og Þorgrímur „goði, en kona hans, Arndís var dóttir Þórðar Skeggs. Jón Ögmundsson biskup var niðji Kollsveins.

Örlygur gamli Hrappsson, bróðir Þórðar Skeggs bjó á Esjubergi. „Örlygur hét son Hrapps Bjarnasonar bunu; hann var að fóstri með Patreki biskupi hinum helga í Suðureyjum  (Federach mac Cormaic, sem var ábóti Iona 865-880). „Hann fýstist að fara til Íslands og bað að biskup sæi um með honum.  Biskup fékk honum kirkjuvið og bað hann hafa með sér og plenárium járnklukku og gullpenning og mold vígða, að hann skyldi leggja undir hornstafi og hafa það fyrir vígslu, og skyldi hann helga Kolumkilla“. Hann byggði undir Esjubergi að ráði Helga bjólu frænda síns og nam land milli Mógilsár og Ósvífurslækjar; hann gerði kirkju að Esjubergi, sem honum var boðið“ (Hauksbók Landnámu).

Ásbjörn Össurarson, sonur Össurar (sumstaðar sagður Arnarson en annarstaðar Helgason Bjarnason Bunu, sem er líklega rétt) hálfbróður Ingólfs Arnarsonar og þar með frændi Þórðar skeggja, fékk landið þar sem síðar varð Bessastaðahreppur, Garðbær og Hafnarfjörður.

Ketilbjörn Ketilsson var landnámsmaður sem kom til Íslands frá  Noregi á skipi sem hét Elliði. Samkvæmt Sturlungu var hann frá Naumudal, sonur Æsu, systur Hákonar Grjótgarðssonar Hlaðajarls. Hann er bjó á Mosfelli í Grímsnesi, forfaðir Mosfellinga og Haukdæla. Í Landnámabók segir að Ketilbjörn hafi komið til landsins þegar land var víða byggt og lent skipi sínu, Elliða, í ósum þeirra áa sem síðan heita Elliðaár. Helga kona Ketilbjarnar var dóttir Þórðar skeggja, landnámsmanns, og höfðu þau vetursetu hjá honum fyrsta veturinn.

Ketilbjörn og Helga voru mjög kynsæl og frá þeim eru komnir Mosfellingar og Haukdælir, á meðal afkomenda þeirra voru fyrstu menntamenn Íslendinga sem sögur fara af. Teitur sonur þeirra byggði fyrstur bæ í Skálholti. Hann var faðir Gissurar hvíta. Tveir tengdasynir þeirra fengu land hjá þeim, þeir Ásgeir Úlfsson, sem fékk Hlíðarlönd og bjó í Hlíð og Eilífur auðgi Önundarson, sem fékk Höfðalönd og bjó í Höfða.

Hallur goðlauss Helgason Ormsson bjó í Múla á milli Mógilsár og Leirvogsár af ráði Ingólfs. Sonur hans Helgi, var giftur Þuríði Ketilbjarnadóttur frá Mosfelli. Systir Halls samfeðra, Hildur, sem átti Þorbjörn hin gaulverska í Gaulverjabæ, var hálfsystir Þórðar skeggs sammæðra.

Það er athyglisvert að allt þetta fólk ættartengt Þórði skeggja, kom úr norrænu byggðum Bretlands og Írlands og var líklega allt kristið,  nema Hallur.

Þorsteinn Ingólfsson, ein áhrifamesti landnámsmaðurinn, sem þegar hafði stofnað Kjalarnesþing til að halda uppi lögum og reglum í landnámi föður síns, og sem eflaust byggði á Gulaþingslögunum gömlu, hefur verið í hópi þeirra sem tóku þá ákvörðun að setja einn lög fyrir Ísland og staðið að för Úlfljóts til Noregs í þeim tilgangi.

Fyrir utan þennan frændgarð var annar í Breiðafirði, því frændsemi var með  Hörða-Kára og Þórólfi Mostrarskegg Örnólssyni goða í Helgafelli sem var á svipuðum aldri og Úlfljótur og enn annar frændgarður Úlfljóts, sem segir frá í Þórðar sögu Hreðu.

En eftir stendur spurningin, af hverju Úlfljótur, bóndi austur í Lóni var falið þetta verkefni ásamt Grími Geitskor fósturbróðir sínum? Hver vissi að hann var frændi Þorleifs spaka, lögfróðasta mann í Noregi og vissu um lögvísi Úlfljóts sjálfs (kallaður lögmaður víða í ritum) og kynnti hann öðrum höfðingjum? Að öllum líkindum var það Þórður Skeggi, með þau miklu ættartengsl við helstu stórættir landnámsmanna sem rakin eru hér að ofan. Þau sýnast náin tengslin milli Þórðar Skeggs og Úlfljóts.

Önnur áleitin spurning er af hverju Ari fróðir nefnir ekki föður Úlfljóts? Hann þekkti vel til ættar Úlfljóts, því Ari var sjálfur af ætt Höfða-Kára, í fjórða lið frá Guðrúnu Klyppursdóttir Þórðarsonar hreðu og Þuríður Snorradóttir einn helsti heimildarmaður Ara og frænka var í annan lið frá Guðrúnu. Er hugsanlegt að Þórður Skeggi hafi verið faðir Úlfljóts? Var það ástæðan fyrir því að Úlfljótur tekur við landnámi Þórðar í Lóni, sem flytur sig í mun minna landnám í Mosfellssveit, og Úlfljóti fengið þetta mikla hlutverk vegna ættartengsla? Svarið fæst líklega aldrei.

Hlutverk Gríms Geitskorar

Í Íslendingabók Ara fróða segir um fóstbróðir Úlfljóts: En svo er sagt, at Grímur geitskor væri fóstbróðir hans, sá er kannaði Ísland allt að ráði hans, áður alþingi væri átt. En honum fékk hver maður penning til á landi hér, en hann gaf fé það síðan til hofa.“ Grímur geitskör kemur ekki fyrir annarstaðar í fornsögunum, hvorki fyrr né síðar, en hér er honum falið mikið ábyrgðarverk, að fara um landið og kanna að ráði Úlfljóts, væntanlegar undirtektir fyrir lögunum og hugsanlega fleira. Eina skynsamlega ástæðan fyrir slíkri för sem tók væntanlega ekki minna en tvö til þrjú sumur, jafnvel þó siglt hafi verið á milli svæða, var að heimsækja einstök svæði, kalla saman til þings alla frjálsa menn þar, til að kynna hugmyndina um lögin, skipulag og stjórn svæða, um héraðsþing og stofnun Alþingis. Alveg er víst að einskonar skráning á bæjum/bændum hefur átt sér stað á landinu í slíkri yfirferð. Hvort sem þetta hafi gerst fyrir eða eftir útkomu Úlfljóts með lögin segir ekki, en líklegt er að það hafi gerst meðan Úlfljótur var í Noregi og hugmyndir manna um stjórnskipan hafi verið nokkuð mótaðar áður en Úlfljótur fór út til Noregs og einnig hugmyndir hvað ætti að vera í lögunum, einfaldlega vegna þeirra nauðsynjar sem landshættir og ágreiningur í nýnumdu landi kröfðust.

 Sigurður Norðdal telur hins vegar að Grímur hafi farið með Úlfljóti til Noregs og farið um landið eftir að þeir komu með lögin, þá hafi hann verið þeim kunnugur og talað fyrir þeim.[2] Fróðir landnámsmenn um lagavenjur gömlu landanna gátu áttað sig á hvers var þörf og því hafði Úlfljótur hugmyndir um hvað þyrfti til „hvar við skyldi bæta eða af taka“ miðað við aðstæður á Íslandi. Talið er að Úlfljótur hafi komið út með lögin á tímabilinu um 923-7, annars eru heimildir um það mjög óljósar en Sigurður Nordal taldi að Úlfljótur hefði komið heim með lögin um árið 921 [3]

En hvað lá á baki setningunni um Grím Geitskör En honum fekk hverr maðr penning til á landi hér, en hann gaf fé þat síðan til hofa“? Þetta er athyglisverð setning, í henni fellst að hann hafi hitt alla bændur landsins og þeir fengið honum fjármuni, en til hvers?

 Með „penning“ var átt við ígildi silfurs en hversu mikið var það? Snorri Sturluson segir frá því í Heimskringlu að Eyvindur Skáldaspillir hafi ort drápu um alla Íslendinga (bændur) um 965 og „en þeir launuðu svo að hver bóndi gaf honum skattpening, sá stóð 3 penninga silfurs“. Samkvæmt þessu var vissa um hverjir voru bændur í landinu 965. Að öðrum kosti gat Eyvindur skáldaspillir ekki ort vísu um hvern þeirra, og þar hlaut að vera umfangsmikið verk að innheimta 3 penninga frá hverjum og einum. Þetta var þó hægt, ef allir goðar vissu nöfn bænda sem greiddu þeim þingfaragjald á Alþingi árlega, sem er ekki ólíklegt að hver þeirra hafi þurft að hafa (skráðar) slíkar upplýsingar fyrir sig. Að baki hverjum goða voru á bilinu 100-160 þingfaragjaldskyldir bændur. Þessar upplýsingar hafi legið fyrir á hverju ári og Eyvindur skáldaspillir, sem var norskur, hafi fengið slíka skrá, Að ári hafi Eyvindur lokið verkinu og goðar verið búnir að innheimta 3 penninga hjá hverjum og einum þá. Þrjú til fjögur þúsund vísur komu ekki munnlega frá Noregi, en ristar á tré með rúnum var mögulegt og þannig gat hver bóndi fengið sína vísu.  Með öðrum hætti er hæpið að þetta hafi getað gerst.  

Í IV. kafla í grein Björn Magnússon Olsen „ Um skattbændatal 1311 . og Manntal á Íslandi fram að þeim tíma“, (á bls. 359-383) reiknar hann út frá þyngd silfursins í þessum „3 penningum“ að bændur hafi verið um 3500-4000 talsins árið 965. Samkvæmt því ætti Grímur Geitskór að hafa fengið 1/3 miðað við að hann hafi fengið 1 „penning“ hjá um 3000-4000 bændum, það jafngildir um 38 mörkum silfurs , sem hann gaf til hofa.

Má ætla að þetta gjald hafi Grímur geitskor innheimt til að byggja upp þrjú höfuðhof í þingi hverju í samræmi við þá stjórnskipan sem segir í Úlfljótslögum að. „Hver skyldi og gjalda toll til hofs..„, og að þrír höfuðgoðar skuli vera í hverju þingi og þannig var strax tryggt að hvert höfuðhof yrði í eigu þeirra allra en ekki goðanna sjálfra, goðarnir höfðu skyldu samkvæmt lögunum að „Þar voru menn valdir til að varðveita hofin að hyggindi og réttlæti.“ Í Hauksbók segir að menn hafi „ verið valdir til geymslu hofanna af viti og réttlæti“. Samkvæmt lögunum átti að vera „Baugur, tvíeyringur eða meiri, skyldi liggja í hverju höfuðhofi á stalli.“ Þetta fé hefur dugað vel til að kosta hofin og eiðsbauga þeirra, auk farareyris fyrir þingfulltrúa á Alþingi í fyrsta sinn. Af þessu má sjá að augljóst er að bændatal hefur farið fram í aðdraganda Úlfljótslaga og dæmið um Eyvind skáldaspillir styrkir það því hafi verið viðhaldið árlega og goðar hafi þurft að viðhalda þeirri skráningu árlega fyrir hvert Alþingi vegna þingfaragjalda.

Á Þingvöllum kom Alþingi saman í fyrsta sinn sumarið 930 og samþykkti Úlfljótslög, fyrstu lög íslenska þjóðveldisins og Úlfljótur er sagður fyrsti lögsögumaður Íslendinga og líklega haft það verk að segja (eða lesa) þau upp við stofnun Alþingis. Úlfljótur er talinn fyrsti lögsögumaðurinn en þegar Alþingi var formlega stofnað á Þingvöllum var Hrafn Hængsson kjörinn lögsögumaður, hvort sem Úlfljótur hefur þá verið látinn eða talið sig hafa lokið verki sínu. Hin nýju lög hlutu að hafa verið að fyrirmynd venjuréttar úr gömlu samfélögunum sem landnámsmenn komu úr og auk stjórnskipunar-fyrirkomulags þjóðveldisins, án miðstýrðs miðstjórnarvalds konungs, hlaut að vera ein mikilvægasta forsenda þessara nýju laga.


[2] Sigurður Norðdal. Vaka 3 árg. 1929 í grein “Setnng Alþingis”.

[3] Sigurður Norðdal. Vaka 3 árg. 1929 í grein “Setnng Alþingis”.

Endurskoðun Gulaþingslaga

Hákon góði Haraldsson Noregskonungureinnig nefndur Hákon Aðalsteinsfóstri kemur hér við sögu eins og fyrr er nefnt, hann var fæddur um 920, en tók konungdóm um 935 ungur að árum eftir Eiríki „Blóðöxi“ hálfbróðir sínum, og var konungur í 27 ár, dáinn 961. Haraldur Hárfagri faðir hans átti sjötugur þennan yngsta son sinn með hjákonu sinni Þóru Morsturstöng árið 920, en hún var sonardóttir Hörða-Kára. Snorri segir í Haraldar sögu Hárfara frá fæðingu Hákons.[4]

Samtíma réði mest ríkjum í Englandi, Aðalsteins konungur Mercíu í Englandi. (Athelstan eða Æthelstan, (893/4–27 October 939)[5], kallaður hin mikilfenglegi og sigursæli, og er nefndur fyrsti konungur Englands. Aðalsteinn konungur færði veldi sitt út fyrir Mercíu og sameinaði nokkur smærri konungsríki og var klókur stjórnandi, gerði samninga við suma víkingahópa gegn öðrum (dönskum) til landvinninga. Silfur Egils Skallagrímssonar var greiðsla Aðalsteins fyrir þátttöku Egils í frægum bardaga Aðalsteins við Skota.

Snorri segir á dramatískan hátt frá viðskiptum Aðalsteins Englakonungs og Haraldar, er hann lét yngsta son sinn í hendur Aðalsteini í Haraldar sögu Hárfagra, 40 og 41 kafla;

40. Orðsending Aðalsteins konungs. Aðalsteinn hét þá konungur í Englandi er þá hafði nýtekið við konungdómi. Hann var kallaður hinn sigursæli og hinn trúfasti. Hann sendi menn til Noregs á fund Haralds konungs með þess konar sending að sendimaður gekk fyrir konung. Hann selur konungi sverð gullbúið með hjöltum og meðalkafla og öll umgerð var búin með gulli og silfri og sett dýrlegum gimsteinum. Hélt sendimaðurinn sverðshjöltunum til konungsins og mælti: „Hér er sverð er Aðalsteinn konungur mælti að þú skyldir við taka.“

Tók konungur meðalkaflann og þegar mælti sendimaðurinn: „Nú tókstu svo sem vor konungur vildi og nú skaltu vera þegn hans er þú tókst við sverði hans.“

Haraldur konungur skildi nú að þetta var með spotti gert en hann vildi einskis manns þegn vera. En þó minntist hann þess sem hans háttur var að hvert sinn er skjót æði eða reiði hljóp á hann, að hann stillti sig fyrst og lét svo renna af sér reiðina og leit á sakar óreiður. Nú gerir hann enn svo og bar þetta fyrir vini sína og finna þeir allir saman hér ráð til, það hið fyrsta að láta sendimenn heim fara óspillta.

41. Ferð Hauks til Englands. Annað sumar eftir sendi Haraldur konungur skip vestur til Englands og fékk til stýrimann Hauk hábrók. Hann var kappi mikill og hinn kærsti konungi. Hann fékk í hönd honum Hákon son sinn. Haukur fór þá vestur til Englands á fund Aðalsteins konungs og fann hann í Lundúnum. Þar var þá boð fyrir og veisla virðileg. Haukur segir sínum mönnum þá er þeir koma að höllinni hvernug þeir skulu hátta inngöngunni, segir að sá skal síðast út ganga er fyrstur gengur inn og allir standa jafnfram fyrir borðinu og hver þeirra hafa sverð á vinstri hlið og festa svo yfirhöfnina að eigi sjái sverðið. Síðan ganga þeir inn í höllina. Þeir voru þrír tigir manna. Gekk Haukur fyrir konung og kvaddi hann. Konungur biður hann velkominn. Þá tók Haukur sveininn Hákon og setur á kné Aðalsteini konungi. Konungur sér á sveininn og spyr Hauk hví hann fer svo.

Haukur svarar: „Haraldur konungur bað þig fóstra honum ambáttarbarn.“ Konungur varð reiður mjög og greip til sverðs er var hjá honum og brá svo sem hann vildi drepa sveininn. „Knésett hefir þú hann nú,“ segir Haukur. „Nú máttu myrða hann ef þú vilt en ekki muntu með því eyða öllum sonum Haralds konungs.“

Gekk Haukur síðan út og allir hans menn og fara leið sína til skips og halda í haf er þeir eru að því búnir og komu aftur til Noregs á fund Haralds konungs og líkaði honum nú vel því að það er mál manna að sá væri ótignari er öðrum fóstraði barn.

Í þvílíkum viðskiptum konunga fannst það að hvor þeirra vildi vera meiri en annar og varð ekki misdeili tignar þeirra að heldur fyrir þessar sakir. Hvortveggi var yfirkonungur síns ríkis til dauðadags.


