ORÐALISTI

ORÐALISTI
Hugtakasafn úr norrænni goðafræði.

Alfaðir er eitt af fjölmörgum heitum Óðins.
Alsvinnur og Árvakur heita hestarnir sem draga kerru Sólar.
Andhrímnir er nafn steikarans sem sýður göltinn Sæhrímni í katlinum Eldhrímni í Valhöll.

Askur og Embla eru fyrstu manneskjurnar samkvæmt sköpunarsögu norrænnar goðafræði. Þau urðu til þegar fyrstu goðin, Óðinn, Vilji og Vé, fundu tvö tré á ströndu og gerðu úr þeim mannverur. Óðinn gaf þeim anda og líf, Vilji vit og skilning og Vé mál, heyrn og sjón.

Askur Yggdrasils sjá Yggdrasill.

Auðhumla heitir frumkýr sem varð til þegar hrímið draup í árdaga. Úr spenum hennar runnu fjórar mjólkurár sem nærðu hrímþursinn Ými. Auðhumla sleikti salta hrímsteina í þrjá daga og leysti úr þeim forföður goðanna, Búra.

Austri er einn fjögurra dverga sem halda uppi himninum sem gerður var úr höfuðskel Ýmis. Austri heldur uppi austurhorni himinsins, Norðri norðurhorninu, Suðri suðurhorninu og Vestri vesturhorninu.

Árvakur sjá Alsvinni.
Ás/Ásynjur sjá æsir.
Ása-Þór er eitt af heitum Þórs.
Ásgarður er bústaður ása. Hann stendur þar sem heimurinn rís hæst og þangað má komast um brúna Bifröst. Þar eru bústaðir goðanna, m.a. Valhöll.

Baldur er einn ásanna, sonur Óðins og Friggjar, eiginmaður Nönnu og faðir Forseta. Bústaður Baldurs er Breiðablik. Baldur er bestur og vitrastur goðanna og eftirlæti allra.

Bergelmir er eini jötunninn sem ekki drukknaði í blóði Ýmis. Því eru allar ættir hrímþursa komnar af Bergelmi og konu hans. Ýmir var afi Bergelmis.

Bestla er jötnamær, dóttir Bölþorns jötuns. Með Bor á Bestla hin fyrstu goð, Óðin, Vilja og Vé.

Bifröst heitir brúin milli Miðgarðs og Ásgarðs sem goðin byggðu og sést frá jörðu sem regnbogi. Annar endi Bifrastar er á himni, hjá Himinbjörgum þar sem Heimdallur býr. Á hverjum degi ríða æsir yfir Bifröst að Urðarbrunni til dóma.

Bil og Hjúki heita mennsk börn sem Máni tók til fylgdar við sig.
Bilskirnir er bústaður Þórs.
Bor heitir faðir fyrstu goðanna, Óðins, Vilja og Vés. Bor er sonur Búra og kona hans var Bestla, dóttir Bölþorns jötuns. Jötnar eru þannig forfeður goðanna og voru til á undan þeim.

Bragi er norræni skáldskaparguðinn, sonur Óðins. Þess vegan er skáldskapur oft kallaður bragur. Kona hans er Iðunn.
Breiðablik heitir bústaður Baldurs og Nönnu. Það er fagur staður þar sem aldrei verður óhreint.
Brísingamen er skartgripur Freyju.
Búri er ættfaðir ásanna sem kýrin Auðhumla sleikti lausan úr hrímsteinum, faðir Bors og afi hinna fyrstu goða, Óðins, Vilja og Vés.
Bölþorn heitir faðir jötnameyjarinnar Bestlu.

Dagur er sonur Nætur og persónugervingur dagsins. Hann ríður hestinum Skinfaxa yfir himininn en móðir hans, Nótt, ríður Hrímfaxa.

Dvergar eru vitrar verur sem búa undir björgum og í klettum. Þeir eru miklir hagleiksmenn. Dvergarnir Austri, Norðri, Suðri og Vestri halda uppi himninum, hver í sínu horni. Í Snorra-Eddu segir að dvergar hafi kviknað niðri í jörðinni eins og maðkar í holdi, þeir fyrstu í holdi Ýmis.

Einherjar eru menn sem deyja í bardaga og valkyrjur fara með til Óðins í Valhöll. Einherjar berjast daglangt á Iðavelli en að kvöldi rísa hinir föllnu upp og setjast að drykkju. Aðeins þeir menn sem dóu í bardaga gátu orðið einherjar.

Eldhrímnir heitir ketillinn í Valhöll sem eldamaðurinn Andhrímnir matbýr í göltinn Sæhrímni.

Embla sjá Askur og Embla.

Epli Iðunnar eru töfraepli sem halda goðunum ungum. Gyðjan Iðunn gætir eplanna.

Élivogar er mikil á sem rennur úr Niflheimi. Við sköpun heimsins flytur hún með sér kuldann sem mætir hitanum úr Múspellsheimi í Ginnungagapi. Við þann samruna kviknar fyrsta lífið, hrímþursinn Ýmir.

