Sigurbjörn Svavarsson
„Þessi stjórnskipan, Hrepparnir, voru því undirstaða Þjóðveldisins og síðari stjórnkerfa, öll virkni samfélagsins byggðist á reglum og venjum sem framkvæmdar voru í hreppunum, stjórn þeirra var undir fimm (sóknar)mönnun er Hreppstjórar hétu, sem kosnir voru af bændum úr eigin hópi og metnir af heilindum og ráðvendni að framfylgja siðvenjum og lögum.“
Elsta stjórneining landsins er Hreppurinn og elsta varðveitta heimildin um hreppa[1] er í Grágás. Sterkar líkur eru á því að hreppar hafi tekið á sig mynd fljótlega í landnáminu og mörkun þeirra síðar tengd einstökum landnámum og urði nánast eitt og það sama í augum landnámsmanna. Sjá má í sögunum að einstök landnám eru tengd hreppi.[2] Fyrri heimalönd landnámsmanna, hvort sem þau voru norræn, eða í byggðum Bretlandseyja höfðu regluvenjur í samskiptum og dóma til að útkljá deilumál, jafnvel um víg. Samfélagið snérist um bændur og búfénað, ella gat samfélagið ekki viðhaldið sér. Að germönskum og norrænum siðvenjum voru allir bændur jafn réttháir og til að gæta réttlætis innan byggðanna voru kosnir nokkrir úr þeirra hópi af bændum sjálfum til að mynda dómþing, sem ef mál voru sótt, úrskurðaði um málin, þannig voru menn dæmdir af jafningum í samræmi við siðvenjur.
Í Grágás eru mörg ákvæði sem varða hreppsdóma sem auðsjáanlega eru eldri en kristnin í landinu. Þegar byggð þéttist í landinu og landið fullnumið um 60 árum eftir fyrsta landnám að sögn Ara, völdu menn að setja skýrari reglur um samskipti og sambúð með Úlfljótslögum. Búfénaður var helsta eign bænda og samgangur búfjár bænda með fleiri bæjum í hreppi gat skapað mörg vandamál þegar skepnur ráfa þangað sem grasið er grænast. Landnámsmenn voru taldir 370-400 samkvæmt Landnámu og þeim fylgdu á hverju skipi hásetar, sem skipuðu áhöfn, auk heimilisfólks og þræla, ekki færri en 10 hásetar voru á hverju skipi, en þeir menn voru frjálsir menn og gerðu kröfu um jarðnæði til búskapar af landnámsmönnunum. Því má ætla að þegar landnámi var að mestu lokið um árið 920 hafi verið um 4.000 bændur á landinu. Þegar tíundin var tekin upp árið (1095) fór fram talning á bændum í landinu og þá voru þeir 4.560 að tölu svo að 4.000 bændur um árið 920 er ekki of áætlað.
Mörg dæmi eru í fornsögunum af landamerkjadeilum og nauðsynlegt var að leysa úr slíkum deilum með almennum reglum. Engin vafi getur verið á því að á þessum samskiptamálum var tekið í Úlfljótslögum eins og í gömlu samfélögunum og þau fornu lög endurspeglast í Grágás. Landabrigðisþáttur Grágásar snýst um hvaða reglur giltu í samskiptum bænda og um bú og kvikfénað. Bændur þurftu í nýju landi að reisa mikla garða, svokallaða löggarða á landamerkjum bæja líkt og með girðingum í dag. Bændum var skylt að vinna við og reisa löggarða í tvo mánuði á sumri eða til viðhalds þeim[3], löggarður átti að vera fimm fet þykkur að neðan og þrjú fet að ofan og ná manni í öxl. Þar sem ekki var fyrir hendi torf eða grjót máttu menn girða með gerði (úr skógarefni, hrísrif eða höggskógi). Þar að auki var þeim skylt að búa löghlið á garðanna þar sem þjóðbraut lá.
