Tíund tekin upp á Íslandi.

Hver var uppruni og ástæða skattsins?

Sigurbjörn Svavarsson

Gissur biskup var ástsælli af öllum landsmönnum en hverra maður annarra, þeirra er vér vitum hér á landi hafa verið. Af ástsæld hans ok tölum þeirra Sæmundar (fróða), með umburði Markúsar lögsögumanns, var það í lög leitt, at allir menn töluðu ok virtu allt fé sitt ok sóru, at rétt virt væri, hvort sem var í löndum eða í lausaaurum, ok gerðu tíund af síðan. Það eru miklar jarteignir (undur), hvað hlýðnir landsmenn voru þeim manni, er hann kom því fram, at fé allt var virt með svardögum, það er á Íslandi var, ok landið sjálft ok tíundir af gerðar ok lög á lögð, at svo skal vera, meðan Ísland er byggt………. En hann hafði áður látið telja búendur á landi hér, ok voru þá í Austfirðingafjórðungi sjö hundruð heil, en í Rangæingafjórðungi tíu, en í Breiðfirðingafjórðungi níu, en í Eyfirðingafjórðungi tólf, en ótaldir voru þeir, er eigi áttu þingfararkaupi að gegna um allt Ísland.“ Íslendingabók Ara.

Að baki þessum undrum og stórmerkjum að mati Ara, var sú vissa hans og staðreynd að þar sem þetta hafði verið reynt varð mikill mótstaða bænda víða um lönd, svo mikill að uppreisnir urðu og konungar drepnir. Ástæðan fyrir auðveldri innleiðingu fyrsta skattsins á Íslandi var samspil höfðingja landsins og biskups.[1] Annarstaðar voru það konungar sem innleiddu tíundina og þar var hún meira íþyngjandi en hér á landi í upphafi. En að biskup gæti innleitt hana hér á landi var fyrst og fremst sú að íslenskir höfðingjar sáu sér hag af þessum skatti á bændur. Þrír fjórðu hlutar hans yrðu eftir hjá þeim í héraði en fjórðungur rynni til biskups.

[1] „Tíund skiptist hjer í fjóra hluti: Kirkjuhlutur, prestshlutur, fátækra hlutur og byskups hlutur. Þeir höfðingjar, sem kirkjur áttu og hjeldu presta, fengu haldið þremur hinum fyrst nefndu fjórðungshlutum, en urðu að skila byskupstíund. Hvatti þetta fyrirkomulag þá til þess að efla kirkjur sínar að eignum, en kirkjufje var undanþegið tíund. Höfðingjar gátu þannig eflt kirkjur sínar til stóreigna og sparað sjálfum sér tíundargjald, en fóru með eign alla og rjeðu henni. Hvorki máttu þeir rýra hana að verðgildi né skipta henni. Kristnirjettur sá, er hér var í lög leiddur á fyrsta þriðjungi 12. aldar, breytir í engu þessari skipan. Á hana fór fyrst að reyna, er Þorlákur helgi hóf upp kröfu um forræði kirkjueigna á síðasta fjórðungi 12. aldar.“  https://www.snorrastofa.is/reykholt/reykholtskirkja/kirkjusaga.

Tilurð tíundarskattsins.- Tilskipun frá Páfanum í Róm

Tíundargjald eða skattur á sér langa sögu í kristninni. Í frumkristni var Móses lögunum hafnað, en þegar Rómarkristnin náði undirtökunum gekkst hún undir áhrif Rómarkeisara og 585 tók kirkjuráðið í Macon upp tíund og fylgdi þeirri ákvörðun að kristnir menn sem ekki greiddu tíund yrðu bannfærðir. Þegar haft er í huga að tíundin var ákvörðuð sem afrakstur af afurðum jarðar, var það því í samræmi við Móseslög og gekk því gegn „gjöf frjáls vilja“ Nýja Testamentisins. Gamli sáttmálinn var því tekinn upp í stað Nýja Sáttmálans að þessu leiti.

Tíund gamla sáttmála var alltaf greidd með afurðum jarðarinnar, en Rómaverskir biskupar og keisarar ákváðu að nýja tíundin skyldi greiðast sem andvirði afurða með manngerðri afurð, peningum. Smásaman breiddist þessi regla út með kristniboðum í Evrópu þar til Pepín III. konungur Karólínska ríkisins og faðir Karlamagnúsar keisara, sem réði stórum hluta V-Evrópu, ákvaðaði með bréfi til allra biskupa árið 765 að tíund væri lögleg og opinber aðgerð.

Þegar Karlamagnús sigraði Saxa og Frísa heimilaði hann innheimtu tíundar til biskupa á öllu svæðinu árið 788. Á valdatíma Lúðvíks hins „guðrækna“ konungs Frankaveldis og meðkeisara hins heilaga rómverska ríkis ásamt föður sínum Karlamagnúsi, skipaði hann að tíundin væri reiknuð af ávöxtum jarðarinnar og af búfénaðar, en breytileg. Greiðsla gæti farið fram í peningum eða í vinnu og gengi öll til kirkjunnar. Refsingin fyrir vanskil gæti varðað missi jarðnæðis.

Edmund I. Englandskonungur (939-946) lögleiddi tíund í Englandi og Játvarður góði, konungur Englands frá 1042 til 1066 er yfirleitt talinn síðasti konungurinn Saxa herti á tíundarlögum [2]


[2] „ Af allri uppskeru skal greiða hinn tíunda hluta til heilagrar kirkju. Ef einhver á hestahjörð, þá greiði hann tíunda folann; sá sem á einn eða tvo hesta skal gjalda eyri fyrir hvern fola; sá sem á margar kýr, tíundi kálfurinn; sá sem á einn eða tvo, obole fyrir hvern; og ef hann gjörir ost úr mjólk þeirra, tíunda ostinn eða tíunda dagsmjólkina. -Tíunda lamb, tíunda sauðaskinn, tíundi ostur, tíundi hluti smjörs, tíundi svín; úr býflugum, eftir því sem þær búa sér til í eitt ár; einnig úr skógum, engjum, vötnum, myllum, görðum, varnargörðum, fiskveiðum, kjarri, görðum, verslun og af öllu þvílíku, sem Guð hefur gefið, skal tíunda skila; og sá sem neitar, með réttlæti konungs og heilagrar kirkju, ef þess þarf, skal neyddur til að borga. Heilagur Ágústínus hefir áður sagt þessa hluti, og hafa þetta verið veitt af konungi og staðfest af barónum og fólki; en síðan, fyrir hvatningu djöfulsins, neituðu margir og prestar, sem voru ríkir og ekki mjög varkárir að krefjast þeirra, fóru þannig að verða fátækir; því víða eru nú þrjár eða fjórar kirkjur þar sem áður var aðeins ein.“ https://sourcebooks.fordham.edu/sbook1j.asp#The%20Church%20and%20the%20Economy

Vilhjálmur I. innheimti tíundir, en deildi þeim sjálfur til kirkjunnar innanlands, hann innheimti að auki sérstakan skatt sem kallaður var „skattur Heilags Pétur“, sem rann beint til Páfans í Róm, einskonar yfirlýsingu um að konungur réði kirkjunni, en ekki páfinn.

Jón Jóhannesson segir frá því í Íslandssögu I. Þjóðveldisöldin, að tíund hafi ekki verið tekin upp í Noregi fyrr en rúmum 20 árum síðar en á Íslandi, en engar skjalfestar heimildir er fyrir tíund í Noregi fyrr en árin 1130-40, og þá gætu menn ætlað að Tíundarlögin íslensku hafi verið fyrirmynd þeirra norsku. En svo var ekki, tíundarskattur hafði verið settur á nokkru fyrr í Danmörku af Knúti IV. konungi en hér á landi, en olli slíkri reiði og andstöðu bænda að þeir gerðu uppreisn og drápu konung 1086 vegna málsins og tíund komst ekki aftur á fyrr en árið 1120. Einnig átti að setja slíkan skatt í Noregi en vegna andstöðunnar við því dróst það til framyfir árið 1130 og aðrar heimildir segja 1150[3]. Í Svíþjóð komst hún ekki á fyrr en seint á 12. öld.

[3] THE CHRISTIANISATION OF ICELAND PRIESTS, POWER AND SOCIAL CHANGE 1000-1300 By Orri Vésteinsson bls 100.

Íslensku tíundarlögin.

 Af þessu má sjá að að kirkjuyfirvöld í Evrópu, hvöttu til slíkrar skattheimtu til að efla kirkjuna í samvinnu við konunga[4] í þeirri þróun sem átti sér stað í tvískiptingu hins andlega og veraldlega valds, sem stórefldi kirkjuna á Vesturlöndum og þaðan hafi hvatinn komið til verksins, ekki síst til að styðja við uppbyggingu kristninnar á Íslandi.


[4] „Fræðimenn greinir nú almennt ekki á um að réttarsaga miðalda sé sameiginleg öllum Vesturlöndum. Samkvæmt þeirri sýn varð vestræn lögfræði til sem fræðigreinum aldamótin 1100 þegar rannsóknir hófust við háskólann í Bologna á þá nýfundnum lögum Jústiníanusar Rómakeisara (527–565). Þau lög eru undirstaða Rómaréttar og ..– ásamt kirkjulögum. Talið er að á tólftu öld hafi rannsóknir í hinum nýju háskólum álfunnar skapað sameiginlega réttarhefð í ríkjum Vestur-Evrópu, með úrvinnslu úr hinum veraldlega Rómarétti og kirkjurétti sem þá var að verða til…

 „ ..Í fyrsta lagi var almenna kirkjan alþjóðleg stofnun á síðmiðöldum sem varð leiðandi í stjórnmála- og lagaþróun á tólftu öld. Í öðru lagi urðu þær breytingar í beinu samhengi við keisara- og konungsvald. Þess vegna er brýnt að kirkjan sé könnuð í samhengi við veraldarvald og öfugt.19 Enn fremur verður kirkja á Íslandi, og raunar önnur pólitísk þróun á síðmiðöldum, ekki skilin til fullnustu nema hún sé rannsökuð í samhengi við kirkjusögu Vesturlanda og stofnunina sem almenna kirkjan var. Á miðöldum var gert ráð fyrir einni kirkju í Vestur-Evrópu og þess vegna er vísað til hennar með hugtakinu kirkjan og þarf ekki að taka fram að hún var kaþólsk. .. Stofnunin byggði því upp stjórnkerfi til þess að halda utan um hugmyndakerfi sem smám saman var innleitt um öll lönd álfunnar. Stofnunin var því eins konar kerfi í eigin rétti með stjórnunarmarkmið sem breyttust ekki í neinum aðalatriðum frá síðari hluta tólftu aldar. Þess vegna eru heimildir frá kirkjunni samræmdar og sambærilegar hvaðan sem þær koma. Þrátt fyrir einhvern svæðisbundinn mun á lögum og skipulagi voru embættin, sem bjuggu heimildirnar til, sambærileg frá einu landi til annars, sem og lög og hugtakanotkun… Lára Magnúsdóttir 2007 .  Bannfæring og kirkjuvald á Íslandi 1275-1550: lög og rannsóknarforsendur


Gissur Ísleifsson ( 1042-1118) var biskup Íslands, annar í röðinni, sonur fyrsta biskups Íslendinga Ísleifs Gizurarsonar (fæddur 1006- dáinn 5.7.1080) sem varð biskup í kjölfar Kristnitökunnar árið 1000. Hann var nafni og sonarsonur Gissur hvíti Teitsson eins helsta leiðtoga kristinna manna við kristnitökuna og sem hafði tekið skírn af Þangbrandi Erkibiskup sem Ólafur Tryggvason hafði sent til kristniboðs á Íslandi.

