Samin eftir hörmungar.

Þýska stjórnarskráin

Hin 60 ára gamla þýska stjórnarskrá er af mörgum, talin ein allra besta stjórnarskrá heims. Fyrir því eru þrjár megin ástæður;

Í fyrsta lagi kveður hún afar skýrt á um að allt ríkisvald spretti frá fólkinu sbr. 20. gr. Til að tryggja lýðræðisgrunninn enn betur er nokkuð ýtarlega fjallað um stjórnmálaflokka í stjórnarskránni. Það skilyrði er t.a.m. sett að stjórnmálasamtök sem bjóða fram til þings skuli byggja starf sitt á lýðræðisreglum. Þá er einnig kveðið á um fjármál stjórnmálaflokka í stjórnarskránni. Flokkum ber að gera opinberlega grein fyrir fjármálum sínum; bakhjörlum, styrkjum og í hvað styrkjum er varið.

Í öðru lagi kveður þýska stjórnarskráin á um ríka mannréttindavernd. Mannréttindaákvæðin eru fremst í stjórnarskránni sem felur í sér sterka yfirlýsingu um að fólkið hafi forgang. Í 1. gr. stjórnarskrárinnar segir að mannleg reisn njóti algerar friðhelgi og hana beri ríkinu að vernda. Þannig er annarsvegar kveðið á um rétt einstaklingsins til mannlegrar reisnar og hins vegar um skyldu ríkisins til að vernda þann rétt og tryggja. Með rétti einstaklingsins og skyldu ríkisvaldsins er enn fremur undirstrikað að ríkið hafi þann tilgang að þjóna fólkinu en ekki öfugt.

Í þriðja lagi starfar sérstakur stjórnskipunardómstóll skv. stjórnarskránni sem hefur m.a. það hlutverk að vernda lýðræðið og mannréttindin. Stjórnskipunardómstóllinn hefur komið sér upp sérstökum túlkunarreglum sem er ætlað að tryggja að hinar almennu grundvallarreglur sem settar eru fram í stjórnarskránni, fái raunverulega merkingu. Til samanburðar má nefna ýmis ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar, sem tekist hefur verið á um í áraraðir og margir efast um að hafi nokkra merkingu yfirleitt sbr. t.d. 26. greinina. Þýski stjórnskipunardómstóllinn kemur í veg fyrir túlkunarvanda af þessum toga og getur, ólíkt t.d. Hæstarétti Íslands, tekið afstöðu til stjórnarskrárákvæða óháð því hvort einstaklingar geti byggt rétt á þeim.

Þýska stjórnarskráin var samin í kjölfar mikilla hörmunga. Hún leysti af hólmi Weimar stjórnarskrána en hún var of veik til að hindra valdatöku Hitlers á þriðja áratug síðustu aldar.  Auðséð er að veikleikar Weimar stjórnarskrárinnar voru, við samningu hinnar nýju stjórnarskrár, notaðir sem leiðarvísir um hvernig stjórnarskrár eiga ekki að vera. Stjórnarskráin tekur þannig með beinum hætti á þeim vanköntum Weimar stjórnarskrárinnar sem m.a. urðu til þess að auðvelda Hitler valdatökuna. Þannig er t.d. kveðið á um í 21. gr. að stjórnmálaflokkar sem hafa andlýðræðislega stefnu glati stjórnskipulegum rétti til að bjóða fram. Dómgreind kjósenda er ekki treyst hvað þetta varðar. Þá er ekki gert ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum sem geta, ef þær eru ‚misnotaðar‘ lamað þjóðþingið. Þessi regla er einnig byggð á bitri reynslu Þjóðverja frá valdatíð Hitlers. Þó getur almenningur í þýsku sambandslöndunum kallað eftir allsherjaratkvæðagreiðslu um einstök lög.

Áherslan á mannréttindavernd er þó án efa skýrasta dæmið um þann lærdóm sem Þjóðverjar kusu að draga af hinni meingölluðu Weimar stjórnarskrá. Í Weimar lýðveldinu nutu mannréttindin ekki stjórnarskrárverndar og litið var á þau sem ólögfestar vísireglur en ekki bindandi og ófrávíkjanleg réttindi. Það felst því afar sterk yfirlýsing í því að gefa mannréttindunum stað í öndvegi stjórnarskrárinnar, framar öðrum stjórnskipunarreglum ríkisins.

