Herúlar.

Sigurbjörn Svavarsson

Herular.  Í umróti þjóðflutninganna í Evrópu og síðar þegar þjóðflokkarnir voru að koma sér fyrir í norðanverðri Evrópu og Skandinavíu, var þjóðflokkur sem kallaður var af sumum sagnariturum, Herúlar, herskár og þekktur fyrir að vera atvinnuhermenn, m.a. hjá Rómverjum. Þeir voru talsvert á flakki á tímum þjóðflutninganna 200-800 árum E.K og skiptust upp nokkrum sinnum og runnu saman í tímans fljóti við aðra þjóðflokka.

Einkenni þeirra voru sterk fyrir marga hluta sakir. Barði Guðmundsson f. Þjóðbókarvörður hélt því fram eftir rannsóknir sínar að margir landnámsmanna sem komu frá Noregi til Íslands hafi borið sérkenni þessa þjóðflokks með sér, m.a. skáldahefðina, Freydýrkunina, sterkari áhrif kvenna, og færir fyrir því heilstæð og sannfærandi rök í hinni stórfróðlegu bók „Uppruni Íslendinga“ sem kom út 1959 og var byggð á mörgum ritgerðum þar sem hann fjallar um einkenni þessa þjóðflokks í íslenska landnáminu. Þeir hafi  verið nefndir Skjöldungar og hálfdanir í Fornaldarsögum og það hafi verið þeir sem báru uppi skáldsagnamenntunina á Norðurlöndum. Saurbæjarmenningin á Norðurlöndunum og síðar á Íslandi hafi menning þeirra tekið með sér Galtar og svínatákn í nöfnum og sögnum sem hvergi finnist með eins skýrum hætti  annarsstaðar.

Hér er hluti ritgerða Barða Guðmundssonar:

Íslenzkt þjóðerni.

Uppruni íslenskrar skáldmenntar. Skáld, hringsverði, hildisvín

Uppruni íslenskrar skáldmenntar. Skáld, kyngi, kvenréttindi.

Annar norrænufræðingur Nils C. Lukman kemst að svipaðri niðurstöðu að Herúlar hafi verið jarlarnir í danska konungsdæminu.

Fleirri hafa síðan rannsakað sögu Herúla. m..a  danski sagnfræðingurinn Troels Brandt. Meðfylgjandi PDF skjal ,The Herules, er samantekt á rannsóknum hans á þessum þjóðflokk. Hún gefur yfirlit um sögu þeirra sem spannar ferðalag þeirra frá Skandinavíu til Svartahafs og norður aftur til Norðurlanda. Á sjöttu öld settist hluti Vestur-Herúla að á Gotlandi og suðurhluta Noregs. Höfðingjar þessa þjóðflokks gekk undir nafninu „Jarlar“. Önnur samantekt yfir heimildir um Herula 268-568 E.K.   Herules Scandinavian backgrounds

Nokkrar greinar um keninngu Barða Guðmundssonar:

Herúlar- Uppruni Íslendinga Gunnar Gunnarsson

Uppruni Íslendinga Ólafur Sigurgeirsson

Herular- Loftur A. Þorsteinsson

Finnska stjórnarskráin-nútímaleg.

Finnska stjórnarskráin fór í heildarendurskoðun á árunum 1995-1999 og tók gildi árið     2000.  Mestu breytingarnar voru að mannréttindakaflinn var uppfærður, þingið eflt og það   er  einnig ljóst að breytingar á finnsku stjórnarskránni árið 2000 miðuðu að því að draga heldur  úr völdum forsetans.

Mörg merkileg ákvæði eru í finnsku stjórnarskránni, en hér er hlaupið  yfir það helsta.

Valdið-stjórnskipulag.

Í finnsku stjórnarskránni, 2. grein, segir: “ríkisvald er í höndum þjóðarinnar en þingið er fulltrúi hennar”. Þá er þar einnig ákvæði um að í lýðræði felist réttur einstaklinga til að taka þátt í og hafa áhrif á þróun þjóðfélagsins og lífsskilyrða.

Þá má geta 2. gr. þar sem segir: „ Lýðræði felur í sér rétt einstaklinga til að taka þátt í og hafa áhrif á þróun þjóðfélagsins og lífsskilyrða sem þeir búa við.“ Þarna er vísað til „lífsskilyrða“ og virðist nærtækt að náttúran og umhverfið heyri þar undir.

Þingræðisreglan kemur einnig fyrir í 3. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir: „Framkvæmdarvald er í höndum forseta lýðveldisins og ríkisstjórnar, en meðlimir hennar verða að njóta trausts þingsins.“

Jafnrétti –Tjáningarfrelsi – Kosningar.