Gissur lærði á Saxlandi eins og faðir hans, en Gissur Teitsson afi hans hafði fylgt Ísleifi til Saxlands til mennta í Herford. Gissur Ísleifsson var vígður prestur á unga aldri. Hann ferðaðist mikið til útlanda og þau hjón fóru bæði í suðurgöngu til Rómar. Hann var erlendis 1080, þegar faðir hans dó en kom heim sumarið eftir og var þá valinn biskup. Gissur fór til Saxlands að taka vígslu en þá hafði erkibiskupinn þar verið sviptur embætti. Hann fór þá til Rómar á fund Gregoríusar páfa 7, sem sendi hann til Hardvigs erkibiskups í Magdeburg og þar fékk hann vígslu 1082. Hann var þá fertugur að aldri. Hann settist að í Skálholti þegar heim kom.

Um tilurð laganna er sagt að Gissur hafi gert Tíundarlögin með Sæmundi fróða[5] og með samþykki Markúsar Skeggjason [6] lögsögumanns d. 1107. Gissur hefur eflaust  leitað aðstoðar Sæmundar fróða Sigfússonar, goðorðamanns og prests og eins áhrifamesta höfðingja landsins og eins best menntaða íslendings á þeim tíma.

Hér er rétt að staldra við í ljósi þess að í Evrópu voru það konungarnir sem komu tíundinni á og skipuðu fyrir innheimtu hennar, yfirleitt var hún reiknuð af verðmæti landbúnaðar eða búfénaðs og gekk beint til og var innheimt af kirkjunnar mönnum.  Gissur var helsti frumkvöðullinn að tíund yrði lögtekin á Íslandi og hefur eflaust fengið hvatann um að koma tíundinni á frá Erkibiskupi í Magdeburg, en útfærsla og skipting tíundarinnar varð með öðrum hætti en í öðrum löndum.[7]


[5] Fyrir utan að standa að Tíundarlögunum 1096, stóð Sæmundur með biskupunum Þorláki Runólfssyni og Katli Þorsteinssyni að setningu Kristniréttar hinn eldri árið 1123.  En Özur (Aserus) erkibiskup í Lundi er talinn frumkvöðull að því að saminn (ritaður) var hin forni Kristni réttur fyrir Ísland[1]. Sæmundur kom víðar við og var m.a. einn ritbeiðenda að Íslendingabók Ara fróða og Ari bar bókina undir hann þegar hann var búinn að skrifa hana. Oddur Snorrason munkur vísar einnig í rit Sæmundar í Ólafs sögu Tryggvasonar og einnig er vísað í hann í Landnámabók.

[6] Markús þótti mjög fróður og lærður og var einn af heimildarmönnum Ara fróða, sem segir að hann hafi sagt sér ævi allra lögsögumanna sem greint er frá í Íslendingabók, „en honum sagði Þórarinn, bróðir hans, ok Skeggi faðir þeirra, ok fleiri spakir menn til þeirra ævi, er fyrr hans minni voru, að því er Bjarni inn spaki hafði sagt, afi þeirra, er mundi Þórarinn lögsögumann ok sex aðra síðan.“

[7]„Jafnt leikir sem lærðir byggðu hugmyndir sínar á þeirri réttarhefð þegar lagður var nýr og langvarandi lagagrundvöllur í ríkjum Vestur-Evrópu á tólftu og þrettándu öld. Hvorki Ísland né önnur norræn ríki eru undanskilin þessari hefð þótt kirkjurétturinn sé yfirleitt talinn hafa verið meira mótandi en Rómaréttur í lagaþróun þeirra landa. …Kristinrétturinn vann að sömu markmiðum alls staðar og yfirleitt var ekki gefið eftir varðandi mikilvæg atriði á síðmiðöldum. Tíundarlög íslenska kristinréttarins virðast þó dæmi um það en fyrir því mun hafa fengist undanþága hjá páfa að okur væri skilgreint með sérstökum hætti á Íslandi því að samkvæmt almennu skilgreiningunni flokkaðist tíundarheimtan á Íslandi undir okur. Fleiri undantekningar eru á því að lagagreinar séu í samræmi við almennu kirkjulögin og þar má nefna nokkrar undanþágur vegna náttúrlegra norðlægra aðstæðna og fámennis. Miklu skiptir þó að í öllum þeim tilvikum þar sem undanþágur eru gerðar eru til heimildir fyrir því að páfi hafi veitt undanþáguna.      

Þegar Tíundarlögin voru lögð fram var látið líta svo út sem hún væri gjöf af frjálsum vilja og í Grágás er orðalagið að gefa tíund, þannig var gefið í skyn að hún væri í anda Nýja Testamentisins, og þannig breytt yfir hana sem skyldu, sem yrði refsað fyrir ef hún yrði ekki greidd. Þannig var Mósestíundin komin til Íslands.

Skiptingin á íslensku tíundinni í fjóra staði, ¼ til fátækra, ¼ til kirkjubyggingarinnar sjálfrar, ¼ til uppihalds prests og ¼ til biskups, var ekki eins og annars staðar. Hvaða ástæður voru fyrir því? Eflaust þær að biskup þurfti að semja við höfðingja landsins um að koma henni á. Erlendis fór öll tíundin til biskupdæmanna, af þeim voru reistar kirkjur og þeim viðhaldið, laun presta og annarra greidd og hefð fyrir því að kirkjan sinnti fátækum, og biskupar sjálfir þurftu sitt. Á Íslandi voru aðstæður aðrar, fáar kirkjur, fáir þjónandi presta, nema höfðingjar á nafninu til og biskupembættið fátækt. Niðurstaða biskups og höfðingjanna hlaut því að verða sú að höfðingjar og biskup skiptu hagsmunum, höfðingjar tóku prestvígslu og reistu kirkjur á höfuðbólum sínum, og tryggðu sér þannig hálfa tíundina, fyrir presta og kirkju, sem þeir þurftu 100 árum síðar að láta þær af hendi.[8] Biskup hafi samkvæmt lögunum vald til að ákveða hvaða kirkja hlaut vígslu.  Biskup hefur væntanlega ekki fallist á að höfðingjarnir (prestarnir) innheimtu tíundina hjá bændum og höfðingjarnir ekki heldur að biskup eða hans menn innheimti tíundina og hvorugur yrði þannig háður því að ná því af hinum. Þá hafi niðurstaðan verið sú skynsama leið að hreppstjórar, fulltrúar bænda, greiðendur tíundarinnar, innheimtu tíundina að fullu og greiddu til kirkju, prests og biskups, en héldu ¼ fátækrahlutnum í hreppnum til framfærslu fátækra, það gat verið hagur bænda að jafna framfærsluna út á alla bændur í hreppnum. Þannig varð niðurstaðan eins og hún birtist í Tíundarlögum og ákvæðum Grágásar. Aðkoma Sæmundur fróði kann að hafa verið sem tengiliður höfðingja og hugsanlega hafi svo Markús lögsögumaður, fulltrúi þings og bænda komið að þessu til samþykktar á Alþingi. Lögin náðust svo fram á Alþingi árið 1097, fyrst Tíundarlaga á Norðurlöndum eins og getið er hér að framan.


[8] “ Vegna þess að kirkjur voru undanþegnar tíundargreiðslum gáfu bændurnir, sem ávallt voru höfðingjar, þessum kirkjum hluta annarra eigna sinna og losnuðu þannig við að greiða tíund sjálfir af þeim eignum. Almenningi var hins vegar skylt að greiða tíund til kirkna og hluta hennar héldu höfðingjarnir fyrir sjálfa sig. Þannig spöruðu þeir sjálfum sér ekki aðeins tíundargreiðslur, heldur fengu þeir og tíund frá öðrum í sinn vasa. Afkomendur þeirra erfðu kirknaforræðið eins og aðrar eignir og höfðu kirkjur þannig gengið mann fram af manni í margar kynslóðir. Það var einmitt vegna þessara hentugleikagjafa, sem bændur höfðu í raun talið sig vera að gefa sjálfum sér, að upp kom óánægja með kröfu kirkjunnar um að biskup réði kirknaeignum, sem þýddi í raun að umsýsla kirkna og eignir þeirra væru á vegum stofnunarinnar. Krafan um forræði kirkjunnar yfir kirknaeignum er fyrst talin hafa verið sett fram hérlendis af Þorláki helga Þórhallssyni (1178–1193) árið 1179 og hleypti þá af stað staðamálunum fyrri. Lára Magnúsdóttir 2007 .  Bannfæring og kirkjuvald á Íslandi 1275-1550: lög og rannsóknarforsendur

Undirbúningur Tíundarlaganna hefur tekið nokkur ár því, sagt er að Gissur hafi látið telja búendur á landinu ..og „voru þá í Austfirðingafjórðungi sjö hundruð heil (840) en í Rangæingafjórðungi (Sunnlendinga) tíu (1.200)  en í Breiðfirðingafjórðungi (Vestfjarðarfjórðungi) níu (1.080) en í Eyfirðingafjórðungi (Norðlendingafjórðungi) tólf (1.440)“, segir í Íslendingabók.  (Alls 4.560 bændur samkvæmt stóru hundraði). Öruggt má telja að þessi talning hafi átt sér stað í undirbúningi laganna á árunum 1092-1096. Skoðanir hafa komið fram um að gerð Landnámu hafi verið undirbúningur að samningum og gerð Tíundarlaganna.[9] Ari segist hafa gert Íslendingabók fyrir biskupanna. Kannski var Landnáma að hluta til afrakstur bændatals Gissurar? í líkingu við „Domesday book“ Vilhjálms I. Sem nefnt er hér að neðan.


[9] Einar G. Pétursson. Kirkjulegar ástæður fyrir ritun Landnámu.

Tíund er einn tíundi af einhverju og er oftast átt við skatt af einhverju tagi. Tíundin var aðferð kristnu kirkjunnar til þess að fjármagna starfsemi sína víða um Evrópu lengi vel og er enn lögboðin í einstaka löndum í dag. Tíundinni hér var skattur sem í reynd var bætt við þingfarargjaldið. Lögin voru þó frábrugðin þeim í Evrópu, víðast var hún 10% tekjuskattur af uppskeru, framleiðslu og vinnu- en hér var tíundin reiknuð af eign og var því eignaskattur. „Eignir“ í Tíundalögunum voru hús, bústofn (ekki hross), búnaður, bátar, vaðmál og klæði, (nema hversdagsklæði) hlunnindi ýmiskonar og lausafé. Síðan var innheimt svonefnd „stærri tíund“, af erfðafé, sem var í raun 10% erfðaskattur og gekk beint til biskups.

Samkvæmt tíundarlögum var greiðsla tíundar í vaðmáli, sem var í raun gjaldmiðilinn á Íslandi, því unnið vaðmál var útflutningsvara og helsti gjaldmiðill á þeim tíma.  Tíund var skipt í fjóra staði, fátækraframfærslu, kirkja, prestur og biskups fjórðung hver eins og fyrr sagði. Tveir hlutarnir, til kirkju og prests, runnu í raun til þeirra höfðingja sem áttu kirkjurnar og voru einnig prestar á þeim tíma, því gátu þeir farið með það fé eins og þeim sýndist. Af þessum sökum er ekki undarlegt að höfðingjar hafi samþykkt skattheimtuna á Alþingi, þar sem þeir sjálfir fengu helminginn til baka. Leiddi það óneitanlega til aukinna valda og áhrifa höfðingja og ójafnræðis þeirra gagnvart þingmönnum sínum, þ.e. öðrum bændum, og þannig hefur það stuðlað að myndun höfðingjakerfis sem leiddi svo aftur til loka Þjóðveldisins. 