[4] „Þá er Haraldur konungur var nær sjöræðum gat hann son við konu þeirri er Þóra er nefnd Morsturstöng. Hún var æskuð úr Morstur. Hún átti góða frændur. Hún var í frændsemistölu við Hörða-Kára. Hún var kvinna vænst og hin fríðasta. Hún var kölluð konungsambátt. Voru þá margir þeir konungi lýðskyldir er vel voru ættbornir, bæði karlar og konur. Sá var siður um göfugra manna börn að vanda menn mjög til að ausa vatni eða gefa nafn. En er að þeirri stefnu kom er Þóru var von að hún mundi barn ala þá vildi hún fara á fund Haralds konungs. Hann var þá norður á Sæheimi en hún var í Morstur. Hún fór þá norður á skipi Sigurðar jarls. Þau lágu um nóttina við land. Þar ól Þóra barn uppi á hellunni við bryggjusporð. Það var sveinbarn. Sigurður jarl jós sveininn vatni og kallaði Hákon eftir föður sínum Hákoni Hlaðajarli. Sá sveinn var snemma fríður og mikill vexti og mjög líkur föður sínum. Haraldur konungur lét sveininn fylgja móður sinni og voru þau að konungsbúum meðan sveinninn var ungur.“

[5] https://simple.wikipedia.org/wiki/Athelstan

Þar segir einnig; „ Aðalsteinn lét skíra Hákon og kenna rétta trú og góða siðu og alls konar kurteisi. Aðalsteinn konungur unni honum svo mikið, meira en öllum frændum sínum, og út í frá unni honum hver maður er hann kunni“.

Sagt var um Hákon ungan að hann væri „vitur og orðsnjall og vel kristinn, maður stórvitur og lagði mikinn hug á lagasetningu.„ Þegar Hákon spurði lát föður síns14 ára gamall bjóst hann þá til ferðar til Noregs. Fékk Aðalsteinn konungur honum lið og góðan skipakost og bjó för hans allveglega og kom hann um haustið til Noregs. Þá spurði hann fall bræðra sinna og það að Eiríkur konungur var þá í Víkinni. Sigldi þá Hákon norður til Þrándheims og fór á fund Sigurðar Hlaðajarls, (guðfaðir síns), er allra spekinga var mestur í Noregi og fékk þar góðar viðtökur og bundu þeir lag sitt saman.“ Næstu misseri náði Hákon hylli flestra höfðingja með boði um skattalækkanir og Eiríkur bróðir hans flúði til til Orkneyja með lið sitt.

Sérkennileg tenging við lagasmíði Úlfljóts og Þorleifs „spaka“, er að um það bil 10 árum eftir samningu Úlfljótslaga tekur Hákon Haraldsson Aðalsteinsfóstri við konungstign í Noregi um 935, einungis 15 ára gamall og setur fljótlega Gulaþingslög einnig með ráðum Þorleifs „spaka“.[6].  Talið er að Úlfljótur komi með lögin heim um 925 og heimildir um endursamningu Gulaþingslaga sem Hákons konungur hafði látið gera, einnig að ráði Þorleifs „spaka“ hafi verið um 935-40.

Sá Þorleifur „spaki“ lögspekingur (f. um 850) sem kemur að samningu þessara tveggja laga getur tæpleg verið einn og sami maðurinn[7]. Móðurbróðir Úlfljóts, eins og segir í sögunum, hefur verið nærri sjötugu þegar hann vinnur með Úlfljóti um 920 og 15-20 árum síðar vinnur hann með Hákoni frænda sínum, syni Þóru Mostrastöng, að endurbótum á Gulaþingslögum og þá orðin hálf níræður hið minnsta, þó það sé ekki óhugsandi. Hér koma saman þrír frændur að lagssmíð fyrir lönd sín á svipuðum tíma og líklega í sama anda. Um innihald þeirra laga er lítið vitað um, en auðsjáanlega er talinn þörf á því að bæta í eldri siðalög og reglur skýrari stjórnskipan hvað Ísland varðar, og líklegt að Hákon hafi talið þörf á lagabótum í Noregi. Mjög líklegt er að íslensku og norsku lögin hafi verið svipuð að gerð, og jafnvel hafi flotið þar með ensk áhrif sem síðar verður vikið að.  


[6] „Hann (Hákon) var maður stórvitur og lagði mikinn hug á lagasetning. Hann setti Gulaþingslög með ráði Þorleifs spaka og hann setti Frostaþingslög með ráði Sigurðar jarls og annarra Þrænda þeirra er vitrastir voru. En Heiðsævislög hafði sett Hálfdan svarti sem fyrr er ritað“ (HÁKONAR SAGA AÐALSTEINSFÓSTRA)

[7] Sjá grein Einars Arnórssonar “Úlfljótur” í Skírni 1929 1.tölubl.

Hver voru lögin?

Ljóst er að Úlfljótsslög eru gerð eftir Gulaþingslögum eldri, endurskoðuð Gulaþingslög Hákons gætu hafa haft svip af Úlfljótslögum enda bæði gerð að ráði sama manns, Þorleifs „spaka“ og bæði sögð byggð á grunni eldri Gulaþingslaga. Einnig má gera ráð fyrir að þekking á enskum lögum og ákvæði þaðan komi fyrir í báðum lögunum vegna hugsanlegra veru Úlfljóts á Bretlandseyjum og uppeldis Hákonar þar og enskra ráðgjafa hans sem vitað er að komu með honum til Noregs. En ljóst er að fyrir hendi voru forn lög og venjur eins og hjá öllum germönskum þjóðum[8], Gulaþingslög hafa haft ákvæði um erfðamál, sem Egill Skallagrímsson hefur vitað hver væru þegar hann leitar réttar síns fyrir Gulaþingi, hugsanlega svipað eins og er í Erfðaþætti og Baugatali Grágásar sem örugglega voru hluti Úlfljótslaga. Um innihald Úlfljótslaga segir m.a. í Þorsteins þætti Uxafóts:

Það var upphaf hinna heiðnu laga að menn skyldu eigi hafa höfuðskip í haf. En ef menn hefðu þá skyldu þeir af taka höfuð áður þeir kæmu í landsýn og sigla eigi að landi með gapandi höfðum né gínandi trjónu svo að landvættir fældust við.“

Þetta er ekki hægt að skilja á annan veg en að skip sem komi af hafi að ströndum landsins skulu ekki sýna á sér þau tákn sem notuð voru í árásar leiðöngrum. Landvættir voru ekki aðeins táknrænir verndarandar heldur landslýður sjálfur.

„Baugur, tvíeyringur eða meiri, skyldi liggja í hverju höfuðhofi á stalli. Þann baug skyldi hver goði hafa á hendi sér til lögþinga þeirra allra er hann skyldi sjálfur heyja og rjóða hann þar í róðru blótnauts þess er hann blótaði þar sjálfur.“

-Hér er tilvísun í höfuðhof og lögþinga innan fjórðunga, og Eiðhringsins sem goði þurfti að hafa á hendi sér á lögþingum sem hann boðaði til að menn sverðu eiða. Það felur einnig í sér að hof og þing voru ekki á sama stað, enda þrjú höfuðhof í hverri þingsókn.  

„Hver sá maður er þar þurfti lögskil af hendi að leysa að dómi skyldi áður eið vinna að þeim baugi og nefna sér votta tvo eða fleiri.

„Ykkur nefni eg í það vætti,“ skyldi hann segja, „að eg vinn eið að “ baugi, lögeið. Hjálpi mér svo nú Freyr og Njörður og hinn almáttki ás, sem eg mun svo sök þessa sækja eða verja eða vitni bera eða kviðu eða dóma dæma sem eg veit réttast og sannast og helst að lögum, og öll lögmæt skil af hendi leysa, þau er undir mig koma, meðan eg er á þessu þingi.“

-Skýrar getur það ekki verið að hver sem átti aðild að úrlausnarmáli á þingi þurfti að sverja eið við eiðbauginn og þurfti að nefna tvo votta að þeim eiði.

„Þá var landinu skipt í fjórðunga og skyldu vera þrjú þing í fjórðungi hverjum en þrjú höfuðhof í þingsókn hverri. Þar voru menn vandaðir til að varðveita hofin að hyggindi og réttlæti. Þeir skyldu dómnefnur eiga á þingum og stýra sakferli. Því voru þeir goðar kallaðir. Hver skyldi og gjalda toll til hofs svo sem nú er kirkjutíund.“


[8] Upphaf allsherjarríkis á Íslandi og stjórnarskipunar þess. Konrad Maurer. Bls. 1

-Upphaf setningarinnar er útskýring á stjórnskipulagsþáttum í lögunum og er allskýrt að landinu var skipt í fjórðunga og þrjú þing skyldu vera þar og þrjú höfuðhof í hverri þinghá, ella hefði lagasetningin verið máttlaus ef stjórnskipunarþáttinn vantaði.[9]  Þar á eftir er vikið beint að skyldum þeirra sem voru valdir til að gæta hofa, tilnefna í dóma og bera ábyrgð á framkvæmd úrskurðar dóms. Þess vegna fengur þeir heitið goðar, hlutverk sem konungar og höfðingjar í öðrum löndum höfðu. Einnig var skylda frjálsra bænda til að greiða fyrir viðhald hofa og þinga þar skýr eins og í öðrum löndum, sem síðar varð þingfarargjald auk kirkjutíundar árið 1096. Lög og reglum voru fengin bændum á hverju svæði, í hreppi eða héraði til friðarsambúðar í landinu.

Niðurstaðan varð samþykkt Úlfljótslaga 930 og stofnun Alþingis. En hvernig tóku lögin á þessu nema með ítarlegri reglum en fyrir voru. Flóknari dálkar um einstök efnisatriði hljóta að hafa verið í lögunum í ætt við regludálka Grágásar.

Lög landnámsmannanna voru að mestu hinn forni venjuréttur gamla germönsku/norrænu reglna, en nýtt stjórnskipulag.

Ákvæði lögsögumanns- eða lögréttuþáttar Grágásar, lagaskrár þjóðveldisins, bera „óvéfengjanleg vætti um þá hugmynd að gömul og góð lög séu undirstaða þjóðfélagsins“[10]

Ákvæðin um níðgjöldin, réttinn og fjörbauginn hljóta að hafa staðið í Úlfljótslögum frá upphafi. Meira að segja getur nokkur efi á því leikið að Baugatal í heild sinni sé, að nokkrum smágreinum undanskyldum, til vor komið nokkurn vegin óbreitt allan leið ofan úr Úlfljótslögum.[11] 


[9] Þess má geta að fjögur lögþing Gulaþings, Frostaþings, Eiðsivaþings og Borgarþings, hvert fyrir sinn hluta Noregs

[10] Endalok Þjóðveldisins.  Ásgeir Jóhannesson   Grein í Menningarritið Skýjaborgir  http://skyjaborgir.blogspot.com/2004/10/endalok-jveldisins.html

[11]  Björn Magnússon Olsen. Um skattbændatal 1311 . og Manntal á Íslandi fram að þeim tíma“ bls.371.

Páll Briem segir í grein, “ Nokkur orð um stjórnarskipun Íslands í fornöld“:

Er nú að minnast á hverja þýðingu Vilhjálmur Finsen tel­ur að Úlfljótslög hafi haft og hvernig stjórnarskipun landsins hafi orðið með þeim.

Svo er sagt, að Úlfljótur hafi verið í Noregi 3 vetur og hafi hann þá samið lög sín með ráði Þorleifs hins spaka Hörðakárasonar, móðurbróður síns; segir Ari fróði að lögin hafi verið „flest sett að því sem þá voru Gulaþingslög eða ráð Þorleifs hins spaka Hörða-Kárasonar voru til, hvar við skyldi auka eða af nema eða annan veg setja.“ [1]

Þar sem Úlfljótur var 3 vetur að undirbúa lögin og semja þau en hafði þó fyrir sér Gulaþingslög hlýtur hann að hafa starfað allmikið og að minnsta kosti er þessi undirbúningur meiri en menn vita til að gjörð­ur hafi verið til síðari laga. Það sem nauðsynlega þurfti að fá lög um var skipun á löggjafarvaldinu og dómsvaldinu og að lögleiða réttarfarslög. Úr þessari þörf hefur verið bætt með Úlfljótslögum. En það sem hér varð að fara eftir er þetta þrennt: Gulaþingslög, á­stand landsins og hugsunarháttur manna og reynsla manna að því er snerti Kjalarnesþing og Þórsnesþing.

Á Gulaþingi vita menn að var 36 manna lögrétta er dæmdi mál manna. Eftir því sem segir í Egils sögu Skallagrímssonar voru nefndir 36 menn í dóminn, 12 úr Firðafylki, 12 úr Sygnafylki og 12 úr Hörðafylki.[2] Það er og álitið nú að í Noregi hafi verið lögmaður. Þetta tvennt hafa menn tekið upp á alþingi, 36 manna lögréttu og lögsögumann en það verður að athuga á hvern hátt það hefur orðið.

Það sem næst var fyrir hendi var að setja alþingi fyrir allt landið að sínu leyti eins og Gulaþing var fyrir 3 fylki. Ari fróði segir að alþingi hafi verið sett „að ráði Úlfljóts og allra landsmanna“.[3] Þetta bendir til að bændur hafi mjög fjölmennt til hins fyrsta þings á Þingvöllum og það sýnir einnig að bændur hafi allir haft atkvæði um hvernig skipulagið á stjórn landsins skyldi vera. Þetta er og samkvæmt því er í fornöld átti sér stað í Noregi. Dómar lögréttunnar þurftu til þess að ná fullu gildi að vera samþykktir af þingmönn­um. Eftir Gulaþingslögum hafa menn ákveðið að hafa 36 manna lögréttu. Á Gulaþingi nefndu 3 höfð­ingjar, einn úr hverju fylki, menn í lögréttuna, en hér á landi gat ekki verið að tala um slíkt; hér voru afar­margir höfðingjar á landinu og takmörkin milli manna svo lítil að það hefur vafalaust verið mjög erfitt að segja hverjir skyldu teljast höfðingjar og hverjir ekki og því er eðlilegast að ætla að allur þingheimurinn hafi átt atkvæði um það hverjir skyldu eiga sæti í lögréttunni og að fram hafi farið einhvers konar kosning á lög­réttumönnum.

Menn verða að ætla að þingheimurinn hafi á fyrsta alþingi 930 kosið þá menn er skyldu sitja í lögréttu og með því tekið sér höfðingja er skyldu hafa mest völd í löggjafarmálum og dómsmálum.

Að einhvers konar kosning hafi átt sér stað styrk­ist við það sem sagt er í Hauksbók, Melabók hinni yngri, og þætti Þorsteins uxafóts, þar sem talað er um Ulfljóts­lög.[4] Þar segir um goðana að þeir væru valdir eða vandaðir til að geyma hinna þriggja höfuðhofa í þingi hverju að viti og réttlæti og þeir skyldu nefna dóma á þingum og stýra sakferli og hafi því verið kallaðir goðar. Það er ekki hægt að mótmæla því að menn hafi verið upphaflega kosnir í lögréttuna af því að goðorð­in hafi frá upphafi verið í höndum þeirra manna er voru höfðingjar í héruðum því að það var eðlilegt að þeir hafi einmitt í upphafi náð kosningu til lögréttunn­ar er voru göfugastir og stórættaðastir.[5]


[1] Íslendingabók, kap. 2, sjá og Íslendingasögur, I 257 flg. 334. Þórðar saga hrepu (útg. Guðbr. Vigfússonar), kap. 1. Flateyjarbók, I. 249.

[2] Egils saga Skallagrímssonar, útg. Finns Jónsonar. Khöfn, 1886-1888, kap. 56, bls. 187-188.

[3] Ísl. bók, kap. 3.

[4] Sjá ath. I á bls. 125.

[5] Þegar fimmtardómslögin voru sett, er sagt í Njálu kap. 97, að Njáll hafi sagt: „Vér skulum og hafa þá lögréttuskipun að þeir er sitja á miðjum pöllum skulu réttir að ráða fyrir lofum og lögum og skal þá velja til þess er vitrastir eru og best að sér“. Þetta getur ekki verið rétt; það á hér alls ekki við. En það gæti hugsast að menn hefðu haft einhverjar sögusagnir um skipun lögréttunnar en heimfært þær til Njáls, í stað þess að þær í rauninni hafi átt við skipun lögréttunnar er alþingi var sett.

… „Það sem nauðsynlega þurfti að fá í landinu þegar Úlfljótslög voru sett var löggjafarvald er setti lög í landinu og dómþing, þar sem menn gætu fengið mál sín dæmd. Úr þessari þörf var bætt þegar alþingi var sett og vorþingin. Hér var um það að ræða er ekki var áður til í landinu. Hér var ekkert vald eða réttindi af öðrum að taka og því gat skipulagið orðið svo reglu­legt eins og miðað væri niður eftir mælisnúru. Goð­um þeim er sæti fengu í lögréttunni var fengið í hend­ur löggjafarvaldið og vald til að stýra hinum lögskip­uðu dómþingum og nefna menn í dóma. En með þessu var þeim ekki fengið í hendur neitt verulegt framkvæmdarvald. Menn skyldu ætla að goðarnir hefðu smám saman getað aukið vald sitt með lagabreytingum og þeir hefðu síðar á tímum, einkum eftir að sumir höfð­ingjar náðu undir sig fleiri en einu goðorði, náð meiri völdum undir sig. En það er langt frá aðsvo hafi orðið. Eftir Grágás hefur goðinn mjög lítið fram­kvæmdarvald eða vald til héraðsstjórnar. Þannig sést ekki að þeir hafi að lögum haft vald til að hafa um­sjón með útlendingum eða verslun þeirra og ekki var þeim falið á hendur að leggja verðlag á útlendan varning. Eftir Grágás var landinu skipt í héraðstakmörk sem ekki voru bundin við fjórðunga eða þing. Þannig var landinu skipt í 4 héraðstakmörk frá Langanesi suður um landið vestur að Reykjanesi, en í hverju héraðs­takmarki áttu 3 menn er til voru teknir að leggja verð á útlendan varning.[6] Goðunum var heldur ekki falin á hendur nein lögreglustjórn og ekki höfðu þeir neitt vald í sveitarmálum.

[6] Grágás I. b. 72-73.

Goð-orð.

