Hvað vantar í stjórnarskránna?

Einstaklingarnir.

Ákvæði um mannréttindi þarf að skýra og styrkja frá því sem nú er.  Stjórnarskráin snýst um að skilgreina réttindi einstaklinganna og skipulag samfélagsins og þátttöku hans í því.

Frelsi,  jafnrétti og réttlæti er grunnur almennra réttarviðhorfa um mannréttindi og eru sjálfsögð, en sum ákvæði  mannréttinda þurfa  að vera ábyrgðarákvæði til að tryggja aðkomu ríkisins að sérstökum réttindum, t.d. barna ,fatlaðra, aldraðra og annarra sem minni máttar eru í samfélaginu.

Barnavernd.

Börn eru viðkvæmur og sérstakur hópur í samfélaginu sem verður að njóta sérstakrar verndar. Ákvæði um barnavernd þurfa að vera skýr í stjórnarskránni  um skyldu ríkisins til að tryggja velferð þeirra og réttindi eins og best verður á kosið og aðstæður ógni því ekki á nokkurn hátt.

Fötlun, öldrun, vanhæfi.

Tyggja þarf þeir þegnum sem vegna hverskonar fötlunar, öldrunar eða vanhæfis að öðru leyti geti notið kosta samfélagsins á jafns við aðra.

Á að setja sérstök ákvæði í stjórnarskránna sem staðfesta það sem okkur þykir sjálfsagt, t.d.:

Að íslenska sé eina opinbera tungumál íslenska lýðveldisins?

Að Ísland tilheyri íslensku þjóðinni?

Samfélag.

Einstaklingurinn og fjölskyldan er kjarni samfélagsins og ef það á að standa sterkt verður það að hvíla á þeim gildum sem einstaklingar vilja sjá í eigin lífi.  Frelsi hvers manns vilja allir hafa til orðs og athafna.  Jafnrétti milli manna er jafn sjálfsagt og að draga andann. Hver maður getur verið smár og brothættur og við viljum að samfélagið hugi jafnt að öllum. Réttlæti er öllum mönnum í blóð borið og vilja að það sé í heiðri haft í öllum reglum samfélagsins og ákvörðunum valdhafa.

Þessi þrjú gildi eiga að gegnsýra allt samfélagið. Þau eiga að vera undirstaða þess og tryggja velferð allra, hvers og eins manns. Ef einhver þarf aðstoð og er ekki sinnt, er  samfélagið veikt. Þessi gildi eiga að vera hornsteinninn í lagasetningu, í framkvæmd laganna, þannig skilar það sér í siðferði samfélagsins.  Ákvörðun manna að setja samfélagi sínu skipulag og grunnreglur ættu að byggja á þeim.– Frelsi  -Jafnrétti –Réttlæti.

„ Einn fyrir alla og allir fyrir einn“ er ekki merkingarlaust máltæki og endurspeglast best í nánu samfélagi manna. Hverjum þegn er ljóst að hann verður að gefa af frelsi sínu við að gangast undir sameiginlegar skyldur og viðurkenndar reglur samfélagsins en í staðinn fær hann stuðning þess og betra líf í samvinnu með öðrum. Í lýðræði er valdið til stjórnunar veitt sameiginlega og því eiga allar stofnanir samfélagsins að vinna að efla það og þroska í bestu merkingu.

 

Vilji fólksins réði að lokum.