Í þessum þætti Grágásar er tekið á flestum þeim atriðum þar sem sambúð bænda og búfénaðar gat rekist á, þar er sagt um heimild til brúargerðar, lagningu vega, frjálsu skipagengi á ám, um sameign engja, um afréttir, um selför, um sinubruna, um veitugarða, um hlöður, um skógarhögg, um varpland, að veita vatni og skipta vatni, að marka búfjár, um markaskrár, um fjárréttir, um vetrarhaga, um veiðar og Almenninga, um fuglaveiðar, um veiðar í vötnum, ef ár breyta farvegi sínum, um reka, um hvalreka, um hvalskot (með skutli), margt fleira er tekið á í þessum þætti Grágásar og sektir og refsingar sagðar um flesta þessa þætti.
Um allan ágreining í þessum málum var dæmt í hreppnum sem og um þjófnað og morð. Ágreiningur samkvæmt þessum Hreppsmálum gekk fljótt fyrir sig, sækjandi máls valdi dómstað með því að skjóta ör, utangarðs hjá þeim sem hann sótti mál gegn og tilkynnti honum um ágreiningsmál. Þá voru dómendur skipaðir í þingdóm og varð að dæma í málinu ekki seinni en fjórtán dögum eftir örvaskotshelgi utan garðs. Þannig voru ágreiningsmál leyst fljótt innansveitar, enda nauðsynlegt.
Í Grágás segir „Um hreppa mál“ : „Hver maður skal eiga þar löghrepp sem hefur á framfærslu verið, nema hann sé að lögum af kominn eða þar ellegar sem næstur bræðra hans er vistfastur eða nánari maður.“– Þarna er í raun komin regla á heimilisfesti og vistaband.
Á þjóðveldisöld hafa hrepparnir því verið félagsskapur bænda á tilteknu svæði. Þegar hér er komið sögu eru hrepparnir greinilega orðinn fasti í íslensku samfélagi.[4]
Þessi stjórnskipan, Hrepparnir, voru því undirstaða Þjóðveldisins og síðari stjórnkerfa, öll virkni samfélagsins byggðist á reglum og venjum sem framkvæmdar voru í hreppunum, stjórn þeirra var undir fimm (sóknar)mönnun er Hreppstjórar hétu, sem kosnir voru af bændum úr eigin hópi og metnir af heilindum og ráðvendni að framfylgja siðvenjum og lögum.
Páll Briem segir í greininni; ´Nokkur orð um stjórnskipan Íslands í fornöld.
Héraðsríki goðans hefur því verið undir því komið hversu mikið hann mátti sín hjá bændum, en ef svo er er eðlilegt að hér ráði mestu viturleiki, auðlegð og dugnaður goðans. Þetta kemur alveg heim við ákvæði Grágásar og ýmsar sögusagnir í fornsögunum. Þess hefur verið getið að það hefði verið óheppilegt að láta héraðsstjórnina fylgja goðorðunum af því að goðorðin voru ekki með ákveðnum takmörkum. Þetta átti sér ekki stað um hreppana, Þeir voru með ákveðnum takmörkum og máttu ekki færri vera í hreppi en 20 búendur er gegna skyldu þingfararkaupi.
Hreppsmenn áttu að hafa þrjár ákveðnar samkomur á ári, á haustin, á langaföstu og á vorin eftir vorþing. Bændur voru allir skyldir að koma til samkomu eða fá mann (húskarl sinn) fyrir sig til þess að halda skilum uppi fyrir sig.Þessum samkomum var falin á hendur sveitarstjórnin og segir svo í Grágás: „Það skal samkomumál vera allra manna á milli fast, sem þeir verða á sáttir er til samkomu koma. Meiri hlutur búanda skal ráða, ef eigi verða allir á eitt sáttir um ný samkomumál. Eigi skal fornum samkomumálum þoka, nema allir verði á sáttir, þeir er í hrepp búa.“Það sést af þessu að bændur hafa greitt atkvæði og meiri hlutur ráðið um ný samkomumál.