Jafnréttisákvæði finnsku stjórnarskrárinnar í 6. gr. er ítarlegra en íslenska ákvæðið að því leyti að talað er um heilsu og fötlun sem þætti sem ekki má nota eina og sér til að réttlæta mismunun. Hins vegar er ekki getið ýmissa annarra þátta sem koma fyrir í íslenska ákvæðinu eins og efnahags og ætternis. Þá er í finnsku jafnréttisgreininni einnig ákvæði um rétt barna.

Ákvæði um fatlaða eru í þremur greinum hennar. Sjötta greinin fjallar um jafnrétti og bann gegn mismunun vegna ýmissa orsaka og þar á meðal fötlunar; í 17. gr. er fjallað um rétt heyrnarlausra til táknáls og kveðið á um löggjöf í því sambandi og 19. greinin fjallar um réttinn til almannatrygginga.

Þá er vert að nefna tjáningarfrelsisákvæðið í 12. gr. sem segir m.a.: “Skjöl og gögn í vörslu stjórnvalda eru öllum aðgengileg nema birting þeirra hafi af brýnum ástæðum verið takmörkuð með lögum.

Í finnsku stjórnarskránni er einnig ákvæði um “kosninga- og þátttökuréttindi”. Þar segir í 14. gr. m.a. að útlendingar sem hafi fasta búsetu í Finnlandi njóti kosningaréttar í sveitarstjórnarkosningum. Ennfremur segir þar að stjórnvöld skuli “stuðla að tækifærum fyrir einstaklinginn til að taka þátt í félagslífi og hafa áhrif á ákvarðanir sem snerta hann”.

Þá segir í 14. grein (kosninga- og þátttökuréttur) að yfirvöld skuli stuðla að möguleikum fyrir einstaklinginn til að taka þátt í félagsmálum og hafa áhrif á ákvarðanir sem varða hann. Þess má geta að í almennum kosningum getur kjósandinn sjálfir raðað frambjóðendum flokka (lista) í kjörklefanum. Þannig má segja að persónukjör forvals eða prófkjörsaðferðarinnar íslensku sé komið í kjörklefann.

Finnska stjórnarskráin gerir einungis ráð fyrir ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Segir í 53. grein að taka beri ákvörðum um slíka atkvæðagreiðslu með lögum – það þýðir væntanlega að meirihluti þingmanna þarf að óska eftir henni.

Náttúra-Auðlindir.

20. grein stjórnarskrárinnar frá árinu 2000:

Ábyrgð á umhverfinu Náttúran og fjölbreytileiki lífríkisins, umhverfið og þjóðararfurinn eru á ábyrgð allra. Stjórnvöld skulu keppa að því að tryggja öllum rétt til heilnæms umhverfis og möguleikann á að hafa áhrif á ákvarðanir sem varða þeirra eigin lífrænt umhverfi.

Þingið.

38. grein

Þingið skipar umboðsmanns og tvo menn honum til aðstoðar til fjögurra ára. Skulu þeir hafa afburða þekkingu á lögum. ..

Þingið getur, að fengnu áliti stjórnlaganefndarinnar, vikið umboðsmanni úr embætti áður en skipunartími hans er úti ef sérlega þung rök mæla með því, enda sé sú ákvörðun studd með atkvæðum að minnsta kosti 2/3 þeirra sem greiða atkvæði. Sömuleiðis er að finna í stjórnarskránni ítarleg ákvæði um aðhald þingsins með framkvæmdarvaldinu og rétt þingmanna til upplýsinga.

Þá er einnig í finnsku stjórnarskránni athyglisvert ákvæði um að mál falli ekki niður milli þinga nema þegar kosningar hafa verið haldnar í millitíðinni, sbr. 49. gr. Þetta er önnur regla en hér á landi. Ennfremur segir þar í 50. gr. að þingnefndir megi halda opna fundi þegar verið er að safna upplýsingum um mál til undirbúnings ákvarðanatöku.

Eitt af þeim hlutverkum sem þjóðhöfðingi hefur víða haft er ákveðið frumkvæði við myndun ríkisstjórnar. Þróunin hefur hins vegar orðið sú að ef ljóst er hver hafi unnið kosningar eða fyrir liggur að kominn sé starfhæfur meirihluti þá gengur þjóðhöfðinginn ekki gegn því. Í finnsku stjórnarskránni var þessi þróun meira að segja útfærð við breytingarnar árið 2000. Samkvæmt 61. gr. kýs þingið forsætisráðherra eftir samráð milli þingflokkanna. Hlutverk forseta er þar að tilkynna þinginu formlega hver sé forsætisráðherraefni eftir að hafa ráðfært sig við forseta þingsins og þingflokkana og áður en gengið er til kosningar. Að þeim loknum skipar forsetinn forsætisráðherra í embætti.