Texti frá: http://www.samfelagssattmali.is/thyska-stjornarskraináherslur ogundirstrikanir SS

Bræðralag.

Hvað er bræðralag?

Ekkert er æðra í mannlegum samskiptum en bræðralag.

Leiðin til bræðralags verður til með hugsun og vinnu.

Vegurinn til bræðralags liggur hátt. Eins og fjallið sem er séð úr fjarska, svo er með bræðralagið. Kennari getur ekki krafist mikils, ef nemandinn er nærsýnn. Á uppgöngunni eru útlínur tindsins huldar. Við rætur fjallsins greinir maður ekki hæð þess, svo er með veginn til bræðralagsins, margar bugður eru á leiðinni. Við þurfum að venja okkur við að leiðin að markinu er torsótt. Við þurfum að læra að elska allar fyrirstöður, því grjót á leiðinni eru aðeins fótfesta á uppgöngunni. Sagt er að maður klífi ekki á sléttum steinum.

Bræðralag er háleit tjáning gagnkvæmra mannlegra samskipta. Þar ríkir óþvingaður og sjálfviljugur skilningur. Á stígum bræðralagsins er skilningur á háleitari hugsunum eðlilegur áfangi.

Bræðralag er stofnun í sjálfu sér, þar sem framlag bræðra fer ekki eftir vinnumagni, heldur markmiði. Hver verður að velja að vinna í kærleika að því markmiði. Í frjálsu starfi er nauðsynlegt að fyllast göfuglyndi og líta á hlutina með góðvilja. Bræðralag er nátengt kærleikanum

Bræðralag er samfélag þar sem unnið er að verkefnum en ekki aðeins dagsverkum.  Að sinna verkefnum verða menn að finna gleði vinnunnar.  Við  verður að hafa í huga að verkefnin eru óendanleg, og að vinnan við endurbæta og fullkomna sjálfa sig er einnig án enda.

Það er nauðsynlegt að leggja áherslu á grundvöll bræðralags. Enginn kemur á samstarfi með þvingunum.  Fólk uppgötvar af sjálfsdáðum nauðsyn samvinnunnar.  Á sama hátt mun það uppgötva staðreynd Bræðralagsins.

Hugtakið Bræðralag í samfélaginu.

Fyrir mörgum virðist sjálft bræðralags­hugtakið sem draumórar. Eyðið því ekki tíma í að ræða um fjarlæga heima við þá sem vita ekki eigin áfangastað í lífi sínu. Gætið vel að því, hvað hver maður er fær um að meðtaka.  Við byrjum ekki máltíð með því að bera fram eftirréttinn.  Það er ákaflega skaðlegt að færa fólki ómeltanlega fæðu.  Það er því enn meiri ástæða til að þjálfa með sér athyglisgáfuna.

„Bræðralag á jörðu er óhugsandi!“  Svo fullyrða margir og hafna með því í raun grundi  tilverunnar.  Þó hafa mörg bræðralög verið til á hinum ýmsu tímaskeiðum, og ekkert gat komið í veg fyrir tilvist þeirra.  Menn halda að það sem þeir sjái ekki, sé ekki til.  Slík fáviska hefur lifað og dafnað frá fornöld og allt til okkar tíma.  Ekkert getur þvingað neinn til að sjá það sem hann vill ekki sjá.  Það er tímabært að skilja og viðurkenna að raunveruleikinn er ekki eingöngu það sem er sýnilegt, því heimurinn er fullur af ósýnilegum veruleika.

Við skulum temja okkur aðgæslu þegar bræðralagshugtakið ber á góma.

Hin sanna fjölskylda er ímynd samfélagslífs.  Hún getur persónugert samvinnu og bræðra­lags. Veitum því heimilislífinu sérstaka athygli og uppeldinu innan þess. Heimilið og fjölskyldan getur sundrast vegna hugsana, en ekki vegna orða og athafna.  Í þögn er grafið undan undirstöðunum.  Án þess að veita því eftirtekt kynda menn sjálfir undir upplausnina.  Ekki eru til mörg heimili þar sem unnið er saman af fullkomnum skilningi.  En sérhvert slíkt heimili er skref í átt til bræðralags.