Talað hefur verið um að tíundin  hér á landi hafi verið hagkvæmari sem eignarskattur en tekjuskattur og því hrósað, en ekki er það svo augljóst.

Í hreinu bændasamfélagi, sem að mestu var sjálfsþurftarbúskapur og nauðsynleg aðföng voru í vöruskiptum[10], hagnaður sem myndaðist af vaðmálsvinnslu eða afurðum kom hugsanlega fram í stærri bústofni og því var ekki um neina aðra aðferð að ræða en tíund á eignir og búnað sem umreiknað var í verðmæti vaðmáls. Greiðslan (gjöfin) af skuldlausri eign samkvæmt Tíundarlögum sést á töflunni hér að ofan; af verðmæti 100 x 6 álna veðmáls var tíundin 6 álnir vaðmáls[11].

[10] Búalög voru færð í letur skömmu eftir Jónsbók 1281 og voru byggð á því “sem gerðist hjá landsmönnum” og ekki var í Jónsbók. Verðlag og skipulag á vinnu ýmiskonar.

[11] Sjá Mynd II. Upphæð Tíundar

Þess má geta hér að staðlað 6 álna (tveggja þátta) vaðmál var tveggja álnar breitt (stiku) og til vinnslu þess þurfti um 6 kg. af ull, sem var af um 12 ám. Úrvinnsla ullarinnar og vefnaður í þetta vaðmál krafðist um 10-11 mánaðar vinnu eins manns. Í reynd var því skatturinn greiddur með afurðum og vinnu.

En slíkur eignarskattur til lengri tíma varð eignaupptaka af venjulegum bændum sem færður var til kirkju og höfðingja í kyrrstöðu- og sjálfsþurftarsamfélagi. Þar að auki breyttist tíundin síðar úr því að vera reiknuð af „skuldlausum“ eignum í það að orðið „skuldlaust“ datt út og eignarskatturinn reiknaðist einnig af skuldum (eins og fasteignaskatturinn í dag). Eignaskattur, eða vextir af „dauðu“ fé, var þyrnir í augum kirkjunnar manna annars staðar en hér á landi. Gissur biskup hlaut að hafa fengið samþykki fyrir þessu skattaútfærslu hjá erkibiskupi eða jafnvel páfa, eða kannski hefur ekki verið leitað eftir slíku samþykki. Hér er athyglisverður þáttur, því þegar Noregskonungur gefur Íslendingum Jónslög og Alþingi hafði samþykkt Kristnirétt Árna eða Kristni rétt hin nýja 1275, er fundið að framkvæmd Tíundarlaganna af sendimanni konungs.[12]

Með tíundarlögunum mynduðu íslenskir kirkjugoðar með biskup í fararbroddi nýjan tekjustofn fyrir sig. Tíundin var nýr tekjustofn og um hann varð harðvítug keppni, en við þá keppni raskaðist jafnvægið milli einstakra goða með uppkaupum á goðorðum og vísir myndaðist að raunverulegu lénsveldi auðugri goða sem leiddi af sér átök og upplausn Þjóðveldisins og undirgefni við Noregskonung 1262.


[12] Í sögu Árna byskups segir frá atburðum, sem gerðust sennilega 1281: „Þið byskuparnir heimtið tíund af sylgjum og silfurbeltum, koppum og keröldum og öðru dauðu fé, og undra ég mjög hví landsbúar þoli yður slíkar óhæfur og gerið eigi norræna tíund að eins og þá sem gengur (um) allan heiminn, og ein saman er rétt og lögtekin“   Hér er Loðinn leppur sendimaður konungs að finna að framkvæmd tíundarlaga Gizurar biskups Ísleifssonar, en tíundarlögin voru sett tveimur öldum fyrr. Loðinn leppur hefur komist að raun um að skattheimta á Íslandi er ekki í formi tekjuskatts heldur eignarskatts og bendir á að verið er að reikna skatt af dauðu fé í andstöðu við lögmál Móse. Herra Árni byskup mælir þá: »Af orðum Innocenti páfa vitum vér að sú tíundargerð er eigi okur og vinnur engum manni sálutjón.«

Í hagfræðinni kallast keppni af þessu tagi keppni að aðstöðuhagnaði. Munurinn á henni og frjálsri samkeppni á markaði, er, að ekki er keppt að hagnaði, heldur er tími, fyrirhöfn og fjármunir notaðir til þess að útvega sér sérréttindi eða aðstöðu á kostnað annarra. [13]


[13] Endalok Þjóðveldisins  Ásgeir Jóhannesson   Grein í Menningarritinu Skýjaborgir 

Í Englandi átti sér stað mikil og keimlík breyting á sama tíma og Tíundarlögin á Íslandi voru í undirbúningi. 

Vilhjálmur I. bastarður hertogi af Normandí sigraði í orrustunni við Hastings 1066 og var síðan Englandskonungur til dauðadags 1087. Með sigri hans var stjórnartíð Saxa, sem byggðu England, að fullu lokið og í þeirra stað kominn afkomandi norrænna víkinga sem sest höfðu að í norðvesturhluta Frakklands. Vilhjálmur I. hreinsaði út flesta aðalsmenn í héruðum landsins og setti í staðinn frönskumælandi aðalsmenn. Árið 1086, voru mjög fáir Englendingar meðal þeirra 200 eða svo helstu landeigenda sem skráðir eru í Domesday Book. Normannir, Flæmingjar og Bretónar og aðrir sem studdu Vilhjálm í innrásinni, höfðu sest að á jörðum látinna, eða brottrekinna enskra aðalsmanna.

Árið 1086 lét Vilhjálmur I. fara um allt landið og skrá niður verðmat á öllum hlutum innan ríkisins, í framhaldi gaf hann út skattmatsskrá og á henni var byggt hvað hver ætti að greiða í skatt.[14] Þessi skrá sem var á Latínu, hlaut það víðfræga uppnefni, Domesday Book. 269 þús. skattþegar eru í bókinni og þar eru verðmæti eigna þeirra yfirleitt tilgreind í húðum, sem var fornt viðmið eigna, kúgildi. Áætlað er að um 6 manns væri að baki hverjum gjaldanda, eða 1,6 millj. manna hafi verið í landinu.[15]


[14] „Það voru þrjátíu og fjögur skíri í Englandi á þessum tíma og að því er varðar könnunina er vitað að þessum skírum hefur verið flokkað í sjö, sem hver um sig var undir eftirliti hóps umboðsmanna. „Í könnunni fylgdi fyrirspurn um lönd, er umboðsmenn gerðu samkvæmt eiði sýslumanna, allra baróna og allra hundraða, presta, fógeta og sex sveitamanna úr hverju þorpi. Þeir spurðu hvað höfuðbólið héti; hvað hét það á tímum Edwards konungs; hver heldur það nú; hversu margar húðir eru þar; hversu margir plógar í jarðnæðinu og hversu margir menn tilheyra; hversu mörg þorp; hversu mörg hús; hversu margir þrælar; hversu margir frjálsmenn; hversu margir sóknarmenn; hversu mikið skógaland; hversu mikið tún; hversu mikið beitiland; hversu margar myllur; hversu miklar fiskveiðar; hversu mikið hefur verið bætt við eða tekið af búi; hvers virði það var áður með öllu; hvers virði er það nú; ok hversu mikið hver lausamaður og sóknarmaður átti. Allt þetta á að skrá þrisvar, svo sem eins og það var á tímum Játvarðar konungs, eins, og eins og það er núna. Og einnig var tekið fram hvort hægt sé að meta meira það hærra en nú kann að vera metið“.. „Síðan sendi hann [Vilhjálmur konungur] menn sína um allt England í hverja sveit og lét þá skrá, hve mörg hundruð húðir voru í sveitinni, eða hvaða land og fé konungur sjálfur átti í landinu, eða hvaða gjöld hann ætti að hafa í tólf mánuði frá héraðinu. Einnig lét hann gera skrá yfir það, hversu mikið land erkibiskupar hans áttu, og hans biskupar og ábótar hans og jarlar hans og hvað eða hversu mikið allir áttu, sem áttu land í Englandi, í landi eða nautgripum, og hversu mikið virði þess fé var“ The Making of Domesday Book and the Languages of Lordship in Conquest England. Stephen Baxter

[15] https://en.wikipedia.org/wiki/Domesday_Book

Enski verðgrunnurinn „Hide“, kýrhúð, var í raun „kúgildi“ eins og hið íslenska, sem var hin forni germanski verðmætastuðull eigna. Skatturinn var því eignaskattur eins og á Íslandi, tíund af verðmæti eigna. Það er ekki ólíklegt að fyrirmynd Gissurar að aðferðinni og skattlagningunni sé frá Englandi komin. Sagt var að Gissur hafði „áður látið telja búendur á landi hér“ og þá hefur einnig efalaust verið gert jarðarmat/skattmat hjá bændum í þeirri yfirreið til að meta hversu mikil tíundin yrði á hverju ári.

Löngum hefur verið því haldið fram að framfærsla hreppanna til fátækra á Íslandi til forna sé einstök og hafi ekki þekkst annarstaðar, en svo var ekki og líklegt að þetta hafi verið regla á Norðurlöndunum þegar tíund var tekin upp þar. Má benda á að tíund og fjórskipting hennar var sú sama í Noregi og á Íslandi samkvæmt ákvæði í Kristni rétti hinum forna í Gulaþingslögum 1250[16]


[16] tíund sb. f. GulKrᴵ 627 DonVar 137 4°(c1250-1300) 1r(1)-25v(50) — Gulaþingslǫg : Kristinn réttr hinn forni (Keyser & Munch 1846 [NGL 1], 3-20²⁹)

 ● gera tíund (sína) [af e-u], vér scolom gera tiund alla oc fulla. bæði af avexti ollum oc viðreldi fiski oc ollum rettom fongum. En henne scal sva skipta at biscop scal hava fiorðong. oc fatꝍkes menn fiorðong. oc kirkia fiorðong. oc prestr fiorðong

fátǿkismaðr sb. m. GulKrᴵ 629 DonVar 137 4°(c1250-1300) 1r(1)-25v(50) — Gulaþingslǫg : Kristinn réttr hinn forni (Keyser & Munch 1846 [NGL 1], 3-20²⁹) biscop scal hava fiorðong. oc fatꝍkes menn fiorðong. oc kirkia fiorðong. oc prestr fiorðong

Hreppar , tilurð og hlutverk á Þjóðveldisöld.

Sigurbjörn Svavarsson

„Þessi stjórnskipan, Hrepparnir, voru því undirstaða Þjóðveldisins og síðari stjórnkerfa, öll virkni samfélagsins byggðist á reglum og venjum sem framkvæmdar voru í hreppunum, stjórn þeirra var undir fimm (sóknar)mönnun er Hreppstjórar hétu, sem kosnir voru af bændum úr eigin hópi og metnir af heilindum og ráðvendni að framfylgja siðvenjum og lögum.“

Elsta stjórneining landsins er Hreppurinn og elsta varðveitta heimildin um hreppa[1] er í Grágás. Sterkar líkur eru á því að hreppar hafi tekið á sig mynd fljótlega í landnáminu og mörkun þeirra síðar tengd einstökum landnámum og urði nánast eitt og það sama í augum landnámsmanna. Sjá má í sögunum að einstök landnám eru tengd hreppi.[2] Fyrri heimalönd landnámsmanna, hvort sem þau voru norræn, eða í byggðum Bretlandseyja höfðu regluvenjur í samskiptum og dóma til að útkljá deilumál, jafnvel um víg. Samfélagið snérist um bændur og búfénað, ella gat samfélagið ekki viðhaldið sér. Að germönskum og norrænum siðvenjum voru allir bændur jafn réttháir og til að gæta réttlætis innan byggðanna voru kosnir nokkrir úr þeirra hópi af bændum sjálfum til að mynda dómþing, sem ef mál voru sótt, úrskurðaði um málin, þannig voru menn dæmdir af jafningum í samræmi við siðvenjur.