Fensalir heitir bústaður Friggjar.

Freyja er norræna ástargyðjan. Hún er af vanaætt, dóttir Njarðar og systir Freys. Freyja ekur um á vagni sem tveir kettir draga. Auk þeirra eru einkennisgripir Freyju valshamur, gölturinn Hildisvíni og Brísingamen. Freyja er oft í forsvari fyrir ásynjur og ævinlega girnast jötnar hana.

Freyr er mestur goða af ætt vana og mikilvægasta frjósemisgoð norrænnar goðafræði. Freyr er sonur Njarðar og bróðir Freyju. Freyr ræður fyrir regni, skini sólar og frjósemi jarðar.

Frigg er höfuðgyðja í heiðnum sið af vanaætt og einungis Freyja hefur mikilvægara hlutverki að gegna. Frigg er kona Óðins og á með honum eina dóttur og sex syni, m.a. Baldur. Bústaður hennar í Ásgarði heitir Fensalir.
Þjónustumeyjar Friggjar eru Fulla og Gná. Ginnungagap er hið mikla tóm sem var til fyrir sköpun
heimsins. Fyrir norðan það varð hinn ískaldi Niflheimur til en að sunnan eldheimurinn Múspellsheimur.

Gjallarhorn er horn ássins Heimdalls sem hann blæs í til að vara goðin við þegar ragnarök skella á.

Goð/guð(ir) eru af tveimur meginættum: æsir og vanir. Æsir eru goð hernaðar og valda en vanir frjósemisgoð. Í árdaga háðu ættirnar mikil stríð en sömdu svo frið og skópu með sætt sinni manninn Kvasi. Goðin standa fyrir það góða í norrænni goðafræði en jötnar og annað illþýði það illa.
Heiðnir menn trúðu á og dýrkuðu goðin og hétu á þau til ólíkra hluta. Þekkt nöfn á goðum eru: Óðinn, Þór, Njörður, Freyr, Týr, Heimdallur, Bragi, Víðar, Váli, Ullur, Hænir og Forseti. Ekki er vitað hversu margar ásynjur voru í raun dýrkaðar sem slíkar í heiðni en þau nöfn sem nefnd eru í fornum heimildum eru: Frigg, Freyja, Gefjun, Iðunn, Gerður, Sigyn, Fulla, Nanna, Sága, Eir, Sjöfn, Lofn, Vár,
Vör, Syn, Hlín, Snotra, Gná, Sól og Bil. Loki er jötnaættar en ævinlega með ásum enda fóstbróðir Óðins.

Hati er úlfurinn sem eltir mánann yfir himininn og mun gleypa hann í ragnarökum. Úlfurinn Skoll eltir sólina.

Heiðrún heitir geitin sem stendur á þaki Valhallar. Úr spenum hennar rennur hreinn mjöður í drykkjarker einherja.

Heimdallur er norrænt goð sem stundum er sagður faðir alls mannkyns. Hann á níu mæður sem allar voru systur. Hann á hestinn Gulltopp og lúðurinn Gjallarhorn og heyrist blástur hans í alla heima. Heimdallur býr í Himinbjörgum við Bifröst og gætir brúarinnar fyrir bergrisum. Hann þarf minni svefn en fugl og sér jafnt nótt sem dag hundrað rastir frá sér. (Röst er forn mælieining sem nemur um 12 km.) Hann heyrir og gras vaxa á jörðu og ull á sauðum. Hann er svarinn óvinur Loka.

Hel heitir heimur hinna dauðu. Til Heljar koma þeir men sem deyja ekki í bardaga. Vegurinn til Heljar nefnist Helvegur.

Himinbjörg heitir bústaður Heimdallar sem stendur við himins enda, við brúarsporð Bifrastar.

Hjúki sjá Bil.

Hliðskjálf er hásæti Óðins og þaðan má sjá um heima alla.

Hrímfaxi heitir hesturinn sem Nótt ríður yfir heiminn.

Hrímþursar er annað heiti á jötnum. Það á rætur að rekja til þess að forfaðir jötna, Ýmir, varð til við sköpun heimsins þegar hrím mætti hita.

Hræsvelgur heitir jötunn í arnarham sem situr á enda heimsins og kemur vindinum af stað með vængjaslögum sínum.

Hvergelmir er uppspretta í Niflheimi, undir Aski Yggdrasils, sem úr falla ellefu ár. Í honum eiga öll vötn heimsins upptök sín. Í Hvergelmi býr Níðhöggur.

Iðavöllur er goðsögulegur völlur í miðjum Ásgarði þar sem askur Yggdrasils stendur. Á Iðavelli berjast einherjar dag hvern.

Iðunn er ein af ásynjum norrænu goðafræðinnar, gyðja ástar og æsku og kona Braga. Iðunn ræður yfir æskueplunum sem æsir éta til að halda sér ungum.

Jörð er goðvera sem telst til ásynja en er einnig sögð tröllkona. Þór er sonur hennar og Óðins.

