Endurnýjanleg orka – Sjálfbær þróun.

Endurnýjanleg orka er nýtanleg orka náttúruauðlinda eins og frá sólarljósi, vindi, regni, sjávarföllum, sjávaröldum og jarðhita sem endurnýjast. Um 16% af orkunotkun heimsins á uppruna sinn í endurnýjanlegi orku ef með eru talin orkuvinnsla úr lifmassa. Hlutur endurnýjanlegrar orku í framleiðslu rafmagns er nálægt 19%, mest frá vatnfallsvirkjunum.

Talsverð aukning er í endurnýjanlegum orkugjöfum. Aukning frá vindorkuverum hefur verið 20 % á ári og heildarframleiðsla hennar nam 238.000 MW í árslok 2011. Nýting sólarorku hefur tvöfaldast á hverju ári frá 2007 nam um 67.000 MW á síðasta ári, veruleg aukning hefur verið í orkuframleiðslu frá jarðhitaverum í Bandaríkjunum. Aukning hefur einnig verið í framleiðslu úr lífmassa og sem dæmi nam eldneytisframleiðsla á ethanol úr sykurreyr í Brasilíu 18% af bifreiðareldsneytinotkun þar og er einnig slík framleiðsla víða í Bandaríkjunum.

Alþjóða orkumálastofnunin áætlar að megnið af rafmagnsframleiðslu heimsins eftir 50 ár muni koma frá sólarorku og minnka þannig stórlega gróðurhúsalofttegundir sem eru taldar skaða andrúmsloftið.

Sjálfbærni (Sustainability) er getan til að fara í gegnum endurnýjun, viðhald og afkomu án þess að ganga á möguleika framtíðarinna. Fyrir fólk í samfélagi eða vistkerfi er sjálfbærni langtíma ábyrgð á umhverfis,-efnahags og félagsþáttum og endurspeglar góða búmennsku og ábyrga stjórn á búforðanum. Í vistkerfi lýsir sjálfbærni sér í hvernig lífskerfi viðhalda fjölbreytileika sínum, styrk og framleiðslu til lengri tíma sem er nauðsynleg fyrir velferð manna og annara lífvera. Ósnert og lífvæn votlendi og skógar eru dæmi um sjálfbær lífkerfi. Það eru tvær meginaðferðir til að stjórna áhrifum manna á vistkerfin. Önnur er umhverfisstjórnun, hún byggir á upplýsingum frá vísindamönnum í jarðfræði-umhverfis og líffræði. Hin nálgunin er stjórn á nýtingu auðlinda sem byggja aðallega á upplýsingum hagfræðinnarSjálfbærni mannlegra samfélaga skarast oft á við afleiðingar af starfsemi efnahagslífsins. Að koma á sjálfbærni samfélaga jafnframt því að viðhalda mestum lífsgæðum er félagsleg áskorun sem snýr m.a. þáttum eins og að landslögum, alþjóðasamþykktum, skipulags- og flutningsmálum, lífsmáta samfélaga, einstaklinga sem og siðvenja. Orðið sjálfbærni (Sustainability) hefur frá 1980 verið notað til að lýsa hefur verið notað til að lýsa sjálfbærni mannkyns á jörðunni og síðar tengt hluta hugtaksins „sjálfbær þróun“ (sustasustainable development) er kom fram í skýrslu Sameinuðu Þjóðanna, þ.e. „Brundtlandnefndarinnar“, árið 1987 og var skilgreint þannig: „Sjálfbær þróun er þróun sem mætir þörfum nútímans án þess að skerða þarfir og möguleika komandi kynslóða„ 

Á Heimsráðstefnunni 2005 var viðurkennt að sjálfbærni útheimti samþættingu þriggja stoða. – Umhverfisins, –félagslegs jafnræðis og –efnahags. Þar tókust á viðhorf ríkra og fátækari ríkja, en þau síðarnefndu töldu sig hafa sama rétt fyrir samfélög sín með nýtingu auðlinda sínna til að byggja upp efnahag til jafnræðis við ríkari þjóðir. Átök eru hins vegar enn á milli umhverfisog og efnahagsstoðanna um allan heim um skilgreininguna.