Bændur áttu að velja 5 sóknarmenn til þess að sjá um framkvæmd á samkomumálum, sækja menn um lagaafbrigði, óskil, skipta tíundum, o.s.frv. En mál þau er hreppsmenn áttu að sjá um var framtal til tíundar, ómagaframfærsla, vátrygging á nautpeningi og brunabætur. Bændur réðu og hvar fjárréttir skyldu vera. Ennfremur þurfti að leita byggðarleyfis til bænda á samkomu, og búðsetumenn máttu ekki vera í hrepp nema hreppsmenn lofi. Ennfremur þurftu bændur að fá leyfi hreppsmanna til þess að taka hjú úr öðru þingmarki ef bændur áttu í nokkru að ábyrgjast vandræði er af þeim hlytist. Þurftu bændur engum brunabótum að svara ef slík hjú voru orsök í húsbruna frekar en þeir vildu.[Það hafa þannig verið mikilvæg héraðsmál er bændur áttu að ráða. En auk þess er almennt ákvæði í Grágás um bændur á samkomum og eru þau svo: „Skulu þeirra manna mál standast er þar koma, hvar þess er þeir taka eigi af alþingismáli.“ Með þessu virðist samkomum bænda vera gefin almenn heimild til þess að setja þau ákvæði um sveitarmál er ekki sé lögum gagnstæð.
Framfærsluskylda af frændsemi var ríkari eftir lögum Þjóðveldisins en eftir Jónsbók síðar, samkvæmt Baugatali í Grágás var þurfandi ættingi á framfæri ættarinnar allt að fimmmenningi og ríkt var gengið eftir því, svo framfærslan lenti ekki á hreppnum. Hlutverk hreppstjóra var að tryggja framfærslu ómaga og einnig að verjast að aðrir lentu í sömu erfiðleikum. Til þess voru ekki aðeins mjög strangar reglur gegn einstaklingum sem reyndu að fá slíkan stuðning af vinnu hins duglega hluta samfélagsins; heldur til að fyrirbyggja fátækt, t.d. með aðkomu nýrra íbúa í Hreppinn þurfti samþykki íbúa þess, sem gátu hafnað manni sem verið dæmdur hafði verið fyrir glæp eða af líkindum gæti orðið byrði fyrir samfélagið, þetta var nauðsynlegt til að heilbrigður efnahagur samfélagsins héldist. Tjón af völdum elds var ákvarðað með rannsóknarrétti og helmingur tjónsins bætt með gjaldi á aðra bændur í hreppnum. Sama átti við ef bóndi missti fjórðung af hjörð sinni af drepsótt; en í hvorugu tilvikinu var þessi krafa heimiluð oftar en þrisvar sinnum hjá þeim sama.
Hreppstjórar héldu samkomur eða minni þing sem fólkið var kallað til með boðbera með tákni „boðsins“, sem hamar Þórs á milli bæja og sem eftir kristnitöku, var breytt í trékross. Í Grágás segir „ Allir bændur skulu bera hreppsfundar boð, þeir er í hrepp eru saman“. Líklegt var svokallað Leiðarþing, Haustþing, verið nokkurskonar Hreppstjóraþing til m.a. að upplýsa um ákvarðanir Alþingis sem gætu varðað hreppinn.
Konrad Maurer hefur vakið eftirtekt manna á því að í Noregi kemur enn fyrir orðið „Repp” og er haft um sveit eða marga bæi í héraði, og því er líklegt að orðið hreppur sé jafngamalt hér á landi og byggð manna í landinu. Það er ennfremur einkennilegt að einmitt í sveitarmálum og þeim málum þar sem bændur hafi haft vald koma mest fyrir einkadómarnir. Það er eins og menn hafi þar haldið fast við sams konar dóma og tíðkuðust í Noregi, og þeir hafi einmitt verið að miklu leyti afmarkaðir við þau mál er bændur hafi getað gert samþykktir um. Þetta á sér þannig stað um héraðsdóminn sem nefndur er í skipan Sæmundar Ormssonar, um hreppadóminn, dóminn um útlendinga og útlenda verslun og afréttardóminn.
Páll Briem telur að þegar Úlfljóts lög voru sett, hafa verið sett ákvæðium löggjafarvaldið og dómsvaldið, en ekki hafi þá verið sett lög um héraðsstjórnina heldur hefur líklega verið komin á einhver venja hjá bændum að halda samkomur og fundi til þess að gera ráðstafanir á sveitarmálum. Þessi venja hefur svo haldist og verið lögtekin síðar. Hins vegar að erfitt að sjá að slíkt hafi náð yfir allt landið með skipulögðum hætti eins og speglast í Grágás, nema að fylgt hafi fylgt stjórnskipulaginu og þingvaldinu sem fylgdi.