Jötunheimur, -heimar er ógnvænlegt jötnaríki sem liggur utan Miðgarðs og skilja ár það frá mannheimi. Einnig nefndur Útgarður.

Loki er flóknasta og jafnframt neikvæðasta persónan í goðafræðinni. Faðir hans er jötunninn Fárbauti, móðir hans heitir Laufey eða Nál. Kona Loka heitir Sigyn og synir þeirra eru Narfi og Váli.

Máni er sonur Mundilfara og bróðir Sólar. Hann keyrir vagn mánans yfir himinhvolfið.

Miðgarður heitir miðja heimsins og sá staður þar sem mannfólkið býr.

Mundilfari er faðir Sólar og Mána sem æsir köstuðu upp á himininn.

Múspellsheimur heitir eldheimur og þaðan kom hitinn við sköpun heimsins. Múspellssynir eru eldjötnar.

Naglfar er skip hinna dauðu sem sjósett er í ragnarökum og flytur Múspellssyni til bardaga við goðin. Naglfar er gert af nöglum dauðra manna og er stærst allra skipa.

Nanna er ein af ásynjunum, eiginkona Baldurs, dóttir Neps og móðir Forseta.

Niflheimur heitir staður í norðri sem var til fyrir sköpun heimsins. Milli hans og hins heita Múspellsheims er Ginnungagap. Ein af rótum asks Yggdrasils stendur yfir Niflheimi og undir henni er brunnurinn Hvergelmir.

Níðhöggur er dreki sem drekkur blóð dauðra og étur lík. Einnig er sagt að hann búi undir aski Yggdrasils og nagi rætur hans.

Njörður er norrænt goð af vanaætt, faðir systkinanna Freys og Freyju. Njörður er sjávar- og frjósemisgoð.
Nóatún er bústaður goðsins Njarðar.
Norðri sjá Austri.
Nornir skapa mönnum örlög samkvæmt norrænni goðafræði.

Við Urðarbrunn sitja örlaganornirnar þrjár, Urður, Verðandi og Skuld, og ráða örlögum manna.
Nótt er persónugervingur næturinnar.

Óðinn er æðsta goð norrænar goðafræði. Hann er aðallega goð skáldskapar, hernaðar og dauðans en einnig goð töfra, galdra og rúnastafa. Óðinn og bræður hans, Vilji og Vé, voru fyrstu goðin. Þeir eru synir Bors og tröllkonunnar Bestlu. Óðinn er kvæntur Frigg og þekktustu synir hans eru:
Baldur (með Frigg),
Þór (með Jörð) og Váli (með Rindi),
en börn Óðins eru miklu fleiri. Bústaður Óðins í Ásgarði
heitir Glaðsheimur, þar er höllin Valhöll og hásætið
Hliðskjálf þaðan sem Óðinn sér um heima alla.

Ratatoskur heitir íkorninn sem hleypur upp og niður stofn asks Yggdrasils og ber öfundarorð á milli drekans Níðhöggs, sem nagar rætur asksins, og arnarins sem situr í greinum hans.

Sif er ein ásynjanna, eiginkona Þórs og móðir Ullar. Hún er frægust fyrir mikið og fallegt hár.
Sigyn er eiginkona Loka og ein ásynjanna.
Skinfaxi heitir hesturinn sem Dagur ríður.
Skoll heitir úlfurinn sem eltir sólina á ferð hennar yfir.
Skuld sjá Urður, Verðandi og Skuld; norn.

Sól er dóttir Mundilfara og systir Mána. Hún keyrir vagn sólarinnar um himinhvolfið sem hestarnir Alsvinnur og Árvakur draga.

Suðri er einn fjögurra dverga sem halda uppi himninum. Sjá Austri.

Sæhrímnir er gölturinn sem steikarinn Andhrímnir sýður dag hvern í katlinum Eldhrímni handa einherjum í Valhöll eftir að þeir hafa barist allan daginn. Kjötið af Sæhrímni nægir alltaf til að metta einherjana, sama hversu margir þeir eru, og á hverjum morgni rís gölturinn alheill upp á ný.

Tanngnjóstur og Tanngrisnir heita hafrar Þórs. Þeim má slátra og éta að kvöldi. Ef öllum beinum er kastað á húðirnar og Mjölni sveiflað yfir rísa þeir heilir upp að morgni.

Tröll, jötunn og þurs eru samheiti yfir óvinveitt illþýði úr Útgarði sem ógna Ásgarði og Miðgarði og Þór berst gjarnan við.

Týr er norræna himin-, stríðs- og þinggoðið, jötunninn Hymir er nefndur sem faðir hans en einnig sjálfur Óðinn. Hvergi er nefnt að hann eigi konu eða afkomendur.

Ullur er eitt goðanna, sonur Sifjar og stjúpsonur Þórs.

Urðarbrunnur er undir þeirri rót asks Yggdrasils sem stendur á himni. Þar eiga goðin dómstað sinn og þar er fagur salur þar sem örlaganornirnar, Urður, Verðandi og Skuld, sitja og skapa mönnum örlög. Á hverjum degi taka nornirnar vatn úr brunninum og ausa upp yfir askinn.