ÍSLAND. Orkunotkun á Íslandi 2010. Hlutur endurnýjanlegrar orku sem notuð er hér á landi er 85% og innfluttir orkugjafar eru 15%. Af innlendu orkunni koma 19% frá vatnfallsvirkjunum, 66% frá nýtingu jarðhita (að mestu til hitaveitu) og innfluttir orkugjafarnir; olía 13,5% og kol 1,5%. Ekki er í augsýn að innlendir orkugjafar úr lífmassa komi í stað olíu til véla, farartækja, skipa og flugvéla nema að litlu leyti.

Raforka á Íslandi. Af 17.000 GWh sem er virkjuð til rafmagnsnotkunar á Íslandi kemur 12.600 GWh (74%) frá vatnsfallsvirkjunum og 4.400 GWh (26%) frá jarðhitavirkjunum. Talið er að þetta sé um 30% af mögulegri 55-65.000 GWh raforkuframleiðslu hér á landi. Af þessari hugsanlegu viðbót, 38-48.000 GWh, er áætlað að 55% komi frá vatnsaflsvirkjunum og 45% frá jarðhitavirkjunum. Af þessari raforku fara 80% til stórnotenda en 20% til heimila og smærri fyrirtækja. Árleg aukning til almennra nota er um 50 GWh á ári.

Framtíðin. Íslendingar finna mjög fyrir þrýstingi á að virkja orkuauðlindir sínar, bæði innanlands til stóriðju, m.a . til álvera sunnan og norðanlands, kísilverksmiðja og fleirri orkufrekra verksmiðja. Þrýstingur kemur einnig að utan m.a. með heimsókn orkumálaráðherra Bretlands hingað til land til að hvetja til lagningu sæstrengs til Skotlands og svo skoðun Landsvirkjunar á þeim möguleika. Landsvirkjun hefur haldið því á lofti að gott væri að getað selt tímabundna afgangsorku á háu verði inná sæstreng til Evrópu, en það hefur einnig komið fram að það magn sé enn alltof lítið til að lagning strengs sé arðsöm. Nefnt hefur verið að tvöfalda þurfi raforkuframleiðsluna til að slík fjárfesting borgi sig. Eigum við að fjárfesta í virkjunum til að efla íslenskt atvinnulíf eða erlent? Það sem einkennir umræðuna um virkjun er sala til stóriðju og hún tend áherslu á atvinnu og erlenda fjárfestingu, aðrir möguleika til að nýta þessa orku til uppbyggingu atvinnugreina sem gæti haft mun lengri líftíma og nýtt hana á vistvænni hátt hafa ekki farið hátt. Við þurfa að svarar þeirri spurningu, hversu mikið af mögulegri orku eiga núverandi íslendingar að nýta, eða skilja eftir til kynslóða framtíðarinnar? Ef virkjað er, hversu afturkræfar eru þær framkvæmdir ef framtíðin kýs að leggja þær af?    

Siðfræði og stjórnmál.

Ef leita á fyrirmynda í siðfræði stjórnmála í dag þá lenda menn í vandræðum. Nánast enga leiðsögn er að finna í grundvallaratriðum sem komið hefur frá leiðtogum stjórnmálanna síðustu rúma eina öld eða meira.

Nóbelsverðlaunahafinn í eðlisfræði Joseph Rotblat sagði um siðfræði og stjórnmál: “Það eru raunarleg eftirmæli stjórnmálamanna á Vesturlöndum að “siðfræði” og “stjórnmál” skuli vera álitin andstæð hugtök. Eins og kalk og ostur, eru siðfræði og stjórnmál ekki talin fara saman. Stjórnmál eru álitin lítt trausvert starf “.

Þetta er ekki ný skoðun, Jonathan Swift, rithöfundur sagði: “Stjórnmál eru almennt álitin ekkert annað en spilling.”

Almenn óánægja er um allan heim  með forystu stjórnmálamanna, um það vitna fjöldamótmæli og pólitísk vakning víða um heim nú um þessar mundir. Flest önnur svið mannlegra starfa njóta meiri virðingar en stjórnmál. Hvað er það sem gerir þetta að verkum?

