Hvað vantar í stjórnarskránna? – Umhverfið.

Umhverfi.

Ákvæði um hafið,  loft og land.

Ákvæði um gæði og vernd umhverfisins eiga að tryggja að þau verði óskert til óborina kynslóða. Slík ákvæði eru stór þáttur af grundvallar mannréttindum kynslóða framtíðarinnar.

Hafið, lífríki þess og hafsbotn.

Hafið og hafsbotninn innan efnahagslögsögu landsins  á að vera  í eigu þjóðarinnar. Allri nýtingu gæða þess skal úthlutað gegn afgjaldi sem renni í ríkissjóð. Ákvæði verður að vera um að afnot þeirra sé byggð á vísindalegum grunni og sjálfbærni til að tryggja að besta þekking á hverjum tíma ráði nýtingu auðlinda þjóðarinnar.

Loft og vatn.

Andrúmsloft og vatn er forsenda lífs og grundvallarmannréttindi að hver maður hafi aðgang að þeim gæðum ómenguðum. Ákvæði um verndun þeirra  verður að vera í stjórnarskrá  til varnar lífríkinu. Spurning hvort setja eigi ákvæði um að vatnsveitur til almenninganota séu í eigu opinberra aðila. Slík stjórnarskrávarin ákvæði eru að koma inn í löggjöf nokkurra landa vegna misnotkunar og einkavæðingar vatnsréttinda.

Land og landsgæði.

Ákvæði um verndun gróðurs þarf að tryggja að framkvæmdir eða nýting þjóðlenda spilli ekki gróðurþekju lands eða vatnsforða.

Einnig þarf ákvæði í stjórnarskrá um eign og nýtingu þjóðlenda, þar með talin orkulinda með sama hætti og um auðlindir hafsins . Með er m.a styrktur lagagrunnur l. nr. 58/1998 um þjóðlendur, um eign og nýtingu þeirra.

Umhverfisvernd -Neytendavernd.

Ákvæði um umhverfisvernd hafs, lofts og lands eiga að vera skýr og ótvíræð á þann hátt að ekki megi menga þau á nokkurn hátt. Þessir umhverfisþættir eru forsenda fyrir  tilvist og endurnýjun  lífríkisins. Á forsendu slíkra ákvæða hefur löggjafinn sterkan grunn við verndunarlöggjöf.

Ákvæði um umhverfisvernd þurfa jafnhliða að taka til almennra umhverfissjónarmiða sem styrkja ákvæði laga m.a. um skipulagsmál og neytendmál.

Hvað vantar í stjórnarskránna?

Einstaklingarnir.

Ákvæði um mannréttindi þarf að skýra og styrkja frá því sem nú er.  Stjórnarskráin snýst um að skilgreina réttindi einstaklinganna og skipulag samfélagsins og þátttöku hans í því.

Frelsi,  jafnrétti og réttlæti er grunnur almennra réttarviðhorfa um mannréttindi og eru sjálfsögð, en sum ákvæði  mannréttinda þurfa  að vera ábyrgðarákvæði til að tryggja aðkomu ríkisins að sérstökum réttindum, t.d. barna ,fatlaðra, aldraðra og annarra sem minni máttar eru í samfélaginu.

Barnavernd.

Börn eru viðkvæmur og sérstakur hópur í samfélaginu sem verður að njóta sérstakrar verndar. Ákvæði um barnavernd þurfa að vera skýr í stjórnarskránni  um skyldu ríkisins til að tryggja velferð þeirra og réttindi eins og best verður á kosið og aðstæður ógni því ekki á nokkurn hátt.

Fötlun, öldrun, vanhæfi.

Tyggja þarf þeir þegnum sem vegna hverskonar fötlunar, öldrunar eða vanhæfis að öðru leyti geti notið kosta samfélagsins á jafns við aðra.

Á að setja sérstök ákvæði í stjórnarskránna sem staðfesta það sem okkur þykir sjálfsagt, t.d.:

Að íslenska sé eina opinbera tungumál íslenska lýðveldisins?

Að Ísland tilheyri íslensku þjóðinni?

Samfélag.

Einstaklingurinn og fjölskyldan er kjarni samfélagsins og ef það á að standa sterkt verður það að hvíla á þeim gildum sem einstaklingar vilja sjá í eigin lífi.  Frelsi hvers manns vilja allir hafa til orðs og athafna.  Jafnrétti milli manna er jafn sjálfsagt og að draga andann. Hver maður getur verið smár og brothættur og við viljum að samfélagið hugi jafnt að öllum. Réttlæti er öllum mönnum í blóð borið og vilja að það sé í heiðri haft í öllum reglum samfélagsins og ákvörðunum valdhafa.

Þessi þrjú gildi eiga að gegnsýra allt samfélagið. Þau eiga að vera undirstaða þess og tryggja velferð allra, hvers og eins manns. Ef einhver þarf aðstoð og er ekki sinnt, er  samfélagið veikt. Þessi gildi eiga að vera hornsteinninn í lagasetningu, í framkvæmd laganna, þannig skilar það sér í siðferði samfélagsins.  Ákvörðun manna að setja samfélagi sínu skipulag og grunnreglur ættu að byggja á þeim.– Frelsi  -Jafnrétti –Réttlæti.

„ Einn fyrir alla og allir fyrir einn“ er ekki merkingarlaust máltæki og endurspeglast best í nánu samfélagi manna. Hverjum þegn er ljóst að hann verður að gefa af frelsi sínu við að gangast undir sameiginlegar skyldur og viðurkenndar reglur samfélagsins en í staðinn fær hann stuðning þess og betra líf í samvinnu með öðrum. Í lýðræði er valdið til stjórnunar veitt sameiginlega og því eiga allar stofnanir samfélagsins að vinna að efla það og þroska í bestu merkingu.