Útgarður eða jötunheimar er svæðið sem liggur utan þess hluta heimsins sem menn og goð byggja og er bústaður jötna, þursa og annars illþýðis. Í Útgarði er illt að vera og erfitt að rækta jörðina og því sækja jötnar sífellt í land ása.

Valhöll heitir bústaður Óðins í Ásgarði og þangað safnar hann öllum þeim sem deyja í bardaga og gerir þá að einherjum.
Veggir Valhallar eru þaktir spjótum og skjöldum og brynjur liggja á bekkjum. Valkyrjur vísa einherjum til sætis í Valhöll þar sem þeir borða kjöt af geltinum Sæhrímni og drekka mjöð úr spenum geitarinnar Heiðrúnar.

Valkyrjur eru stríðsmeyjar sem hafa áhrif á gang orrustu. Þær ráða því hverjir deyja og verða að einherjum. Valkyrjur færa Óðni hinar föllnu hetjur til Valhallar og bera einherjum öl.

Vanir er önnur tveggja goðaætta (hin er æsir) og kemur úr Vanaheimum.

Vé(i) er eitt hinna fyrstu goða, sonur Bors og tröllkonunnar Bestlu, bróðir Óðins og Vilja.

Vilji er eitt hinna fyrstu goða, sonur Bors og tröllkonunnar Bestlu, og bróðir Óðins og Vés.

Vingólf eða Víngólf er fagur salur gyðjanna í Ásgarði.

Víðar heitir einn ásanna, sonur Óðins og tröllkonunnar Gríðar.

Völva er kona sem getur spáð fyrir um framtíðina.

Yggdrasill eða askur Yggdrasils heitir heimstré hinna norrænu goðsagna. Króna hans breiðir sig yfir allan heiminn og rætur hans teygja sig til þriggja átta. Ein rótin nær til Niflheims, þar er brunnurinn Hvergelmir og drekinn Níðhöggur nagar rótina. Önnur rótin er í Jötunheimum, þar er Mímisbrunnur og vitri jötunninn Mímir. Þriðja rótin er á himnum, við hana er Urðarbrunnur.

Ýmir heitir frumjötunn norrænu sköpunarsögunnar. Hann var tvíkynja og jók kyn sitt þannig að annar fótur hans eignaðist son með hinum og eru þaðan komnar ættir hrímþursa.

Þór er hinn norræni þrumuguð. Hann er sonur Óðins og bróðir Baldurs. Móðir Þórs er Jörð. Nöfn allra barna Þórs minna á ógurlega krafta hans: synir hans eru Móði og Magni og dóttir hans heitir Þrúður. Kona Þórs heitir Sif og Ullur er stjúpsonur hans. Þór er stór vexti, sterklegur og rauðskeggjaður, með stingandi augnaráð og mikill drykkju- og matmaður. Þór er sterkastur ása og ver goð og men gegn hættulegum öflum Útgarðs: jötnum og Miðgarðsormi. Höll Þórs stendur á Þrúðvangi í Ásgarði og heitir Bilskirnir. Þór á mikinn vagn sem hafrarnir Tanngrisnir og Tanngnjóstur draga.

Þrúðvangur er staður í Ásgarði þar sem bústaður Þórs, Bilskirnir, stendur.

Þurs, jötunn og tröll eru samheiti yfir óvinveitt illþýði úr Útgarði sem ógna Ásgarði og Miðgarði og Þór berst gjarnan við.

Æsir eru stærri ættin í norrænni goðafræði. Hin ættin er vanir. Til ása teljast helstu og æðstu goðin. Eftir sköpunheimsins bjuggu æsir til röð og reglu, settu sól og mána upp á himininn þannig að sólarhringurinn skiptist í dag og nótt. Þeir reistu Ásgarð. Vegna epla Iðunnar haldast æsir síungir.

Öku-Þór er auknefni Þórs sem væntanlega er dregið af því að einn einkennisgripa Þórs er vagn sem dreginn er af tveimur höfrum, Tanngnjósti og Tanngrisni.
________________________________________

Baldurs draumur (Vegtamskviða)

Grímur Óðins

Elsa-Brita Titchenel

26. Kafli

Baldurs draumur (Vegtamskviða)