Stjórnarskrá S.-Afríku. Stjórnarskrá Suður Afríku, sem samþykkt var af stjórnlagaþingi þann 11. október 1996, staðfest af Stjórnlagadómstólnum 4. desember 1996 og undirrituð 6 dögum síðar af Nelson Mandela forseta, tók gildi í febrúar 1997. Hún leysti af hólmi bráðabirgða stjórnarskrána frá 1993 og er nú talin fyrirmynd víða um heim. Skráin er einkum fræg fyrir tilurð sína, enda spratt hún úr rústum samfélags sem hafði einkennst af kynþáttahatri og kúgun. Hún varð til eftir langa meðgöngu og erfiða fæðingu og er oft kölluð “fæðingarvottorð” hinnar nýju Suður-Afríku.
Texti stjórnarskrárinnar á rætur sínar að rekja til Frelsis Sáttmálans (“Freedom Charter”) sem var settur saman úr ótal óskum og kröfum frá óbreyttum borgurum um margvíslegar samfélagsumbætur. Sáttmálinn var lesinn upp á þingi fólksins árið 1955 og hófst á orðunum “fólkið skal stjórna”. Margir áttu eftir að láta lífið í nafni sáttmálans næstu áratugina, unsapartheid stefnunni var aflétt, en undir lok 20. aldarinnar var þjóðþinginu loks falið, sitjandi sem stjórnlagaþing, að semja nýja stjórnarskrá. Nýr stjórnlagadómstóll gegndi einnig veigamiklu hlutverki, en hann skyldi ganga úr skugga um að þingsfrumvarpið samræmdist 34 meginreglum sem fulltrúar fólksins höfðu lagt því til grundvallar. Dómstóllinn gerði athugasemdir við ýmis ákvæði og vísaði textanum aftur til þingsins til frekari úrvinnslu. Þann 4. desember 1996 ákvað dómstóllinn að hinn endurbætti texti félli að öllum atriðunum 34 og staðfesti þar með stjórnarskrána.
Stjórnarskráin er í framúrstefnuskjal á sviði mannréttinda, sem skipa heiðurssess í hinu nýja stjórnskipulagi. Formálinn kveður á um samfélag byggt á lýðræðislegum gildum, félagslegu réttlæti og mannréttindum. Mannréttindi eru einnig lögð til grundvallar í upphafi 1. kafla, og eru 35 af greinum 2. kafla (réttindaskráin – Bill of Rights) helgaðar þeim. Sem dæmi má taka 11. gr. sem segir stutt og laggott: “allir eiga rétt á lífi”; 9. gr. bannar ólögmæta mismunun m.a. á grundvelli kynhneigðar; og Suður-Afríka er nú eitt af fáum ríkjum veraldar sem tryggja ekki bara borgaraleg og pólitísk réttindi heldur einnig félagsleg réttindi, svo sem rétt á mat, vatni, húsaskjóli, heibrigðisþjónustu, lífeyri og menntun (27.-28. gr.). Auk þess að tryggja einstaklingum aðgang að dómstól telji þeir að brotið hafi verið gegn þeim, kveður 38. gr. á um að einstaklingar geti einnig höfðað mál fyrir hönd hóps eða í þágu almennings.
Stjórnarskráin tiltekur 11 opinber tungumál í landinu, auk þess sem hún skyldar ríkið til að tryggja notkun og kennslu táknmáls og annarra mála sem töluð eru af þjóðarbrotum. Til að endurspegla hið fjölskrúðuga samfélag Suður Afríku var valin sú leið að hafa stjórnarskrána sem ítarlegasta, sem gerir það að verkum hún er lengri en gerist og gengur, alls 14 kaflar og viðaukar. Á móti kemur að stjórnarskráin er rituð á alþýðlegu máli og er auðveld aflestrar.
Réttindaskráin (2. k.) er bindandi á ríkisstjórnina, en skv. 8. gr. bindur hún löggjafarvaldið, framkvæmdarvaldið, dómsvaldið og allar ríkisstofnanir. En 8. gr. gengur skrefi lengra í 2. mgr og gerir réttindaskrána jafnframt bindandi á einstaklinga og einkaaðila, svo sem fyrirtæki og stofnanir sem kunna ekki síður en ríkið að brjóta á mannréttindum fólks. Í 89. gr. er sérstaklega tekið fram að það megi, með 2/3 hluta atkvæða þjóðþingsins, víkja forseta lýðveldisins úr embætti gerist hann sekur um meiriháttar misferli eða brot á ákvæðum stjórnarskrárinnar. Í 231.-233. gr. er að lokum fjallað um þjóðarétt, en alþjóðlegur venjuréttur hefur gildi laga í Suður-Afríku svo framarlega sem hann stangast ekki á við stjórnarskrána eða löggjöf þingsins, og öllum dómstólum landsins ber að kjósa lagatúlkanir sem samræmast þjóðarrétti umfram túlkunir sem stangast á við hann.
Stjórnarskráin hefur ýtt undir mikla umræðu um stjórnsýslu og henni hefur verið breytt 16 sinnum síðan 1996. Þá hefur ítrekað verið látið reyna á ákvæði hennar fyrir stjórnskipunardómstólnum, sem hefur t.d. úrskurðað að dauðarefsing samræmist ekki stjórnarskránni.
En stjórnarskrá ein og sér, sama hversu vönduð eða mikið þjóðarstolt, er ekki plástur á öll sár fortíðar eða lyf gegn fordómum. Það kostar tíma og sameiginlegt átak að byggja upp traust og ala upp nýja kynslóð kennara, dómara, lögreglu og borgara í anda jafnréttis. Bent hefur verið á að á meðan athygli allra beindist að því að koma pólitískri stjórnskipan yfir á hendur fólksins, hafi flóknari efnahagsmál verið stokkuð upp í kyrrþey af hagsmunaaðilum. Ákvæðum um verndun eignarréttarins var bætt við á síðustu stundu; almenningur varð af loforðinu um sameign á landi og náttúruauðlindum, en sat uppi með lamandi skuldir til alþjóðlegra lánadrottna. Það skal engum dyljast að hin nýja Suður-Afríka elst upp við gríðarlegan ójöfnuð, glæpatíðni, sjúkdóma og fátækt. En hún hefur haldið út á lífsbrautina með þetta merka plagg upp á vasann – fæðingarvottorðið sitt – sem er ávísun á réttindi og sjálfsvirðingu
Nánar má lesa um sögu stjórnarskrár Suður-Afríku á:

http://www.samfelagssattmali.is/s–afriska-stjornarskrain

On Nelson Mandela