Af því sem hefur verið sagt má sjá að höfðingjastjórn og alþýðustjórn hefur verið nokkuð vel fyrir komið hér á landi í fornöld. Goðarnir áttu sæti í lögréttunni, nefndu menn í dóma og stýrðu þingum en voru þó á margan hátt háðir bændum. Aftur á móti voru bændur á samkomum ráðandi um héraðsmálefni sín, en voru þó háðir löggjafarvaldi goðanna og dómum þeirra nema í þeim málum sem einkadómar áttu um að dæma.
Hvað merkir orðið Hreppur?
Deildar skoðanir eru um uppruna orðsins hrepp(ur). Ef leitað er að norrænum orðaskyldleiki við Hrepp, eða repp eins og það er ritað í elstu afskriftum Tíundarlaga, finnast fornar merkingar í sænsku um Repp sem hluta sóknar, eða byggðarlags. Þessi merking orðsins er skyld orðinu Rapp sem forn merking á fornu fjórskiptu tímabili, td. misseri. Þannig vísa merking orðsins til skiptingar og afmörkunar landssvæðis. Norska orðið Repp merkir einnig lítið byggðarlag, dreifbýli. Orðið kemur oft fyrir í staðarnöfnum, til dæmis Golreppen í Hallingdal og Reppe í Þrándheimi. Í sumum norskum mállýskum er orðið notað um jarðnæði. Minna má á forna engilsaxneska landskiptingu sem ber nafnið Rap (e). Þessi dæmi taka af allan efa um norrænan uppruna og merkingu orðsins og þar með fornan germanskan uppruna. Af þessu má ráða að forn merking orðsins er afmarkað landsvæði, kannski upphaflega eins konar landnám, mörkun svæðis til búsetu. Páll Vídalín lögmaður segir í Skýringar yfir fornyrði lögbókar þeirrar, er Jónsbók kallast, að orðið sé dregið af, hlutskipti, hlutfalli og að fornmenn talið sér skylt að breyta eftir öndvegissúlum eða öðru sem þeir hrepptu til heimildartöku.
Í Englandi var til eldra og svipað fyrirkomulag og hreppurinn hafði á Íslandi, það byggðist á tilteknum fjölda búa á svæðinu sem nefndist Hundred. Hugtakið „Hundred, eða -hundrað“* er fyrst skráð í lögum Edmundar I. (939–46) sem mælikvarði á landsvæði sem hundraðréttur þjónaði, en er mun eldri og kemur einnig fram í 7 aldar skjölum. Í Midlands náði Hundrað oft yfir svæði 100 húða[5], 100 heimila, en það átti ekki við í suður Englandi; þetta gæti bent til þess að þetta hafi verið forn vestur-saxneskur mælikvarði og komið var á, einnig í Mersíu, þegar hún varð hluti af nýstofnaða enska konungsríkinu á 10. öld. Tilskipun Edmundar I. um Hundred, kvað á um að Hundraðrétturinn skyldi funda mánaðarlega og þjófa ætti að elta af öllum leiðandi mönnum héraðsins. Nokkur hundreds mynduðu síðan Skíri (Shire), undir stjórn fógeta. Mörk hundreds voru óháð bæði sóknar- og sýslumörkum, þó oft væru þau samræmd, sem þýðir að hægt var að skipta hundraði á milli sýslna eða skipta sókn á milli Hundraða. Þetta minnir á hvernig íslenskum fjórðungsþingum var skipt og goðorðum skipt innan fjórðungsþings og þeirri reglu í upphafi að allir goðar áttu allir jafnmarga þingmenn, það hlýtur að hafa þýtt að skipta hafi þurft þingmönnum sumra hreppa milli goða.
Í undantekningartilvikum, í sýslum Kent og Sussex, var sýslunni skipt ákveðin upp, og nokkur hundruð, ýmist heil eða hálf, voru sett saman til að mynda lathes ( Old English, lǽð, -) í Kent, sem voru misstórar stjórneiningar og rapes *(rape, eint.) í Sussex. Við landvinninga Normanna á Englandi var Kent skipt í sjö lathes og Sussex í fjórar rapes. Rape er hefðbundin svæðisbundin skipting Sussex-sýslu á Englandi, sem áður var notuð í ýmsum stjórnsýslulegum tilgangi. Uppruni orðsins er óþekktur, en virðast vera fyrir landvinninga Normanna. Sögulega hafa Rapes verið grundvöllur sveitarstjórnar í Sussex.