Í Grágás eru mörg ákvæði sem varða hreppsdóma sem auðsjáanlega eru eldri en kristnin í landinu. Þegar byggð þéttist í landinu og landið fullnumið um 60 árum eftir fyrsta landnám að sögn Ara, völdu menn að setja skýrari reglur um samskipti og sambúð með Úlfljótslögum. Búfénaður var helsta eign bænda og samgangur búfjár bænda með fleiri bæjum í hreppi gat skapað mörg vandamál þegar skepnur ráfa þangað sem grasið er grænast. Landnámsmenn voru taldir 370-400 samkvæmt Landnámu og þeim fylgdu á hverju skipi hásetar, sem skipuðu áhöfn, auk heimilisfólks og þræla, ekki færri en 10 hásetar voru á hverju skipi, en þeir menn voru frjálsir menn og gerðu kröfu um jarðnæði til búskapar af landnámsmönnunum. Því má ætla að þegar landnámi var að mestu lokið um árið 920 hafi verið um 4.000 bændur á landinu. Þegar tíundin var tekin upp árið (1095) fór fram talning á bændum í landinu og þá voru þeir 4.560 að tölu svo að 4.000 bændur um árið 920 er ekki of áætlað.

Mörg dæmi eru í fornsögunum af landamerkjadeilum og nauðsynlegt var að leysa úr slíkum deilum með almennum reglum. Engin vafi getur verið á því að á þessum samskiptamálum var tekið í Úlfljótslögum eins og í gömlu samfélögunum og þau fornu lög endurspeglast í Grágás. Landabrigðisþáttur Grágásar snýst um hvaða reglur giltu í samskiptum bænda og um bú og kvikfénað. Bændur þurftu í nýju landi að reisa mikla garða, svokallaða löggarða á landamerkjum bæja líkt og með girðingum í dag. Bændum var skylt að vinna við og reisa löggarða í tvo mánuði á sumri eða til viðhalds þeim[3], löggarður átti að vera fimm fet þykkur að neðan og þrjú fet að ofan og ná manni í öxl. Þar sem ekki var fyrir hendi torf eða grjót máttu menn girða með gerði (úr skógarefni, hrísrif eða höggskógi). Þar að auki var þeim skylt að búa löghlið á garðanna þar sem þjóðbraut lá.

https://ferlir.is/loggardar/

Í þessum þætti Grágásar er tekið á flestum þeim atriðum þar sem sambúð bænda og búfénaðar gat rekist á, þar er sagt um heimild til brúargerðar, lagningu vega, frjálsu skipagengi á ám, um sameign engja, um afréttir, um selför, um sinubruna, um veitugarða, um hlöður, um skógarhögg, um varpland, að veita vatni og skipta vatni, að marka búfjár, um markaskrár, um fjárréttir, um vetrarhaga, um veiðar og Almenninga, um fuglaveiðar, um veiðar í vötnum, ef ár breyta farvegi sínum, um reka, um hvalreka, um hvalskot (með skutli), margt fleira er tekið á í þessum þætti Grágásar og sektir og refsingar sagðar um flesta þessa þætti.

Um allan ágreining í þessum málum var dæmt í hreppnum sem og um þjófnað og morð. Ágreiningur samkvæmt þessum Hreppsmálum gekk  fljótt fyrir sig,  sækjandi máls valdi dómstað með því að skjóta ör, utangarðs hjá þeim sem hann sótti mál gegn og tilkynnti honum um ágreiningsmál. Þá voru dómendur skipaðir í þingdóm og varð að dæma í málinu ekki seinni en fjórtán dögum eftir örvaskotshelgi utan garðs. Þannig voru ágreiningsmál leyst fljótt innansveitar, enda nauðsynlegt.

Í Grágás segir „Um hreppa mál“ : „Hver maður skal eiga þar löghrepp  sem hefur á framfærslu verið, nema hann sé að lögum af kominn eða þar ellegar sem næstur bræðra hans er vistfastur eða nánari maður.“– Þarna er í raun komin regla á heimilisfesti og vistaband.

Á þjóðveldisöld hafa hrepparnir því verið félagsskapur bænda á tilteknu svæði. Þegar hér er komið sögu eru hrepparnir greinilega orðinn fasti í íslensku samfélagi.[4]

Þessi stjórnskipan, Hrepparnir, voru því undirstaða Þjóðveldisins og síðari stjórnkerfa, öll virkni samfélagsins byggðist á reglum og venjum sem framkvæmdar voru í hreppunum, stjórn þeirra var undir fimm (sóknar)mönnun er Hreppstjórar hétu, sem kosnir voru af bændum úr eigin hópi og metnir af heilindum og ráðvendni að framfylgja siðvenjum og lögum.

Páll Briem segir í greininni; ´Nokkur orð um stjórnskipan Íslands í fornöld.

Héraðsríki goðans hefur því verið undir því komið hversu mikið hann mátti sín hjá bændum, en ef svo er er eðlilegt að hér ráði mestu vitur­leiki, auðlegð og dugnaður goðans. Þetta kemur alveg heim við ákvæði Grágásar og ýmsar sögusagnir í fornsögunum. Þess hefur verið getið að það hefði verið óheppi­legt að láta héraðsstjórnina fylgja goðorðunum af því að goðorðin voru ekki með ákveðnum takmörkum. Þetta átti sér ekki stað um hreppana, Þeir voru með ákveðn­um takmörkum og máttu ekki færri vera í hreppi en 20 búendur er gegna skyldu þingfararkaupi.

Hrepps­menn áttu að hafa þrjár ákveðnar samkomur á ári, á haustin, á langaföstu og á vorin eftir vorþing. Bænd­ur voru allir skyldir að koma til samkomu eða fá mann (húskarl sinn) fyrir sig til þess að halda skilum uppi fyrir sig.Þessum samkomum var falin á hendur sveitarstjórnin og segir svo í Grágás: „Það skal samkomumál vera allra manna á milli fast, sem þeir verða á sáttir er til samkomu koma. Meiri hlutur búanda skal ráða, ef eigi verða allir á eitt sáttir um ný samkomumál. Eigi skal fornum samkomumálum þoka, nema allir verði á sáttir, þeir er í hrepp búa.“Það sést af þessu að bændur hafa greitt atkvæði og meiri hlutur ráðið um ný samkomumál.

Bændur áttu að velja 5 sóknarmenn til þess að sjá um framkvæmd á samkomumálum, sækja menn um lagaafbrigði, óskil, skipta tíundum, o.s.frv. En mál þau er hreppsmenn áttu að sjá um var framtal til tí­undar, ómagaframfærsla, vátrygging á nautpeningi og brunabætur. Bændur réðu og hvar fjárréttir skyldu vera. Ennfremur þurfti að leita byggðarleyfis til bænda á samkomu, og búðsetumenn máttu ekki vera í hrepp nema hreppsmenn lofi. Ennfremur þurftu bændur að fá leyfi hreppsmanna til þess að taka hjú úr öðru þingmarki ef bændur áttu í nokkru að ábyrgjast vandræði er af þeim hlytist. Þurftu bændur engum brunabótum að svara ef slík hjú voru orsök í hús­bruna frekar en þeir vildu.[Það hafa þannig verið mikilvæg héraðsmál er bændur áttu að ráða. En auk þess er almennt ákvæði í Grágás um bændur á sam­komum og eru þau svo: „Skulu þeirra manna mál standast er þar koma, hvar þess er þeir taka eigi af alþingismáli.“ Með þessu virðist samkomum bænda vera gefin almenn heimild til þess að setja þau ákvæði um sveitarmál er ekki sé lögum gagnstæð.

   Framfærsluskylda af frændsemi var ríkari eftir lögum Þjóðveldisins en eftir Jónsbók síðar, samkvæmt Baugatali í Grágás var þurfandi ættingi á framfæri ættarinnar allt að fimmmenningi og ríkt var gengið eftir því, svo framfærslan lenti ekki á hreppnum. Hlutverk hreppstjóra var að tryggja framfærslu ómaga og einnig að verjast að aðrir lentu í sömu erfiðleikum. Til þess voru ekki aðeins mjög strangar reglur gegn einstaklingum sem reyndu að fá slíkan stuðning af vinnu hins duglega hluta samfélagsins; heldur til að fyrirbyggja fátækt, t.d. með aðkomu nýrra íbúa í Hreppinn þurfti samþykki íbúa þess, sem gátu hafnað manni sem verið dæmdur hafði verið fyrir glæp eða af líkindum gæti orðið byrði fyrir samfélagið, þetta var nauðsynlegt til að heilbrigður efnahagur samfélagsins héldist. Tjón af völdum elds var ákvarðað með rannsóknarrétti og helmingur tjónsins bætt með gjaldi á aðra bændur í hreppnum. Sama átti við ef bóndi missti fjórðung af hjörð sinni af drepsótt; en í hvorugu tilvikinu var þessi krafa heimiluð oftar en þrisvar sinnum hjá þeim sama.

Hreppstjórar héldu samkomur eða minni þing sem fólkið var kallað til með boðbera með tákni „boðsins“, sem hamar Þórs á milli bæja og sem eftir kristnitöku, var breytt í trékross. Í Grágás segir „ Allir bændur skulu bera hreppsfundar boð, þeir er í hrepp eru saman“. Líklegt var svokallað Leiðarþing, Haustþing, verið nokkurskonar Hreppstjóraþing til m.a. að upplýsa um ákvarðanir Alþingis sem gætu varðað hreppinn.

Konrad Maurer hefur vakið eftirtekt manna á því að í Noregi kemur enn fyrir orðið „Repp” og er haft um sveit eða marga bæi í héraði, og því er líklegt að orðið hreppur sé jafngamalt hér á landi og byggð manna í landinu. Það er ennfremur einkennilegt að einmitt í sveitarmálum og þeim málum þar sem bændur hafi haft vald koma mest fyrir einkadómarnir. Það er eins og menn hafi þar haldið fast við sams konar dóma og tíðkuðust í Noregi, og þeir hafi einmitt verið að miklu leyti afmarkaðir við þau mál er bændur hafi getað gert samþykktir um. Þetta á sér þannig stað um héraðsdóminn sem nefnd­ur er í skipan Sæmundar Ormssonar, um hreppadóminn, dóminn um útlendinga og útlenda verslun og af­réttardóminn.

Páll Briem telur að þegar Úlfljóts lög voru sett, hafa verið sett á­kvæðium löggjafarvaldið og dómsvaldið, en ekki hafi þá verið sett lög um héraðsstjórnina heldur hefur líklega verið komin á einhver venja hjá bændum að halda samkomur og fundi til þess að gera ráðstafanir á sveitarmálum. Þessi venja hefur svo haldist og verið lögtekin síðar. Hins vegar að erfitt að sjá að slíkt hafi náð yfir allt landið með skipulögðum hætti eins og speglast í Grágás, nema að fylgt hafi fylgt stjórnskipulaginu og þingvaldinu sem fylgdi.