Hof og goð hefur skýra merkingu í gamla norræna málinu og í heiðni var Hofgoði sá sem stýrði blótum, heiðnum helgiathöfnum. Augljóst er að í Úlfljótslögunum var samantvinnaður heiðin átrúnaður og veraldleg stjórnsýsla eins og hafði verið í Skandinavíu og kom af germönskum uppruna og eins og landnámsmenn þekktu. En í stað konungslegs miðstjórnarvalds eins og það var á þeim tíma, var hin eldri uppbygging valin. Stigveldi bænda, með siðvenjum og reglum þingdóma[12], og sameinað valdi hofgoða og höfðingja, en miðstjórnarvaldi konungs sleppt. Það hentaði nýju samfélagi sem hafði flúið konungsvaldið annar staðar.  


[12] „Hinn sjálfsprottni venjuréttur þjóðveldisins og sá skilningur sem menn lögðu í lagahugtakið var samofin stjórnskipun þjóðveldisins og ein mikilvægasta forsenda þess. Lög landnámsmannanna voru óskráður venjuréttur. Ákvæði lögsögumanns- eða lögréttuþáttar Grágásar, lagaskrár þjóðveldisins, bera „óvéfengjanlega vætti um þá hugmynd að gömul og góð lög séu undirstaða þjóðfélagsins, þau geymast í minni manna, einkum hinna lögfróðu fyrirmanna, séu ópersónuleg sameign allra, þannig að ekki verði skilið á milli þeirra og almennrar réttarvitundar“.
Lög myndast við venjurétt þegar dómari sker úr ágreiningi með því að finna almenna reglu, er leysir ágreininginn og sambærilegan ágreining í framtíðinni.

Það, sem dómari í venjuréttarskipulagi gerir til úrlausnar slíks áreksturs, er að leita að og lögfesta venju, sem kveður á um einhvers konar einstaklingsbundinn afnotarétt, skaðabótaskyldu eða eignarrétt. Hann skilgreinir með öðrum orðum réttindi og skyldur einstaklinga þannig, að um frekari árekstra verði (vonandi) ekki að ræða. Þau lög, sem myndast við venjurétt, eru því til, áður en dómarinn finnur þau. Það, sem dómarinn gerir, er að uppgötva, hvernig gagnkvæmri aðlögun manna hefur verið háttað, og festa þá reynslu í letur. Hann skráir lögin og skýrir. En þegar dómari leysir úr ágreiningi einstaklinga með því að skilgreina réttindi þeirra og skyldur, gerir hann það ekki eftir eigin geðþótta, heldur styðst meðal annars við fastar venjur, dómafordæmi, meginreglur réttarins og eðli málsins.
Þessi skilningur á eðli laganna hefur verið talinn merkasta framlag germanskra þjóða til stjórnspeki Vesturlanda og ein helsta stoð réttarríkisins, sem enskumælandi þjóðir lýsa best með orðunum the rule of law (veldi laganna). Orðið lög merkir þá reglur sem hafa orðið til með framangreindum hætti.“


Að rétta lögin og gera nýmæli
Landnámsmenn komu frá mörgum ólíkum svæðum og los komst á réttarvenjur þeirra. Eftir stofnun Alþingis var ágreiningur um hvaða lög giltu, leystur með því að leggja mál fyrir lögréttu sem rétti lögin. Hugsunin bak við orðin að rétta lög var sú að leiða í ljós efni og innihald hinna fornu laga. Lögréttumenn voru þannig kvaddir til vitnisburðar um gildandi lög. Í reynd voru þeir þó oft og tíðum að setja nýjar reglur, en hugarfar löggjafans þegar hann nálgaðist viðfangsefnið og sú hugsun sem lá á bak við lögin setti lagasetningunni ákveðin takmörk.
Þeir sem réttu lögin gátu ekki sett reglu að vild – hvað þá geðþótta – heldur hlutu þeir að taka mið af viðurkenndum hagsmunum, hefðbundnum réttindum og rótgrónum hugsunarhætti þjóðfélagsþegnanna. Þetta merkir að lögin sjálf – hin gömlu góðu lög – bundu hendur löggjafans áþekkt sáttmála og voru þannig hemill valdbeitingar.(3)

Í þessu liggja rætur hugmynda miðaldamanna um lögbundna stjórn sem meðal annars er lýst í orðatiltækinu með lögum skal land byggja. Sú aðferð að rétta lögin leysti þó ekki allan vanda. Á sumum sviðum þurfti að setja nýjar réttarreglur. Þess vegna var einnig sá kostur fyrir hendi að gera svokölluð nýmæli, en gengið að því gefnu hvað þau varðar að enginn væri bundinn af öðru en hann samþykkti sjálfur. Ef ekki náðist samstaða þurfti að miðla málum. Í samræmi við þetta urðu nýmæli bindandi fyrir sammæli manna fremur en valdboð. Sú afstaða hefur stuðlað að því að einn valdahópur hefur temprað annan og reglur mótast af nokkurri málamiðlan. Þótt þetta væru einkum leikreglur hinna máttarmeiri hafa þær styrkt þá almennu lífsskoðun að vald væri takmarkað og hún væri almúga nokkur vörn gegn ofríki.(4)

Ef ekki tókst að miðla málum neyddust menn til að segja sig úr lögum hver við annan. Menn reyndu að forðast það eins og heitan eldinn því að það var eins og gefur að skilja álitið mjög slæmt, samanber eftifarandi orð sem Ari fróði hefur eftir Þorgeiri Ljósvetningargoða: „Það mun verða satt, er vér slítum í sundur lögin, að vér munum slíta og friðinn.“

 Endalok Þjóðveldisins Ásgeir Jóhannesson   Grein í Menningarritið Skýjaborgir  http://skyjaborgir.blogspot.com/2004/10/endalok-jveldisins.html

Með komu Úlfljótslaga og stofnun Alþingis og lögréttu árið 930 myndaðist miðstjórn í landinu, án konungsvalds, sem fór með úrskurða- og löggjafarvald í landinu. Inn í lögunum varð fastmótun landsvæða í fullnumdu landi, upphafleg landnám voru mótuð í hreppa, undir sameiginlegri stjórn bænda, en máttu ekki vera minni einingar en 20 jarðir frjálsra bænda. Landinu var skipt í fjórðunga sem spegluðu nokkra jöfnun fjölda bænda í landinu sem aftur myndaði nokkurt jafnræði þingmanna og goða fjórðunganna á Alþingi. Hverjum fjórðungi var skipt upp í þrjú þing og þrjú goðorð í hverju þingi, þingavald var komið á sem tók á ágreiningsmálum en síðar þróaðist í hærra dómstig með upptöku fjórðungsdóma, 965, vegna ágreinings um lögsögu hinna þriggja þinga innan hvers fjórðungs. Síðar kom enn hærra dómstig með fimmtardómi á Alþingi sem varð til að hólmgöngur urðu úr sögunni.

Hér er skýrt komið á skipulagi á stjórnsýslu og réttarkerfi. Höfðingjarnir, goðarnir, sem fyrir voru fengu með þessu fyrirkomulagi skipulag og viðurkenningu á valdi, skyldum og áhrifum innan héraðs og út á við í stað þess sem áður var. Hér voru mannaforráð þeirra skýrt mótuð sem höfðingjar. Goðorðið[13] var bandalag bænda við goða sinn, sem hafði svipað hlutverk og upphaflega hlutverk hersir og jafnvel konunga í Skandinavíu[14],[15] sem var fulltrúi þeirra og gætti hagsmuna þeirra þar sem dómar voru kveðnir upp, fyrst á héraðsþingum og síðar á Alþingi. Bændum var skylt að fylgja einhverjum goða, en þeir voru frjálsir að því að velja sér goða. Goðinn gat krafist þess að níundi hver bóndi í goðorðinu fylgdi sér til þings. Hann átti að vernda þingmenn og hlut þeirra ef á þeim var brotið, en í staðinn áttu þingmennirnir að styðja goðann þegar hann þurfti á að halda.[16].

En samkvæmt lögum urðu þeir goðar sem upphaflega voru kjörnir til hinna skipulögðu goðorða að gangast undir þingskyldur og hægt var að sekta og jafnvel svipta þá goðorði sínu, ef þeir uppfylltu þær ekki. Það má einnig ráða af fjölmörgum greinum í Grágás að ef goði vanefndi eða uppfyllti ekki skyldur sínar í málum fyrir þingi, varð sekur um goðgá, urðu hinir tveir goðarnir í þinginu að uppfylla vanefndirnar. Goðorðið var vald en ekki verðmat, þó síðar yrði, það gekk þó í erfðir og hægt var að selja það eða skipta því, en ef fleiri áttu goðorð saman, gat aðeins einn nýtt vald goðorðsins, en ekki lengur en í þrjú ár og annar eigandi í skiptu goðorði tók þá við því.


[13] Goðorðið. Eitt skýrasta dæmið um að heiðið skipulag gamalla siðvenja um landsnám, goða, hofs og þings komi beint frá Noregi er í Eyrbyggjasögu um landnám Þórólfs Mostrarskeggs. Hann tekur ákvörðun um að flýja til Íslands undan Haraldi Hárfagra með allt sitt lið, eftir að Haraldur hafði kallað saman 8 fylkja þing til að dæma Þórólf útlægan og réttdræpan.. „Það var tíu vetrum síðar en Ingólfur Arnarson hafði farið að byggja Ísland“, segir í sögunni eða um árið 884. Þórólfur fer til Íslands að ráði goðsins Þórs, skýrir fjörðinn Breiðafjörð, fer með eldi um landnám sitt „utan frá Stafá og inn til þeirrar ár er hann kallaði Þórsá“, setur upp hof að Hofstöðum verður hofgoði og stofnar til þings sem síðar var kallað Þórsnesþing. „Til hofsins skyldu allir menn tolla gjalda og vera skyldir hofgoðanum til allra ferða sem nú eru þingmenn höfðingjum en goði skyldi hofi upp halda af sjálfs síns kostnaði, svo að eigi rénaði, og hafa inni blótveislur “. Af frásögninni í Eyrbyggju má sjá og ætla að Þórólfur hafi verið fyrsti landnámsmaðurinn í Breiðafirði og landið lítið numið um 885-890. Hér er skýr lýsing á því sem nefnt var Goðorð, hins vegar hefur svæði Goðorðsins stækkað eftir því sem fjölgaði á svæðinu og menn gengust undir eiða þess og töldu sig hafa hag af.

[14] „Vald það, sem þessum forráðamönnum fylkja og heraða var veitt, var þó alls eigi yfirgripsmeira enn það vald, sem hinir þýzku höfðingjar höfðu, eftir því sem Tacitus og aðrir sagnaritarar á dögum hinna rómversku keisara segja frá. Þeir voru aðeins forsetar á þingum, hver í sinni þinghá, og áttu þá sjálfsagt að stýra dómum og standa fyrir almennum blótum ; þarnæst áttu þeir að vera fyrir hernum í ófriði, enn að öðru leyti hafði hver forráðamaður það eitt vald og ríki, sem alþýða leyfði honum sjálfs hans vegna eða hann gat þvingað undir sig sjálfur. Löngu eftir þenna tíma, er einveldið hafði staðið í Noregi svo hundruðum ára skifti og farið var að skrifa upp lög, þá var það sagt með berum orðum í lögum Þrænda, að bændur hafi rétt og skyldu til að reka úr landi og drepa þegar í stað þann konung eða jarl, sem beiti ofbeldi, þó eigi sé nema við einn af þeim.“ – Upphaf allsherjarríkis á Íslandi og stjórnarskipunar þess. Konrad Maurer. Bls. 4

[15] …Hann (goðinn) á einnig að hafa þangað (á þingið) hinn helga baug, er allir eiðar voru að unnir. Ef vér enn fremur megum leiða líkur að hinu eldra fyrir komulagi af því yngra , þá áttu goðar þar að auki að stýra dómum öllum , ef þeir voru háðir á þingi, enn málin eigi látin vera komin undir úrslitum málspartanna sjálfra eða annara einstakra manna? Það var nú eins tilkjörinn maður, sem dæmdi, heldur sýna hin elztu norsku rit, og sama er að segja um hin íslenzku, að svo miklu leyti sem þau geta um þetta atriði, að það var eingöngu nefnd manna er dæmdi, og var hún til þess kjörin af stjórnvaldinu. Vér sjáum þannig, að á Norðurlöndum er hin sama dómaskipun á þeim tímum er fyrst fara sögur af, sem eigi kemst á fót á Þýzkalandi fyrr enn löngu seinna, er dómnefndir vóru settar. Það eru nú goðarnir, sem nefna menn í dóma á Íslandi, að svo miklu leyti sem málspartarnir gera það eigi sjálfir. Það er því mjög snemma sagt, að þeir „nefni dóma á þingum, ok stýri sakferli . Upphaf allsherjarríkis á Íslandi og stjórnarskipunar þess. Konrad Maurer bls. 71-100

[16] Barði Guðmundsson Goðorð forn og ný, Skírnir janúar 1937, bls. 56–83. – Upphaf allsherjarríkis á Íslandi og stjórnarskipunar þess. Konrad Maurer bls. 71-100

Sterkasta stjórnaraflið á þjóðveldisöld voru hin arfgengu goðorð[17], en goðar voru yfirleitt land- og fjársterkir höfðingjar. Hvergi er getið í sögunum hverjir réðu þeim upphaflegu 36 goðorðum, en í Landnámu (Sturlubók) segir af mestu höfðingjum í hverjum fjórðungi um 60 árum eftir fyrsta landnám, en í rannsóknum Lúðvíks Ingvarsson í hinum þremur bindum sínum, Goðorð og Goðorðamenn, fara nöfn í Landnámu um mestu höfðingja ekki alveg saman við niðurstöður Lúðvíks, enda ekki sagt í Landnámu að þeir hafi verið goðar, heldur mestir. Eftirfarandi voru þeir sem valdir voru goðar og komu til Alþingi árið 930.

Sunnlendingafjórðungur  Þessir landnámsmenn og ættir voru með goðorð 930 í;

Rangárþingi

Jörundur Hrafnsson 880-940, Dalverjagoðorð, Hrafn Hængsson 880- 950, Goðorð Hofverja (Oddverja) Rangárvöllum Lögsögumaður 880-949. Mörður gígja Sigmundsson 900-965 Goðorð Hlíðverja, Fljótshlíð.

Árnesþingi

Atli Hásteinsson 880- 935 Flóamannagoðorð, Ketilbjörn Ketilsbjarnason 870-945, Goðorð Mosfellinga og Haukdæla, Mosfelli Grímsnesi. Þorgrím ur Grímólfsson Ölfusingagoðorð 870 – 935, Ölfusi

Kjalnesþingi

Alsherjargoðorð Þorsteinn Ingólfsson 890-945 Reykjavík. Björn Gullberi 875-935 Lundamannagoðorð Reykjadal. Önundur Breiðskeggur 860-935 Reyhyltingagoðorð, Reykholti.

Vestfirðingafjórðungur:  Þessir landnámsmenn og ættir voru með goðorð 930 í;

Þverárþingi

Gilbekkinga-(jöklamanna) goðorð: Hrosskell Þorsteinsson Hvítársíðu 870-. Mýrarmannagoðorð: Skalla-Grímur (Egill Skalla-Grímsson 900-,) Gunnlaugur “Ormstunga Hrómundsson Gunnlaugsstöðum/ Stafahyltingagoðorð: Þorbjörn Arnbjarnason Arnarholti[18] 870-

Þórsnesþingi

Rauðmelingagoðorð: Sel-Þórir Grímsson Rauðamel 880-, Þórsnesingagoðorð: Þorsteinn „þorskabítur“ Þórólfsson. Þórsnesgoði 910-) (Bjarnarhafnarmenn fengu ½ Þórsnesingagoðorð eftir 930 um tíma). Hvammsverjagoðorð: Þórður gellir Ólafsson Hvammi 900-,

Þorskafjarðarþingi

Reyknesingagoðorð: Atli Úlfsson Reykhólum 870-, Þórður Víkingsson, Dýrfirðingagoðorð: (Þorkell „alviðrukappi“ Þórðarson), Vatnsfirðingagoðorð: Hólmsteinn Snæbjarnarson Vatnsfirði 875-

Norðlendingafjórðungur:  

Þessir landnámsmenn og ættir voru með goðorð 930 í:

Húnavatnsþingi

Víðdælagoðorð: Auðun skökull Bjarnason Víðidal 880-, Vatnsdælagoðorð: Ingimundur „gamli“ Þorsteinsson Hofi Vatnsdal 880-, Æverlingagoðorð: Véfröður Ævarsson Móbergi 895-,

Hegranesþingi

Sæmundargoðorð[19]: Sæmundur suðureyski 860-, Goðdælagoðorð: Eiríkur Hróaldsson Hofi Goðdölum 880- , Goðorð Höfða-Þórðar: Höfða-Þórður Bjarnason Hofi Höfðaströnd, 880-,

Vaðlaþingi

Þveræingagoðorð: Ingjaldur Helgason Þverá Eyjaf. 870 , Esphælingagoðorð: Þórir Hámundason Espihóli 900-, Reykdælagoðorð: Eyvindur Þorsteinsson Hvammi Aðaldal 880-.

Þingeyjarþingi.

Fjórða þingið bættist við 965 og þrjú ný goðorð, Möðruvellinga (Fljótamanna)- goðorð, kom inn í Vaðlaþing, en Reykdælagoðorð féll undir Þingeyjaþing ásamt tveimur nýjum goðorðum, Ljósvetningagoðorð og Öxfirðingagoðorð.


Austfirðingafjórðungur:

Þessir landnámsmenn og ættir voru með goðorð 930 í:

Krakalækjarþingi.

Þorsteinn hvíti 880-956 (Hofverjagoðorð), Lýtingur Ásbjarnarson Krossvíkingagoðorð Vopnaf. 880-940+, , Þiðrandi „gamli“ Ketilsson 905- um 975 Njarðvíkur goðorð eystra,

Kiðafellsþingi

Hrafnkell „freysgoði“ Hrafnsson 890-960 Hrafnkellsgoðorð,  Brynjólfur “ gamli” Þorgeirsson 870-, Goðorð Fljótsdæla, Böðvar “hvíti” Þorleifsson 870- 935+Hofverjagoðorð Álftafirði.