Hér má sjá fornt germanskt samfélagsskipulag, þar sem Hundred er svæði sem náði yfir 100 húðir (hides) og hafði sinn eigin alþýðurétt[6] skipuðum fimm bændum til að halda uppi lögum og reglu og nokkur Hundred mynduð stærri einingu, Shire sem Fógeti réði. Þessu kerfi svipaði til hreppsins íslenska, sem náði yfir svæði að lámarki 20 búa samkvæmt lögum, hafði sinn eigin alþýðurétt, Hreppsdóm sem var skipaður fimm bændum og nokkrir hreppar mynduðu Goðorð sem goði réði.
Við Gamla sáttmála frá 1262 breyttist öll yfirstjórn á Íslandi og goðavaldið leystist smám saman upp og gafst undir vald Noregskonungs. Á árunum 1271-1272 var ný lögbók samþykkt á Alþingi en henni til grundvallar voru lög þjóðveldisins og fékk hún síðar nafnið Járnsíða. Segir í henni um hreppstjóra (samhljóða Grágás): „Samkvámur skulu menn eiga um haust í hrepp hverjum, eigi fyrr en fjórar vikur eru til vetrar, og skipta tíundum. Skipt skal tíundum drottinsdag inn fyrsta í vetri. Fimm menn skal taka til í hrepp hverjum að skipta tíundum og matargjöfum með fátækum mönnum og sjá eiða að mönnum, þá sem best þikkja til fallnir, hvárt sem þeir eru bændur eða griðmenn.“
Jafnframt segir á öðrum stað í Grágás:
Hreppstjórar skulu skipta á samkvámu um haust fjórðungi tíundar með þurfamönnum innan hrepps, þeim sem til ómagabjargar þurfa að hafa þau missari, gefa þeim meira sem meiri er þörf. Eigi á tíund úr hrepp að skipta nema samkvámumenn verði á það sáttir að þikki utanhreppsmönnum meiri þörf. Það fé skal greiða þurfamönnum í vaðmálum eða vararfeldum, í ullum eða gærum, mat eða kvikfé, nema hross skal eigi greiða.
Af þessu má ráða að þau lög sem lutu að hreppunum sýna að þeir voru samfélagsleg eining, sem varð til mjög snemma í íslenskri sögu. Hlutverk þeirra snerist að halda friðinn, framfærslumálum fátækra, fjallskilum og öðrum sameiginlegum málum sveitanna og jókst heldur til meiri stjórnsýslu, þó goðar hyrfu og önnur yfirvöld (Amt eða sýslur) komu og fóru. Fjöldi hreppa frá upphafi breyttist lítið fram á 19 öld, þar koma til hefð í afréttum og fjallaskilum.
Skattbændur og Hreppar í fjórðungum.
Fjöldi hreppa í upphafi ættu að hafa endurspeglað landgæði fjórðunganna og ætla má að reglan í Grágás um að ekki skuli vera færri en 20 bændur í hverjum hrepp hafi verið upphaflega reglan, einskonar enskt hundrað, og hafi ráðið stærð hreppana því landgæði sköpuðu búsetuskilyrðin.
Landfræðileg hreppamörk í landsfjórðungunum hefur eflaust komið til mjög snemma og vitneskja um hreppamörk haldist á hverju svæði í gegnum aldirnar og hefur eflaust verið skráð strax á ritöld. Í landnámu og nokkrum fornsögunum er minnst á hvar landfjórðungsmörkin eru og hreppamörk á nokkrum stöðum einnig nefnd, og augljóslega lá því fyrir hver skipting þinganna var innan fjórðunganna þegar sú skipan komst á og hreppa innan hvers þings. Þessi hreppamörk hafa haldist að mestu óbreytt í gegnum aldirnar koma fram í elstu kortagerðum og sjást óbreytt, en nákvæmar, eftir því sem kortin verða betri. Landfræðilega marka hæstu fjallgarðar og ár hreppamörk, alveg eins og stærri landnám gerðu, sem síðan skiptust í smærri hreppa þegar þeir var skipt í 20 búa svæði að lámarki. Auðsýnilega hafa hreppamörkin verið dregin fram til óbyggða eins og landið lá og komu saman í hæstu auðkennum landsins, enda eðlilegt með tilliti til gangna og fjallskila sauðfjár á haustin.