Þessi þekkta saga hefur verið sögð í mörgum útgáfum. Baldur sólargoð fékk forspá í draumi sem olli Ásum áhyggjum. Þegar Óðinn frétti að Hel, dauðagyðjan, væri að undirbúa komu sonar hans, bað Óðinn Frigg, móðir goðanna, þess að hún tæki eið af öllum skepnum að þær myndu ekki skaða Baldur. Allir samþykktu glaðir kröfu hennar og hættunni sýndist afstýrt. Eitt hafði þó yfirsést, mistilteinn, of lítilfjörlegum til að geta talist hættulegur.
Loki hafði lært af yfirsjón sinni. Hann týndi af þessari litlu jurt og útbjó ör úr henni og fór á goðafund þar sem þeir í gamni sínu hentu vopnum að Baldri, sem hlægjandi og óvarinn henti gaman af þegar vopnin hrukku af honum ósködduðum. Aðeins tvíburabróðir Baldurs, Höður stóð hjá. Loki gekk til hans og spurði hvort hann vildi ekki taka þátt í leiknum og bauðst til að leiðbeina honum að miða svo hann gæti notið leiksins. En örin sem Loki setti í boga Haðar var hin banvæni mistillteinn. Hún smaug í hjarta sólargoðsins sem þar með ferðaðist til Heljar.
Dulbúinn sem Hermóður (guðlegt hugrekki) reið Óðinn til gyðju dauðans, Heljar, til að endurheimta sólargoðið, sem hún féllst á, ef án undantekningar allar skepnur myndu gráta Baldur. Frigg gekk á allar skepnur og allar grétu hin elskaða Ás. Allt sýndist ganga vel þar til hún rakst á gamla kráku — Loka í gervi — sem neitaði. Niðurstaðan var því ótvíræð, Baldur yrði kyrr í húsakynnum Heljar.
Sólargoðið var lagður til hvílu í skip sitt, elskuleg eiginkona hans Nanna (tunglið) dó úr harmi og var lögð við hlið hans. Áður en brennandi skipi hans var sleppt var sagt að Óðinn hafi beygt sig niður og hvíslað einhverju í eyra sonar síns. (1)
Það er margir lyklar sem passa við þessa sögu. Sólargoðið deyr á hverju ári við vetrarsólhvörf og er endurborinn á hverri nóttu sem skref til að hefna dauða hans fram að nýrri ársól. Hátíð hinnar „óvinnandi sólar“ var alstaðar haldin norðan miðbaugs sem heilagur tími, jól, sem síðar varð að Kristmessu. Það var tími „Meyfæðingar“ þegar hið guðlega fæðist í fullnuma sem vígður er í launhelgarnar. Fæðingu Krists var gefinn þessi dagur til að kenna hann sem einn af þessum fullnumum.
Önnur túlkun vísar í sögn um lok sólar eða hinnar gullnu aldar. Í árdaga mannkynsins ríkti sakleysi í hinum unga huga manna. Það var tími friðar og einlægni, eðlislæg hlíðni við lögmál náttúrunnar ríkti og áhrif guðanna stjórnaði lífi sköpunnar. Þegar hópgreind manna fór að reyna afl sitt, leiddi frjálst val og vilji óhjákvæmilega til rangsleitni og siðalögmál ábyrgðar kom inní myndina ásamt öflum fávisku og myrkurs, sem táknað er með hinum blinda goði Höði, þeir voru verkfærin sem luku þessari blíðu saklausu tilveru. Svipað og sagt er frá í Bíblíunni þegar Adam og Evu voru rekin úr Aldingarðinum Eden eftir að hafa bragðað á forboðnum ávexti tréðs ills og góðs, því þau voru orðin eins og goðin, ábyrg fyrir þroska og þróun sinni. Mannlegur hugur verður að vera frjáls til að ákveða vegferð sína, sakleysi og stefnuleysi æskunnar ríkti ekki lengur, sálin varð að taka stefnuna og stýra að markmiði sínu, að fullkomnun og birta goðumlíkna vitund sína æ betur.
Þróunarkrafan um greind í verki — Loki, dulbúinn sem gömul kráka — neitar að syrgja þessa liðnu gullnu öld, því raunverulega innri vinna mannsins verður að hefjast. Bundinn í undirheimum verður Loki að þola þjáningar til enda tímans. Hinn fagra, Skaði, andstæða eiginleika Njarðar, aldar Satúrnusar, bindur höggorm yfir andliti hans og eitur hans drípur án afláts á þennan bundna títan og eykur þjáningar hans á meðan Signý trú eiginkona hans við hlið hans reynir að grípa eitrið í skjóðu. Það er þegar hún þarf að tæma skjóðuna að eitrið drýpur á andlit Loka og hann stynur af sársauka, þá hristist jörðin.
Þetta er sorgleg mynd sem haldið er fram í flestum ef ekki öllum ritum, að þau öfl sem neyddu manninn úr sakleysi æskunnar yfir í þroska og ábyrgð sé álitin af hinu illa. Kannski er það vegna almennar tregðu mannkynnsins til að fullorðnast. Jafnvel í dag eru það margir sem vilja fremur leggja ákvarðanir sínar við dyr einhverra drottna, raunverulegra eða ímyndaðra og vilja helst engar byrðar bera, þó lítisháttar athugun og íhugun ætti að sannfæra okkur um að til að uppfylla meiri örlög verður þroskuð vera að yfirgefa æskuna og takast á við tilgangsmeiri þátttöku í heiminum. Þannig er Loki neyddur til að bíða í djúpi efnisins og þjást til loka hringrásarinnar. Sársauki hans er aukinn með eitri þekkingarhöggormsins, á sama hátt og þjáning Prometheus var aukin við að ránfuglar kroppuðu í lifur hans. Báðar pyndingarnar lýsa misnotkun mannsins á guðgjöf hugans. Fórn þess upplýsta lýkur ekki fyrr en mannleg þrautaganga verður að fullu lokið, þegar Fenris, afkvæmi Loka, verður frjáls og gleypir sólina í lok lífs hennar og Vali heldur áfram verki sólarguðsins í stærri birtingu. Þá munum við kannski vita hverju Óðinn hvíslaði í eyra Baldurs.

