Víkingaskip-Skipagerðir

Sigurbjörn Svavarsson

Mismunandi gerðir víkingaskipa. Norrænu sagnirnar gefa okkur nöfn yfir hinar mismunandi skipagerðir og hlutverk þeirra; bátar, skip, feræringur, fley, byrðingur, ferja, skúta, stórskip, dreki, karfi, knörr, snekkja, langskip, landvarnarskip, herskip, bússa, hafskip, súð. Þessar skipagerðir höfðu sín sérkenni í ásýnd, stærð, byggingarlagi og notkun.
Langskip– herskip: Þessi skip voru ekki öll eins. Sum þeirra voru löng og tiltölulega flatbotna og eflaust byggð með í huga á hvaða svæði þau yrðu notuð, grunnsigld skip komust nær ströndu þar sem grunnsævi var. Fyrst og fremst áttu þau að vera góð róðrarskip. Önnur voru stór og traustbyggð, aðallega byggð til siglinga þó þeim væri einnig róið. Þessi skip höfðu hátt fríborð og því auðvelt að verjast á þeim. Þau voru einnig betri sjóskip en „Skeið“.


Venjuleg langskip: Frá 20 – 25 rúm (þ.e. 40 – 50 árar). Líklega voru 25 rúma skip heppilegustu herskipin. Shetelig og Brøgger segja í bók sinni: Vikingeskipene: “Það sýnist að 25 rúma (hálf þritugt skip) hafi verið heppilegust og árangursríkustu skipin “.Einkenni Langskips var þokkafullt, langt og tiltölulega mjótt, grunnsiglt og hraðskreitt skip. Slík skip gátu siglt á grunnsævi á allt að eins metra dýpi og dregin á land t.d og flutt yfir eyði eða notuð sem skjól. Langskip voru sveigjanleg í stjórn, eins byggð í skut og stafn og gátu því breytt um stefnu án þess að snúa í róðri; slíkt hentaði mjög vel í þröngum fjörðum, á ám og í eyjasiglingum.

Langskip höfðu árar næstum eftir allri lengd skipsins. Langskip víkinga voru mesta aflið á hafinu á sínum tíma og voru mikilsmetnar eignir. Þau voru oft einkaeign höfðingja, sameign nokkurra og konunga, og voru safnað saman í öflugan flota undir stjórn konunga ef á þurfti að halda. Langskip voru oft notuð í stríðum til liðflutninga og mörg bundin saman til að mynda baráttuvöll eða til innrása. Á 9 öld í hámarki innrása á útþenslutíma víkinganna, voru miklir flotar myndaðir til að ráðast á franska heimsveldið með innrásum upp skipfærar ár Frakklands svo sem Signu. Rúðuborg var hertekinn (Rouen) 841, árið eftir dauða Louis the Pious, son Karlamagnúsar. Quentovic, nærri núverandi Etables, var ráðist á 842 og 600 dönsk skip réðust á Hamborg 845. Sama ár snéru 129 skip til baka eftir árásir upp Signu. Langskipin „drekaskipin“ af kölluð af enskum vegna drekalegrar lögunar bógsins.

Stórskip: Stórt langskip voru á bilinu 30-37 rúm (þ.e 60 – 74 árar). Skilgreining á “stórskipi” segir til um lengstu skip hafi verið um að ræða. Eftir árið 1100 voru hinn stærri skip notuð jafnt sem herskip og kaupskip.