Ekki er hægt að byggja upp ríki ef ekki er hugað að uppbyggingu heimilis.

Hvaða hugmynd geta menn gert sér um bræðralag, ef þeir hafa engan skilning á göfgi þeirra stofnana sem nefnast ríki og heimili?  Engin fyrirmæli geta endurvakið virðingu sem búið er að afmá.  Nauðsynlegt er að rækta hana með menntun, með viður­kenningu á gildi víðtækrar þekkingar og nákvæmra vísindalegra rannsókna.  Aðeins á þann hátt geta menn aftur minnst þess hvað mannúð er. Skilningur á bræðralagi mun byggjast á því að menn hafi náð stigi mannúðar.

Menn eru fúsir til að sækjast eftir bræðralagi sem fellur að fyrirfram mótuðu hugmyndum þeirra.  En ef þeim er sagt frá því að þar séu deilur ekki leyfðar, dvínar áhuginn hjá stórum hluta þeirra.

Að rækta bræðralag.

Allir skilja ef rætt er um nauðsyn þess að vernda umhverfið.  Einföldustu hugtökin varðandi umhyggju eru traustasti grunnurinn til að byggja á samvinnu bræðralags.  Það er æskilegt að öll samvinna sé um leið þjálfun í umönnun.  Með henni er einnig tjáð aðgát, umhyggja, samúð og sjálfur kærleikurinn.  Hversu mikla orku má ekki spara með umönnuninni einni saman!  Hægt er að koma reglu á svo margt með einfaldri umönnun.  Við getum ekki gert okkur í hugarlund hve mikið geislahjúpur heimilis styrkist þar sem umönnun er auðsýnd af innileik og staðfestu.  Þó fólk hafi ekki skilning á himnesku bræðralagi, mun umhyggjan stuðla að því að bæta ástandið — það gerist einfaldlega með því að menn sýni hver öðrum umhyggju!  Hér erum við ekki að tala um neina mikla skyldu, en samt er hún hornsteinninn.

Bræðralag eða samvinna?  Ekki er unnt að gera skörp skil þar á milli.  Menn vilja helst að hugtök séu mjög greinilega aðgreind.  En margt blandast inn í hugtökin frá öðrum hugtökum.  Þannig er samvinna sem fordyri bræðralags; gætum því vegarins að virki andans. Þannig verður samvinna til að búa menn undir skilning á bræðralagi. Þegar við ræðum um samvinnu og jafnvel bræðralag, ber traustið líka á góma.

Sá sem ekki hefur traust á bróður sínum skilur ekki hinar fögru agareglur bræðralags.  Einmitt agi, því ekki er hægt að nefna öðru nafni það sjálfviljuga samræmi sem felst í undirstöðum Bræðra­lagsstarfsins.  Bræðurnir sameinast í starfi, og ef traust skortir væri starf þeirra lítils virði.

Bræðum lærist að skilja  samvinnu, traust og aga. Hvers konar bræðralag er mögulegt ef undirstöðurnar vantar? Ógerlegt er að takmarka slíka einingu, því hún grundvallast á kærleik.

Á þeim leiðum sem liggja til bræðralags er einnig þörf á óeigingirni. Að líkindum mun mörgum finnast erfitt að uppfylla slíkt skilyrði.  Þeir gera sér ekki grein fyrir því hversu oft þessi eiginleiki birtist, jafnvel við hversdagslegar aðstæður.  Við sérhvern innblástur, hvern blossa eldmóðs, er ætíð óeigin­girni að finna.

Við þurfum að skilja að miklar skyldur fylgja því að nálgast svo háleitt hugtak sem Bræðralagið.  Nota þarf viljann til að losa sig við hvern smávægilega vana.  Að auki getur vani, sem virðist vera yfirunninn, birtist aftur sem tvíefldur; það bendir til þess að gallinn hafi verið áfram til djúpt í vitund­inni.