27. Kafli

Efnisyfirlit
________________________________________

Baldrs draumar   (Vegtamskviða)

1.
Senn váru æsir
allir á þingi
ok ásynjur
allar á máli,
ok um þat réðu
ríkir tívar,
hví væri Baldri
ballir draumar.

2.
Upp reis Óðinn,
alda gautr,
ok hann á Sleipni
söðul of lagði;
reið hann niðr þaðan
niflheljar til;
mætti hann hvelpi,
þeim er ór helju kom.

3.
Sá var blóðugr
um brjóst framan
ok galdrs föður
gól of lengi;
fram reið Óðinn,
foldvegr dunði;
hann kom at hávu
Heljar ranni.

4.
Þá reið Óðinn
fyrir austan dyrr,
þar er hann vissi
völu leiði;
nam hann vittugri
valgaldr kveða,
unz nauðig reis,
nás orð of kvað:

5.
„Hvat er manna þat
mér ókunnra,
er mér hefir aukit
erfitt sinni?
Var ek snivin snævi
ok slegin regni
ok drifin döggu,
dauð var ek lengi.“

Óðinn kvað:
6.
„Vegtamr ek heiti,
sonr em ek Valtams;
segðu mér ór helju,
ek mun ór heimi:
Hveim eru bekkir
baugum sánir,
flet fagrlig
flóuð gulli?“

Völva kvað:
7.
„Hér stendr Baldri
of brugginn mjöðr,
skírar veigar,
liggr skjöldr yfir,
en ásmegir
í ofvæni;
nauðug sagðak,
nú mun ek þegja.“

Óðinn kvað:
8.
„Þegj-at-tu, völva,
þik vil ek fregna,
unz alkunna,
vil ek enn vita:
Hverr mun Baldri
at bana verða
ok Óðins son
aldri ræna?“

Völva kvað:
9.
„Höðr berr hávan
hróðrbaðm þinig,
hann mun Baldri
at bana verða
ok Óðins son
aldri ræna;
nauðug sagðak,
nú mun ek þegja.“

Óðinn kvað:
10.
„Þegj-at-tu, völva,
þik vil ek fregna,
unz alkunna,
vil ek enn vita:
Hverr mun heift Heði
hefnt of vinna
eða Baldrs bana
á bál vega?“

Völva kvað:
11.
Rindr berr Vála
í vestrsölum,
sá mun Óðins sonr
einnættr vega:
hönd of þvær
né höfuð kembir,
áðr á bál of berr
Baldrs andskota;
nauðug sagðak,
nú mun ek þegja.“

Óðinn kvað:
12.
„Þegj-at-tu, völva,
þik vil ek fregna,
unz alkunna,
vil ek enn vita:
Hverjar ro þær meyjar,
er at muni gráta
ok á himin verpa
halsa skautum?“

Völva kvað:
13.
„Ert-at-tu Vegtamr,
sem ek hugða,
heldr ertu Óðinn,
aldinn gautr.“

Óðinn kvað:
14.
„Ert-at-tu völva
né vís kona,
heldr ertu þriggja
þursa móðir.“

Völva kvað:
15.
„Heim ríð þú, Óðinn,
ok ver hróðigr,
svá komir manna
meir aftr á vit,
er lauss Loki
líðr ór böndum
ok ragna rök
rjúfendr koma.“

27. Kafli

Efnisyfirlit

Hrafnagaldur Óðins

Þannig eru „dagslok“ lífsins, Huginn snýr aftur til Óðins með reynsluna úr heiminum og sameinast hinum guðlega að nýju. Fylginautur hans, Muninn, geymir allt sem gerst hefur frá upphafi tímans. Á þeim skrám er byggt það sem sannast stendur og afrekað hefur verið, því minnið er varanlegt og er grunnur fyrir vitund framtíðarinnar.