Skeið: Voru löng og mjó herskip á milli 20- 35 rúma. Með lægra fríborð og svifameiri en “Bussur”. Voru talin betri róðrar skip en siglingaskip. Dönsk herskip voru oftast „Skeið“. Skáldin gerðu engan greinarmun á stærri eða minni „Skeið“. Í Sögu Ólafs Tryggvasonar segir skáldið Erlingur Skjálgsson af „Skeið” með 30 rúmum og 200 manna áhöfn. ”..og allir í áhöfn voru vanir menn ”.
Skeið, en nafnið kemur af því hvernig þau klufu sjóinn, mjúkt og hratt eins og hestur á skeiði. Þessi skip voru stór herskip með meira en 30 rúm. Skip af þessari gerð voru þau stærstu sem hafa verið uppgötvuð. Mörg þannig skip saman voru uppgötvuð í Hróarskeldu þegar unnið var að hafnargerð þar 1962 og 1996–97: Skipið sem fannst 1962, Skuldelev 2, er eikarbyggð skeið, og er talin haf verið byggð á Dublin svæðinu um 1042.
Skuldelev 2, hafði 70–80 manna áhöfn og var um 30 m (98 feet) löng.
1996–97 uppgötvuðu fornleifafræðingar annað skip í höfninni. Það var kallað Roskilde 6, og var 37 m (121 feet) og lengsta víkingaskip sem nokkurn tíma hefur fundist, álitið að hafa verið byggt um 1025.[8]
Eftirlíking Skuldelev 2 var gerð 2004 og ber heitið Seastallion from Glendalough og er í Viking Ship Museum í Hróarskeldu. Árið 2012, var eftirlíking af 35 metra “Dreka” Haraldar Hárfagra smíðuð af sérfræðingum frá grunni, og eingöngu notuð til þess aðferð víkinganna.

 

 

 

 

 

 

 

 

Bússa : Stórt og traustbyggt hafskip (talið langskip) , sem fyrst var þróað sem herskip. „Ormurinn langi“ var líklega „Bússa“. Sagan lýsir því þannig; lyftingin var jafn há og á hafskipi. En skáldið kallar Orminn „Skeið“. „Bússa gat verið með allt að 35 rúm. „Bússa var betra siglingaskip og var betra í vondum veðrum en „Skeið“. Súð: Stórt langskip frá 20 rúmum og meira. Var þróað á síðari hluta víkingatímans frá „Bússu“ gerðinni. Sum mestu skip Hákons Hákonssonar á 12 öld voru „Súðir“. Stærst var Kristsúðin sem hafði 37 rúm.

Barði: Sterkbyggt herskip með sérstökum járnklæddum bógi sem líklega var ætlað til styrktar að geta rennt á eða að óvinaskipi. Orðmyndunin barð, er dregin af barði eða brimskafli sem samlíkingu við slíkan bóg skipsins. Í Ólafssögu Tryggvasonar má lesa: ” Eiríkur jarl átti stóran Barða sem hann notaði í víkingaferðum sínum; skegg var þar á hærri hluta stafns og skuts og þykkri járnplötur þaðan niður að sjólínu ”.

Snekkja
Snekkja, var smæðst langskipanna en hið minnsta 20 róðrarrúm. Algeng var um 17 m. á lengd, 2.5 m. á breidd og risti aðeins hálfan metra. Hún gat borið um 40 menn. Snekkjur voru einna algengastar langskipanna. Í sögunum er sagt að Knútur Mikli hafi haft 1200 snekkjur í Noregi árið 1028. Í stríði var hún aðallega notuð til að flytja mannskap.
Norska snekkjan var hönnuð fyrir djúpa firði og úthaf og risti meira en dönsk snekkja sem gerð var fyrir lágar strendur. Snekkja var svo létt að ekki var þörf fyrir sérstakar hafnir—þær var hægt að renna upp á stön og jafnvel yfir eyði.
Þessi gerð þróaðist eftir víkingatímann og má enn sjá í bátum í Noregi sem eru kallaðar snekke.

Dreki: Stórt herskip með drekahöfuð. Skip sem ætlað var höfðingjum og konungum og átti að sína stöðu eigandans og hægt var að nota sem „Skeið“ eða „Bússu“. Var frá 25-rúma og meira. Drekinn var venjulega stærsta skipið í flotanum. Haraldur Hárfagri er sagður hafa átt nokkur slík skip:

Kaupskip:
Munur verður á Langskipi og kaupskipi frá því um árið 1000. Breiðari skip sem hönnuð voru til siglinga með fáar árar sem tóku dýpra í en á grynnri skipunum, þá einungis notaðar nærri landi. „Karfar“ voru hins vegar flatbotna og voru því með fleiri árar, þ.e. frá 13 til 16 rúm.

Knörr: Haffar notað til flutninga (sem íslendingar notuðu í förum til Grænlands og Vínlands). Hinsvegar er í Haraldskvæði eftir Þorbjörn Hornklofa skáld (um 900 AD), vísað til Knarrar sem herskip.
Karfi : Var smærri en venjulegt Langskip, með 13 til 16 rúm. Karfi var notaður til að flytja vistir og vopn til herskipaflota og flytja mannskap með ströndinni. Gaukstaða- og Oseberg skipin eru af Karfagerð.
Byrðingur: Var skip til flutninga með ströndu (notað einnig til siglinga til Færeyja og Íslands). Saga Sverris konungs segir frá Byrðingi sigla Karmsund hvern dag að sumri.

