Rebbi refur og Tóta tófa.

Rebbi var að þefa slóð dag einn, -raunar eins og hann gerði alla daga.Eins og aðrir refir stoppaði hann af eðlisávísun öðru hvoru og þefaði upp í goluna og lagði við hlustirnar.

Allt í einu fann hann lykt sem gerði hann óstyrkan og óreiðan. Hvað var þetta? Annar refur? Rebba kannast eitthvað við lyktina, en kom henni ekki fyrir sig. Hann læddist að hól þar nærri og skreið uppá koll hans. Þaðan hafði hann útsýni í þá átt sem lyktin kom.

Hann svipaðist um, -jú þarna, – eitthvað mórautt ráfaði þarna um í þýfðum móunum, líklega í ætisleit. Rebbi hnusaði og hnusaði svo honum lá við köfnun af of miklu lofti. Rebbi hnerraði. Þefaði aftur. Jú, nú kom hún aftur þessi þefur, sem var svo sætur að honum fannst. Eins og áður kom óróleiki í hann og hjarta hans sló örar. Hvað var þetta?

Aldrei áður hafði honum liðið svona. Allt í einu hvarf öll varkárni , hann stóð sperrtur upp og gaf frá sér gól.

Um leið stoppaði þetta mórauða í móunum. Rebbi fylgdist spenntur með. Jú, þetta var refur. –Nei, -hann hristi hausinn til að koma þessu betur fyrir sig. Þetta var TÓFA. Hann stökk á stað í átt til hennar.

Hann vissi ekki fyrr en hann var komin til hennar, svona léttur á sé hafði hann ekki verið lengi.

Hún stóð og horfði á hann sínum stóru tófuaugum þegar hann var næstum búinn að hlaupa hana um koll. Hún hafði fylgst með honum á hlaupunum og séð að þar fór ungur og hraustur refur og hafði beðið spennt.

„Hæ“, sagði Rebbi, hann gat ekki sagt meira í augnablikinu móður og másandi. Svakalega var hún ung og flott. Hann reyndi að setja bringuna fram og skottið hærra.

„Hæ“ svaraði hún lágri þýðri röddu.

Honum svimaði, augun, svipurinn, feldurinn og svo þessi yndislega rödd. Öll önnur hljóð hurfu fyrir þessum dýrðlega ómi hennar.

„Hmm.. ertu, ertu ein á ferð,“ spurði hann varfærnislega, en flýtti sér að bæta við „ ég heiti Rebbi“. Hann svitnaði, hroðalega var þetta eitthvað vitlaust sagt hjá honum, hann ók sér vandræðalega.

„Já“ aftur hljómaði þessi þýðamjúki rómur. „Ég heiti Tóta tófa“.

Hjartað hamaðist í brjósti hans, -já, já ein, já, jÁAAA. Hann heyrði varla í sjálfur sér fyrir hjartslætti þegar hann spurði, „hvaðan kemur þú?“ Hann tiplaði í kringum hana.

„Ég kem héðan sunnan að, mamma rak mig að heiman og sagði mér að fara út í heim“ hún horfði sakleysislega á Rebba.

Rebba fannst hann heppnasti refur í heimi, að hitta Tóta tófu á undan öllum öðrum refum var merki um að forlögin voru honum hliðholl. Nú var það undir honum komið hvort hún yrði hans.

„Já einmitt, þessi fallegi dalur er minn, alveg frá fjöru til fjalls og hér er nóg að bíta og brenna. Ég á líka nokkur mjög góð greni, -á ég að sýna þér þau kannski?“

Nú var hann búinn að leggja öll spilin á borðið. Hver gat boðið betur?

„Takk, það vil ég gjarnan,“ hún varð glöð á svipinn. Hún hafði verið áhyggjufull síðustu daganna, hafði ekki hitt neinn ref. Nú var hún búin að hitta ungan ref með öll þessi hlunnildi.

Þetta gat ekki verið betra, betra en mamma hennar hafði sagt henni að búast við. Hún hafi sagt henni að nóg væri að eiga góðan ref, hitt kæmi af sjálfu sér.

„Ég á þrjú greni, við skulum kíkja fyrst á þetta hér í urðinni,“ hann tölti á stað og hún fylgdi við hlið hans.

Það tók mestan hluta dagsins að skoða öll grenin. Tóta hafði gert athugasemdir við öll grenin. Vildi breikka göngin eða dýpka og hækka holuna. Rebbi hafði skoppað í kringum hana allan tíma og jánkað öllu.

Hann sá fyrir sér nokkra daga vinnu í þessum breytingum.

„Viltu þá fara að búa með mér“ stundi Rebbi upp, utan við síðasta grenið.

Tóta brosti undurblítt „Rebbi, ég held það bara, grenin verða góð þegar búið er að laga þau.“ Hún hallaði undir flatt, svona til að gera sig fallegri.