Skaftafellsþingi

Hrollaugur Rögnvaldsson 860-935 Goðorð Hrollaugsniðja.Suðursveit. Össur Ásbjarnarson 890-950+, Goðorð Freysgiðinga Svínafelli.
Leiðólfur „kappi“ 860-940, Goðorð Leiðylfinga Á Skaftafelli.

Svo segja vitrir menn, að nokkrir landnámsmenn hafi skírðir verið, þeir er byggt hafa Ísland, flestir þeir, er komu vestan um haf. Er til þess nefndur Helgi magri og Örlygur hinn gamli, Helgi bjóla, Jörundur kristni, Auður djúpauðga, Ketill hinn fíflski og enn fleiri menn, er komu vestan um haf, og heldu þeir sumir vel kristni til dauðadags. “En það gekk óvíða í ættir, því að synir þeirra sumra reistu hof og blótuðu, en land var alheiðið nær hundraði vetra.” Athyglisvert er að flestir sem stóðu að baki Úlfljóts voru kristnir eins og rakið er að framan, en engu að síður hafa þeir ákveðið að styðja heiðin lög svo koma mætti á reglu og friði í landinu.


[17] Einar Arnórsson Skírnir 1 tb. 1930. Merkisár í sögu Alþingis

[18] Goðorð og Goðorðamenn. III. Bindi  Lúðvík Ingvarsson. Bls.34.

[19] Goðorð og Goðorðamenn. III. Bindi  Lúðvík Ingvarsson. Bls. 347

Mótun stjórnskipulags í íslenska landnáminu

Hvaða hlutverk hafði Grímur geitskor (skór)? Þessi dularfulli einstaklingur sem hvergi er minnst á nema í Íslendingabók af öllum sagnaritunum Ekki er ólíklegt að Grímur geitskör hafi í yfirferð sinni lagt mat hvernig eðlileg stjórnskipan gat verið í landfræðilegri skiptingu, hún hlaut að byggjast á að hægt væri að ferðast ríðandi eða fótgangandi til þings og hvert þingumdæmi eins og fjórðungsskipting landsins markast einmitt af illfærum ám, Hvítá sem skilur Sunnlendinga-og Vestfirðingafjórðung og Jökulsá á Sólheimasandi sem skilur Sunnlendinga-og Austfirðingafjórðung, svo og Hrútafjarðará á milli Vestfirðinga- og Norðlendingafjórðunga. Skilin milli Norður og Austurlands voru sögð um Langanes, en að öllu eðlilegu hefðu skilin átt að vera um illfæra Jökulsá á Fjöllum, en „En þá voru góð vöð víða.“ Segir í Vöðu-Brands þætti. Sagan um Þrasa og Loðmund í 79 kafla Landnámu (Sturlubókar) um staðsetningu Jökulsá á Sólheimasandi, ýmist Austan Sólheima eða vestan Eystri-Skóga og þeir fjölkunnugu menn sættust á að hún rynni stystu leið til sjávar og yrði þar mörk landsfjórðunga, bendir til að einhver ágreiningur hafi verið um þau skil.

 „Loðmundur hinn gamli nam land milli Hafursár og Fúlalækjar, sem fyrr er ritað. Það er þá hét Fúlalækur er nú kölluð Jökulsá á Sólheimasandi, er skilur landsfjórðunga.“.. Þrasi hét maður, son Þórólfs hornabrjóts; hann fór af Hörðalandi til Íslands og nam land milli Kaldaklofsár og Jökulsár; hann bjó í Skógum hinum eystrum. Hann var rammaukinn mjög og átti deilur við Loðmund hinn gamla, sem áður er ritað“  88 kafli

Grímur geitskör hefur líka þurft að leita eftir hvar þingstaðir yrðu innan fjórðunga og hverjir fengju stuðning sem goðar í þingum, þó sjá megi að þeir sem tóku goðorðin í upphafi hafi verið fyrstu landnemar sem tóku sér stór svæði í upphafi, en deildu síðan eða seldu til skyldmenna, samherja og áhafna skipa sinna. Með því sköpuðu þeir sér áhrifavald á svæðum sínum. Mesta afrekið er þó að koma á skipting fjórðunganna í þing og skipulag hreppanna innan hvers þings. Einhver þing höfðu landnemar haldið fyrir tilkomu þessarar stjórnskipunar frá fyrri heimkynnum, að bændur komu saman til að ræða hagsmunamál, en líklega ekki sem dómþing. Hann nýtti síðan „peninga sem hver maður færði honum en hann færði til hofa“ til að byggja upp hofin í þingunum.

Fjórðungar

Fjórðungarnir skiptust í þrjú þing og þingin í hreppa[20]. Úlfljótslög eru gerð eftir Gulaþingslögum sem ein landslög. Dómstig innan fjórðungs voru upphaflega tvö, hreppadómar sem staðbundinn alþýðuréttur eftir fornum venjum og reglum sem sjá má af Grágás, sem síðar verður fjallað um, og síðan dómar á þingum. [21] Síðar, árið 965 voru settir upp Fjórðungsdómar, þangað sem þingdómum mátti áfrýja.

Þrjú goðorð (Hofgoðar) í hverju þingi, níu goðorð í fjórðungi deila valdi þar. Goðinn hafði sama hlutverk og Hersir eða Jarl í norræna kerfinu og Fógeti í því enska, en þrír goðar í sama þingi verða að halda saman vorþing og leiðarþing að loknu Alþingi . Alþingi verður miðstöð jafnvægisins eins og hirð eða ráðgjafaráð konungsvalds annarsstaðar, og Lögréttan verður úrskurðavaldið, eins og konungsvaldið.  


[20] Um tilurð og hlutverk hreppa á Þjóðveldisöld.  Grein e. Sigurbjörn Svavarsson

[21] Páll Briem segir m.a. í Nokkur orð um stjórnarskipun Íslands í fornöld. Andvari. 1. 4, ár. Reykjavík 1897 :

“ Að vorri ætlun er hreppastjórnin mjög gömul. Konrad Maurer hefur vakið eftirtekt manna á því að í Noregi kemur enn fyrir orðið „Repp” og er haft um sveit eða marga bæi í héraði, og því er líklegt að orðið hreppur sé jafngamalt hér á landi og byggð manna í landinu.6 Það er ennfremur einkennilegt að einmitt í sveitarmálum og þeim málum þar sem vér höfum haldið því fram að bændur hafi haft vald nokkurt koma mest fyrir einkadómarnir. Það er eins og menn hafi þar haldið fast við sams konar dóma og tíðkuðust í Noregi, og þeir hafi einmitt verið að miklu leyti afmarkaðir við þau  mál er bændur hafi getað gert samþykktir um. Þetta á sér þannig stað um héraðsdóminn sem nefndur er í skipan Sæmundar Ormssonar, um hreppadóminn, dóminn um útlendinga og útlenda verslun og afréttardóminn. Af því sem nú hefur verið sagt má sjá að höfðingjastjórn og alþýðustjórn hefur verið næsta vel fyrir komið hér á landi í fornöld. Goðarnir áttu sæti í lögréttunni, nefndu menn í dóma og stýrðu þingum en voru þó á margan hátt háðir bændum. Aftur á móti voru bændur á samkomum ráðandi um héraðsmálefni sín, en voru þó háðir löggjafarvaldi goðanna og dómum þeirra nema í þeim málum sem einkadómar áttu um að dæma.“

Fyrirmyndirnar fyrir skiptingu samfélaga á þessum tíma eru til staðar, í öðrum germönskum samfélögum. Undirstaðan er skipulag bænda í afmörkuðum landfræðilegum sveitum sem tengdust saman í stærri svæði með höfðingja og þingi, í líkingu við norsku Fylkin og ensku Skírin, en hér á landi af landnámum, hreppum, þinghám og fjórðungum, mótast af bæði landfræðilegum aðstæðum, hagsmunum og valdajafnvægi í landinu.

Í kirknaskrá Páls Jónssonar biskups og talin gerð árið 1200 fyrir Skálholtsumdæmi Diplomatarium Islandicum = Íslenzkt fornbréfasafn (12. b. (1200-1554)) Kirknaskrá 1200. segir m.a.:

„Langanes er norðast í Austfirðingafjórðungi, lítt bygt oc horfit í landnorðr. Þar geingur Helkulduheiðr eptir nesinu fram. Hon skilr fjórðunga Austfirðinga oc Norðlendinga, og er þar settr upp hamarr Þórs á heiðinni, sem fjórðunga skilr. Jökulsá á Sólheimssandi (hun) skilur fjórðunga Austfirðinga og Sunnlendinga. En undir Ármannsfelli var fjórðungsþing Sunnlendinga Þá er Hvítá. Hún skilur fjórðunga (Sunnlendinga og Vestfirðingafjórðung. Þórsnesþing var fjórðungsþing VestfirðingaÁ sú, sem fellr i innanverðum Hrútafirði skilr (Vestfirðingafjórðung og Norðlendingafjórðung

Fræðimenn deila um hvort fjórðungaskiptingu landsins hafi verið komið á með Úlfljótslögum og stofnun Alþingis 930 eða með skipan fjórðungsþinga 965. Fjórðungsskipting landsins í sögunum eru oftast tengdir saman með skipan fjölda þinga í fjórðungi og höfuðhofa í hverjum þingi. Með þeirri skipan verða til goðorðin. Ef sú skipan komst ekki á árið 930, gat ekki verið um að ræða 36 goða í Lögréttu við stofnun Alþingis.

Fjórðungsskipting landsins í fornsögunum:

Í Þórðar sögur Hreðu segir: „ En þá er landinu var skipt í fjórðunga þá skyldu vera þrjú þing í hverjum fjórðungi en þrjú höfuðhof í hverju þingi“ Þórður er fæddur um 890 og segir sagan að hann hafi dáið um 970.

Í Þorsteins þætti Uxafóts segir; Þá var landinu skipt í fjórðunga og skyldu vera þrjú þing í fjórðungi hverjum en þrjú höfuðhof í þingsókn hverri“.

Í Hrana sögu Hrings[22]er textinn næstum óbreyttur úr Íslendingabók Ara fróða. Þar er gefin skýring á tilkomu fjórðungsþinga og höfð eftir Úlfhéðni Gunnarssyni, sem varð  lögsögumaður árið 1108 og faðir hans einnig verið lögsögumaður 1065-68, segir þar, landinu var skipt í fjórðunga, svo að þrjú urðu þing í hverjum fjórðungi…En síðar voru sett fjórðungsþing.

Í Hænsna-Þóris sögu er sagt frá með sama hætti, en tengingin í ræðu Þóri gelli ekki beinlínis tengd, en segir En þá er landinu var skipt í fjórðunga… En síðan váru sett fjórðungsþing.

Því hefur verið haldið fram að að fjórðungar og fjórðungsþing hafi verið sett 965, eftir deilur Þórðar gellis og Tungu-Odds, þar sem Þórður gellir þarf að sækja vígsakir í Þingnesþing í Borgarfirði. „Þat váru þá lög, at vígsakar skyldi sækja á því þingi, er næst var vettvangi.

En Þórður átti þinghá í Þorskafjarðarþingi. Þórður hélt tölu á Alþingi um hve illt væri að sækja sakir í ókunn þing, og mælti fyrir breytingum. Sumir fræðimenn telja að þessum sökum að landinu hafi skiptu í fjórðunga og fjórðungsþing sett sem afleiðingu af þessum deilum, jafnfram er sagt að hin viðbótar 3 þing hafi bæst í Norðurlandsfjórðungi á sama tíma, en þær hugmyndir ganga gegn því sem segir í þingskapar þætti Grágásar að þrjú þing skuli vera í fjórðungi hverjum og þrír goðar í hverju þingi. Af samhengi fjórðunga og þriggja þinga eins og rakið er hér að ofan og af málinu má sjá að búið var að setja niður þingin, og þá um leið fjórðungana, en hins vegar er eðlilegra að líta svo á að stofnun fjórðungsþinga og þriggja nýrra þinga í Norðurlandsfjórðungi hafi komið til 965. Fjórðungsþingin sem áfrýjunar- og eða yfirdómstól fjórðungsins í héraði hafi átt að leysa slík mál, þ.e. að þingnautar (í þingum innan fjórðungs) eigi saksóknir saman.

Það virðist þó sem Fjórðungsþingdómstóll hafi þróast í að hafa verið haldinn samhliða Alþingi, en ekki í héraði. M.a. er dæmi í Njálu þegar Mörður (905) gígja lýsti í fjórðungsdóm þann er sökin átti í að koma að lögum. Lýsti hann löglýsing og í heyranda hljóði að Lögbergi“  vegna skilnaðar Unnar dóttur hans sem fædd er um 935 og má ætla að þetta hafi verið ekki mikið seinna en 960.

Á nokkrum stöðum í Njálu eru nefndir Fjórðungsdómar, þá á Alþingi, og er þá vísað í nafn landhlutans, t.d. Austfirðingadóm. Í sögunni er Njáll sagður leggja til Fimmtardóm vegna vankanta við Fjórðungsdóma. [23]    


[22] ..Þá talaði Þórðr gellir tölu um at Lögbergi, hvé illa mönnum gegndi at fara í ókunn þing at sækja of víg eða harma sína, ok talði, hvat honum varð fyrir, áðr hann mætti því máli til laga koma, ok kvað ýmissa vandræði mundu verða, ef eigi réðist bætr á.
   Þá var landinu skipt í fjórðunga, svá at þrjú urðu þing í hverjum fjórðungi, ok skyldu þingunautar eiga hvar saksóknir saman, nema í Norðlendingafjórðungi váru fjögur, af því at þeir urðu eigi á annat sáttir. Þeir, er fyr norðan váru Eyjafjörð, vildu eigi þangat sækja þingit, ok eigi í Skagafjörð þeir, er þar váru fyr vestan. En þó skyldi jöfn dómnefna ok lögréttuskipun ór þeira fjórðungi sem ór einum hverjum öðrum. En síðan váru sett fjórðungaþing. Svá sagði oss Úlfheðinn Gunnarssonr lögsögumaðr  (1108-1116).”

[23] Brennu-Njáls saga“Þau mál skulu hér í koma,“ segir Njáll, „um alla þingsafglöpun ef menn bera ljúgvitni eða ljúgkviðu. Hér skulu og í koma vefangsmál öll þau er menn vefengja í fjórðungsdómi og skal þeim stefna til fimmtardóms. Svo og ef menn bjóða fé eða taka fé til liðs sér og innihafnir þræla eða skuldarmanna. Í þessum (fimmtar)dómi skulu vera allir hinir styrkjustu eiðar og fylgja tveir menn hverjum eiði er það skulu leggja undir þegnskap sinn er hinir sverja. Svo skal og ef annar fer með rétt mál en annar með rangt, þá skal eftir þeim dæma er rétt fara að sókn. Hér skal og sækja hvert mál sem í fjóðungsdómi utan það er nefndar eru fernar tylftir í fimmtardóm, þá skal sækjandi nefna sex menn úr dómi en verjandi aðra sex. En ef hann vill eigi úr nefna þá skal sækjandi nefna þá úr sem hina sem verjandi átti. En ef sækjandi nefnir eigi úr þá er ónýtt málið því að þrennar tylftir skulu um dæma. Vér skulum og hafa þá lögréttuskipun að þeir er sitja á miðjum pöllum skulu réttir að ráða fyrir lofum og lögum og skal þá velja til þess er vitrastir eru og best að sér. Þar skal og vera fimmtardómur. En ef þeir verða eigi á sáttir er í lögréttu sitja hvað þeir vilja lofa eða í lög leiða, þá skulu þeir ryðja lögréttu til og skal ráða afl með þeim. En ef sá er nokkur fyrir utan lögréttu að eigi nái inn að ganga eða þykist borinn vera máli þá skal hann verja lýriti svo að heyri í lögréttu og hefir hann þá ónýtt fyrir þeim öll lof þeirra og allt það er þeir mæltu til lögskila og varði lýriti.“ Eftir það leiddi Skafti Þóroddsson í lög fimmtardóm og allt þetta er nú var talið.

Í öðrum sögum eru landsfjórðungar nefndir jafnvel fyrir 950, eins og í Króka-Refs sögu sem á að gerast á dögum Hákons Aðalseinsfóstra (935-960). Af þessu verður ekki annað ráðið að fjórðungar og þing hafi verið skipuð fyrir tilkomu fjórðungsþinga, sem vegna deilu Þóris gelli og Tungu-Odds hafi komið til síðar.

Þing í fjórðungum:

Þingin þrjú, vorþing, Alþingi og leiðarþing, voru kölluð skapþing. Þau voru öll haldin árlega og þau gátu allir frjálsir menn sótt, enda þótt þingfarakaupsbændur einir eða fulltrúar þeirra hefðu full réttindi. Auk þeirra voru haldnir svokallaðir dómar í hreppunum eftir því sem þurfa þótti í saka og einkamálum eins og lýst er í Grágás

Í Grágás segir að færa megi þing í annan stað, eða heyja tvö þing á einum stað, ef goðar verða um það sáttir og lögrétta leyfir. Þingum voru gefin nöfn eftir þeim stöðum þar sem þau voru haldin.

Í Sunnlendingafjórðungi: 1. Rangárþing eða Þingskálaþing, að Þingskálum á Rangárvöllum. 2. Árnesþing, í Árnesi. 3. Kjalarnesþing, á Kjalarnesi og við Elliðavatn.

Í Vestfirðingafjórðungi: 1.Þingnes sunnan Hvítár, síðar Þverárþing. 2. Þórsnesþing, á Þórsnesi. 3. Þorskafjarðarþing, við botn Þorskafjarðar.

Í Norðlendingafjórðungi: 1. Húnavatnsþing, að Þingeyrum. 2. Hegranesþing, hjá Garði í Hegranesi. 3. Vaðlaþing, hjá Litla-Eyrarlandi.

