Margar stjórnarskrár geyma ákvæði um stjórnarform ríkisins og helstu meginreglur stjórnskipunarinnar og jafnvel nokkurs konar heimspekilegan og siðferðislegan grundvöll ríkisins.
Algeng eru ákvæði um uppsprettu ríkisvalds. Þannig segir í 1. grein sænsku stjórnarskrárinnar (Regeringsformen) að “allt almannavald stafar frá þjóðinni” og ennfremur að sænskt lýðræði sé byggt á “frjálsri skoðanamyndun og almennum og jöfnum kosningarétti”. Eðli þeirra réttinda sem tryggð eru í stjórnarskrá getur verið misjafnt. Hægt er að flokka réttindin á marga vegu:
Í fyrsta lagi má greina á milli réttinda eftir því hvort dómstólar geti byggt á þeim niðurstöðu eða ekki. Reyndar draga sumir í efa að réttindi sem ekki er hægt að fá fulltingi dómstóla fyrir séu eiginleg réttindi. Nær væri að tala um markmið sem ríkinu beri að stefna að. Má taka sem dæmi 22. gr. hollensku stjórnarskrárinnar þar sem segir: “Stjórnvöld skulu grípa til aðgerða til að bæta heilsu almennings.”
Í öðru lagi má flokka réttindi út frá því hvert sé hlutverk ríkisins við að framfylgja þeim. Þar má greina aðallega á milli annars vegar frelsisréttinda þar sem ríkinu ber fyrst og fremst að halda að sér höndum og hins vegar tilkallsréttinda þar sem ríkinu ber að láta eitthvað í té. Þessi skipting fer að nokkru leyti saman við skiptingu í stjórnmálaleg og borgaraleg réttindi annars vegar og félagsleg réttindi hins vegar. Til viðbótar vilja sumir meina að réttindi til þátttöku í starfsemi ríkisins séu sérstakur flokkur réttinda sem og réttindi sem tengjast réttlátri málsmeðferð. Eins er algengt að tala um mismunandi kynslóðir réttinda og er þá gjarnan vísað til réttar til friðar og heilnæms umhverfis sem nýjustu kynslóðarinnar í þeim efnum.
Víða hefur það álitamál uppi hvernig eigi að fara með hin svokölluðu félagslegu réttindi. Öðrum þræði eru réttur til vinnu, lífsviðurværis og húsnæðis svo dæmi sé tekið einhver mikilvægustu réttindi fólks og því jafnvel hugleiknari en hin svokölluðu borgaralegu og stjórnmálalegu réttindi (tjáningarfrelsi, félagafrelsi, friðhelgi einkalífs o.s.frv.).
Á hinn bóginn er mikil tregða til að viðurkenna réttindi með lagalega skuldbindandi hætti sem kosta fjárútlát af hálfu ríkisvaldsins.
Í sumum nýlegum stjórnarskrártextum er þetta vandamál leyst með því að hafa sérstaka kafla um “félagsleg markmið”, sbr. t.d. 3. kafla svissnesku stjórnarskrárinnar frá árinu 2000. Þar segir að sambandsríkið og kantónurnar skuli kosta kapps um að tryggja að allir njóti almannatrygginga, heilbrigðisþjónustu, hentugs húsnæðis, menntunar og aðstoðar samfélagsins þegar eitthvað bjátar á vegna aldurs, fötlunar, veikinda, slysa, atvinnuleysis o.s.frv. Jafnframt er tekið fram að ákvæði þessi leiði ekki til þess að einstaklingar öðist lagalega bindandi rétt til framlaga af hálfu ríkisins.
Úr „ Stjórnskipunarþróun í Evrópu.“