Ákvæði eru til dæmis kveðið á um að ráðherrar í ríkisstjórn beri í sameiningu ábyrgð á ákvörðunum hennar nema þeir hafi látið bóka mótmæli í fundargerð, sbr. 60. gr. Þá eru þar ákvæði um skyldur forsætisráðherra, 66. gr., og reglur um ákvarðanatöku á ríkisstjórnarfundum, sbr. 67. gr.

Ákvæði eru um að ráðherra megi ekki gegna neinu öðru starfi í þágu hins opinbera eða einkaaðila. Þá megi hann ekki aðhafast neitt það sem gæti skaðað traust almennings á honum og að ráðherra skuli þegar eftir að hann tekur við embætti skýra þinginu frá eigna- og hagsmunatengslum sem skipt geta máli við mat á störfum hans.

Athyglisvert er að umræður eru ekki nema tvær um lagafrumvörp samkvæmt 41. gr. r, sbr. einnig 72. gr. Samkvæmt 72. gr. verða að líða að minnsta kosti þrír dagar milli fyrstu og annarrar umræðu. Stjórnlaganefnd þingsins ber að gefa álit á því hvort lagafrumvörp standist gagnvart stjórnarskránni og alþjóðlegum mannréttindasamningum, skv. 74. gr.

Ítarleg ákvæði eru um samþykkt laga. Þar segir í 77. gr. að forseti hafi 3 mánuði til að undirrita lög og geti hann á því tímabili aflað álits Hæstaréttar og æðsta stjórnsýsludómstólsins á lögunum. Ef forseti staðfesti ekki lögin þá fari þau aftur til umfjöllunar í þinginu. Samþykki þingið lögin óbreytt þá taki þau gildi án staðfestingar forseta. Þarna er því ekki um neitunarvald að ræða heldur fremur vald til að fresta gildistöku laga. Meginþýðing þessa valds, sem hefur verið í stjórnarskránni frá 1919, er að þannig skapast möguleiki á að afla álits Hæstaréttar eða æðsta stjórnsýsludóm-stólsins á lögum áður en þau ganga í gildi.

Fullveldisafsal.

ákvæði í, 94. grein, hljóðar svo:

Ákvörðun um að samþykkja eða segja upp alþjóðlegri skuldbindingu er tekin með meirihluta greiddra atkvæða. Hins vegar, ef tillagan varðar stjórnarskrána eða breytingu á landamærum ríkisins, þá ber að taka slíka ákvörðun með fulltingi að minnsta kosti 2/3 hluta þeirra sem greiða atkvæði. Alþjóðleg skuldbinding má ekki stofna lýðræðislegum grundvelli stjórnarskrárinnar í hættu.

Dómsvaldið.

Stjórnarskráin segir um skipun dómara einfaldlega að embættisdómarar séu skipaðir af forseta í samræmi við lög. Ekki megi víkja dómara úr embætti nema með dómi. Þá er athyglisvert að bæði Hæstiréttur og æðsti stjórnsýsludómstóllinn mega leggja til lagaumbætur við ríkisstjórnina eins og tekið er fram í 99. gr.

Loks er svipað ákvæði (106. gr.) og í sænsku stjórnarskránni um að telji dómstóll í tilteknu dómsmáli að beiting lagaákvæðis myndi augljóslega stríða gegn stjórnarskránni þá beri að víkja því til hliðar. Ákvæðið kom nýtt inn í stjórnarskrána árið 2000 og hefur síðan reynt einu sinni á þessa heimild, en þá var lagasetning um friðun húsa talin andstæð eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Stjórnlagadómstólar.

Ákvæði um meðferð dómsvalds eru mikilvægur þáttur í hverri nútímalegri stjórnarskrá. Uppbygging dómskerfis er ákaflega mismunandi frá einu ríki til annars. Til dæmis má geta þess að stjórnsýslu-dómstólar eru við lýði í Finnlandi og Svíþjóð og mörgum ríkjum sunnar í álfunni eins og Frakklandi og Þýskalandi. Þeir þekkjast hins vegar ekki í Noregi, Danmörku og Íslandi. Þá hafa sérstakir stjórnlagadómstólar verið settir á fót í mörgum Evrópuríkjum er hafa það hlutverk meðal annars að dæma um hvort lög stríði gegn stjórnarskrá. Vegna hins mikla valds sem stjórnlagadómstólar hafa hefur sérstök rækt verið lögð við að kveða á um sjálfstæði þeirra í stjórnarskrá.