Af því sem hefur verið sagt má sjá að höfð­ingjastjórn og alþýðustjórn hefur verið nokkuð vel fyrir komið hér á landi í fornöld. Goðarnir áttu sæti í lög­réttunni, nefndu menn í dóma og stýrðu þingum en voru þó á margan hátt háðir bændum. Aftur á móti voru bændur á samkomum ráðandi um héraðsmálefni sín, en voru þó háðir löggjafarvaldi goðanna og dómum þeirra nema í þeim málum sem einkadómar áttu um að dæma.

Hvað merkir orðið Hreppur?

Deildar skoðanir eru um uppruna orðsins hrepp(ur). Ef leitað er að norrænum orðaskyldleiki við Hrepp, eða repp eins og það er ritað í elstu afskriftum Tíundarlaga, finnast fornar merkingar í sænsku um Repp sem hluta sóknar, eða byggðarlags. Þessi merking orðsins er skyld orðinu Rapp sem forn merking á fornu fjórskiptu tímabili, td. misseri. Þannig vísa merking orðsins til skiptingar og afmörkunar landssvæðis. Norska orðið Repp merkir einnig lítið byggðarlag, dreifbýli. Orðið kemur oft fyrir í staðarnöfnum, til dæmis Golreppen í Hallingdal og Reppe í Þrándheimi. Í sumum norskum mállýskum er orðið notað um jarðnæði. Minna má á forna engilsaxneska landskiptingu sem ber nafnið Rap (e). Þessi dæmi taka af allan efa um norrænan uppruna og merkingu orðsins og þar með fornan germanskan uppruna. Af þessu má ráða að forn merking orðsins er afmarkað landsvæði, kannski upphaflega eins konar landnám, mörkun svæðis til búsetu. Páll Vídalín lögmaður segir í Skýringar yfir fornyrði lögbókar þeirrar, er Jónsbók kallast, að orðið sé dregið af, hlutskipti, hlutfalli og að fornmenn talið sér skylt að breyta eftir öndvegissúlum eða öðru sem þeir hrepptu til heimildartöku.


Í Englandi var til eldra og svipað fyrirkomulag og hreppurinn hafði á Íslandi, það byggðist á tilteknum fjölda búa á svæðinu sem nefndist Hundred. Hugtakið „Hundred, eða -hundrað“* er fyrst skráð í lögum Edmundar I. (939–46) sem mælikvarði á landsvæði sem hundraðréttur þjónaði, en er mun eldri og kemur einnig fram í 7 aldar skjölum. Í Midlands náði Hundrað oft yfir svæði 100 húða[5], 100 heimila, en það átti ekki við í suður Englandi; þetta gæti bent til þess að þetta hafi verið forn vestur-saxneskur mælikvarði og komið var á, einnig í Mersíu, þegar hún varð hluti af nýstofnaða enska konungsríkinu á 10. öld. Tilskipun Edmundar I. um Hundred, kvað á um að Hundraðrétturinn skyldi funda mánaðarlega og þjófa ætti að elta af öllum leiðandi mönnum héraðsins. Nokkur hundreds mynduðu síðan Skíri (Shire), undir stjórn fógeta. Mörk hundreds voru óháð bæði sóknar- og sýslumörkum, þó oft væru þau samræmd, sem þýðir að hægt var að skipta hundraði á milli sýslna eða skipta sókn á milli Hundraða. Þetta minnir á hvernig íslenskum fjórðungsþingum var skipt og goðorðum skipt innan fjórðungsþings og þeirri reglu í upphafi að allir goðar áttu allir jafnmarga þingmenn, það hlýtur að hafa þýtt að skipta hafi þurft þingmönnum sumra hreppa milli goða.

Í undantekningartilvikum, í sýslum Kent og Sussex, var sýslunni skipt ákveðin upp, og nokkur hundruð, ýmist heil eða hálf, voru sett saman til að mynda lathes ( Old English, lǽð, -) í Kent, sem voru misstórar stjórneiningar og rapes *(rape, eint.) í Sussex. Við landvinninga Normanna á Englandi var Kent skipt í sjö lathes og Sussex í fjórar rapes. Rape er hefðbundin svæðisbundin skipting Sussex-sýslu á Englandi, sem áður var notuð í ýmsum stjórnsýslulegum tilgangi. Uppruni orðsins er óþekktur, en virðast vera fyrir landvinninga Normanna. Sögulega hafa Rapes verið grundvöllur sveitarstjórnar í Sussex.

Hér má sjá fornt germanskt samfélagsskipulag, þar sem Hundred er svæði sem náði yfir 100 húðir (hides) og hafði sinn eigin alþýðurétt[6] skipuðum fimm bændum til að halda uppi lögum og reglu og nokkur Hundred mynduð stærri einingu, Shire sem Fógeti réði. Þessu kerfi svipaði til hreppsins íslenska, sem náði yfir svæði að lámarki 20 búa samkvæmt lögum, hafði sinn eigin alþýðurétt, Hreppsdóm sem var skipaður fimm bændum og nokkrir hreppar mynduðu Goðorð sem goði réði.

Við Gamla sáttmála frá 1262 breyttist öll yfirstjórn á Íslandi og goðavaldið leystist smám saman upp og gafst undir vald Noregskonungs. Á árunum 1271-1272 var ný lögbók samþykkt á Alþingi en henni til grundvallar voru lög þjóðveldisins og fékk hún síðar nafnið Járnsíða. Segir í henni um hreppstjóra (samhljóða Grágás): „Samkvámur skulu menn eiga um haust í hrepp hverjum, eigi fyrr en fjórar vikur eru til vetrar, og skipta tíundum. Skipt skal tíundum drottinsdag inn fyrsta í vetri. Fimm menn skal taka til í hrepp hverjum að skipta tíundum og matargjöfum með fátækum mönnum og sjá eiða að mönnum, þá sem best þikkja til fallnir, hvárt sem þeir eru bændur eða griðmenn.“  

Jafnframt segir á öðrum stað í Grágás:

 Hreppstjórar skulu skipta á samkvámu um haust fjórðungi tíundar með þurfamönnum innan hrepps, þeim sem til ómagabjargar þurfa að hafa þau missari, gefa þeim meira sem meiri er þörf. Eigi á tíund úr hrepp að skipta nema samkvámumenn verði á það sáttir að þikki utanhreppsmönnum meiri þörf. Það fé skal greiða þurfamönnum í vaðmálum eða vararfeldum, í ullum eða gærum, mat eða kvikfé, nema hross skal eigi greiða.

Af þessu má ráða að þau lög sem lutu að hreppunum sýna að þeir voru samfélagsleg eining, sem varð til mjög snemma í íslenskri sögu. Hlutverk þeirra snerist að halda friðinn, framfærslumálum fátækra, fjallskilum og öðrum sameiginlegum málum sveitanna og jókst heldur til meiri stjórnsýslu, þó goðar hyrfu og önnur yfirvöld (Amt eða sýslur) komu og fóru. Fjöldi hreppa frá upphafi breyttist lítið fram á 19 öld, þar koma til hefð í afréttum og fjallaskilum.

Skattbændur og Hreppar í fjórðungum.

  Skatt – bændur Hreppar fj. fj.
Fjórðungur 1095[7] 1311[8] 1311 1703[9] 1840
Suðurland 1200 998 32 39 32
Vesturland 1080 1100 48 54 53
Norðurland 1440 1150 48 46 45
Austurland 840 564 30 24 24
Alls 4560 3812 158 163 154

Fjöldi hreppa í upphafi ættu að hafa endurspeglað landgæði fjórðunganna og ætla má að reglan í Grágás um að ekki skuli vera færri en 20 bændur í hverjum hrepp hafi verið upphaflega reglan, einskonar enskt hundrað, og hafi ráðið stærð hreppana því landgæði sköpuðu búsetuskilyrðin.

Landfræðileg hreppamörk í landsfjórðungunum hefur eflaust komið til mjög snemma og vitneskja um hreppamörk haldist á hverju svæði í gegnum aldirnar og hefur eflaust verið skráð strax á ritöld. Í landnámu og nokkrum fornsögunum er minnst á hvar landfjórðungsmörkin eru og hreppamörk á nokkrum stöðum einnig nefnd, og augljóslega lá því fyrir hver skipting þinganna var innan fjórðunganna þegar sú skipan komst á og hreppa innan hvers þings. Þessi hreppamörk hafa haldist að mestu óbreytt í gegnum aldirnar koma fram í elstu kortagerðum og sjást óbreytt, en nákvæmar, eftir því sem kortin verða betri. Landfræðilega marka hæstu fjallgarðar og ár hreppamörk, alveg eins og stærri landnám gerðu, sem síðan skiptust í smærri hreppa þegar þeir var skipt í 20 búa svæði að lámarki. Auðsýnilega hafa hreppamörkin verið dregin fram til óbyggða eins og landið lá og komu saman í hæstu auðkennum landsins, enda eðlilegt með tilliti til gangna og fjallskila sauðfjár á haustin.

Til dæmis koma hreppamörk á Vestfjörðum saman í hæstu tindum Glámu og Hrolllaugsborgar í Drangajökli. (sjá mynd) Í Dölum koma hreppamörk saman í Rúpnafelli og Geldingarhnjúk og vesturhluta Hrútafjarðar og Elliðatindar og Hólsfjall (Tröllatindar) miðpuntar hreppana á Snæfellsnessins. Ok (jökull) var skurðpuntur fyrir hreppa á Mýrum og í Borgarfirði.

   Fjórðungaskil Vesturlands- og Suðurlandsfjórðungs var Hvítá alveg upp að Eiríksjökli og fjórðungsmót Norðurlands og Vestfjarðarfjórðungs voru við Hrútafjarðar og upp að Eiríksjökli.

Hreppaskil í Suðurlandsfjórðungs og Norðurlandsfjórðungs koma saman á hálendinu á hæstu tindum Hofssjökuls og  Langjökuls og við Austurfirðingafjórðung í Bárðarbungu og Grímsfjalli í Öræfajökli. [10] Mynd 1.

Mynd 1.


[1] Í Grágás, eru Tíundarlögin frá 1095 að finna í lok kristinna laga þáttar. Þar segir: „Um hreppa skil.: „Það er mælt í lögum vorum að löghreppar skulu vera á landi hér. En það er löghreppur er tuttugu bændur eru í eða fleiri. Því aðeins skulu færri vera ef lögréttumenn hafa lofað. Þeir bændur skulu að gegna þingfarakaupi er til hreppatals eru taldir. Þó maður skipti hreppum sínum í fjórðunga eða þriðjunga eða svo sem þeir vilja skipt hafa til matgjafa eða til tíunda skiptis og er rétt að þeir verði þar (ei) færri í hlut hreppsins en XX (tuttugu). Svo skulu hreppar settir að hver búandi skal sitja, að næsta auðrúm skulu svo hreppar allir settir sem nú er. Landeigendur v. (fimm) skulu vera teknir til sóknar í hrepp hverjum að sækja þá menn alla er óskil gera  í hreppnum  svo og skipta tíundum (manna) og matgjöfum eða segja eiða af mönnum. Rétt er að þeir menn séu eigi landeigendur, er sóknar menn er í hrepp, ef hreppsmenn eru allir á það sáttir. Ef maður situr að hreppamótum og kemur í annan hrepp með bú sitt, þá á hann kost að kjósa sig í annan hrepp með bú sitt ef hinir eru þó XX (tuttugu) eftir eða fleiri, enda lofa hinir er fyrir sitja. 