Til dæmis koma hreppamörk á Vestfjörðum saman í hæstu tindum Glámu og Hrolllaugsborgar í Drangajökli. (sjá mynd) Í Dölum koma hreppamörk saman í Rúpnafelli og Geldingarhnjúk og vesturhluta Hrútafjarðar og Elliðatindar og Hólsfjall (Tröllatindar) miðpuntar hreppana á Snæfellsnessins. Ok (jökull) var skurðpuntur fyrir hreppa á Mýrum og í Borgarfirði.
Fjórðungaskil Vesturlands- og Suðurlandsfjórðungs var Hvítá alveg upp að Eiríksjökli og fjórðungsmót Norðurlands og Vestfjarðarfjórðungs voru við Hrútafjarðar og upp að Eiríksjökli.
Hreppaskil í Suðurlandsfjórðungs og Norðurlandsfjórðungs koma saman á hálendinu á hæstu tindum Hofssjökuls og Langjökuls og við Austurfirðingafjórðung í Bárðarbungu og Grímsfjalli í Öræfajökli. [10] Mynd 1.
Mynd 1.
[1] Í Grágás, eru Tíundarlögin frá 1095 að finna í lok kristinna laga þáttar. Þar segir: „Um hreppa skil.: „Það er mælt í lögum vorum að löghreppar skulu vera á landi hér. En það er löghreppur er tuttugu bændur eru í eða fleiri. Því aðeins skulu færri vera ef lögréttumenn hafa lofað. Þeir bændur skulu að gegna þingfarakaupi er til hreppatals eru taldir. Þó maður skipti hreppum sínum í fjórðunga eða þriðjunga eða svo sem þeir vilja skipt hafa til matgjafa eða til tíunda skiptis og er rétt að þeir verði þar (ei) færri í hlut hreppsins en XX (tuttugu). Svo skulu hreppar settir að hver búandi skal sitja, að næsta auðrúm skulu svo hreppar allir settir sem nú er. Landeigendur v. (fimm) skulu vera teknir til sóknar í hrepp hverjum að sækja þá menn alla er óskil gera í hreppnum svo og skipta tíundum (manna) og matgjöfum eða segja eiða af mönnum. Rétt er að þeir menn séu eigi landeigendur, er sóknar menn er í hrepp, ef hreppsmenn eru allir á það sáttir. Ef maður situr að hreppamótum og kemur í annan hrepp með bú sitt, þá á hann kost að kjósa sig í annan hrepp með bú sitt ef hinir eru þó XX (tuttugu) eftir eða fleiri, enda lofa hinir er fyrir sitja.“
[2]Landnámubók (Sturlubók )
Þeir Hróðgeir bræður námu síðan lönd í Flóa, Hraungerðingahrepp; bjó Hróðgeir í Hraungerði, en Oddgeir í Oddgeirshólum; hann átti dóttur Ketils gufu.” 19 kafli
“Þórir son Ása hersis Ingjaldssonar, Hróaldssonar, fór til Íslands og nam Kallnesingahrepp allan upp frá Fyllarlæk og bjó að Selfossi. ..
Hróðgeir hinn spaki og Oddgeir bróðir hans, er þeir Fiður hinn auðgi og Hafnar-Ormur keyptu brutt úr landnámi sínu, námu Hraungerðingahrepp, og bjó Oddgeir í Oddgeirshólum. … “ 96 kafli
“Þorbjörn laxakarl nam Þjórsárdal allan og Gnúpverjahrepp allan ofan til Kálfár og bjó hinn fyrsta vetur að Miðhúsum. ..
Þorbjörn jarlakappi hét maður norrænn að kyni; hann fór úr Orkneyjum til Íslands. Hann keypti land í Hrunamannahrepp að Mávi Naddoddssyni, allt fyrir neðan Selslæk á milli Laxár og bjó að Hólum. ..