Rebbi var við það að falla í yfirlið af sælu,-en hristi sig allan til að ná sér aftur inní veruleikann.

„ Ég byrja strax á morgun að laga þau.“- Heyrðu Tóta mín, ég á eitthvað hér að éta, ertu ekki svöng?“

„Ég er alveg banhungruð, hef ekki borðað í marga daga.-Hvað áttu til?“

„Hvað segirðu, ekki í marga daga.- Hvað er að heyra!“ Rebbi var alveg hissa. „Af hverju“.

„Æi, ég er svo lélega að veiða.“-„Hvað áttu?“

„Ha, -já, ég á hmmm“ –hvað geymdi hann nú í forða? –Hann mundi það núna„ „Já, ég á nokkrar mýs og svo á ég fínan silung, viltu hann?“

Hún horfði á hann döpur. „Æi, ..ég borða ekki fisk,..og mér finnast mýs vondar, mig flökrar af þeim.“ Hún andvarpaði.

Rebbi var alveg hissa..og miður sín. Hann átti ekkert til fyrir hana. En hann var ekki af baki dottinn, „ Hvað finnst þér gott ljúfan?“ spurði hann mjúklega.

„ Æi þakka þér fyrir hugulsemina,-mér finnast fuglar og egg best,-og svo er ég mikið fyrir ber á sumrin og haustin.“

Rebbi fékk fiðurbragð í munninn og ber,-það yrði seinlegt að bera mörg ber í kjaftinum langar leiðir.

„Sjálfsagt mín kæra, ég skal fara strax í að ná í fugl eða egg, ekki viljum við hafa þig svanga.“ Hann hljóp á stað.

Rebbi og fákurinn.

Rebbi refur var á rölti inní dal þegar hann sá hvítan hest á beit. Honum var fremur illa við hesta, þeir áttu til að hlaupa á eftir honum og reyna að sparka í hann og það gat vel orðið hans bani ef hann yrði fyrir sparki. Rebbi skildi ekki af hverju þeir höguðu sér þannig, ekki var hann að áreita þá á nokkurn hátt. Hann reyndi því ávallt að forðast þá.

Rebbi refur ákvað því að sneiða framhjá honum ofar í hlíðinni, hann myndi þá hlaupa beint upp fjallið ef hesturinn gerði atlögu að honum.

Rebbi fór hratt yfir og þegar hann var að nálgast, leit hvíti hesturinn upp og horfði á Rebba.

Rebbi hægði ferðina, stoppaði og horfði á hestinn til að athuga hvað hann ætlaði að gera. Hann var tilbúinn að hlaupa beint uppí fjall ef hesturinn hreyfði sig í áttina til hans. “ Hvaða asi er á þér” sagði hesturinn rólega.

Rebbi varð steinhissa, enginn hestur hafði nokkurn tíma yrt á hann, fremur fræst að honum áður en þeir runnu á hann.

„Ég…, ég er bara að fara inní dal,“ svaraði Rebbi óstyrkum rómi.

„Hvað er að sjá þar?“ spurði fákurinn og leit fram dalinn og aftur á Rebba í spurnartón.

„Svo sem ekkert sérstakt,“ ansaði Rebbi:„ég er bara vanur að fara þessa leið, í ætisleit.“

„Jamm,“ ansaði Gráni. „Grasið er oft grænna þar, sérstaklega síðsumars, en það er svona mánuður í það. Heyrðu, ég er kallaður Gráni. En segðu mér,“ hann hélt áfram, „ég sé ykkur refina aldrei saman, alltaf einir á ferð, af hverju er það?“

Rebbi átti ekki vona á svona spurningu – af hverju erum við alltaf einir á ferð? Hann hugsaði sig um en ekkert svar kom upp í huga hans.

Hann áttaði sig núna á því að hann var alltaf EINN. Allir refir voru alltaf einir, aldrei saman í hóp, þannig var það bara.

Það var löng þögn og allan tímann horfði Gráni á Rebba. Að lokum stundi Rebbi upp: „Ja, þannig er það bara hjá okkur, ég á til dæmis þennan dal frá fjalli og niður að sjó og enginn annar refur á hér bú, ég myndi reka hann burtu ef hann reyndi,“” svaraði Rebbi og það gætti stolts í rómnum.

„Athyglisvert,“ sagði Gráni. „Hjá okkur er þetta öðruvísi, hestar eru yfirleitt í hjörð, við höldum hópinn en það er bara einn foringi í hópnum,“” og hélt áfram hugsandi „sem telur sig eiga hjörðina.“

„Af hverju ert þú þá einn hér, “ spurði Rebbi.

„Ja, ég var rekinn úr hjörðinni…,“ Gráni hengdi haus.