Í Austfirðingafjórðungi: 1. Múlaþing, háð að Þingmúla í Skriðudal. 2. Skaftafellsþing sennilega hjá Skaftafelli í Öræfum.

Goðar og bændur í þingumdæmi.

Fullt jafnvægi er á milli hinna þriggja goða í hverju þingi, þeir skipa jafnt í dóma og í Grágás er talað um að þingmenn þeirra hafi „þriðjungsvist“ og ef einn goði fellur út vegna vanefnda á þingi þá taki annar tveggja hinna þinggoðana við „Þriðjungsmönnum“ hans. Einnig ef goði hefur ekki þingmann til að skipa í dóm, þá er samþingsgoðum hans skylt að útvega honum hann og sá þingmaður verður að gangast í dóm sem skipaði hann.

Af þessu má ráða að goðar í sérhverju þingi hafi haft í raun jafnmarga þingmenn[24] og engin gat dregið úr valdi goðans, nema hans eigin sök. „Skyldir voru menn til að fylgja goða til féránsdóms, allir þeir sem næstur voru, ef hann kvaddi þá, hvort sem þeir voru hans þingmenn eða ekki“ segir í Grágás. Þetta sýnir að goðar voru jafnir í þinghá þegar kom að því nefna menn í dóma.

Ljóst er að hver goði hafði „þriðjung“ þings. Það merkti að hann hafði ákveðið markað umráðasvæði og að öllu eðlilegu voru bændur sem bjuggu í þeim „þriðjungi“, þingmenn hans. Þó sagt sé að þingmenn geti valið sér goða, þá er það bundið þingsumdæminu. Bændur höfðu val um hvaða goði fengi þingfarakaup þeirra eins og kemur fram í Grágás, „Menn skulu svo gjalda þingfarakaup sem þeir eru á sáttir í þriðjungi hverjum við goðann“. Hins vegar er talað um að menn séu þingfastir, þ.e. í goðorði. Goðorð var því landfræðilegt svæði í upphafi og gat skipt hreppum. Hvernig var hægt annars að tryggja að jafnvægi héldist milli goða í sama þingi nema með því að hafa jafnmarga þingmenn hver. Þingmaður tilheyrði goðorði ákveðins goða. Réttur þingmanns til að skipta um goða gat raskað þessu jafnvægi. Samkvæmt Grágás varð þingmaður sem vildi færa þingfesti sína að segja það á þingi með vottum og jafnframt að segja sig til þings með öðrum, „en skal þó sitja kyrr í þrjú skapaþing“, þannig var uppsagnartími frá fyrri goða eitt ár. Ef goði vildi segja upp þingmanni, varð hann að gera það tveim vikum fyrir vorþing.

Samanburðurinn við norska og enska kerfi er til staðar þó íslenskar aðstæður og andstaða við konungsveldi hafi skapað goðaveldið og stjórnskipulag sem einkenndi íslenska þjóðveldið.

Ásgeir Jóhannesson segir í Endalok Þjóðveldisins [25]„Valdajafnvægi milli goða var mikilvæg forsenda þess að goðaveldisskipulagið gengi upp. Menn gerðu sér grein fyrir þessari forsendu og þess vegna lögðu menn áherslu á að viðhalda jafnvæginu. Það tókst vel í tæp 200 ár, en árið 1096 var lögtekinn skattur sem kallaðist tíund og átti eftir að hafa afdrifarík áhrif. Tíundin var 1% eignarskattur og skiptist í fernt. Fjórðungur hennar rann til framfærslu fátækra í hverjum hreppi, fjórðungur til biskupsstaða, fjórðungur til kirkna og fjórðungur til presta. Helmingur tíundarinnar rann því til þeirra goða sem sáu um kirkjur, auk þess sem kirkjugoðar þurftu ekki að greina skattinn, og varð hún þannig „grundvöllur efnahagsójafnaðar“(6). Skatturinn hlaut að eyðileggja þjóðveldið; hann var eitur í „líkama“ þess og aðeins tímaspursmál hvenær það liði undir lok.


[24] Goðorð og Goðorðamenn 2 bindi. Bls.107  ”Til þess að jafnvægi væri í þingmannafjölda goðorðsmann..”

[25] Endalok Þjóðveldisins  Ásgeir Jóhannesson   Grein í Menningarritið Skýjaborgir  http://skyjaborgir.blogspot.com/2004/10/endalok-jveldisins.html

Ath. Fjórðungdómi bætt við um 960-965 og Fimmtadómur var bætt við árið um 1005  
Mynd úr: Grágás. Útg. Mál og Menning 1992

 

Tíund tekin upp á Íslandi.

Hver var uppruni og ástæða skattsins?

Sigurbjörn Svavarsson

Gissur biskup var ástsælli af öllum landsmönnum en hverra maður annarra, þeirra er vér vitum hér á landi hafa verið. Af ástsæld hans ok tölum þeirra Sæmundar (fróða), með umburði Markúsar lögsögumanns, var það í lög leitt, at allir menn töluðu ok virtu allt fé sitt ok sóru, at rétt virt væri, hvort sem var í löndum eða í lausaaurum, ok gerðu tíund af síðan. Það eru miklar jarteignir (undur), hvað hlýðnir landsmenn voru þeim manni, er hann kom því fram, at fé allt var virt með svardögum, það er á Íslandi var, ok landið sjálft ok tíundir af gerðar ok lög á lögð, at svo skal vera, meðan Ísland er byggt………. En hann hafði áður látið telja búendur á landi hér, ok voru þá í Austfirðingafjórðungi sjö hundruð heil, en í Rangæingafjórðungi tíu, en í Breiðfirðingafjórðungi níu, en í Eyfirðingafjórðungi tólf, en ótaldir voru þeir, er eigi áttu þingfararkaupi að gegna um allt Ísland.“ Íslendingabók Ara.

Að baki þessum undrum og stórmerkjum að mati Ara, var sú vissa hans og staðreynd að þar sem þetta hafði verið reynt varð mikill mótstaða bænda víða um lönd, svo mikill að uppreisnir urðu og konungar drepnir. Ástæðan fyrir auðveldri innleiðingu fyrsta skattsins á Íslandi var samspil höfðingja landsins og biskups.[1] Annarstaðar voru það konungar sem innleiddu tíundina og þar var hún meira íþyngjandi en hér á landi í upphafi. En að biskup gæti innleitt hana hér á landi var fyrst og fremst sú að íslenskir höfðingjar sáu sér hag af þessum skatti á bændur. Þrír fjórðu hlutar hans yrðu eftir hjá þeim í héraði en fjórðungur rynni til biskups.

[1] „Tíund skiptist hjer í fjóra hluti: Kirkjuhlutur, prestshlutur, fátækra hlutur og byskups hlutur. Þeir höfðingjar, sem kirkjur áttu og hjeldu presta, fengu haldið þremur hinum fyrst nefndu fjórðungshlutum, en urðu að skila byskupstíund. Hvatti þetta fyrirkomulag þá til þess að efla kirkjur sínar að eignum, en kirkjufje var undanþegið tíund. Höfðingjar gátu þannig eflt kirkjur sínar til stóreigna og sparað sjálfum sér tíundargjald, en fóru með eign alla og rjeðu henni. Hvorki máttu þeir rýra hana að verðgildi né skipta henni. Kristnirjettur sá, er hér var í lög leiddur á fyrsta þriðjungi 12. aldar, breytir í engu þessari skipan. Á hana fór fyrst að reyna, er Þorlákur helgi hóf upp kröfu um forræði kirkjueigna á síðasta fjórðungi 12. aldar.“  https://www.snorrastofa.is/reykholt/reykholtskirkja/kirkjusaga.

Tilurð tíundarskattsins.- Tilskipun frá Páfanum í Róm

Tíundargjald eða skattur á sér langa sögu í kristninni. Í frumkristni var Móses lögunum hafnað, en þegar Rómarkristnin náði undirtökunum gekkst hún undir áhrif Rómarkeisara og 585 tók kirkjuráðið í Macon upp tíund og fylgdi þeirri ákvörðun að kristnir menn sem ekki greiddu tíund yrðu bannfærðir. Þegar haft er í huga að tíundin var ákvörðuð sem afrakstur af afurðum jarðar, var það því í samræmi við Móseslög og gekk því gegn „gjöf frjáls vilja“ Nýja Testamentisins. Gamli sáttmálinn var því tekinn upp í stað Nýja Sáttmálans að þessu leiti.

Tíund gamla sáttmála var alltaf greidd með afurðum jarðarinnar, en Rómaverskir biskupar og keisarar ákváðu að nýja tíundin skyldi greiðast sem andvirði afurða með manngerðri afurð, peningum. Smásaman breiddist þessi regla út með kristniboðum í Evrópu þar til Pepín III. konungur Karólínska ríkisins og faðir Karlamagnúsar keisara, sem réði stórum hluta V-Evrópu, ákvaðaði með bréfi til allra biskupa árið 765 að tíund væri lögleg og opinber aðgerð.

Þegar Karlamagnús sigraði Saxa og Frísa heimilaði hann innheimtu tíundar til biskupa á öllu svæðinu árið 788. Á valdatíma Lúðvíks hins „guðrækna“ konungs Frankaveldis og meðkeisara hins heilaga rómverska ríkis ásamt föður sínum Karlamagnúsi, skipaði hann að tíundin væri reiknuð af ávöxtum jarðarinnar og af búfénaðar, en breytileg. Greiðsla gæti farið fram í peningum eða í vinnu og gengi öll til kirkjunnar. Refsingin fyrir vanskil gæti varðað missi jarðnæðis.

Edmund I. Englandskonungur (939-946) lögleiddi tíund í Englandi og Játvarður góði, konungur Englands frá 1042 til 1066 er yfirleitt talinn síðasti konungurinn Saxa herti á tíundarlögum [2]


[2] „ Af allri uppskeru skal greiða hinn tíunda hluta til heilagrar kirkju. Ef einhver á hestahjörð, þá greiði hann tíunda folann; sá sem á einn eða tvo hesta skal gjalda eyri fyrir hvern fola; sá sem á margar kýr, tíundi kálfurinn; sá sem á einn eða tvo, obole fyrir hvern; og ef hann gjörir ost úr mjólk þeirra, tíunda ostinn eða tíunda dagsmjólkina. -Tíunda lamb, tíunda sauðaskinn, tíundi ostur, tíundi hluti smjörs, tíundi svín; úr býflugum, eftir því sem þær búa sér til í eitt ár; einnig úr skógum, engjum, vötnum, myllum, görðum, varnargörðum, fiskveiðum, kjarri, görðum, verslun og af öllu þvílíku, sem Guð hefur gefið, skal tíunda skila; og sá sem neitar, með réttlæti konungs og heilagrar kirkju, ef þess þarf, skal neyddur til að borga. Heilagur Ágústínus hefir áður sagt þessa hluti, og hafa þetta verið veitt af konungi og staðfest af barónum og fólki; en síðan, fyrir hvatningu djöfulsins, neituðu margir og prestar, sem voru ríkir og ekki mjög varkárir að krefjast þeirra, fóru þannig að verða fátækir; því víða eru nú þrjár eða fjórar kirkjur þar sem áður var aðeins ein.“ https://sourcebooks.fordham.edu/sbook1j.asp#The%20Church%20and%20the%20Economy

Vilhjálmur I. innheimti tíundir, en deildi þeim sjálfur til kirkjunnar innanlands, hann innheimti að auki sérstakan skatt sem kallaður var „skattur Heilags Pétur“, sem rann beint til Páfans í Róm, einskonar yfirlýsingu um að konungur réði kirkjunni, en ekki páfinn.

Jón Jóhannesson segir frá því í Íslandssögu I. Þjóðveldisöldin, að tíund hafi ekki verið tekin upp í Noregi fyrr en rúmum 20 árum síðar en á Íslandi, en engar skjalfestar heimildir er fyrir tíund í Noregi fyrr en árin 1130-40, og þá gætu menn ætlað að Tíundarlögin íslensku hafi verið fyrirmynd þeirra norsku. En svo var ekki, tíundarskattur hafði verið settur á nokkru fyrr í Danmörku af Knúti IV. konungi en hér á landi, en olli slíkri reiði og andstöðu bænda að þeir gerðu uppreisn og drápu konung 1086 vegna málsins og tíund komst ekki aftur á fyrr en árið 1120. Einnig átti að setja slíkan skatt í Noregi en vegna andstöðunnar við því dróst það til framyfir árið 1130 og aðrar heimildir segja 1150[3]. Í Svíþjóð komst hún ekki á fyrr en seint á 12. öld.

[3] THE CHRISTIANISATION OF ICELAND PRIESTS, POWER AND SOCIAL CHANGE 1000-1300 By Orri Vésteinsson bls 100.

Íslensku tíundarlögin.

 Af þessu má sjá að að kirkjuyfirvöld í Evrópu, hvöttu til slíkrar skattheimtu til að efla kirkjuna í samvinnu við konunga[4] í þeirri þróun sem átti sér stað í tvískiptingu hins andlega og veraldlega valds, sem stórefldi kirkjuna á Vesturlöndum og þaðan hafi hvatinn komið til verksins, ekki síst til að styðja við uppbyggingu kristninnar á Íslandi.


[4] „Fræðimenn greinir nú almennt ekki á um að réttarsaga miðalda sé sameiginleg öllum Vesturlöndum. Samkvæmt þeirri sýn varð vestræn lögfræði til sem fræðigreinum aldamótin 1100 þegar rannsóknir hófust við háskólann í Bologna á þá nýfundnum lögum Jústiníanusar Rómakeisara (527–565). Þau lög eru undirstaða Rómaréttar og ..– ásamt kirkjulögum. Talið er að á tólftu öld hafi rannsóknir í hinum nýju háskólum álfunnar skapað sameiginlega réttarhefð í ríkjum Vestur-Evrópu, með úrvinnslu úr hinum veraldlega Rómarétti og kirkjurétti sem þá var að verða til…

 „ ..Í fyrsta lagi var almenna kirkjan alþjóðleg stofnun á síðmiðöldum sem varð leiðandi í stjórnmála- og lagaþróun á tólftu öld. Í öðru lagi urðu þær breytingar í beinu samhengi við keisara- og konungsvald. Þess vegna er brýnt að kirkjan sé könnuð í samhengi við veraldarvald og öfugt.19 Enn fremur verður kirkja á Íslandi, og raunar önnur pólitísk þróun á síðmiðöldum, ekki skilin til fullnustu nema hún sé rannsökuð í samhengi við kirkjusögu Vesturlanda og stofnunina sem almenna kirkjan var. Á miðöldum var gert ráð fyrir einni kirkju í Vestur-Evrópu og þess vegna er vísað til hennar með hugtakinu kirkjan og þarf ekki að taka fram að hún var kaþólsk. .. Stofnunin byggði því upp stjórnkerfi til þess að halda utan um hugmyndakerfi sem smám saman var innleitt um öll lönd álfunnar. Stofnunin var því eins konar kerfi í eigin rétti með stjórnunarmarkmið sem breyttust ekki í neinum aðalatriðum frá síðari hluta tólftu aldar. Þess vegna eru heimildir frá kirkjunni samræmdar og sambærilegar hvaðan sem þær koma. Þrátt fyrir einhvern svæðisbundinn mun á lögum og skipulagi voru embættin, sem bjuggu heimildirnar til, sambærileg frá einu landi til annars, sem og lög og hugtakanotkun… Lára Magnúsdóttir 2007 .  Bannfæring og kirkjuvald á Íslandi 1275-1550: lög og rannsóknarforsendur


Gissur Ísleifsson ( 1042-1118) var biskup Íslands, annar í röðinni, sonur fyrsta biskups Íslendinga Ísleifs Gizurarsonar (fæddur 1006- dáinn 5.7.1080) sem varð biskup í kjölfar Kristnitökunnar árið 1000. Hann var nafni og sonarsonur Gissur hvíti Teitsson eins helsta leiðtoga kristinna manna við kristnitökuna og sem hafði tekið skírn af Þangbrandi Erkibiskup sem Ólafur Tryggvason hafði sent til kristniboðs á Íslandi.

Gissur lærði á Saxlandi eins og faðir hans, en Gissur Teitsson afi hans hafði fylgt Ísleifi til Saxlands til mennta í Herford. Gissur Ísleifsson var vígður prestur á unga aldri. Hann ferðaðist mikið til útlanda og þau hjón fóru bæði í suðurgöngu til Rómar. Hann var erlendis 1080, þegar faðir hans dó en kom heim sumarið eftir og var þá valinn biskup. Gissur fór til Saxlands að taka vígslu en þá hafði erkibiskupinn þar verið sviptur embætti. Hann fór þá til Rómar á fund Gregoríusar páfa 7, sem sendi hann til Hardvigs erkibiskups í Magdeburg og þar fékk hann vígslu 1082. Hann var þá fertugur að aldri. Hann settist að í Skálholti þegar heim kom.

Um tilurð laganna er sagt að Gissur hafi gert Tíundarlögin með Sæmundi fróða[5] og með samþykki Markúsar Skeggjason [6] lögsögumanns d. 1107. Gissur hefur eflaust  leitað aðstoðar Sæmundar fróða Sigfússonar, goðorðamanns og prests og eins áhrifamesta höfðingja landsins og eins best menntaða íslendings á þeim tíma.