Grímur Óðins

Elsa-Brita Titchenell

27. Kafli

Hrafnagaldur Óðins

Þessi sögn lýsir eftirmálum í lok dauða plánetu. Hún hefur verið skilin útundan í þýðingum þar sem margir fræðimenn með hin virta Sophus Bugge í broddi fylkingar hafa leitt hana hjá sér þar sem hún hefur verið talin næstum óskiljanleg. Þetta kvæði býr yfir mikilli fegurð með sterkri launsagnartilvísun, lesandinn skynjar hið ósagða draumkennda óumræðanlega gap milli tímabil lífs þegar plánetusálin fellur í kyrrð eftir dauðann. Öllum náttúruríkjum er haldið í andardráttarlausri spennu, hreyfingarlaus, ómeðvituð, líflaus, bíða rafmagnaðaðar skímu nýrrrar dögunar. Alfaðir einn er starfandi. Í allri Eddu er engin slík tilfinningarrík tónlist til sem lýsir þessu andartaki lífsins, sem skilur hver lífshóp fastan í eigin vitund í langri hvíld eða athafnaleysi þar til goðin snúa til baka.
Tveir hrafnar Óðins, Huginn og Muninn (hugur og minni), „fljúga hverjan dag Jörmungrund yfir“ (Grímnismál) og gefa Alföður skýrslu á hverri nóttu. Hér er minnst á áhyggjur goðsins yfir Huginn þegar hann snýr ekki aftur. Það er eðlileg ástæða fyrir því. Hugurinn greinir í sundur, hefur val, verur sem hafa þennan hæfileika og hafa náð greindarþætti og frjálsum vilja, eins og mannkynið á jörðu, standa frammi fyrir þeim möguleikum sem þeir birta. Þær geta, ef þær kjósa að helga sig eingöngu efnishlið náttúrunnar, jötnunum, í einstaka tilfellum slitið sambandinu við sinni innri guð og þannig er framlagi þeirra til kosmísks tilgangs glatað, og sál þeirra missir af tækifæri til ódauðleika. Þeir geta líka smásaman fundið tengsl við guðlega tilvist sína. Þetta vandasama val er ekki ákvarðað í eitt skipti, það er samsöfnuð áhrif á ótölulegra margra smærri ákvarðanna í gegnum þróunarskref í lífinu. Í eðlilegu þroskaferli vex sálin af ávöxtum reynslunnar og samskiptum við guðlegan uppruna sinn og sameinast honum smásaman.
Þannig eru „dagslok“ lífsins, Huginn snýr aftur til Óðins með reynsluna úr heiminum og sameinast hinum guðlega að nýju. Fylginautur hans, Muninn, geymir allt sem gerst hefur frá upphafi tímans. Á þeim skrám er byggt það sem sannast stendur og afrekað hefur verið, því minnið er varanlegt og er grunnur fyrir vitund framtíðarinnar.
Við ættum að muna að eiginleikar hrafnanna vísa ekki aðeins til mannlegrar vitundar heldur til sambærilegra eiginleika eins og þeir birtast með mismunandi hætti á ýmsum stigum í náttúrunni. Pláneta eins og sú sem Iðunn persónugerir, hefur eiginleika sem ná yfir alla hluta hennar, frá náttúruöflunum, gegnum gróft efni steinaríkisins, viðkvæmni plantnanna, hópvitund dýranna og sjálfsvitund mannlegrar sálar. Það tekur líka til æðri vitunda, andlega ríkisins ofar manninum innan plánetuárunnar. Sérhver vakandi vitundar fer í gegnum lífið til að öðlast víðfeðmari reynslu og vex til meiri skilnings og þekkingar, það er í manninum sem við fyrst verðum fær um að greina breytinguna.
Við lífslok plánetunnar er setið fyrir Iðunni (sál plánetunnar) við Urðarbrunn af áköfum goðum sem vilja læra af lífsreynslu hennar og njóta mjöðs (ávaxta) sem hún vildi láta af hendi. Ef táknlyklum Guðspekinnar er beitt sýnist líklegt að faðir hennar, Ívaldi, standi fyrir fyrri heim, Tunglhnattakeðjuna, sem var undanfari jarðarinnar. Iðunn, dóttir hans er „Ívalds eldri yngsta barna“ tilheyri okkar jörð sem er afsprengi jarðarhnattarins í Tunglkeðjunni fyrrum. Hinsvegar er þetta ekki mesta efnislega birting hennar , það var Nanna, líkaminn sem ekki er lengur sýnilegur okkur. Nanna (Nauma) dó áður en okkar jörð fæddist, en sundrað efni hennar var notað sem efni jarðarinnar. Nanna er því lægri grunnar jarðarinnar og hvílir djúpum dauðasvefni stungin þyrnisvefni, ;
„Eins kemur austan
úr Élivágum
þorn af akri
þurs hrímkalda,
hveim drepur dróttir
Dáinn allar
mæran of Miðgarð
með nátt hverri.“

Þetta er sá þyrnir sem færði „Sofandi fegurð“ algleymið (önnur túlkun sem Þyrnirós), og hinum langa svefni lauk með kossi lífsins. Hin lamandi þyrnir kemur frá frostjötni og á hverjum degi kemur dauðinn með nóttunni á miðnætti.
Eins og kvæðið segir okkur hefur hin sorgmædda Idunn lítið að færa til veislu goðanna. Hinsvegar segja síðustu versin okkur af fæðingu lífs að nýju;
„..gengu til rekkju
gýgjur og þursar,
náir, dvergar
og dökkálfar.“
nærri fjærstu rótum Alheimstréðs og goðin birtust aftur og blésu líf í nýjan heim nýrra vona:
„Risu raknar,
rann álfröðull,
norður að Niflheim
njóla sótti;“

 

28. Kafli

Efnisyfirlit

________________________________________

Hrafnagaldur Óðins

1.Alföður orkar
álfar skilja
vanir vitu
vísa nornir
elur íviðja
aldir bera
þreyja þursar
þrá valkyrjur.