„Nú, af af hverju?“ skaut Rebbi inn í. Þetta fannst honum athyglisvert.

Gráni rétti úr sér. „Ég var búinn að vera foringi í hjörð minni lengi,en svo kom ungur klár og skoraði mig á hólm og ég…tapaði,  þess vegna varð ég að yfirgefa hjörðina,“ sagði Gráni með þungri röddu. „Hvað svo, verður þú þá alltaf einn sem eftir er?“ spurði Rebbi og fannst þetta eiginlega nokkuð spennandi.

„Nei, ætli ég fái ekki að koma aftur í hópinn í haust eða á næsta ári þegar sá ungi er orðinn öruggur með forystuna,“ svaraði Gráni eins og hann væri sáttur við hlutskipti sitt.

Skrítið, hugsaði Rebbi. Hann hafði aldrei hugleitt að einhver refur gæti átt dalinn nema hann. Hvernig fékk hann dalinn? Hann ólst hér upp, í holunni sinni. Hann mundi ekki eftir að hafa búið hana til en einhver hafði búið hana til! Hver gæti það hafa verið? Hver myndi svo eignast holuna hans seinna?

Rebbi var svo niðursokkinn í vangaveltur sína að hann tók ekki eftir því að Gráni var að tala við hann. „…, kvinnu?“ „Hvað sagðirðu?“ svaraði Rebbi utangáttar.

„Áttu ekki kvinnu?,“ spurði Gráni aftur. „Kvinnu?“ hváði Rebbi, alveg eitt spurningamerki í framan.

„Já, konu, ég átti margar,“ stundi Gráni.

„Já, svoleiðis,“ svaraði Rebbi vandræðalega, hann hafði nú ekki beint áhuga á að ræða við hest um kvennamál sín.

„Ja, ég á vinkonu, við lékum okkur stundum saman áður fyrr og ég hitti hana stundum,“ svaraði Rebbi, eiginlega rjóður í framan.

Gráni horfði á hann og áttaði sig á því að Rebbi var yngri en hann hafði ætlað. Hann ákvað að fara ekki meira út í þessa sálma.

Rebba fannst þetta vandræðaleg umræða, en spurði allt í einu;

„Af hverju talaðir þú við mig? Venjulega yrða hestar aldrei á mig, þeir ráðast frekar á mig ef ég kem of nálægt þeim. Af hverju er það?“

Gráni horfði á hann spurnaraugum en svaraði svo: „Ja, mig langaði að ræða við þig, það er enginn annar hér á ferli og ég er hálf einmanna og af hverju, ja, þegar ég var forystuhestur bar mér skylda til að vernda folöldin í hjörðinni og ég hrakti alla frá sem komu of nærri þeim.“

Nú skyldi Rebbi þetta, það sem hann hélt að væri árás á sig var einungis viðbrögð til verndar folöldunum. Honum var létt.

„Jæja,” sagði Rebbi stundarhátt, „ég þarf að halda áfram inn eftir og ég sé þig kannski þegar ég kem til baka.“

„Já endilega, “ svaraði Gráni; „heldurðu að það verði seint?“ bætti hann við, en Rebbi var þotinn af stað og heyrði ekki síðustu orðin.

Rebbi og lambið.

 

Það var fagur sumardagur og Rebbi rölti í hægðum sínum meðfram ánni. Hann var svo upptekinn að horfa á sólargeislanna glampa á yfirborði árinnar að hann tók ekki tekið eftir lambinu á hinum bakkanum fyrr en allt í einu. Rebbi nam staðar. Lambið stóð líka kyrrt og horfði á hann forvitnum augum. Rebbi var dálítið hissa. Venjulega eru þau hrædd við hann, en lambið stóð þarna alveg rólegt. Rebbi hugsaði með sér að þetta væri einstakt tækifæri sem hann yrði að nota.

Með lymskulegum svip og ísmeygilegri röddu kallaði Rebbi til lambsins: „Hvað er að sjá þig, lambið mitt, aleitt á ferð. Týndir þú mömmu þinni, greyið?“ Lambið leit í kringum sig eins og til að athuga með mömmu sína, snéri sér aftur að Rebba, horfði á hann drykklanga stund og sagði með mjúkum róm: „Hver ert þú, ertu kind?  Þú ert skrítin kind!“

Rebba kom þetta á óvart, hverskonar spurning var þetta, var hann kind? Vissu ekki allir að hann var refur og ógnvaldur allra kinda og lambið hélt að hann væri kind,  og það skrítin í þokkabót.

En svo áttaði Rebbi sig allt í einu. Lambið hafði aldrei séð ref og enginn nærri til að sýna hvernig ætti að bregðast við ref.