Hér er rétt að staldra við í ljósi þess að í Evrópu voru það konungarnir sem komu tíundinni á og skipuðu fyrir innheimtu hennar, yfirleitt var hún reiknuð af verðmæti landbúnaðar eða búfénaðs og gekk beint til og var innheimt af kirkjunnar mönnum.  Gissur var helsti frumkvöðullinn að tíund yrði lögtekin á Íslandi og hefur eflaust fengið hvatann um að koma tíundinni á frá Erkibiskupi í Magdeburg, en útfærsla og skipting tíundarinnar varð með öðrum hætti en í öðrum löndum.[7]


[5] Fyrir utan að standa að Tíundarlögunum 1096, stóð Sæmundur með biskupunum Þorláki Runólfssyni og Katli Þorsteinssyni að setningu Kristniréttar hinn eldri árið 1123.  En Özur (Aserus) erkibiskup í Lundi er talinn frumkvöðull að því að saminn (ritaður) var hin forni Kristni réttur fyrir Ísland[1]. Sæmundur kom víðar við og var m.a. einn ritbeiðenda að Íslendingabók Ara fróða og Ari bar bókina undir hann þegar hann var búinn að skrifa hana. Oddur Snorrason munkur vísar einnig í rit Sæmundar í Ólafs sögu Tryggvasonar og einnig er vísað í hann í Landnámabók.

[6] Markús þótti mjög fróður og lærður og var einn af heimildarmönnum Ara fróða, sem segir að hann hafi sagt sér ævi allra lögsögumanna sem greint er frá í Íslendingabók, „en honum sagði Þórarinn, bróðir hans, ok Skeggi faðir þeirra, ok fleiri spakir menn til þeirra ævi, er fyrr hans minni voru, að því er Bjarni inn spaki hafði sagt, afi þeirra, er mundi Þórarinn lögsögumann ok sex aðra síðan.“

[7]„Jafnt leikir sem lærðir byggðu hugmyndir sínar á þeirri réttarhefð þegar lagður var nýr og langvarandi lagagrundvöllur í ríkjum Vestur-Evrópu á tólftu og þrettándu öld. Hvorki Ísland né önnur norræn ríki eru undanskilin þessari hefð þótt kirkjurétturinn sé yfirleitt talinn hafa verið meira mótandi en Rómaréttur í lagaþróun þeirra landa. …Kristinrétturinn vann að sömu markmiðum alls staðar og yfirleitt var ekki gefið eftir varðandi mikilvæg atriði á síðmiðöldum. Tíundarlög íslenska kristinréttarins virðast þó dæmi um það en fyrir því mun hafa fengist undanþága hjá páfa að okur væri skilgreint með sérstökum hætti á Íslandi því að samkvæmt almennu skilgreiningunni flokkaðist tíundarheimtan á Íslandi undir okur. Fleiri undantekningar eru á því að lagagreinar séu í samræmi við almennu kirkjulögin og þar má nefna nokkrar undanþágur vegna náttúrlegra norðlægra aðstæðna og fámennis. Miklu skiptir þó að í öllum þeim tilvikum þar sem undanþágur eru gerðar eru til heimildir fyrir því að páfi hafi veitt undanþáguna.      

Þegar Tíundarlögin voru lögð fram var látið líta svo út sem hún væri gjöf af frjálsum vilja og í Grágás er orðalagið að gefa tíund, þannig var gefið í skyn að hún væri í anda Nýja Testamentisins, og þannig breytt yfir hana sem skyldu, sem yrði refsað fyrir ef hún yrði ekki greidd. Þannig var Mósestíundin komin til Íslands.

Skiptingin á íslensku tíundinni í fjóra staði, ¼ til fátækra, ¼ til kirkjubyggingarinnar sjálfrar, ¼ til uppihalds prests og ¼ til biskups, var ekki eins og annars staðar. Hvaða ástæður voru fyrir því? Eflaust þær að biskup þurfti að semja við höfðingja landsins um að koma henni á. Erlendis fór öll tíundin til biskupdæmanna, af þeim voru reistar kirkjur og þeim viðhaldið, laun presta og annarra greidd og hefð fyrir því að kirkjan sinnti fátækum, og biskupar sjálfir þurftu sitt. Á Íslandi voru aðstæður aðrar, fáar kirkjur, fáir þjónandi presta, nema höfðingjar á nafninu til og biskupembættið fátækt. Niðurstaða biskups og höfðingjanna hlaut því að verða sú að höfðingjar og biskup skiptu hagsmunum, höfðingjar tóku prestvígslu og reistu kirkjur á höfuðbólum sínum, og tryggðu sér þannig hálfa tíundina, fyrir presta og kirkju, sem þeir þurftu 100 árum síðar að láta þær af hendi.[8] Biskup hafi samkvæmt lögunum vald til að ákveða hvaða kirkja hlaut vígslu.  Biskup hefur væntanlega ekki fallist á að höfðingjarnir (prestarnir) innheimtu tíundina hjá bændum og höfðingjarnir ekki heldur að biskup eða hans menn innheimti tíundina og hvorugur yrði þannig háður því að ná því af hinum. Þá hafi niðurstaðan verið sú skynsama leið að hreppstjórar, fulltrúar bænda, greiðendur tíundarinnar, innheimtu tíundina að fullu og greiddu til kirkju, prests og biskups, en héldu ¼ fátækrahlutnum í hreppnum til framfærslu fátækra, það gat verið hagur bænda að jafna framfærsluna út á alla bændur í hreppnum. Þannig varð niðurstaðan eins og hún birtist í Tíundarlögum og ákvæðum Grágásar. Aðkoma Sæmundur fróði kann að hafa verið sem tengiliður höfðingja og hugsanlega hafi svo Markús lögsögumaður, fulltrúi þings og bænda komið að þessu til samþykktar á Alþingi. Lögin náðust svo fram á Alþingi árið 1097, fyrst Tíundarlaga á Norðurlöndum eins og getið er hér að framan.


[8] “ Vegna þess að kirkjur voru undanþegnar tíundargreiðslum gáfu bændurnir, sem ávallt voru höfðingjar, þessum kirkjum hluta annarra eigna sinna og losnuðu þannig við að greiða tíund sjálfir af þeim eignum. Almenningi var hins vegar skylt að greiða tíund til kirkna og hluta hennar héldu höfðingjarnir fyrir sjálfa sig. Þannig spöruðu þeir sjálfum sér ekki aðeins tíundargreiðslur, heldur fengu þeir og tíund frá öðrum í sinn vasa. Afkomendur þeirra erfðu kirknaforræðið eins og aðrar eignir og höfðu kirkjur þannig gengið mann fram af manni í margar kynslóðir. Það var einmitt vegna þessara hentugleikagjafa, sem bændur höfðu í raun talið sig vera að gefa sjálfum sér, að upp kom óánægja með kröfu kirkjunnar um að biskup réði kirknaeignum, sem þýddi í raun að umsýsla kirkna og eignir þeirra væru á vegum stofnunarinnar. Krafan um forræði kirkjunnar yfir kirknaeignum er fyrst talin hafa verið sett fram hérlendis af Þorláki helga Þórhallssyni (1178–1193) árið 1179 og hleypti þá af stað staðamálunum fyrri. Lára Magnúsdóttir 2007 .  Bannfæring og kirkjuvald á Íslandi 1275-1550: lög og rannsóknarforsendur

Undirbúningur Tíundarlaganna hefur tekið nokkur ár því, sagt er að Gissur hafi látið telja búendur á landinu ..og „voru þá í Austfirðingafjórðungi sjö hundruð heil (840) en í Rangæingafjórðungi (Sunnlendinga) tíu (1.200)  en í Breiðfirðingafjórðungi (Vestfjarðarfjórðungi) níu (1.080) en í Eyfirðingafjórðungi (Norðlendingafjórðungi) tólf (1.440)“, segir í Íslendingabók.  (Alls 4.560 bændur samkvæmt stóru hundraði). Öruggt má telja að þessi talning hafi átt sér stað í undirbúningi laganna á árunum 1092-1096. Skoðanir hafa komið fram um að gerð Landnámu hafi verið undirbúningur að samningum og gerð Tíundarlaganna.[9] Ari segist hafa gert Íslendingabók fyrir biskupanna. Kannski var Landnáma að hluta til afrakstur bændatals Gissurar? í líkingu við „Domesday book“ Vilhjálms I. Sem nefnt er hér að neðan.


[9] Einar G. Pétursson. Kirkjulegar ástæður fyrir ritun Landnámu.

Tíund er einn tíundi af einhverju og er oftast átt við skatt af einhverju tagi. Tíundin var aðferð kristnu kirkjunnar til þess að fjármagna starfsemi sína víða um Evrópu lengi vel og er enn lögboðin í einstaka löndum í dag. Tíundinni hér var skattur sem í reynd var bætt við þingfarargjaldið. Lögin voru þó frábrugðin þeim í Evrópu, víðast var hún 10% tekjuskattur af uppskeru, framleiðslu og vinnu- en hér var tíundin reiknuð af eign og var því eignaskattur. „Eignir“ í Tíundalögunum voru hús, bústofn (ekki hross), búnaður, bátar, vaðmál og klæði, (nema hversdagsklæði) hlunnindi ýmiskonar og lausafé. Síðan var innheimt svonefnd „stærri tíund“, af erfðafé, sem var í raun 10% erfðaskattur og gekk beint til biskups.

Samkvæmt tíundarlögum var greiðsla tíundar í vaðmáli, sem var í raun gjaldmiðilinn á Íslandi, því unnið vaðmál var útflutningsvara og helsti gjaldmiðill á þeim tíma.  Tíund var skipt í fjóra staði, fátækraframfærslu, kirkja, prestur og biskups fjórðung hver eins og fyrr sagði. Tveir hlutarnir, til kirkju og prests, runnu í raun til þeirra höfðingja sem áttu kirkjurnar og voru einnig prestar á þeim tíma, því gátu þeir farið með það fé eins og þeim sýndist. Af þessum sökum er ekki undarlegt að höfðingjar hafi samþykkt skattheimtuna á Alþingi, þar sem þeir sjálfir fengu helminginn til baka. Leiddi það óneitanlega til aukinna valda og áhrifa höfðingja og ójafnræðis þeirra gagnvart þingmönnum sínum, þ.e. öðrum bændum, og þannig hefur það stuðlað að myndun höfðingjakerfis sem leiddi svo aftur til loka Þjóðveldisins. 

Talað hefur verið um að tíundin  hér á landi hafi verið hagkvæmari sem eignarskattur en tekjuskattur og því hrósað, en ekki er það svo augljóst.

Í hreinu bændasamfélagi, sem að mestu var sjálfsþurftarbúskapur og nauðsynleg aðföng voru í vöruskiptum[10], hagnaður sem myndaðist af vaðmálsvinnslu eða afurðum kom hugsanlega fram í stærri bústofni og því var ekki um neina aðra aðferð að ræða en tíund á eignir og búnað sem umreiknað var í verðmæti vaðmáls. Greiðslan (gjöfin) af skuldlausri eign samkvæmt Tíundarlögum sést á töflunni hér að ofan; af verðmæti 100 x 6 álna veðmáls var tíundin 6 álnir vaðmáls[11].

[10] Búalög voru færð í letur skömmu eftir Jónsbók 1281 og voru byggð á því “sem gerðist hjá landsmönnum” og ekki var í Jónsbók. Verðlag og skipulag á vinnu ýmiskonar.

[11] Sjá Mynd II. Upphæð Tíundar

Þess má geta hér að staðlað 6 álna (tveggja þátta) vaðmál var tveggja álnar breitt (stiku) og til vinnslu þess þurfti um 6 kg. af ull, sem var af um 12 ám. Úrvinnsla ullarinnar og vefnaður í þetta vaðmál krafðist um 10-11 mánaðar vinnu eins manns. Í reynd var því skatturinn greiddur með afurðum og vinnu.

En slíkur eignarskattur til lengri tíma varð eignaupptaka af venjulegum bændum sem færður var til kirkju og höfðingja í kyrrstöðu- og sjálfsþurftarsamfélagi. Þar að auki breyttist tíundin síðar úr því að vera reiknuð af „skuldlausum“ eignum í það að orðið „skuldlaust“ datt út og eignarskatturinn reiknaðist einnig af skuldum (eins og fasteignaskatturinn í dag). Eignaskattur, eða vextir af „dauðu“ fé, var þyrnir í augum kirkjunnar manna annars staðar en hér á landi. Gissur biskup hlaut að hafa fengið samþykki fyrir þessu skattaútfærslu hjá erkibiskupi eða jafnvel páfa, eða kannski hefur ekki verið leitað eftir slíku samþykki. Hér er athyglisverður þáttur, því þegar Noregskonungur gefur Íslendingum Jónslög og Alþingi hafði samþykkt Kristnirétt Árna eða Kristni rétt hin nýja 1275, er fundið að framkvæmd Tíundarlaganna af sendimanni konungs.[12]

Með tíundarlögunum mynduðu íslenskir kirkjugoðar með biskup í fararbroddi nýjan tekjustofn fyrir sig. Tíundin var nýr tekjustofn og um hann varð harðvítug keppni, en við þá keppni raskaðist jafnvægið milli einstakra goða með uppkaupum á goðorðum og vísir myndaðist að raunverulegu lénsveldi auðugri goða sem leiddi af sér átök og upplausn Þjóðveldisins og undirgefni við Noregskonung 1262.


[12] Í sögu Árna byskups segir frá atburðum, sem gerðust sennilega 1281: „Þið byskuparnir heimtið tíund af sylgjum og silfurbeltum, koppum og keröldum og öðru dauðu fé, og undra ég mjög hví landsbúar þoli yður slíkar óhæfur og gerið eigi norræna tíund að eins og þá sem gengur (um) allan heiminn, og ein saman er rétt og lögtekin“   Hér er Loðinn leppur sendimaður konungs að finna að framkvæmd tíundarlaga Gizurar biskups Ísleifssonar, en tíundarlögin voru sett tveimur öldum fyrr. Loðinn leppur hefur komist að raun um að skattheimta á Íslandi er ekki í formi tekjuskatts heldur eignarskatts og bendir á að verið er að reikna skatt af dauðu fé í andstöðu við lögmál Móse. Herra Árni byskup mælir þá: »Af orðum Innocenti páfa vitum vér að sú tíundargerð er eigi okur og vinnur engum manni sálutjón.«

Í hagfræðinni kallast keppni af þessu tagi keppni að aðstöðuhagnaði. Munurinn á henni og frjálsri samkeppni á markaði, er, að ekki er keppt að hagnaði, heldur er tími, fyrirhöfn og fjármunir notaðir til þess að útvega sér sérréttindi eða aðstöðu á kostnað annarra. [13]


[13] Endalok Þjóðveldisins  Ásgeir Jóhannesson   Grein í Menningarritinu Skýjaborgir 

Í Englandi átti sér stað mikil og keimlík breyting á sama tíma og Tíundarlögin á Íslandi voru í undirbúningi. 

Vilhjálmur I. bastarður hertogi af Normandí sigraði í orrustunni við Hastings 1066 og var síðan Englandskonungur til dauðadags 1087. Með sigri hans var stjórnartíð Saxa, sem byggðu England, að fullu lokið og í þeirra stað kominn afkomandi norrænna víkinga sem sest höfðu að í norðvesturhluta Frakklands. Vilhjálmur I. hreinsaði út flesta aðalsmenn í héruðum landsins og setti í staðinn frönskumælandi aðalsmenn. Árið 1086, voru mjög fáir Englendingar meðal þeirra 200 eða svo helstu landeigenda sem skráðir eru í Domesday Book. Normannir, Flæmingjar og Bretónar og aðrir sem studdu Vilhjálm í innrásinni, höfðu sest að á jörðum látinna, eða brottrekinna enskra aðalsmanna.

Árið 1086 lét Vilhjálmur I. fara um allt landið og skrá niður verðmat á öllum hlutum innan ríkisins, í framhaldi gaf hann út skattmatsskrá og á henni var byggt hvað hver ætti að greiða í skatt.[14] Þessi skrá sem var á Latínu, hlaut það víðfræga uppnefni, Domesday Book. 269 þús. skattþegar eru í bókinni og þar eru verðmæti eigna þeirra yfirleitt tilgreind í húðum, sem var fornt viðmið eigna, kúgildi. Áætlað er að um 6 manns væri að baki hverjum gjaldanda, eða 1,6 millj. manna hafi verið í landinu.[15]


[14] „Það voru þrjátíu og fjögur skíri í Englandi á þessum tíma og að því er varðar könnunina er vitað að þessum skírum hefur verið flokkað í sjö, sem hver um sig var undir eftirliti hóps umboðsmanna. „Í könnunni fylgdi fyrirspurn um lönd, er umboðsmenn gerðu samkvæmt eiði sýslumanna, allra baróna og allra hundraða, presta, fógeta og sex sveitamanna úr hverju þorpi. Þeir spurðu hvað höfuðbólið héti; hvað hét það á tímum Edwards konungs; hver heldur það nú; hversu margar húðir eru þar; hversu margir plógar í jarðnæðinu og hversu margir menn tilheyra; hversu mörg þorp; hversu mörg hús; hversu margir þrælar; hversu margir frjálsmenn; hversu margir sóknarmenn; hversu mikið skógaland; hversu mikið tún; hversu mikið beitiland; hversu margar myllur; hversu miklar fiskveiðar; hversu mikið hefur verið bætt við eða tekið af búi; hvers virði það var áður með öllu; hvers virði er það nú; ok hversu mikið hver lausamaður og sóknarmaður átti. Allt þetta á að skrá þrisvar, svo sem eins og það var á tímum Játvarðar konungs, eins, og eins og það er núna. Og einnig var tekið fram hvort hægt sé að meta meira það hærra en nú kann að vera metið“.. „Síðan sendi hann [Vilhjálmur konungur] menn sína um allt England í hverja sveit og lét þá skrá, hve mörg hundruð húðir voru í sveitinni, eða hvaða land og fé konungur sjálfur átti í landinu, eða hvaða gjöld hann ætti að hafa í tólf mánuði frá héraðinu. Einnig lét hann gera skrá yfir það, hversu mikið land erkibiskupar hans áttu, og hans biskupar og ábótar hans og jarlar hans og hvað eða hversu mikið allir áttu, sem áttu land í Englandi, í landi eða nautgripum, og hversu mikið virði þess fé var“ The Making of Domesday Book and the Languages of Lordship in Conquest England. Stephen Baxter

[15] https://en.wikipedia.org/wiki/Domesday_Book

Enski verðgrunnurinn „Hide“, kýrhúð, var í raun „kúgildi“ eins og hið íslenska, sem var hin forni germanski verðmætastuðull eigna. Skatturinn var því eignaskattur eins og á Íslandi, tíund af verðmæti eigna. Það er ekki ólíklegt að fyrirmynd Gissurar að aðferðinni og skattlagningunni sé frá Englandi komin. Sagt var að Gissur hafði „áður látið telja búendur á landi hér“ og þá hefur einnig efalaust verið gert jarðarmat/skattmat hjá bændum í þeirri yfirreið til að meta hversu mikil tíundin yrði á hverju ári.