Það er ekki hið augljósa, heldur hin góða frumhvöt sem finnst í hjartanu sem birtir fegurð bræðralags, meiri fegurð en fræknustu dáðir.  Aðeins maðurinn sjálfur veit hvernig sérhver háleit tilfinning verður til innra með honum.  Hann getur fylgst með vextinum hið innra.  Því er besti dómarinn innra með hverjum manni. En látum sérhvern muna að jafnvel í jarðneskri tilveru er óhlutdrægt vitni að öllum gjörðum — það er frumorkan.

Hver er tilgangurinn?

Metum mikils þann tíma sem við verjum til að vinna að uppbyggingu bræðralags.  Þjónusta felst ekki í því að stuðla að hamingju í venjulegum skilningi, heldur í því að vinna mannkyninu gagn. Gagnið felst í því að láta háleit sjónarmið bræðralags breiðast út um samfélagið.

Sjálfsfórn er ein hinna sönnu leiða til Bræðralags.  Hvers vegna er þá brýnt fyrir mönnum að varðveita krafta sína?  Í þessu er enga mótsögn að finna.  Leiðin gullna, leið samræmis, leggur áherslu á hvort tveggja — að ná árangri og gæta varúðar.

Þegar maðurinn íklæðist jarðneskum hjúpi verður hann að vinna að framgangi hins góða og á þann hátt að fullkomna sig — svo mælir viska aldanna.  Yfir hliðum Bræðralagsins ljómar ætíð þessi sáttmáli.  Þetta er ekki í andstöðu við skilning þeirra sem gera sér grein fyrir hinni óbirtu og endalausu illsku ófullkomnunar.

Þó ekki sé hægt að komast hjá ófullkomleikanum, eru til greinar starfs sem fela fullkomlega í sér hið góða.  Er ekki starf bóndans gott?  Er ekki fögur sköpun góð?  Er ekki háleit verkkunnátta til góðs?  Er þekkingin ekki af hinu góða?  Er þjónusta við mannkynið ekki til góðs?  Hægt er að fullyrða að kjarni lífsins er hið góða, en vegna tregðu sinnar til að fullkomnast kjósa margir þó fremur að viðhalda fáfræði sinni, með öðrum orðum, að viðhalda hinu illa.

Samantekt úr bókinni Brotherhood, þýtt og endursagt.

Alþingi-Almenningur.

Friðhelgi einstaklingsins og fjölskyldunnar er forsenda einingar í samfélaginu og velferð þjóðfélagsins hvílir á traustum stoðum fjölskyldunnar. Eining fjölskyldunnar er grunnstoð samfélagsins, fyrirmynd þess og styrkur.

Sáttmáli samfélags þarf að hafa sömu gildi og fjölskyldan byggir á: Samhug, samvinnu og samábyrgð. Hlutverk samfélagsins er að viðhalda, treysta og verja þessi gildi.

Stjórnarskrá er sáttmáli sem treystir jafnrétti , frelsi og vernd þegnanna. Á að taka til verndar umhverfisins og tryggja að auðlindir þjóðarinnar séu í eigu samfélagsins. Tryggja þátttöku almennings í mikilvægum ákvörðunum um þjóðarhag.

 

Ákvörðunar /þátttökurétt  almennings:

  • Þjóðar atkvæðagreiðslur
  • Kosningafyrirkomulag
  • Endurskoðun stjórnarskrár

Rétt þegnanna gagnvart stjórnvöldum:

  • Þegnréttur/vernd
  • Jafnrétti
  • Gegnsæi

Forseti, Alþingi,-framkvæmda-og dómsvalds:

  • Hlutverk
  • Valdskipting
  • Ábyrgð
  • Samskipti
  • Samvinna
  • Eftirlit:

Umboðsmaður Alþingis

Eignarhald þjóðarinnar á auðlindum og þjóðlendum:

  • Vernd gegn afsali.
  • Nýtingaréttur.

Fullveldisákvæði:

  • Um aðild að Alþjóðastofnunum
  • Framsal valds frá Alþingi og ríkisstjórn

Umhverfisvernd.

  • Náttúra til sjós og lands.