Bröndólfur og Már Naddoddssynir og Jórunnar, dóttur Ölvis barnakarls, komu til Íslands snemma landsbyggðar; þeir námu Hrunamannahrepp, svo vítt sem vötn deila.
Þorbrandur, son Þorbjarnar hins óarga, og Ásbrandur son hans komu til Íslands síð landnámatíðar, og vísaði Ketilbjörn þeim til landnáms fyrir ofan múla þann, er fram gengur hjá Stakksá, og til Kaldakvíslar, og bjuggu í Haukadal.
Þeim þóttu þau lönd of lítil, er tungan eystri var þá byggð; þá jóku þeir landnám sitt og námu hinn efra hlut Hrunamannahrepps sjónhending úr Múla í Ingjaldsgnúp fyrir ofan Gyldarhaga…” 98 kafli
Grettis Saga:
“Þrándur spurði nú lát föður síns og bjóst þegar af Suðureyjum og Önundur tréfótur með honum en þeir Ófeigur grettir og Þormóður skafti fóru út til Íslands með skuldalið sitt og komu út á Eyrum fyrir sunnan landið og voru hinn fyrsta vetur með Þorbirni laxakarli. Síðan námu þeir Gnúpverjahrepp. Ófeigur nam hinn ytra hlut, á milli Þverár og Kálfár. Hann bjó á Ófeigsstöðum hjá Steinsholti. En Þormóður nam hinn eystra hlut og bjó hann í Skaftaholti.”
[3] „Þessir hlöðnu garðar ná ofan úr efstu byggðum og fram á ystu nes, yfir heiðar þverar og endilangar, og eru mörg hundruð kílómetrar að lengd. Aldur þeirra, hlutverk og umfang hefur lengi verið ráðgáta en eftir áralangar rannsóknir er nú orðið ljóst að garðarnir eru flestir frá þjóðveldisöld og varpa nýju ljósi á það mikilvæga tímabil Íslandssögunnar.“ Tíminn sefur.-Fornaldargarðarnir miklu á Íslandi. Árni Einarsson. Forlagið 2019. Einnig; https://www.researchgate.net/publication/281452903_Viking_Age_Fences_and_Early_Settlement_Dynamics_in_Iceland
Forn garðlög í Dalvíkurbyggð: Fornleifakönnun á garðlögum í Svarfaðardal og á Árskógsströnd
[4] „Með tíundarlöggjöfinni hefur hreppunum verið falið að innheimta og skipta tíund. að annað geti varla verið en að ástæða þess að Gissur biskup velur þessa leið sé „ að hreppaskipanin hafi verið fastmótuð, er hér kom við sögu, enda ósennilegt, að jafnþýðingarmikið verkefni hafi verið fengið lauslega skipulögðum „
……orðið hreppur hefur haft frátekna merkingu frá upphafi og sú merking hafi lítið breyst fram til dagsins í dag. Mögulega hafa hreppamörkin verið á reiki í fyrstu en virðast engu að síður hafa verið landfræðileg eining tiltölulega snemma í sögu Íslendinga, mögulega frá upphafi byggðar“. Lýður Björnsson segir í bókinni Saga sveitarstjórnar á Íslandi.
Sæmundur mælti: „Svo muntu kalla en meir hefir þú skapsmuni Ljótar móður þinnar, sem mig grunaði, en vor frænda. Nú hefi eg hugað þér landakosti og bústað út á Höfðaströnd fyrir utan Höfða út frá Unadal. Væri það mitt ráð að þú vægðir við þá er þar búa næstir þér, Þórð bónda í Höfða og Una í Unadal eða aðra byggðarmenn, og bið þér byggðarleyfis.“
„Hreppstjórnarþing gegndi í megintilvikum sömu hlutverkum og manntalsþing og þriggja hreppa þing til að byrja með, en hélt þó einkum utan um tíundarfærslur og aðrar embættisskyldur hreppstjóra, s.s. niðursetu og framfærslu ómaga. Skv. Jónsbók virðast hreppstjórnarþing ennfremur hafa gegnt sama hlutverki og leiðarþing, þ.e. verið einskonar haustþing er greindi frá málefnum Alþingis.126 Á hreppstjórnarþingum voru því jafnan kynnt ný lagaboð eða tilskipanir fyrir viðkomandi hrepp, en einnig fór fram framtal á sauðfé, auk þess að málefni ómaga voru oft til ákvörðunar á hreppstjórnarþingum. Hreppstjórnarþinga er fyrst getið í Jónsbók, en í lok 18. aldar fara hlutverk hreppstjóra í sambandi við tíundir að verða skilvirkari, sem síðan er fylgt eftir með ítarlegri hreppstjóratilskipun árið 1809.127“ Ólafur Arnar Sveinsson: Leiðarvísir fyrir dóma- og þingbækur í skjalasöfnum sýslumanna í Þjóðskjalasafni Íslands bls.42 https://skjalasafn.is/files/docs/r_domar_thingtegundir.pdf
Konrad Maurer, Island, bls. 279, 322 sbr. Ivar Aasen, Norsk Ordbog, orðið: Repp.