Löngum hefur verið því haldið fram að framfærsla hreppanna til fátækra á Íslandi til forna sé einstök og hafi ekki þekkst annarstaðar, en svo var ekki og líklegt að þetta hafi verið regla á Norðurlöndunum þegar tíund var tekin upp þar. Má benda á að tíund og fjórskipting hennar var sú sama í Noregi og á Íslandi samkvæmt ákvæði í Kristni rétti hinum forna í Gulaþingslögum 1250[16]


[16] tíund sb. f. GulKrᴵ 627 DonVar 137 4°(c1250-1300) 1r(1)-25v(50) — Gulaþingslǫg : Kristinn réttr hinn forni (Keyser & Munch 1846 [NGL 1], 3-20²⁹)

 ● gera tíund (sína) [af e-u], vér scolom gera tiund alla oc fulla. bæði af avexti ollum oc viðreldi fiski oc ollum rettom fongum. En henne scal sva skipta at biscop scal hava fiorðong. oc fatꝍkes menn fiorðong. oc kirkia fiorðong. oc prestr fiorðong

fátǿkismaðr sb. m. GulKrᴵ 629 DonVar 137 4°(c1250-1300) 1r(1)-25v(50) — Gulaþingslǫg : Kristinn réttr hinn forni (Keyser & Munch 1846 [NGL 1], 3-20²⁹) biscop scal hava fiorðong. oc fatꝍkes menn fiorðong. oc kirkia fiorðong. oc prestr fiorðong

Hreppar , tilurð og hlutverk á Þjóðveldisöld.

Sigurbjörn Svavarsson

„Þessi stjórnskipan, Hrepparnir, voru því undirstaða Þjóðveldisins og síðari stjórnkerfa, öll virkni samfélagsins byggðist á reglum og venjum sem framkvæmdar voru í hreppunum, stjórn þeirra var undir fimm (sóknar)mönnun er Hreppstjórar hétu, sem kosnir voru af bændum úr eigin hópi og metnir af heilindum og ráðvendni að framfylgja siðvenjum og lögum.“

Elsta stjórneining landsins er Hreppurinn og elsta varðveitta heimildin um hreppa[1] er í Grágás. Sterkar líkur eru á því að hreppar hafi tekið á sig mynd fljótlega í landnáminu og mörkun þeirra síðar tengd einstökum landnámum og urði nánast eitt og það sama í augum landnámsmanna. Sjá má í sögunum að einstök landnám eru tengd hreppi.[2] Fyrri heimalönd landnámsmanna, hvort sem þau voru norræn, eða í byggðum Bretlandseyja höfðu regluvenjur í samskiptum og dóma til að útkljá deilumál, jafnvel um víg. Samfélagið snérist um bændur og búfénað, ella gat samfélagið ekki viðhaldið sér. Að germönskum og norrænum siðvenjum voru allir bændur jafn réttháir og til að gæta réttlætis innan byggðanna voru kosnir nokkrir úr þeirra hópi af bændum sjálfum til að mynda dómþing, sem ef mál voru sótt, úrskurðaði um málin, þannig voru menn dæmdir af jafningum í samræmi við siðvenjur.

Í Grágás eru mörg ákvæði sem varða hreppsdóma sem auðsjáanlega eru eldri en kristnin í landinu. Þegar byggð þéttist í landinu og landið fullnumið um 60 árum eftir fyrsta landnám að sögn Ara, völdu menn að setja skýrari reglur um samskipti og sambúð með Úlfljótslögum. Búfénaður var helsta eign bænda og samgangur búfjár bænda með fleiri bæjum í hreppi gat skapað mörg vandamál þegar skepnur ráfa þangað sem grasið er grænast. Landnámsmenn voru taldir 370-400 samkvæmt Landnámu og þeim fylgdu á hverju skipi hásetar, sem skipuðu áhöfn, auk heimilisfólks og þræla, ekki færri en 10 hásetar voru á hverju skipi, en þeir menn voru frjálsir menn og gerðu kröfu um jarðnæði til búskapar af landnámsmönnunum. Því má ætla að þegar landnámi var að mestu lokið um árið 920 hafi verið um 4.000 bændur á landinu. Þegar tíundin var tekin upp árið (1095) fór fram talning á bændum í landinu og þá voru þeir 4.560 að tölu svo að 4.000 bændur um árið 920 er ekki of áætlað.

Mörg dæmi eru í fornsögunum af landamerkjadeilum og nauðsynlegt var að leysa úr slíkum deilum með almennum reglum. Engin vafi getur verið á því að á þessum samskiptamálum var tekið í Úlfljótslögum eins og í gömlu samfélögunum og þau fornu lög endurspeglast í Grágás. Landabrigðisþáttur Grágásar snýst um hvaða reglur giltu í samskiptum bænda og um bú og kvikfénað. Bændur þurftu í nýju landi að reisa mikla garða, svokallaða löggarða á landamerkjum bæja líkt og með girðingum í dag. Bændum var skylt að vinna við og reisa löggarða í tvo mánuði á sumri eða til viðhalds þeim[3], löggarður átti að vera fimm fet þykkur að neðan og þrjú fet að ofan og ná manni í öxl. Þar sem ekki var fyrir hendi torf eða grjót máttu menn girða með gerði (úr skógarefni, hrísrif eða höggskógi). Þar að auki var þeim skylt að búa löghlið á garðanna þar sem þjóðbraut lá.

https://ferlir.is/loggardar/

Í þessum þætti Grágásar er tekið á flestum þeim atriðum þar sem sambúð bænda og búfénaðar gat rekist á, þar er sagt um heimild til brúargerðar, lagningu vega, frjálsu skipagengi á ám, um sameign engja, um afréttir, um selför, um sinubruna, um veitugarða, um hlöður, um skógarhögg, um varpland, að veita vatni og skipta vatni, að marka búfjár, um markaskrár, um fjárréttir, um vetrarhaga, um veiðar og Almenninga, um fuglaveiðar, um veiðar í vötnum, ef ár breyta farvegi sínum, um reka, um hvalreka, um hvalskot (með skutli), margt fleira er tekið á í þessum þætti Grágásar og sektir og refsingar sagðar um flesta þessa þætti.

Um allan ágreining í þessum málum var dæmt í hreppnum sem og um þjófnað og morð. Ágreiningur samkvæmt þessum Hreppsmálum gekk  fljótt fyrir sig,  sækjandi máls valdi dómstað með því að skjóta ör, utangarðs hjá þeim sem hann sótti mál gegn og tilkynnti honum um ágreiningsmál. Þá voru dómendur skipaðir í þingdóm og varð að dæma í málinu ekki seinni en fjórtán dögum eftir örvaskotshelgi utan garðs. Þannig voru ágreiningsmál leyst fljótt innansveitar, enda nauðsynlegt.

Í Grágás segir „Um hreppa mál“ : „Hver maður skal eiga þar löghrepp  sem hefur á framfærslu verið, nema hann sé að lögum af kominn eða þar ellegar sem næstur bræðra hans er vistfastur eða nánari maður.“– Þarna er í raun komin regla á heimilisfesti og vistaband.

Á þjóðveldisöld hafa hrepparnir því verið félagsskapur bænda á tilteknu svæði. Þegar hér er komið sögu eru hrepparnir greinilega orðinn fasti í íslensku samfélagi.[4]

Þessi stjórnskipan, Hrepparnir, voru því undirstaða Þjóðveldisins og síðari stjórnkerfa, öll virkni samfélagsins byggðist á reglum og venjum sem framkvæmdar voru í hreppunum, stjórn þeirra var undir fimm (sóknar)mönnun er Hreppstjórar hétu, sem kosnir voru af bændum úr eigin hópi og metnir af heilindum og ráðvendni að framfylgja siðvenjum og lögum.

Páll Briem segir í greininni; ´Nokkur orð um stjórnskipan Íslands í fornöld.

Héraðsríki goðans hefur því verið undir því komið hversu mikið hann mátti sín hjá bændum, en ef svo er er eðlilegt að hér ráði mestu vitur­leiki, auðlegð og dugnaður goðans. Þetta kemur alveg heim við ákvæði Grágásar og ýmsar sögusagnir í fornsögunum. Þess hefur verið getið að það hefði verið óheppi­legt að láta héraðsstjórnina fylgja goðorðunum af því að goðorðin voru ekki með ákveðnum takmörkum. Þetta átti sér ekki stað um hreppana, Þeir voru með ákveðn­um takmörkum og máttu ekki færri vera í hreppi en 20 búendur er gegna skyldu þingfararkaupi.

Hrepps­menn áttu að hafa þrjár ákveðnar samkomur á ári, á haustin, á langaföstu og á vorin eftir vorþing. Bænd­ur voru allir skyldir að koma til samkomu eða fá mann (húskarl sinn) fyrir sig til þess að halda skilum uppi fyrir sig.Þessum samkomum var falin á hendur sveitarstjórnin og segir svo í Grágás: „Það skal samkomumál vera allra manna á milli fast, sem þeir verða á sáttir er til samkomu koma. Meiri hlutur búanda skal ráða, ef eigi verða allir á eitt sáttir um ný samkomumál. Eigi skal fornum samkomumálum þoka, nema allir verði á sáttir, þeir er í hrepp búa.“Það sést af þessu að bændur hafa greitt atkvæði og meiri hlutur ráðið um ný samkomumál.

Bændur áttu að velja 5 sóknarmenn til þess að sjá um framkvæmd á samkomumálum, sækja menn um lagaafbrigði, óskil, skipta tíundum, o.s.frv. En mál þau er hreppsmenn áttu að sjá um var framtal til tí­undar, ómagaframfærsla, vátrygging á nautpeningi og brunabætur. Bændur réðu og hvar fjárréttir skyldu vera. Ennfremur þurfti að leita byggðarleyfis til bænda á samkomu, og búðsetumenn máttu ekki vera í hrepp nema hreppsmenn lofi. Ennfremur þurftu bændur að fá leyfi hreppsmanna til þess að taka hjú úr öðru þingmarki ef bændur áttu í nokkru að ábyrgjast vandræði er af þeim hlytist. Þurftu bændur engum brunabótum að svara ef slík hjú voru orsök í hús­bruna frekar en þeir vildu.[Það hafa þannig verið mikilvæg héraðsmál er bændur áttu að ráða. En auk þess er almennt ákvæði í Grágás um bændur á sam­komum og eru þau svo: „Skulu þeirra manna mál standast er þar koma, hvar þess er þeir taka eigi af alþingismáli.“ Með þessu virðist samkomum bænda vera gefin almenn heimild til þess að setja þau ákvæði um sveitarmál er ekki sé lögum gagnstæð.

   Framfærsluskylda af frændsemi var ríkari eftir lögum Þjóðveldisins en eftir Jónsbók síðar, samkvæmt Baugatali í Grágás var þurfandi ættingi á framfæri ættarinnar allt að fimmmenningi og ríkt var gengið eftir því, svo framfærslan lenti ekki á hreppnum. Hlutverk hreppstjóra var að tryggja framfærslu ómaga og einnig að verjast að aðrir lentu í sömu erfiðleikum. Til þess voru ekki aðeins mjög strangar reglur gegn einstaklingum sem reyndu að fá slíkan stuðning af vinnu hins duglega hluta samfélagsins; heldur til að fyrirbyggja fátækt, t.d. með aðkomu nýrra íbúa í Hreppinn þurfti samþykki íbúa þess, sem gátu hafnað manni sem verið dæmdur hafði verið fyrir glæp eða af líkindum gæti orðið byrði fyrir samfélagið, þetta var nauðsynlegt til að heilbrigður efnahagur samfélagsins héldist. Tjón af völdum elds var ákvarðað með rannsóknarrétti og helmingur tjónsins bætt með gjaldi á aðra bændur í hreppnum. Sama átti við ef bóndi missti fjórðung af hjörð sinni af drepsótt; en í hvorugu tilvikinu var þessi krafa heimiluð oftar en þrisvar sinnum hjá þeim sama.

Hreppstjórar héldu samkomur eða minni þing sem fólkið var kallað til með boðbera með tákni „boðsins“, sem hamar Þórs á milli bæja og sem eftir kristnitöku, var breytt í trékross. Í Grágás segir „ Allir bændur skulu bera hreppsfundar boð, þeir er í hrepp eru saman“. Líklegt var svokallað Leiðarþing, Haustþing, verið nokkurskonar Hreppstjóraþing til m.a. að upplýsa um ákvarðanir Alþingis sem gætu varðað hreppinn.

Konrad Maurer hefur vakið eftirtekt manna á því að í Noregi kemur enn fyrir orðið „Repp” og er haft um sveit eða marga bæi í héraði, og því er líklegt að orðið hreppur sé jafngamalt hér á landi og byggð manna í landinu. Það er ennfremur einkennilegt að einmitt í sveitarmálum og þeim málum þar sem bændur hafi haft vald koma mest fyrir einkadómarnir. Það er eins og menn hafi þar haldið fast við sams konar dóma og tíðkuðust í Noregi, og þeir hafi einmitt verið að miklu leyti afmarkaðir við þau mál er bændur hafi getað gert samþykktir um. Þetta á sér þannig stað um héraðsdóminn sem nefnd­ur er í skipan Sæmundar Ormssonar, um hreppadóminn, dóminn um útlendinga og útlenda verslun og af­réttardóminn.

Páll Briem telur að þegar Úlfljóts lög voru sett, hafa verið sett á­kvæðium löggjafarvaldið og dómsvaldið, en ekki hafi þá verið sett lög um héraðsstjórnina heldur hefur líklega verið komin á einhver venja hjá bændum að halda samkomur og fundi til þess að gera ráðstafanir á sveitarmálum. Þessi venja hefur svo haldist og verið lögtekin síðar. Hins vegar að erfitt að sjá að slíkt hafi náð yfir allt landið með skipulögðum hætti eins og speglast í Grágás, nema að fylgt hafi fylgt stjórnskipulaginu og þingvaldinu sem fylgdi.

Af því sem hefur verið sagt má sjá að höfð­ingjastjórn og alþýðustjórn hefur verið nokkuð vel fyrir komið hér á landi í fornöld. Goðarnir áttu sæti í lög­réttunni, nefndu menn í dóma og stýrðu þingum en voru þó á margan hátt háðir bændum. Aftur á móti voru bændur á samkomum ráðandi um héraðsmálefni sín, en voru þó háðir löggjafarvaldi goðanna og dómum þeirra nema í þeim málum sem einkadómar áttu um að dæma.

Hvað merkir orðið Hreppur?

Deildar skoðanir eru um uppruna orðsins hrepp(ur). Ef leitað er að norrænum orðaskyldleiki við Hrepp, eða repp eins og það er ritað í elstu afskriftum Tíundarlaga, finnast fornar merkingar í sænsku um Repp sem hluta sóknar, eða byggðarlags. Þessi merking orðsins er skyld orðinu Rapp sem forn merking á fornu fjórskiptu tímabili, td. misseri. Þannig vísa merking orðsins til skiptingar og afmörkunar landssvæðis. Norska orðið Repp merkir einnig lítið byggðarlag, dreifbýli. Orðið kemur oft fyrir í staðarnöfnum, til dæmis Golreppen í Hallingdal og Reppe í Þrándheimi. Í sumum norskum mállýskum er orðið notað um jarðnæði. Minna má á forna engilsaxneska landskiptingu sem ber nafnið Rap (e). Þessi dæmi taka af allan efa um norrænan uppruna og merkingu orðsins og þar með fornan germanskan uppruna. Af þessu má ráða að forn merking orðsins er afmarkað landsvæði, kannski upphaflega eins konar landnám, mörkun svæðis til búsetu. Páll Vídalín lögmaður segir í Skýringar yfir fornyrði lögbókar þeirrar, er Jónsbók kallast, að orðið sé dregið af, hlutskipti, hlutfalli og að fornmenn talið sér skylt að breyta eftir öndvegissúlum eða öðru sem þeir hrepptu til heimildartöku.


Í Englandi var til eldra og svipað fyrirkomulag og hreppurinn hafði á Íslandi, það byggðist á tilteknum fjölda búa á svæðinu sem nefndist Hundred. Hugtakið „Hundred, eða -hundrað“* er fyrst skráð í lögum Edmundar I. (939–46) sem mælikvarði á landsvæði sem hundraðréttur þjónaði, en er mun eldri og kemur einnig fram í 7 aldar skjölum. Í Midlands náði Hundrað oft yfir svæði 100 húða[5], 100 heimila, en það átti ekki við í suður Englandi; þetta gæti bent til þess að þetta hafi verið forn vestur-saxneskur mælikvarði og komið var á, einnig í Mersíu, þegar hún varð hluti af nýstofnaða enska konungsríkinu á 10. öld. Tilskipun Edmundar I. um Hundred, kvað á um að Hundraðrétturinn skyldi funda mánaðarlega og þjófa ætti að elta af öllum leiðandi mönnum héraðsins. Nokkur hundreds mynduðu síðan Skíri (Shire), undir stjórn fógeta. Mörk hundreds voru óháð bæði sóknar- og sýslumörkum, þó oft væru þau samræmd, sem þýðir að hægt var að skipta hundraði á milli sýslna eða skipta sókn á milli Hundraða. Þetta minnir á hvernig íslenskum fjórðungsþingum var skipt og goðorðum skipt innan fjórðungsþings og þeirri reglu í upphafi að allir goðar áttu allir jafnmarga þingmenn, það hlýtur að hafa þýtt að skipta hafi þurft þingmönnum sumra hreppa milli goða.