[2]Landnámubók (Sturlubók )

Þeir Hróðgeir bræður námu síðan lönd í Flóa, Hraungerðingahrepp; bjó Hróðgeir í Hraungerði, en Oddgeir í Oddgeirshólum; hann átti dóttur Ketils gufu.” 19 kafli

“Þórir son Ása hersis Ingjaldssonar, Hróaldssonar, fór til Íslands og nam Kallnesingahrepp allan upp frá Fyllarlæk og bjó að Selfossi. ..

Hróðgeir hinn spaki og Oddgeir bróðir hans, er þeir Fiður hinn auðgi og Hafnar-Ormur keyptu brutt úr landnámi sínu, námu Hraungerðingahrepp, og bjó Oddgeir í Oddgeirshólum. … “  96 kafli

“Þorbjörn laxakarl nam Þjórsárdal allan og Gnúpverjahrepp allan ofan til Kálfár og bjó hinn fyrsta vetur að Miðhúsum. ..

Þorbjörn jarlakappi hét maður norrænn að kyni; hann fór úr Orkneyjum til Íslands. Hann keypti land í Hrunamannahrepp að Mávi Naddoddssyni, allt fyrir neðan Selslæk á milli Laxár og bjó að Hólum. ..

Bröndólfur og Már Naddoddssynir og Jórunnar, dóttur Ölvis barnakarls, komu til Íslands snemma landsbyggðar; þeir námu Hrunamannahrepp, svo vítt sem vötn deila.

Þorbrandur, son Þorbjarnar hins óarga, og Ásbrandur son hans komu til Íslands síð landnámatíðar, og vísaði Ketilbjörn þeim til landnáms fyrir ofan múla þann, er fram gengur hjá Stakksá, og til Kaldakvíslar, og bjuggu í Haukadal.

Þeim þóttu þau lönd of lítil, er tungan eystri var þá byggð; þá jóku þeir landnám sitt og námu hinn efra hlut Hrunamannahrepps sjónhending úr Múla í Ingjaldsgnúp fyrir ofan Gyldarhaga…” 98 kafli

Grettis Saga:

“Þrándur spurði nú lát föður síns og bjóst þegar af Suðureyjum og Önundur tréfótur með honum en þeir Ófeigur grettir og Þormóður skafti fóru út til Íslands með skuldalið sitt og komu út á Eyrum fyrir sunnan landið og voru hinn fyrsta vetur með Þorbirni laxakarli. Síðan námu þeir Gnúpverjahrepp. Ófeigur nam hinn ytra hlut, á milli Þverár og Kálfár. Hann bjó á Ófeigsstöðum hjá Steinsholti. En Þormóður nam hinn eystra hlut og bjó hann í Skaftaholti.”

[3] „Þessir hlöðnu garðar ná ofan úr efstu byggðum og fram á ystu nes, yfir heiðar þverar og endilangar, og eru mörg hundruð kílómetrar að lengd. Aldur þeirra, hlutverk og umfang hefur lengi verið ráðgáta en eftir áralangar rannsóknir er nú orðið ljóst að garðarnir eru flestir frá þjóðveldisöld og varpa nýju ljósi á það mikilvæga tímabil Íslandssögunnar.“ Tíminn sefur.-Fornaldargarðarnir miklu á Íslandi. Árni Einarsson. Forlagið 2019. Einnig; https://www.researchgate.net/publication/281452903_Viking_Age_Fences_and_Early_Settlement_Dynamics_in_Iceland

Forn garðlög í Dalvíkurbyggð: Fornleifakönnun á garðlögum í Svarfaðardal og á Árskógsströnd

https://fornleif.is/wp-content/uploads/2018/01/FS452_10071_Gar%C3%B0l%C3%B6g-%C3%AD-Dalv%C3%ADkurbygg%C3%B0.pdf
 

[4] „Með tíundarlöggjöfinni hefur hreppunum verið falið að innheimta og skipta tíund. að annað geti varla verið en að ástæða þess að Gissur biskup velur þessa leið sé „ að hreppaskipanin hafi verið fastmótuð, er hér kom við sögu, enda ósennilegt, að jafnþýðingarmikið verkefni hafi verið fengið lauslega skipulögðum

……orðið hreppur hefur haft frátekna merkingu frá upphafi og sú merking hafi lítið breyst fram til dagsins í dag. Mögulega hafa hreppamörkin verið á reiki í fyrstu en virðast engu að síður hafa verið landfræðileg eining tiltölulega snemma í sögu Íslendinga, mögulega frá upphafi byggðar“. Lýður Björnsson segir í bókinni Saga sveitarstjórnar á Íslandi.

Sæmundur mælti: „Svo muntu kalla en meir hefir þú skapsmuni Ljótar móður þinnar, sem mig grunaði, en vor frænda. Nú hefi eg hugað þér landakosti og bústað út á Höfðaströnd fyrir utan Höfða út frá Unadal. Væri það mitt ráð að þú vægðir við þá er þar búa næstir þér, Þórð bónda í Höfða og Una í Unadal eða aðra byggðarmenn, og bið þér byggðarleyfis.“

„Hreppstjórnarþing gegndi í megintilvikum sömu hlutverkum og manntalsþing og þriggja hreppa þing til að byrja með, en hélt þó einkum utan um tíundarfærslur og aðrar embættisskyldur hreppstjóra, s.s. niðursetu og framfærslu ómaga. Skv. Jónsbók virðast hreppstjórnarþing ennfremur hafa gegnt sama hlutverki og leiðarþing, þ.e. verið einskonar haustþing er greindi frá málefnum Alþingis.126 Á hreppstjórnarþingum voru því jafnan kynnt ný lagaboð eða tilskipanir fyrir viðkomandi hrepp, en einnig fór fram framtal á sauðfé, auk þess að málefni ómaga voru oft til ákvörðunar á hreppstjórnarþingum. Hreppstjórnarþinga er fyrst getið í Jónsbók, en í lok 18. aldar fara hlutverk hreppstjóra í sambandi við tíundir að verða skilvirkari, sem síðan er fylgt eftir með ítarlegri hreppstjóratilskipun árið 1809.127“ Ólafur Arnar Sveinsson: Leiðarvísir fyrir dóma- og þingbækur í skjalasöfnum sýslumanna í Þjóðskjalasafni Íslands  bls.42 https://skjalasafn.is/files/docs/r_domar_thingtegundir.pdf

Konrad Maurer, Island, bls. 279, 322 sbr. Ivar Aasen, Norsk Ordbog, orðið: Repp.

Páll Briem ; ´Nokkur orð um stjórnskipan Íslands í fornöld. Andvari, Reykjavík 1897.

Svenska: Ordbok öfver svenska allmoge-språket, Bindi 1-2. REPP, en mindre trakts af en socken, bygdelag.  Fn. Hreppr  n. Repp

Þessi merking er einnig skyld orðinu RÄPP og forn merking á tímabili, eins og misseri, þ.e. fjórðungsskiptingu árs.

Norsk: Store norske leksikon; repp

Repp er eit mindre, busett område; samling av gardar; (del av) grend eller bygdelag.

ETYMOLOGI norrønt (h)reppr ‘lite bygdelag’ Ordet er mykje brukt i stadnamn, for eksempel Golreppen i Hallingdal og Reppe i Trondheim.

I nokre dialektar blir ordet brukt om ein jordteig, og på Island bruker dei ordet (i forma hreppur) om ein kommune.

[5] Hide. Forna engilsaxneska orðið fyrir húð var Hid (eða samheiti þess hiwisc). Talið er að bæði orðin séu dregin af sömu rót hiwan, sem þýddi „fjölskylda“.

Bede í Ecclesiatical History (um 731) lýsir landi sem gat framfleytt tilteknum fjölda fjölskyldna, eins og (til dæmis), á latínu, terra x familiarum sem þýðir „svæði með tíu fjölskyldum“. Í engilsaxnesku útgáfunni af sama verki er hid eða hiwan notað í stað terra … familiarum. Önnur skjöl tímabilsins sýna sama jafngildi og ljóst er að orðið merkti upphaflega land sem nægði til framfærslu bónda og heimilis hans[2] eða „fjölskyldu“, sem gæti hafa haft víðtæka merkingu. Óvíst er hvort það hafi átt við nánustu fjölskyldu eða stærri hóp.[3]

Charles-Edwards bendir á að í fyrstu notkun sinni hafi það átt við land einnar fjölskyldu, unnið af einum plóg og að eignarhald á húð veitti stöðu frjáls manns, [4] sem Stenton vísaði til sem „sjálfstæðum herra, bónda, heimili“.[5]  https://en.wikipedia.org/wiki/Hide_(unit)

[6] Hundred dómstól þar sem einka og sakamál voru afgreidd þar með almennum reglum og siðvenjum. Hann kom saman mánaðarlega, á opnu svæði, á stað og tíma sem allir þekktu. (Eins var með vor og haustþing á Íslandi sem voru á kveðnum dögum og vikum, þannig vissu allir hvenær var þingað og menn áttu að koma í tíma annars lá við sektum (Grágás). https://en.wikipedia.org/wiki/Hundred_(county_division) https://wikishire.co.uk/wiki/Hundred

[7] Fjöldi bænda er greiddu þingfaragjald við setningu Tíundarlaga 1095. 158 Hreppar í 12 þingum  (3 goðorð áttu að vera í hverju þingi upphaflega og 3 þing í fjórðungi).

[8] Um skattbændatal 1311 og Manntal á Íslandi fram að þeim tíma. Björn Magnússon Olsen

[9] Fjöldi hreppa í manntali 1703. Hrepparnir voru þá 163 talsins og um 3–5 hreppstjórar (sem sáu um manntalið) voru í hverjum hreppi .

https://baekur.is/bok/8228a8a2-ab00-44fe-9fad-101a1dce1f09/0/6/Manntal_a_Islandi_arid#page/n5/mode/2up

[10] https://markasja.lmi.is/mapview/?application=markasja  (Mynd 1 að neðan)

Gamla germanska stjórnskipulagið.

og aðlögun að engilsaxnesku og íslensku landnámi.

Sigurbjörn Svavarsson

Hér má segja að hundruðin séu hliðstæða íslenska hreppsins og Skíri hliðstæða við goðorð/þing.“

Konrad Maurer segir í bók sinn, Upphaf allsherjarríkis á Íslandi og stjórnarskipunar þess:

 „Allt fram á ofanverða 9.öld var stjórnarfyrirkomu lagið í Noregi að öllu verulegu hið sama og það, er Tacitus segir í Germania að verið hafi á Þýzkalandi. Alþjóðin deildist í marga sjálfstæða þjóðflokka, er nefndust fylki, og ýmsum öðrum nöfnum . Hvert fylki skiftist aftur í marga eða fáa parta, og vóru þeir venjulega nefndir heruð, enn það merkir hundraðssveit.1) Fylki samsvarar því, er Tac. kallar civitas, og herað því, er hann kallar pagus. Fylkin standa í engu eða að minnsta kosti mjög lausu sambandi sín á milli, og eigi vita menn, hvenær myndazt hafi hin víðáttumiklu þinglög, er fleiri eða færri fylki bundust seinna í, til þess að hafa sameiginlegt réttarfar og guðadýrkun. Þó má telja það nokkurn veginn víst, að Gulaþingslög og Frostaþingslög ( í Þrándheimi) hafi myndazt mjög snemma á öldum.