Páll Briem ; ´Nokkur orð um stjórnskipan Íslands í fornöld. Andvari, Reykjavík 1897.
Svenska: Ordbok öfver svenska allmoge-språket, Bindi 1-2. REPP, en mindre trakts af en socken, bygdelag. Fn. Hreppr n. Repp
Þessi merking er einnig skyld orðinu RÄPP og forn merking á tímabili, eins og misseri, þ.e. fjórðungsskiptingu árs.
Norsk: Store norske leksikon; repp
Repp er eit mindre, busett område; samling av gardar; (del av) grend eller bygdelag.
ETYMOLOGI norrønt (h)reppr ‘lite bygdelag’ Ordet er mykje brukt i stadnamn, for eksempel Golreppen i Hallingdal og Reppe i Trondheim.
I nokre dialektar blir ordet brukt om ein jordteig, og på Island bruker dei ordet (i forma hreppur) om ein kommune.
[5] Hide. Forna engilsaxneska orðið fyrir húð var Hid (eða samheiti þess hiwisc). Talið er að bæði orðin séu dregin af sömu rót hiwan, sem þýddi „fjölskylda“.
Bede í Ecclesiatical History (um 731) lýsir landi sem gat framfleytt tilteknum fjölda fjölskyldna, eins og (til dæmis), á latínu, terra x familiarum sem þýðir „svæði með tíu fjölskyldum“. Í engilsaxnesku útgáfunni af sama verki er hid eða hiwan notað í stað terra … familiarum. Önnur skjöl tímabilsins sýna sama jafngildi og ljóst er að orðið merkti upphaflega land sem nægði til framfærslu bónda og heimilis hans[2] eða „fjölskyldu“, sem gæti hafa haft víðtæka merkingu. Óvíst er hvort það hafi átt við nánustu fjölskyldu eða stærri hóp.[3]
Charles-Edwards bendir á að í fyrstu notkun sinni hafi það átt við land einnar fjölskyldu, unnið af einum plóg og að eignarhald á húð veitti stöðu frjáls manns, [4] sem Stenton vísaði til sem „sjálfstæðum herra, bónda, heimili“.[5] https://en.wikipedia.org/wiki/Hide_(unit)
[6] Hundred dómstól þar sem einka og sakamál voru afgreidd þar með almennum reglum og siðvenjum. Hann kom saman mánaðarlega, á opnu svæði, á stað og tíma sem allir þekktu. (Eins var með vor og haustþing á Íslandi sem voru á kveðnum dögum og vikum, þannig vissu allir hvenær var þingað og menn áttu að koma í tíma annars lá við sektum (Grágás). https://en.wikipedia.org/wiki/Hundred_(county_division) https://wikishire.co.uk/wiki/Hundred
[7] Fjöldi bænda er greiddu þingfaragjald við setningu Tíundarlaga 1095. 158 Hreppar í 12 þingum (3 goðorð áttu að vera í hverju þingi upphaflega og 3 þing í fjórðungi).
[8] Um skattbændatal 1311 og Manntal á Íslandi fram að þeim tíma. Björn Magnússon Olsen
[9] Fjöldi hreppa í manntali 1703. Hrepparnir voru þá 163 talsins og um 3–5 hreppstjórar (sem sáu um manntalið) voru í hverjum hreppi .
[10] https://markasja.lmi.is/mapview/?application=markasja (Mynd 1 að neðan)