Alveg frá dögum hinna grísku hugsuða og arkitekta vestrænnrar menningar hafa siðfræði og stjórnmál verið viðfangsefni  heimsspekinga. Frá Aristóteles til Páls Skúlasonar er “Siðfræði og stjórnmál” umfangsefnið. Öll sú umræða hefur snúist um veikleika og styrkleika mannsins, og það er nokkuð víst að íslenskir stjórnmálamenn hafa lesið þá báða.

Ef litið er yfir söguna er ljóst að valdamenn hafa löngum beitt valdi sínu sér til hagsbóta. “Valdið spillir”,segir einhverstaðar. „Óheft vald hefur tilhneigingu til að spilla huga þeirra sem ráða því” er haft eftir William Pitt forsætisráðherra Bretlands árið 1770.

Hér á Íslandi snýst umræðan um hrunið í grunninn um siðfræði stjórnmálanna, eða öllu heldur um spillingu stjórnmálamanna sem birtist í hagsmuntengslum stjórnmála og fjármála. Yfirklór stjórnmálamanna eftir hrunið er að setja lög og reglur um fjármál stjórnmálaflokka og nýjar siðareglur fyrir stjórnarráðið til að friða reiðan almenning.

Ráð Lao-Tse um hófsama stjórnsýslu sem rituð voru fyrir 7.000 árum eru enn í gildi. Í ljósi reynslunnar er kominn tími til þess að þróa nýjar aðferðir í  stjórnmálum. Hefðbundið þingræði þar sem kosið er á fjögurra ára fresti hefur sýnt annmarka sína og galla. Stjórnmálamenn virðast margir hafa gleymt því að þeir eru fulltrúar almennings og almannahagsmuna, en ekki sérhagsmuna.

Svarið við þeirri kreppu sem nú er í stjórnmálum um allan heim er ný hugsun um stjórn samfélagsins. Opið stjórnkerfi, valddreifing og raunverulegt lýðræði í ákvarðanatöku um sameiginlega hagsmuni. Besta leiðin til þess að koma í veg fyrir spillingu og sérhagsmunagæslu í þágu afmarkaðara valdahópa er raunveruleg dreifing valdsins, bæði í stjórnsýslu og viðskiptum.

Hagsmunir almennings eru grundvöllur hagsælar.

 

Af hverju þarf að breyta kvótakerfinu?

Markmiðið með kvótakerfinu.

Í núverandi lögum um stjórn fiskveiða segir um markmið laganna:
1. gr. Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

Markmið laganna er skýrt en spyrja verður hvort heimildir í lögunum til tilfærslu aflaheimilda, sem skapa átti hagkvæmni og hagræðingu, hafi í raun farið úr böndunum og komið niður á markmiðinu um trausta atvinnu og byggð í landinu?

Kvótaleiga.

Nokkuð víðtæk samstaða er um að þjóðin eigi og fái notið arðs af nýtingu sjávarauðlindarinnar en ekki eingöngu útgerðirnar. Fram til þessa hafa handhafar kvótans ekki aðeins notið arðsins í rekstri sínum heldur hafa margir fénýtt hann með leigu til kvótaminni útgerða. Ennfremur hafa margir horfið úr greininni og hagnast gífurlega með sölu varanlegs kvóta til annara útgerða.

Undanfarin áratug hafa kvótalausar útgerðir leigt á bilinu 25-50% af þorsk-, ýsu- og ufsakvótanum sem leigður hefur verið út á hverju ári í kvótakerfinu.1) Kvótaleiga til kvótalítilla útgerða á árunum 2003-2010 nam samtals á þessum átta árum 32 milljörðum.

Kvótaleiga hefur myndað stóran hóp leiguliða en um þriðjungur skipa í kvótakerfinu hefur lítinn sem engan kvóta og eiga allt undir kvótameiri útgerðum um afkomu sína. Það hefur valdið því m.a. að sjómenn á kvótalitlum skipum hafa verið á mun lakari kjörum en aðrir sjómenn. Útgerðir með nægan kvóta hafa nýtt sér þessar aðstæður og látið kvótalítil skip fiska upp í aflaheimildir sínar fyrir lægra fiskverð en þær þyrftu að greiða til eigin skipa.

Samþjöppun kvótans og kvótasala.