2.Ætlun æsir
illa gátu
veður villtu
vættar rúnum;
Óðhræris (2) skyldi
Urður geyma
máttk at verja
mestum þorra.

3.Hverfur því Hugur
himna leitar,
grunar guma
grand ef dvelur;
þótti er Þráins
þunga draumur(3),
Dáins dulu (dvergur)
draumur þótti.

4.Dugur er með dvergum
dvína, heimar
niður að Ginnungs
niði (4) sökkva;
oft Alsviður
ofan fellir,
oft af föllnum
aftur safnar.

5.Stendur æva
strind né röðull,
lofti með lævi
linnir ei straumi
mærum dylst
í Mímis brunni
vissa vera;
vitið enn, eða hvað?

6.Dvelur í dölum
dís forvitin,
Yggdrasils frá
aski hnigin;
álfa ættar
Iðunni (5) hétu,
Ívalds eldri
yngsta barna.

7.Eirði illa
ofankomu,
hárbaðms undir
haldin meiði;
kunni síst
að kundar Njörva,
vön að værri
vistum heima.

8.Sjá sigtívar
syrgja Naumu (6)
viggjar að véum;
vargsbelg seldu,
lét í færast,
lyndi breytti,
lék að lævísi,
litum skipti.

9.Valdi Viðrir
vörð Bifrastar(7)
Gjallar sunnu
gátt að frétta,
heims hvívetna
hvert er vissi;
Bragi og Loftur
báru kviðu(8).

10.Galdur gólu,
göndum riðu,
Rögnir og Reginn
að ranni heimis;
hlustar Óðinn
Hliðskjálfu í (9) ;
leit braut vera
langa vegu.

11.Frá enn vitri
veiga selju
banda burður
og brauta sinnar;
hlýrnis, heljar,
heims ef vissi
ártíð, æfi,
aldurtila.

12.Né mun mælti,
né mál knátti
Gefjun greiða,
né glaum hjaldi;
tár af tíndust
törgum hjarnar,
eljunfaldin
endurrjóða.

13.Eins kemur austan
úr Élivágum
þorn af akri
þurs hrímkalda,
hveim drepur dróttir
Dáinn allar
mæran (10) of Miðgarð
með nátt hverri.

14.Dofna þá dáðir
detta hendur,
svífur of svimi
sverð áss hvíta;
rennir örvit
rýgjar glyggvi,
sefa sveiflum
sókn gjörvallri.

15.Jamt þótti Jórunn
jólnum komin,
sollin sútum,
svars er ei gátu;
sóttu því meir
að syn var fyrir,
mun þó miður
mælgi dugði.

16.Fór frumkvöðull
fregnar brauta,
hirðir að Herjans (11)
horni Gjallar;
Nálar nefa
nám til fylgis,
greppur Grímnis
grund varðveitti.

17.Vingólf tóku
Viðars þegnar,
Fornljóts sefum
fluttir báðir; (12)
iðar ganga,
æsi kveðja
Yggjar(13) þegar
við ölteiti.

18.Heilan Hangatý
heppnastan ása,
virt öndvegis
valda báðu;
sæla að sumbli
sitja día,
æ með Yggjungi
yndi halda

19.Bekkjarsett
að Bölverks ráði
sjöt Sæhrímni
saddist rakna;
Skögul að skutlum
skaptker Hnikars
mat af miði
Mímis hornum.

20.Margs of frágu
máltíð yfir
Heimdall há goð,
hörgar Loka,
spár eða spakmál
sprund ef kenndi,
undorn of fram,
unz nam húma.

21.Illa létu
orðið hafa
erindleysu
oflítilfræga; (14)
vant að væla
verða myndi,
svo af svanna
svars of gæti.

22.Ansar Ómi
allir hlýddu:
„Nótt skal nema
nýræða til;
hugsi til myrgins
hver sem orkar
ráð til leggja
rausnar ásum!“

23.Rann með röstum
Rindar móður
fóðurlarður
fenris valla; (15)
gengu frá gildi
goðin, kvöddu
Hropt og Frigg
sem Hrímfaxa fór.

24.Dýrum settan
Dellings mögur
jó fram keyrði
jarknasteinum:
mars of Manheim
mön af glóar,
dró leik Dvalinns
drösull í reið. (16)

25.Jörmungrundar
í jódyn nyrðra
und rót yztu
aðalþollar
gengu til rekkju
gýgjur og þursar,
náir, dvergar
og dökkálfar.

26.Risu raknar,
rann álfröðull,
norður að Niflheim
njóla sótti;
upp nam Árgjöll
Úlfrúnar niður,
hornþytvaldur
Himinbjarga.

 

28. Kafli

Efnisyfirlit

________________________________________