„Já, kæra lamb, ég er kind ofan af fjöllum, við erum öðruvísi þar, gæran mín.“

Rebbi bætti við; „Komdu nú yfir á bakkann til mín svo við getum spjallað betur saman. “ Lambið horfði lengi á Rebba i. Skrítin kind þetta, hugsaði hún, ullin öðruvísi, skottið mjög langt og stórt og hún minnti hana frekar á skepnur sem hún hafði séð þegar hún var pínulítil, þær höfðu verið svo hávaðasamar en þessi var það ekki. „Hvað heitir þú? Ég heiti Gimbur,“ sagði hún án þess að svara spurningum hans.

Rebbi fann að hann var að byrja að verða pirraður enda glorhungraður. Hann varð að passa sigað styggja ekki lambið, því hann kæmist ekki sjálfur yfir lækinn heldur yrði hann að tæla lambið til sín.

„Sæl vertu Gimbur, ég heiti Tófa og af því ég er minni en þú, þá kemst ég ekki yfir til þín. Stökktu nú yfir lækinn til mín, Gimbra mín.“

Rebba fannst það hljóma betur að heita Tófa en Refur.

„Mamma hefur sagt mér að tala ekki við ókunna, þó það séu aðrar

Kindur,“ sagði Gimbur og stóð róleg í sömu sporum og horfi á Rebba.

Það var farið þykkna í Rebba. „En rýjan mín, ef þú tala aldrei við ókunna þá kynnist þú aldrei neinum,“ og bætti við: „það verður heldur leiðinlegt líf, finnst þér ekki? “ Hann var rogginn með þessi róðu rök.

„Jú,“ sagði Gimbra, „en mamma segir, að eftir því sem ég verði eldri þá læri ég að kynnast öðrum.“Er ekki tími til komin að hitta fleiri? Þú getur kynnst mér!!“ sagði Rebbi og reyndi eins og hann gat að setja upp sakleysissvip þó maginn ólgaði af hungri. „Mamma segir að ef einhver reyni að sannfæra mig um annað en ég held sjálf, þá eigi ég ekki að trúa því, “ sagði Gimbra blíðum rómi.

Rebbi hugsaði sig um. „Af hverju trúir þú mömmu þinni? Getur hún ekki haft rangt fyrir sér? “

Lambið horfði opnum augum á Rebba og svaraði: „Ég trúi mömmu, ég trúi þeim sem ég treysti. “

„Hvernig veistu hverjum þú átt að treysta?” sagði Rebbi, því ekki treysti hann sjálfur neinum.

„Ég finn það inn í mér,“svaraði lambið ákveðið. „Tófa, treystir þú ekki mömmu þinni? “ Þetta kom óþægilega við Rebba, treysti ekki mömmu sinni? Það var svo langt síðan hann átti mömmu. Samt mundi hann eftir því sem ylfingur að elta mömmu sína hvert sem hún fór og alltaf gaf hún honum að éta, jú og gott var að hrjúfa sig að heitum feldi hennar. Auðvitað hafði hann treyst henni.

Rebbi refur hristi sig allan, hann átti erfitt með að svara þessu. Tilfinningin var góð þegar hann rifjaði þetta upp. En núna þegar hann horfði á saklaust lambið leið honum ekki vel.

„Jú, jú, auðvitað treysti ég henni,“ svaraði hann lágum rómi og hengdi hausinn ofurlítið. „Hún var góð.“

„Var?“, Gimbra hikaði: „Áttu hana mömmu þína ekki lengur,“ spurði hún lágum rómi svona eins og hissa á svipinn.

Rebbi fékk kökk í hálsinn, nú leið honum enn verr, hann vildi ekki rifjað upp þegar hann horfði á hvernig hún dó – í þessari gildru.

Allt í einu fannst honum þetta allt tóm vitleysa. Hvað var hann að hugsa,að tala við eitthvert lamb útí haga, honum væri nær að finna sér einhverjar mýs í matinn.

„Jæja, jæja, ég verð víst að halda áfram,“ sagði Rebbi og reyndi að leyna því að hann var með tárin í augunum.

„Farðu nú og finndu hana mömmu þína og skilaðu kveðju frá Rebba til hennar, hún hefur örugglega heyrt af mér,“ sagði Rebbi og núna með styrkri og hárri röddu. Hann gat ekki látið orðspor sitt bíða hnekki. Hann þaut af stað og veifaði löngu loðnu skottinu sínu í kveðju skini.

Gimbra horfði á eftir Rebba. Hva?, Tófa hafði breyst og hún hljóp allt öðruvísi en kind. Hvað meinti hún með því að kalla sig Rebba?

Jæja, best að finna mömmu og skila kveðjunni. Hvernig skyldi mamma kannast við hann? Hún myndi segja mömmu sinni alla söguna hvernig hún kynntist Tófu og um hvað þær töluðu. Kannski ættu þær eftir að hittast aftur?