Mikil fækkun útgerða hefur átt sér stað á síðustu tveimur áratugum. Árið 1991 voru 1.093 útgerðaraðilar með kvóta í þorski en árið 2010 voru þeir komnir niður í 156 útgerðir í kvótakerfinu og 196 útgerðir í smábátakerfinu1) og hafði því fækkað um 740 útgerðir samtals. Samhliða hefur orðið mikil samþjöppun á aflaheimildum. Á fiskveiðiárinu 2009/2010 nam úthlutun aflaheimilda 362.000 þorskígildum til 321 útgerða. Þar af nam úthlutun þeirra 18 kvótahæstu 72,2% af heildarkvótanum.

Samkvæmt upplýsingum heimilda1) voru miklar hreyfingar á aflahlutdeildum á árunum 2003 til 2010. Hreyfingar vegna kaupa á aflahlutdeild milli óskyldra útgerða námu 40 % af úthlutuðum kvóta á þessu tímabili. Á sama tíma hækkaði verð á aflahlutdeild í mikilli verðbólu um nærri 400%.

Mikil verðmæti hafa skipt um hendur í viðskiptum um aflahlutdeild (varanlegar heimildir) Upplýsingar um verð og magn aflahlutdeildar 1) á árunum 2003-2010 sýnir að verðmæti þessara viðskipta námu um 267 milljörðum.

Krafa um breytingar.

Stjórnvöld ákváðu að heimila framsal kvóta innan fiskveiðiársins og svo varanlegra heimilda á milli útgerða til að ná fram hagræðingu af því að laga stærð fiskiskipaflotans að leyfðum afla. Gagnstætt markmiðum laga um stjórn fiskveiða hefur hagræðingin sem ná átti með framsali (leigu og sölu kvóta) búið til hálfgert lénsskipulag í leigu á kvóta og kippt mikilvægum stoðum undan atvinnulífi margra sjávarbyggða með tilheyrandi atvinnumissi og fólksflótta. Þessar afleiðingar kvótakerfsins svokallaða hafa ýtt undir sterka kröfu almennings um uppstokkun á kerfinu .

Þær breytingar sem núverandi stjórnvöld ákváðu að hrinda í framkvæmd, hafa ekki náð fram, þ.e. svonefnd fyrningarleið, enda var hún ekki raunhæf. Ef tryggja á heilbrigðan sjávarútveg verður að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu þannig að kerfið losni úr fjötrum lénskerfis, ofurskuldsetningar aflaheimilda og snúi við hnignun sjávarbyggða.

Kerfisbreyting.

Til að breyta kerfinu þarf að afnema aflahlutdeildarkerfið sem hefur verið nokkurskonar trygging fyrir framtíðarafnotum en taka í þess stað upp nýtingasamninga milli stjórnvalda og útgerða sem greitt verði nýtingargjald fyrir. Samhliða því að ríkið taki til sín allar heimildir verður það einnig að taka til sín skuldsettar aflaheimildir m.a. til að tryggja jafnræði milli þeirra sem hafa mjög skuldsettar aflaheimildir vegna kvótakaupa og þeirra sem fengu þær endurgjaldslaust. Þau lán greiðast niður af framtíðarnýtingargjaldi.

Það sem fæst við þessa breytingu er skýr eignarréttur þjóðarinnar á auðlindinni, meira jafnræði milli útgerða með nýtingarsamningum og afnám kvótaleigunnar. Við útfærslu á þessu kerfi verður að taka mið af núverandi aðstæðum í atvinnugreininni.

Til að snúa við hnignum sjávarbyggðanna verður að færa þeim aftur réttinn til sjósóknar sem hefur verið forsenda tilveru þeirra síðustu 100 árin. Tryggja verður að nýtingargjald sem til verður á svæðunum skili sér til viðkomandi sveitafélaga sem einskonar aðstöðugjald. Útgerð smábáta á að efla á þessum svæðum og binda þann rétt við búsetu. Þannig fæst drifkraftur í sjávarbyggðirnar aftur og húsnæði og framleiðsluhús sem nú eru ónýtt víða um land komast aftur í nýtingu og fá verðgildi að nýju.

1) Skilvirkni markaða fyrir aflaheimildir – Hagfræðistofnun
hhi.hi.is/sites/hhi.hi.is/files/C…/C10_04.pdf

2) Starfsskýrsla_2010. Fiskistofa