Þar sem Tacitus talar um hina Suevisku og Lygnesku þjóðflokka, og að þeir hafi sameiginlega blótstaði og mannfundi hjá hinum elztu ættþjóðum sínum, Semnónum og Nahanarvölum 2), þá er það einmitt dæmi upp á varanleg fylkjasambönd lík þeim, er í Noregi vóru. Líkari eru þó þing Svía, nágranna Norðmanna, enn eigi á við að tala um þau nákvæmlega í þessu riti.

1 ) Sbr. Sn.E. I, bls . 534: » herr er hundrat«; afleiðsluendingin aþ kemur einnig annarsstaðar fram , sbr. Grimm, Gramm. II, 237. Hjá Engilsöxum táknar herr 35 menn að minnsta kosti, hjá Baiverjum 42. In . 13. gr.: »þjófa heitumvér allt að 7 mönnum, frá 7—35 er flokkur (hlod), þá er her « .- L . Bajuw I , 4. $ 23. (hjá Pertz, monum. Germ. hist . , XV.). „Ef nokkurr umkringir frjálsan mann með fjanda liði, er menn kalla heriraita, það eru 42 skjald berandi menn« 0. s . frv. Þessi afleiðsla staðfestist af því, að í sænskum lögum heitir sá landspartur hundari, er samsvarar heraþ í gotnesku, og er herað stundum haft þar alveg í sömu merkingu og hundari.

2 ) Germ ., cap. 39 & 43 ; hér þarf eigi að geta Vita S. Le buini ( Pertz II, 361) , sem er mjög ótrúleg saga . I 2 !

Stjórnarskipun hvers fylkis var einnig í öllu verulegu hin sama og verið hafði áður á tímum á Þýzkalandi. Fyrir hverju heraði stóð hersir, 1) og var vald hans og verksvið hið sama og þess manns, er í Gautneskum lögum er kallaður häradshöfdingi, enn í þýzkum ritum hunno og centenarius, hjá Gotum hundafads og hjá Engilsöxum hundredes ealdorman. Yfir fylki hverju var höfðingi, sem að öllum líkindum fyrr meir hefir verið nefndur fylkir, enn það orð var síðan í skáldamálinu haft sem heiðursnafn um konunga. 2) Um miðju 9. aldar koma þó oftar fyrir orðin fylkiskonungr og heraðskonungr, og þannig eru bæði forstöðumenn þjóðarinnar í heild sinni og hverrar hundraðs sveitar kallaðir konungar ; ef ýms fylki vóru bundin í varanleg sambönd sem eitt félag, þá varð það að lýsa sér í því, að einhver væri yfirkonungur.3) Eftirtektavert er það, að svo er að sjá , sem nafnið konungur hafi eigi einu sinni verið haft til að tákna þessa yfirkonunga fyrr enn seint á tímum, heldur hafi þeir áður verið kallaðir drottnar 4); má vera, að skift hafi verið um nöfnin eftir það er konungsvaldið fór að ganga í erfðir, og er það þá einkum athugavert, að í hinum elztu ritum vorum er nafnið fylkis konungr þegar komið í staðinn fyrir fylkir, allstaðar nema í skáldamálinu, og heraðskonungr fyrir hersir all oftast.“

1) Hersir er auðsjáanlega myndað af herr, sbr. orðin hersing og hershöfðingi. Um afleiðsluendinguna -ir sbr. Rask, Anvisn. til Isländskan, 184 , bls. Af því, að hersir og härads höfdingi er hið sama, kemur það, að Landn. III, 9. talar um hersa í Svíþjóð, þó það nafn komi annars eigi fyrir þar.

2) Snorra -Edda skýrir orðið þannig : » fyrir því er fylkir kallaðr konungr, at hann skipar í fylkingar herliði sínu«. Það er sjálfsagt, að orðin fylking og að fylkja koma oft fyrir, enn það getur þó varla hrundið þeirri skýring, er sett er fram hér að ofan, því að her (og herað) bendir einnig til hernaðar, og í miðalda – ritum þýðir exercitus bæði her og þjóð. Orðið jarl hefir og líklega merkt hið sama, þótt það sé seinna haft sem kenninafn þess manns, er stýrir einstökum ,, helzt fjarlægum , landshlutum í konungs umboði.

3) Svo virðist sem yfirkonungur hafi setið að Hlöðum í Þrándheimi, eins og í Uppsölum í Svíþjóð og Hleiðru í Danmörk, og hafi hin 8 fylki hlýtt honum . Annars hlaut fylkiskonungur að vera yfirkonungur heraðskonungs ef svo stóð á, að báðir væru í sama fylki.

4) Dróttinn er komið af drótt, eins og hið gotneska orð piudans (þjóðan , konungur) af þiuda (þjóð ), og svarar því til þess, er síðar heitir þjóðkonungur, en þjóðkonungi lúta skattkonungar. 

Skoðum hvernig stjórnun og valdakerfið varð í Englandi eftir landnám hinna germönsku Engla og Saxa í Bretlandseyjum eftir brottför Rómverja á fimmtu öld.

Landnám Engla, Saxa og Jóta.

Afar lítið er vitað um einn mikilvægasta atburð í sögu heimsins, þ.e. komu Jóta, Engla og Saxa (Anglo Saxons)[1] til Englands. Gamlar sagnir í ætt við landnámssagnir okkar um landnám þeirra á Bretlandseyjum eru til í brotum en þessir þjóðflutningar tóku yfir langan tíma, á tímanum frá 450 e.Kr. til 600 e.Kr. Þeir komu stöðugt og í litlum flokkum að mestu leyti að suðaustur og austurströndinni.

Þeir komu fyrst að ströndinni milli Forth og Tees og ráku frumbyggjana aftur til Strathclyde, eftir baráttu sem stóð í mörg ár. Þar á meðal kom Ida sonur Eoppu, með tólf sonu, á fjörutíu drekaskipum fullum af köppum. Hann stofnaði Bambrough-kastalann á ströndinni, sem fyrst var umkringdur sýki og síðan með vegg; og árið 547 e.Kr. varð hann konungur í landi Bernicia, milli Forth og Tees. Ida var kallaður „eldberinn“. Hann ríkti í tólf ár í Bernicia, þegar Ethelric sonur hans tók við af honum. Margir fleiri stríðsmenn lentu á ströndinni milli Tees og Humber. Árið 559 e.Kr. varð höfðingi (Eolderman) þeirra, sem hét Ella, sonur Iffi, sonar Wuscfrea, og í 12. lið frá Woden, konungur í suðurhluta Northumbríu konungsríkinu Deira.

Þegar þeir voru settust að í ríki sínu Deira, með Ella sem konungi og Elfric sem leiðtoga þeirra í stríðinu, urðu ræðarar bændur, tilbúnir til að verja eigur sínar og berjast fyrir því að eignast meira landsvæði handa landsmönnum sínum. Þeir voru ceorls*, karlar, frjálsir menn (bændur) sem komu saman í samfélög fjölskyldna, innan landamerkja eða marka, og báru nöfn að viðbættum ættarnafni. Landseigandinn (bóndinn) átti húð (Hide) lands, bar vopn, hafði atkvæði og tók þátt í þinginu eða samkomuþingi sínu. Sameining svæðanna myndaði vopntake (Vopnatak), af þeim sið að snerta spjót höfðingjans sem trúnaðarmerki. Nokkur Wapentakes (vopnataka) stofnuðu Skíri, með Skírismörkum sínu. Karl (Ceorl)* var lausamaður, en Jarl (Eorl) var aðalsmaður eða höfðingi í friði og stríði, og Eolderman var höfðingi af ætt Kyning (af kyne, örlátur) eða konungur, sem bar kynehelm eða hring af gulli.[4]

Saxar, Englar og Jótar komu frá heimalöndum sínum til ýmissa svæða sem þeir settust að lokum að í Bretlandi. Þeir komu allir frá svipuðu svæði, töluðu líklega sama tungumálið og síðast en ekki síst, höfðu sömu trú. Allir þessar fyrstu ættkvíslir fylgdu Óðni eða Woden og þeir tóku trúarkerfi sitt með sér til Bretlands.Englarnir voru taldir hafa verið bandamenn á sínum tíma með fyrstu Dönum sem síðar tóku land þeirra og voru að hluta orsök þess að þeir fluttu til Bretlands. Saxar voru í svipaðri stöðu þegar þeir fluttu til Bretlands. Eftir því sem Danir urðu sterkari og valdameiri tóku þeir að ná yfir löndin og menninguna nálægt þeim – aðallega Engla og Saxa, en þeir tóku líka yfir stóran hluta Jótlands og olli því að þessi þjóðabrot fluttu til þess lands sem hafði meiri möguleika fyrir þau. Þeir kunna að hafa samlagast í nýrri menningu, en þeir myndu líklega hafa haft sínar eigin gömlu munnmælasaga um þessi fjarlæga forfeðralönd sem höfðu verið tekið yfir af þeim öðrum. Sumar þessara munnmælasögum geymdust í ljóðum og hetjusögum eins og Beowulf, Wulf og Eadwacer og Judith. Önnur slík verk eru Widsith úr Exeter bókinni. Widsith er gamalt ljóð sem geymir þjóðkonunga og hetjur Evrópu á hetjuöld Norður-Evrópu. [2]

Anglo-Saxon Chronicle færslan fyrir árið 449 segir frá því að Hengest og Horsa hafi verið boðið til Bretlands af Vortigern til að aðstoða sveitir sínar við að berjast við Piktana. Hengist og Horsa komu á stað sem heitir Ipwinesfleet og héldu áfram að sigra Pictana hvar sem þeir börðust við þá. Hengist og Horsa sendu Englum skilaboð þar sem þeir lýstu „virðisleysi Breta og auðlegð landsins“ og báðu um aðstoð. Beiðni þeirra var samþykkt og stuðningur barst. Síðar komu fleiri til Bretlands frá löndum Saxa, Englar og Jóta“. Saxar byggðu svæðin í konungsríkjunum Essex, Sussex og Wessex. Jóta byggðu svæðið Kent, Isle of Wight og svæði á aðliggjandi meginlandi sem síðar átti að vera hluti af Wessex. Austurhorn, Miðhorn, Merciar og „allir þeir sem eru norðan Humber“ komu frá svæði Angliu (skaga í Suður-Slesvík, Norður-Þýskalandi) „síðan varð aðskilnaður milli Jóta og Saxa“. Þessar sveitir voru leiddar af bræðrunum Hengist og Horsa, syni Wihtgils, sonar Witta, sonar Wecta, sonar.[3]

Engilsaxar.

Í þessu stutta yfirliti sjáum við hvernig landnám Engla og Saxa var ólíkt landnámi í óbyggðu landi, þar urðu þeir að mynda vígi eða virki gegn óvild íbúa sem fyrir voru, þannig mynduðust þorp og síðan svæði sem höfðu sín mörk og heiti þessara svæða og marka báru nöfn og einkenni germanska uppruna þeirra, þó með frávikum eftir gömlum konungssvæðum Englands og Wales. Grunneiningar landsvæða miðuðust við tiltekin fjölda bænda á svæðinu, alveg eins og í hreppunum íslensku, nöfn þeirra voru Hundred (Hundrað) eða Wapentake (Vopnatak), þessar einingar höfðu sinn eigin alþýðudómstól, líkt og Hreppsþing á Íslandi. Síðan mynduðu þessi svæði stærri einingar, eins og Shire (Skíri), Rapes, Wards líkt og þinghá á Íslandi. Þó hugtakið „hundred“ sé fyrst skráð í lögum Edmund I (939–46) sem mæling á landi sem þjónað var af hundred dómstóli, þá var það við lýði frá því á sjöttu öld og væntanlega kom með Englum og Söxum frá fyrri heimkynnum þeirra. Þessi skilgreining var tengd við svæði sem bar hundrað húða (hides) framfærslu (120 kúgildi).

