Einstaklingurinn og fjölskyldan er kjarni samfélagsins og ef það á að standa sterkt verður það að hvíla á þeim gildum sem einstaklingar vilja sjá í eigin lífi. Frelsi hvers manns vilja allir hafa til orðs og athafna. Jafnrétti milli manna er jafn sjálfsagt og að draga andann. Hver maður getur verið smár og brothættur og við viljum að samfélagið hugi jafnt að öllum. Réttlæti er öllum mönnum í blóð borið og vilja að það sé í heiðri haft í öllum reglum samfélagsins og ákvörðunum valdhafa.
Þessi þrjú gildi eiga að gegnsýra allt samfélagið. Þau eiga að vera undirstaða þess og tryggja velferð allra, hvers og eins manns. Ef einhver þarf aðstoð og er ekki sinnt, er samfélagið veikt. Þessi gildi eiga að vera hornsteinninn í lagasetningu, í framkvæmd laganna, þannig skilar það sér í siðferði samfélagsins. Ákvörðun manna að setja samfélagi sínu skipulag og grunnreglur ættu að byggja á þeim.– Frelsi -Jafnrétti –Réttlæti.
„ Einn fyrir alla og allir fyrir einn“ er ekki merkingarlaust máltæki og endurspeglast best í nánu samfélagi manna. Hverjum þegn er ljóst að hann verður að gefa af frelsi sínu við að gangast undir sameiginlegar skyldur og viðurkenndar reglur samfélagsins en í staðinn fær hann stuðning þess og betra líf í samvinnu með öðrum. Í lýðræði er valdið til stjórnunar veitt sameiginlega og því eiga allar stofnanir samfélagsins að vinna að efla það og þroska í bestu merkingu.