Í undantekningartilvikum, í sýslum Kent og Sussex, var sýslunni skipt ákveðin upp, og nokkur hundruð, ýmist heil eða hálf, voru sett saman til að mynda lathes ( Old English, lǽð, -) í Kent, sem voru misstórar stjórneiningar og rapes *(rape, eint.) í Sussex. Við landvinninga Normanna á Englandi var Kent skipt í sjö lathes og Sussex í fjórar rapes. Rape er hefðbundin svæðisbundin skipting Sussex-sýslu á Englandi, sem áður var notuð í ýmsum stjórnsýslulegum tilgangi. Uppruni orðsins er óþekktur, en virðast vera fyrir landvinninga Normanna. Sögulega hafa Rapes verið grundvöllur sveitarstjórnar í Sussex.

Hér má sjá fornt germanskt samfélagsskipulag, þar sem Hundred er svæði sem náði yfir 100 húðir (hides) og hafði sinn eigin alþýðurétt[6] skipuðum fimm bændum til að halda uppi lögum og reglu og nokkur Hundred mynduð stærri einingu, Shire sem Fógeti réði. Þessu kerfi svipaði til hreppsins íslenska, sem náði yfir svæði að lámarki 20 búa samkvæmt lögum, hafði sinn eigin alþýðurétt, Hreppsdóm sem var skipaður fimm bændum og nokkrir hreppar mynduðu Goðorð sem goði réði.

Við Gamla sáttmála frá 1262 breyttist öll yfirstjórn á Íslandi og goðavaldið leystist smám saman upp og gafst undir vald Noregskonungs. Á árunum 1271-1272 var ný lögbók samþykkt á Alþingi en henni til grundvallar voru lög þjóðveldisins og fékk hún síðar nafnið Járnsíða. Segir í henni um hreppstjóra (samhljóða Grágás): „Samkvámur skulu menn eiga um haust í hrepp hverjum, eigi fyrr en fjórar vikur eru til vetrar, og skipta tíundum. Skipt skal tíundum drottinsdag inn fyrsta í vetri. Fimm menn skal taka til í hrepp hverjum að skipta tíundum og matargjöfum með fátækum mönnum og sjá eiða að mönnum, þá sem best þikkja til fallnir, hvárt sem þeir eru bændur eða griðmenn.“  

Jafnframt segir á öðrum stað í Grágás:

 Hreppstjórar skulu skipta á samkvámu um haust fjórðungi tíundar með þurfamönnum innan hrepps, þeim sem til ómagabjargar þurfa að hafa þau missari, gefa þeim meira sem meiri er þörf. Eigi á tíund úr hrepp að skipta nema samkvámumenn verði á það sáttir að þikki utanhreppsmönnum meiri þörf. Það fé skal greiða þurfamönnum í vaðmálum eða vararfeldum, í ullum eða gærum, mat eða kvikfé, nema hross skal eigi greiða.

Af þessu má ráða að þau lög sem lutu að hreppunum sýna að þeir voru samfélagsleg eining, sem varð til mjög snemma í íslenskri sögu. Hlutverk þeirra snerist að halda friðinn, framfærslumálum fátækra, fjallskilum og öðrum sameiginlegum málum sveitanna og jókst heldur til meiri stjórnsýslu, þó goðar hyrfu og önnur yfirvöld (Amt eða sýslur) komu og fóru. Fjöldi hreppa frá upphafi breyttist lítið fram á 19 öld, þar koma til hefð í afréttum og fjallaskilum.

Skattbændur og Hreppar í fjórðungum.

  Skatt – bændur Hreppar fj. fj.
Fjórðungur 1095[7] 1311[8] 1311 1703[9] 1840
Suðurland 1200 998 32 39 32
Vesturland 1080 1100 48 54 53
Norðurland 1440 1150 48 46 45
Austurland 840 564 30 24 24
Alls 4560 3812 158 163 154

Fjöldi hreppa í upphafi ættu að hafa endurspeglað landgæði fjórðunganna og ætla má að reglan í Grágás um að ekki skuli vera færri en 20 bændur í hverjum hrepp hafi verið upphaflega reglan, einskonar enskt hundrað, og hafi ráðið stærð hreppana því landgæði sköpuðu búsetuskilyrðin.

Landfræðileg hreppamörk í landsfjórðungunum hefur eflaust komið til mjög snemma og vitneskja um hreppamörk haldist á hverju svæði í gegnum aldirnar og hefur eflaust verið skráð strax á ritöld. Í landnámu og nokkrum fornsögunum er minnst á hvar landfjórðungsmörkin eru og hreppamörk á nokkrum stöðum einnig nefnd, og augljóslega lá því fyrir hver skipting þinganna var innan fjórðunganna þegar sú skipan komst á og hreppa innan hvers þings. Þessi hreppamörk hafa haldist að mestu óbreytt í gegnum aldirnar koma fram í elstu kortagerðum og sjást óbreytt, en nákvæmar, eftir því sem kortin verða betri. Landfræðilega marka hæstu fjallgarðar og ár hreppamörk, alveg eins og stærri landnám gerðu, sem síðan skiptust í smærri hreppa þegar þeir var skipt í 20 búa svæði að lámarki. Auðsýnilega hafa hreppamörkin verið dregin fram til óbyggða eins og landið lá og komu saman í hæstu auðkennum landsins, enda eðlilegt með tilliti til gangna og fjallskila sauðfjár á haustin.

Til dæmis koma hreppamörk á Vestfjörðum saman í hæstu tindum Glámu og Hrolllaugsborgar í Drangajökli. (sjá mynd) Í Dölum koma hreppamörk saman í Rúpnafelli og Geldingarhnjúk og vesturhluta Hrútafjarðar og Elliðatindar og Hólsfjall (Tröllatindar) miðpuntar hreppana á Snæfellsnessins. Ok (jökull) var skurðpuntur fyrir hreppa á Mýrum og í Borgarfirði.

   Fjórðungaskil Vesturlands- og Suðurlandsfjórðungs var Hvítá alveg upp að Eiríksjökli og fjórðungsmót Norðurlands og Vestfjarðarfjórðungs voru við Hrútafjarðar og upp að Eiríksjökli.

Hreppaskil í Suðurlandsfjórðungs og Norðurlandsfjórðungs koma saman á hálendinu á hæstu tindum Hofssjökuls og  Langjökuls og við Austurfirðingafjórðung í Bárðarbungu og Grímsfjalli í Öræfajökli. [10] Mynd 1.

Mynd 1.


[1] Í Grágás, eru Tíundarlögin frá 1095 að finna í lok kristinna laga þáttar. Þar segir: „Um hreppa skil.: „Það er mælt í lögum vorum að löghreppar skulu vera á landi hér. En það er löghreppur er tuttugu bændur eru í eða fleiri. Því aðeins skulu færri vera ef lögréttumenn hafa lofað. Þeir bændur skulu að gegna þingfarakaupi er til hreppatals eru taldir. Þó maður skipti hreppum sínum í fjórðunga eða þriðjunga eða svo sem þeir vilja skipt hafa til matgjafa eða til tíunda skiptis og er rétt að þeir verði þar (ei) færri í hlut hreppsins en XX (tuttugu). Svo skulu hreppar settir að hver búandi skal sitja, að næsta auðrúm skulu svo hreppar allir settir sem nú er. Landeigendur v. (fimm) skulu vera teknir til sóknar í hrepp hverjum að sækja þá menn alla er óskil gera  í hreppnum  svo og skipta tíundum (manna) og matgjöfum eða segja eiða af mönnum. Rétt er að þeir menn séu eigi landeigendur, er sóknar menn er í hrepp, ef hreppsmenn eru allir á það sáttir. Ef maður situr að hreppamótum og kemur í annan hrepp með bú sitt, þá á hann kost að kjósa sig í annan hrepp með bú sitt ef hinir eru þó XX (tuttugu) eftir eða fleiri, enda lofa hinir er fyrir sitja. 

[2]Landnámubók (Sturlubók )

Þeir Hróðgeir bræður námu síðan lönd í Flóa, Hraungerðingahrepp; bjó Hróðgeir í Hraungerði, en Oddgeir í Oddgeirshólum; hann átti dóttur Ketils gufu.” 19 kafli

“Þórir son Ása hersis Ingjaldssonar, Hróaldssonar, fór til Íslands og nam Kallnesingahrepp allan upp frá Fyllarlæk og bjó að Selfossi. ..

Hróðgeir hinn spaki og Oddgeir bróðir hans, er þeir Fiður hinn auðgi og Hafnar-Ormur keyptu brutt úr landnámi sínu, námu Hraungerðingahrepp, og bjó Oddgeir í Oddgeirshólum. … “  96 kafli

“Þorbjörn laxakarl nam Þjórsárdal allan og Gnúpverjahrepp allan ofan til Kálfár og bjó hinn fyrsta vetur að Miðhúsum. ..

Þorbjörn jarlakappi hét maður norrænn að kyni; hann fór úr Orkneyjum til Íslands. Hann keypti land í Hrunamannahrepp að Mávi Naddoddssyni, allt fyrir neðan Selslæk á milli Laxár og bjó að Hólum. ..

Bröndólfur og Már Naddoddssynir og Jórunnar, dóttur Ölvis barnakarls, komu til Íslands snemma landsbyggðar; þeir námu Hrunamannahrepp, svo vítt sem vötn deila.

Þorbrandur, son Þorbjarnar hins óarga, og Ásbrandur son hans komu til Íslands síð landnámatíðar, og vísaði Ketilbjörn þeim til landnáms fyrir ofan múla þann, er fram gengur hjá Stakksá, og til Kaldakvíslar, og bjuggu í Haukadal.

Þeim þóttu þau lönd of lítil, er tungan eystri var þá byggð; þá jóku þeir landnám sitt og námu hinn efra hlut Hrunamannahrepps sjónhending úr Múla í Ingjaldsgnúp fyrir ofan Gyldarhaga…” 98 kafli

Grettis Saga:

“Þrándur spurði nú lát föður síns og bjóst þegar af Suðureyjum og Önundur tréfótur með honum en þeir Ófeigur grettir og Þormóður skafti fóru út til Íslands með skuldalið sitt og komu út á Eyrum fyrir sunnan landið og voru hinn fyrsta vetur með Þorbirni laxakarli. Síðan námu þeir Gnúpverjahrepp. Ófeigur nam hinn ytra hlut, á milli Þverár og Kálfár. Hann bjó á Ófeigsstöðum hjá Steinsholti. En Þormóður nam hinn eystra hlut og bjó hann í Skaftaholti.”

[3] „Þessir hlöðnu garðar ná ofan úr efstu byggðum og fram á ystu nes, yfir heiðar þverar og endilangar, og eru mörg hundruð kílómetrar að lengd. Aldur þeirra, hlutverk og umfang hefur lengi verið ráðgáta en eftir áralangar rannsóknir er nú orðið ljóst að garðarnir eru flestir frá þjóðveldisöld og varpa nýju ljósi á það mikilvæga tímabil Íslandssögunnar.“ Tíminn sefur.-Fornaldargarðarnir miklu á Íslandi. Árni Einarsson. Forlagið 2019. Einnig; https://www.researchgate.net/publication/281452903_Viking_Age_Fences_and_Early_Settlement_Dynamics_in_Iceland

Forn garðlög í Dalvíkurbyggð: Fornleifakönnun á garðlögum í Svarfaðardal og á Árskógsströnd

https://fornleif.is/wp-content/uploads/2018/01/FS452_10071_Gar%C3%B0l%C3%B6g-%C3%AD-Dalv%C3%ADkurbygg%C3%B0.pdf
 

[4] „Með tíundarlöggjöfinni hefur hreppunum verið falið að innheimta og skipta tíund. að annað geti varla verið en að ástæða þess að Gissur biskup velur þessa leið sé „ að hreppaskipanin hafi verið fastmótuð, er hér kom við sögu, enda ósennilegt, að jafnþýðingarmikið verkefni hafi verið fengið lauslega skipulögðum

……orðið hreppur hefur haft frátekna merkingu frá upphafi og sú merking hafi lítið breyst fram til dagsins í dag. Mögulega hafa hreppamörkin verið á reiki í fyrstu en virðast engu að síður hafa verið landfræðileg eining tiltölulega snemma í sögu Íslendinga, mögulega frá upphafi byggðar“. Lýður Björnsson segir í bókinni Saga sveitarstjórnar á Íslandi.

Sæmundur mælti: „Svo muntu kalla en meir hefir þú skapsmuni Ljótar móður þinnar, sem mig grunaði, en vor frænda. Nú hefi eg hugað þér landakosti og bústað út á Höfðaströnd fyrir utan Höfða út frá Unadal. Væri það mitt ráð að þú vægðir við þá er þar búa næstir þér, Þórð bónda í Höfða og Una í Unadal eða aðra byggðarmenn, og bið þér byggðarleyfis.“

„Hreppstjórnarþing gegndi í megintilvikum sömu hlutverkum og manntalsþing og þriggja hreppa þing til að byrja með, en hélt þó einkum utan um tíundarfærslur og aðrar embættisskyldur hreppstjóra, s.s. niðursetu og framfærslu ómaga. Skv. Jónsbók virðast hreppstjórnarþing ennfremur hafa gegnt sama hlutverki og leiðarþing, þ.e. verið einskonar haustþing er greindi frá málefnum Alþingis.126 Á hreppstjórnarþingum voru því jafnan kynnt ný lagaboð eða tilskipanir fyrir viðkomandi hrepp, en einnig fór fram framtal á sauðfé, auk þess að málefni ómaga voru oft til ákvörðunar á hreppstjórnarþingum. Hreppstjórnarþinga er fyrst getið í Jónsbók, en í lok 18. aldar fara hlutverk hreppstjóra í sambandi við tíundir að verða skilvirkari, sem síðan er fylgt eftir með ítarlegri hreppstjóratilskipun árið 1809.127“ Ólafur Arnar Sveinsson: Leiðarvísir fyrir dóma- og þingbækur í skjalasöfnum sýslumanna í Þjóðskjalasafni Íslands  bls.42 https://skjalasafn.is/files/docs/r_domar_thingtegundir.pdf

Konrad Maurer, Island, bls. 279, 322 sbr. Ivar Aasen, Norsk Ordbog, orðið: Repp.

Páll Briem ; ´Nokkur orð um stjórnskipan Íslands í fornöld. Andvari, Reykjavík 1897.

Svenska: Ordbok öfver svenska allmoge-språket, Bindi 1-2. REPP, en mindre trakts af en socken, bygdelag.  Fn. Hreppr  n. Repp

Þessi merking er einnig skyld orðinu RÄPP og forn merking á tímabili, eins og misseri, þ.e. fjórðungsskiptingu árs.

Norsk: Store norske leksikon; repp

Repp er eit mindre, busett område; samling av gardar; (del av) grend eller bygdelag.

ETYMOLOGI norrønt (h)reppr ‘lite bygdelag’ Ordet er mykje brukt i stadnamn, for eksempel Golreppen i Hallingdal og Reppe i Trondheim.

I nokre dialektar blir ordet brukt om ein jordteig, og på Island bruker dei ordet (i forma hreppur) om ein kommune.

[5] Hide. Forna engilsaxneska orðið fyrir húð var Hid (eða samheiti þess hiwisc). Talið er að bæði orðin séu dregin af sömu rót hiwan, sem þýddi „fjölskylda“.

Bede í Ecclesiatical History (um 731) lýsir landi sem gat framfleytt tilteknum fjölda fjölskyldna, eins og (til dæmis), á latínu, terra x familiarum sem þýðir „svæði með tíu fjölskyldum“. Í engilsaxnesku útgáfunni af sama verki er hid eða hiwan notað í stað terra … familiarum. Önnur skjöl tímabilsins sýna sama jafngildi og ljóst er að orðið merkti upphaflega land sem nægði til framfærslu bónda og heimilis hans[2] eða „fjölskyldu“, sem gæti hafa haft víðtæka merkingu. Óvíst er hvort það hafi átt við nánustu fjölskyldu eða stærri hóp.[3]

Charles-Edwards bendir á að í fyrstu notkun sinni hafi það átt við land einnar fjölskyldu, unnið af einum plóg og að eignarhald á húð veitti stöðu frjáls manns, [4] sem Stenton vísaði til sem „sjálfstæðum herra, bónda, heimili“.[5]  https://en.wikipedia.org/wiki/Hide_(unit)

[6] Hundred dómstól þar sem einka og sakamál voru afgreidd þar með almennum reglum og siðvenjum. Hann kom saman mánaðarlega, á opnu svæði, á stað og tíma sem allir þekktu. (Eins var með vor og haustþing á Íslandi sem voru á kveðnum dögum og vikum, þannig vissu allir hvenær var þingað og menn áttu að koma í tíma annars lá við sektum (Grágás). https://en.wikipedia.org/wiki/Hundred_(county_division) https://wikishire.co.uk/wiki/Hundred

[7] Fjöldi bænda er greiddu þingfaragjald við setningu Tíundarlaga 1095. 158 Hreppar í 12 þingum  (3 goðorð áttu að vera í hverju þingi upphaflega og 3 þing í fjórðungi).

[8] Um skattbændatal 1311 og Manntal á Íslandi fram að þeim tíma. Björn Magnússon Olsen

[9] Fjöldi hreppa í manntali 1703. Hrepparnir voru þá 163 talsins og um 3–5 hreppstjórar (sem sáu um manntalið) voru í hverjum hreppi .

https://baekur.is/bok/8228a8a2-ab00-44fe-9fad-101a1dce1f09/0/6/Manntal_a_Islandi_arid#page/n5/mode/2up

[10] https://markasja.lmi.is/mapview/?application=markasja  (Mynd 1 að neðan)