* ceorl, einnig stafsett Khurl (Karl), frjáls bóndi sem var grundvöllur samfélagsins á engilsaxneska Englandi. Frjáls staða hans einkenndist af rétti hans til að bera vopn, þátttöku í staðbundnum dómstólum og greiðslu gjalda beint til konungs.

Áhrif á germanskar siðvenjur

Forn germönsk lög, (leges barbarorum, eins og rómverskir sagnfræðingar kölluðu þau) höfðu á margan hátt orðið fyrir rómverskrum áhrifum snemma á miðöldum, þar sem ýmsir germanskir ættbálkar álfunnar komust í nánari og friðsamlegri snertingu við stofnanavædda siðmenningu rómverska heimsveldisins – var óhjákvæmilegt að þeir yrðu fyrir menningaráhrifum þaðan. Margir germanskir ​​ættbálkar og þjóðir tóku í kjölfarið að líkja eftir menningarlegum og stofnanalegum hliðum rómverskrar siðmenningar. Fáar af þessum eftirlíkingum voru jafn mikilvægar eða höfðu jafn mikil áhrif á eðli Germana eins og að tileinka sér ritlist, tækni sem breiddist út um germönsku konungsríkin og síðar í takt við kristni, trú sem byggist á læsi. Fram að þessum tímapunkti voru lög eða siðir þjóða í Norður-Evrópu í meginatriðum geymd með rúnum og munnlegri hefð: þau voru stöku sinnum kveðin upp opinberlega og studdist við siðvenjur.

Með ritmáli var þó hægt að koma fornum siðum Norður-Evrópumanna í varanlegt og meira og minna fastmótað form með bleki og pergamenti. Það var almenn tilhneiging meðal germanskra ættbálka í Evrópu að aðlögun að rómverska ritkerfinu fylgdi fljótlega mótun heildrænna landslaga. Það var líka óhjákvæmilegt að við að líkja eftir rómverskri venju um að skrifa niður lög, myndu hliðar rómverskra laga og lögfræði hafa áhrif á þessar nýju germönsku reglurnar. Hinar fjölmörgu lagalegu og hefðbundnu staðhæfingar sem mynda elstu rituðu germönsku lagareglurnar álfunnar eru til vitnis um áhrif rómverskrar tungu og rómverskra laga, þar sem hver þeirra var skrifuð á latínu (erlendu tungumáli) og var oft undir verulegum áhrifum af Justinianus keisara Býzan.

Engilsaxnesk lög og réttur

Réttarríki og stjórnskipulag Engilsaxa sem og norrænna manna byggðist á gamla germanska skipulaginu eins og fyrr sagði og það virðist ekki taka neinum breytingum fyrr en með komu Rómverja norðar í álfunni og síðar með kristninni.

Í Bretlandi var ástandið nokkuð öðruvísi en á meginlandi Evrópu þar sem Róm hafði hörfað frá eyjunni um 400 e.Kr. Þar af leiðandi voru innfæddir íbúar lausir við erlend áhrif þar til í upphaf sjöttu aldar. Árið 597 e.Kr. komu sterk rómversk áhrif aftur til Bretlands, en nú með Engilsöxum, í formi kristninnar og þar með bókstafslistina, skriftina, og læsið. Það er merkilegt að það var skömmu eftir komu fyrsta trúboðsins til Englands, undir forystu Ágústínusar, sendur af Gregoríusi I. páfa, að fyrstu engilsaxnesku lagareglurnar voru gefnar út af Æthelberht, konungi í Kent. Fyrstu sex yfirlýsingar þessara reglna fjalla eingöngu um viðurlög gegn því að misnota eignir kristinnar kirkju og embættismanna hennar, einkum að krefjast tólffaldra skaðabóta fyrir að stela úr húsi Guðs. Aftur á móti eru bætur fyrir að stela frá konungi aðeins níufaldaðar.

Sagnaritarinn Beda skrifaði á áttundu öld og segir að Æthelberht konungur (550-616) hafi, ekki látið rita lögin á latínu eins og hjá hinum germönsku ættkvíslum á meginlandinu,; heldur án fordæma, notað sitt eigið móðurmál, forn-ensku, til að rita lög og dóma, sem höfðu gildi í ríki hans og lagt niður óskrifaða hefð og venju að tilskipanir konungs væru með munnlegri framsetningu eins og höfðu verið áður.

Sem slíkar voru lagareglur Æthelberhts mikilvæg breyting á hefð engilsaxneskra laga: nú varð meginmál lagasiða Kents, eða að minnsta kosti hluti þeirra nú fast og óbreytanleg skrifleg yfirlýsing, ekki lengur háð duttlungum minninga. Lög voru nú eitthvað sem hægt var að benda á og raunverulega, dreifa með auðveldum hætti.

Hverjar sem nákvæmlega ástæður voru fyrir þessu, urðu lagareglur Æthelberhts konungs fyrstar af langri röð engilsaxneskra lagafyrirmæla sem gefin voru út í Englandi næstu 450 árin. Næstum undantekningarlaust var hver opinber útgáfa af konungslögum sem gefin voru út á engilsaxneska tímabilinu skrifuð á fornensku. Getur verið að íslenskir höfðingjar sem margir höfðu dvalist á á Bretlandseyjum og jafnvel gert samninga við enska höfðingja hafi ekki orðið fyrir áhrifum og jafnvel tileinkað sér lestur og skriftir, á talmáli sem var náskylt „danskri tungu“?

Stigveldi dómstóla

Í engilsaxneska ríkinu var stigveldi dómstóla á hverju svæði. Staðbundnir alþýðuréttir sem fyrst eru nefndir á sjöttu öld, voru þekktir sem „Hundrað[5] réttur/dómur. Staðbundin mál voru tekin fyrir í rétti í Hundraðinu og það var skylda Hundraðsins (og allra manna að taka þátt í því) að skipuleggja eftirför að glæpamönnum á flótta.

Skíri í Englandi.

Nokkur hundruðum voru í Skíri, undir stjórn fógeta. Mörk hundruða voru óháð bæði sóknar- og sýslumörkum sem síðar urðu til, þó oft væru þau samræmd, sem þýðir að hægt var að skipta hundraði á milli sýslna eða skipta sókn á milli hundruða. Í undantekningartilvikum, í sýslum Kent og Sussex, var sýslunni skipt ákveðin upp og nokkur hundruð , ýmist heil eða hálf, voru sett saman í stærri einingar eins og Shire og Rape.

Engilsaxneska England var vel rekið ríki. Konungurinn hafði endanlegt vald, en á 9. og 10. öld var þróað flókið stjórnkerfi sveitarfélaga til að innheimta skatta og viðhalda lögum og reglu. Þær reglur geymdu grimmilegar aðferðir til að skera úr um sekt eða sakleysi eins og réttarhöld með eldi og vatni, en einnig þróun í sanngjarnari réttarhöldum fyrir kviðdómi.

Hér má segja að hundruðin séu hliðstæða íslenska hreppsins og Skíri hliðstæða við goðorð þing.

Hvernig var haldið uppi lögum og reglu á engilsaxneska Englandi?

Í hjarta 10. aldar ríkisins var eiður tekinn af öllum frjálsum mönnum frá 12 ára aldri, að forðast þátttöku í stórum glæpum og að tilkynna þá sem gerðu það. Þessi sameiginlegi eiður gerði venjulegt fólk ábyrgt fyrir öryggi eigin samfélags. Ef maður braut eiðinn gat fjölskyldan verið dregin til ábyrgðar og gæti verið refsað og sakamanni og fjölskylda hans gæti verið þvinguð í útlegð. Ættingjar fórnarlambsins gátu krafist skaðabóta vegna meiðsla eða dauða (þetta var kallað „vergildið“). Ef ágreiningur var ekki leystur gátu fjölskyldur leitað hefnda. Þessi vígaregla er næstum eins í íslenska Baugatalinu. Samkvæmt Grágás hafði tólfvetra maður náð lögræðisaldri, í Þingskaparhætti segir að ef goði nefnir sinn mann í í dóm, „skal hann vera tólf vetra gamall, sem fyrir orði eða eiði kann að ráða“.

Tíundir (Tithings): Var hópur tíu fjölskyldna. Báru ábyrgð á að halda uppi reglu í hópnum. Framfylgdu tveimur lögum: morð og þjófnaði ef fólk dæmt að verki og var ekki um neina miskunn að ræða, eins og gert var í íslensku hreppunum samkvæmt ákvæðum Grágásar.

Hundruð í Stafford skíri.

Tíu tíundir mynduðu Hundruð (Hundred) og yfir þeim var kjörinn Hundraðsstjóri, sem svaraði til Hersi í norræna kerfinu. Hérað eða sýslur ( Shire, Rape, Ward): Voru samsett úr nokkrum „hundruðum“ Yfirvald héraðsins var shire-reeve (sýslumaður) Hvert hérað átti sína hirð og var undir stjórn jarls. Jarl hafði vald yfir héraðsdómstólunum, en varð að gjalda konungi þriðjung af fé sem innheimt var í sektum eða sköttum af Sýslumanni.


[1] Anglo-Saxon varð þjóðernisuppruni Engilsaxa innan Bretlands og auðkennið var ekki einsleitur uppruni. Engilsaxnesk sjálfsmynd spratt af samskiptum landnemahópa frá nokkrum germönskum ættbálkum, bæði sín á milli og við frumbyggja Breta. Margir frumbyggjanna tileinkuðu sér með tímanum engilsaxneska menningu og tungumál. Engilsaxar stofnuðu hugtakið, og konungsríkið, England, og þó að nútíma ensk tunga hafi minna en 26% orða sinna úr upprunalegu tungumáli þeirra, nær það yfir langflest orð sem notuð eru í daglegu tali.   

[2] https://en.wikipedia.org/wiki/Widsith

[3] Woden.https://en.wikipedia.org/wiki/Hengist_and_Horsa

[4] The Paladins of Edwin the Greatby Sir Clements R. Markham https://www.gutenberg.org/files/45543/45543-h/45543-h.htm#Page_270

[5] Hundrað dómstól, þar sem einka og sakamál voru afgreidd þar með almennum lögum. Hann kom saman mánaðarlega, á opnu svæði, á stað og tíma sem allir þekktu.https://en.wikipedia.org/wiki/Hundred_(county_division)  https://wikishire.co.uk/wiki/Hundred

Í bókinni A winter in Iceland and Lapland e. Arthur Dillon  pub. 1840 segir m.a: „Hreppar,“ hugtak sem að mörgu leyti er hliðstætt okkar Hundruðum;

24 Wapentake (Vopnatak)

Wapentake var ígildi ensksaxneska hundraðið í norðurhluta Danelaw. Í Domesday Book, er hugtakið notað í stað Hundraðs í Yorkshire, Five Boroughs of Derby, Leicester, Lincoln, Nottingham og Stamford, og stundum í Northamptonshire. Lögin í Wapentakes voru svipuð þeim í Hundraði með örlitlum frávikum. Samkvæmt sagnfræðingnum Tacitus á fyrstu öld, vísaði Wapentake á Norðurlöndunum til kosningu á þingi um að bregða vopnum. Í sumum sýslum, t.d Leicestershire, breytist hugtakið á tímum Domesday Book síðar í Hundrað. Í öðrum t.d  Lincolnshire, hélst hugtakið áfram.

Samkvæmt Grágás merkir Vopnatak, þingslit, og eða staðfestingu dóms.