Ráðherraábyrgð.

Stjórnarskráin geymir ítarlegar reglur um ráðherraábyrgð í gr. 114-116. Skipta má ferlinu í þrjú þrep. Ákvörðun um rannsókn á meintu broti er tekin af þinginu að kröfu að minnsta kosti 10 þingmanna. Stjórnlaganefnd þingsins tekur svo ákvörðun um hvort telja megi að lög hafi verið brotin. Ef svo er getur þingið ákveðið með einföldum meirihluta hvort viðkomandi ráðherra er ákærður frammi fyrir sérstökum dómstóli þar sem eiga sæti fimm dómarar úr æðstu dómstólum landsins og fimm þingmenn. Síðast reyndi á þessi ákvæði árið 1993 og var ráðherra þá fundinn sekur.

Efnið að mestu leyti unnið úr;
„Stjórnskipunarþróun í Evrópu“
Sérfræðinganefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar
Feb.2007

Réttindi í stjórnarskrám.

Margar stjórnarskrár geyma ákvæði um stjórnarform ríkisins og helstu      meginreglur stjórnskipunarinnar og jafnvel nokkurs konar heimspekilegan og  siðferðislegan grundvöll ríkisins.

Algeng eru ákvæði um uppsprettu ríkisvalds. Þannig segir í 1. grein sænsku stjórnarskrárinnar (Regeringsformen) að “allt almannavald stafar frá þjóðinni” og ennfremur að sænskt lýðræði sé byggt á “frjálsri skoðanamyndun og almennum og jöfnum kosningarétti”. Eðli þeirra réttinda sem tryggð eru í stjórnarskrá getur verið misjafnt. Hægt er að flokka réttindin á marga vegu:

Í fyrsta lagi má greina á milli réttinda eftir því hvort dómstólar geti byggt á þeim niðurstöðu eða ekki. Reyndar draga sumir í efa að réttindi sem ekki er hægt að fá fulltingi dómstóla fyrir séu eiginleg réttindi. Nær væri að tala um markmið sem ríkinu beri að stefna að. Má taka sem dæmi 22. gr. hollensku stjórnarskrárinnar þar sem segir: “Stjórnvöld skulu grípa til aðgerða til að bæta heilsu almennings.”

Í öðru lagi má flokka réttindi út frá því hvert sé hlutverk ríkisins við að framfylgja þeim. Þar má greina aðallega á milli annars vegar frelsisréttinda þar sem ríkinu ber fyrst og fremst að halda að sér höndum og hins vegar tilkallsréttinda þar sem ríkinu ber að láta eitthvað í té. Þessi skipting fer að nokkru leyti saman við skiptingu í stjórnmálaleg og borgaraleg réttindi annars vegar og félagsleg réttindi hins vegar. Til viðbótar vilja sumir meina að réttindi til þátttöku í starfsemi ríkisins séu sérstakur flokkur réttinda sem og réttindi sem tengjast réttlátri málsmeðferð. Eins er algengt að tala um mismunandi kynslóðir réttinda og er þá gjarnan vísað til réttar til friðar og heilnæms umhverfis sem nýjustu kynslóðarinnar í þeim efnum.

Víða hefur það álitamál uppi hvernig eigi að fara með hin svokölluðu félagslegu réttindi. Öðrum þræði eru réttur til vinnu, lífsviðurværis og húsnæðis svo dæmi sé tekið einhver mikilvægustu réttindi fólks og því jafnvel hugleiknari en hin svokölluðu borgaralegu og stjórnmálalegu réttindi (tjáningarfrelsi, félagafrelsi, friðhelgi einkalífs o.s.frv.).

Á hinn bóginn er mikil tregða til að viðurkenna réttindi með lagalega skuldbindandi hætti sem kosta fjárútlát af hálfu ríkisvaldsins.

Í sumum nýlegum stjórnarskrártextum er þetta vandamál leyst með því að hafa sérstaka kafla um “félagsleg markmið”,  sbr. t.d. 3. kafla svissnesku stjórnarskrárinnar frá árinu 2000. Þar segir að sambandsríkið og kantónurnar skuli kosta kapps um að tryggja að allir njóti almannatrygginga, heilbrigðisþjónustu, hentugs húsnæðis, menntunar og aðstoðar samfélagsins þegar eitthvað bjátar á vegna aldurs, fötlunar, veikinda, slysa, atvinnuleysis o.s.frv. Jafnframt er tekið fram að ákvæði þessi leiði ekki til þess að einstaklingar öðist lagalega bindandi rétt til framlaga af hálfu ríkisins.

Úr „ Stjórnskipunarþróun í Evrópu.“