3. Bátar (för minni en 15 metrar)
Stærri skip voru færri að tölu en bátar voru algengari, það speglast í því aðeins 13 jarðsett stór för hafa fundist í N-Evrópu, en miklu mun meiri fjöldi bára. Þrír smærri bátar fundust í jarðsetningu Gaukstaðaskipsins. Sá stærsti var 9.75m og sá smæsti 6.5m.

Leiðangrar
Leiðangur var skipulagður floti skipa í þeim tilgangi að verjast, koma á verslunarleiðum eða hernaðarleiðangra. Allir frjálsir menn voru skyldaðir til að taka þátt í eða leggja eitthvað til í slíkra leiðangra.
Í norskum lögum var landinu skipt í svæði sem kölluð voru skipreiða. Slík svæði urðu að leggja til tiltekin fjölda skipa og vopnaða menn í slíka leiðangra. Lög gerðu ráð fyrir að hver maður ættu sín eigin vopn, að lámarki öxi eða sverð auk spjóts og skjaldar, þar að auki varð að fylgja hverju róðrarplássi bogi og 24 örvar. Gamlar heimildir segja að hægt var að kalla saman 310 skipum í slíkan leiðangur til varnar. Á þessum landsvæðum var fyrir hendi kerfi varða á hæstu hæðartoppum þar sem hægt var að kveikja elda til merkis um að safnað sé til leiðangra. Þannig var hægt að safna saman flota skipa eftir ströndum Noregs á fáum dögum. Hákon hin góði á heiðurinn af þessu kerfi leiðangra sem komið var á fót um 950, en slík varnarkerfi eru talið hafa verið til staðar um langan tíma í hinum ýmsu smærri konungsríkjum áður en Noregur varð eitt konungsríki.

Fjöldi skipa og stærð sem fylki Noregs voru skyld til að leggja til í leiðangra:
Víkverjar: 60 skip 20-rúma
Grenene: 1 skip
Egdene: 16 skip 25-rúma
Rygene: 24 skip 25-rúma
Hordene: 24 skip 25-rúma
Sygnene: 16 skip 25-rúma
Firdene: 20 skip 25-rúma
Mørene: 16 skip 25-rúma
Romsdølene: 10 skip 20-rúma
Nordmøringene:20 skip 20-rúma
Trønderne: 80 skip 20-rúma
Namdølene: 9 skip 20-rúma
Håløygene: 13 skip 20-rúma + 1 skip 30-rúma
(After: Brøgger og Shetelig: Vikingeskipene, Dreyer 1950)

Ekki er vitað til að allur floti 310 skipa hafi verið kallaður saman. Til viðbótar þessum voru til mörg einkaskip og ljóst má vera að nokkur þúsund víkingaskip hafa verið byggð á víkingatímanum í Danmörk, Svíþjóð og Noregi. Þó hafa fá skip fundist sem jarðsett hafa verið eða sokkið.
Hægt er að lesa meira um leiðangur í útgerðarbálki Gulaþingslaga: Utgjerdsbolken i Gulatingsloven om leidangen

Glefsur úr sögunum um víkingaflota og leiðangra
Þegar Magnus góði (1047) sjósetti skip sín, var því lýst sem flokki engla frá konungi himna –sem flögruðu yfir öldunum. (Arnór jarlaskáld)
Saga Haraldar Hárfagra: Haraldur hafði stóran dreka og mörg skip í leiðangri sínum. Um veturinn hafði hann látið smíða dreka mikinn og látið búa hann af miklum kostum, og sett húsmenn sína og berserki um borð. Frammi voru valdir menn, því þeir höfðu konungsveifuna.Frá miðskipi og fram í stefni var kölluð rausn, eða fremri vörn;og þar voru berserkir. Slíkir menn voru aðeins húsmenn Haraldar konungs vegna styrks, hugrekkis og margskonar handlagni

Útskurður sem fannst í Bergen. Sýnir líklega flota Hákonar Hákonssonar 1233. Hér sjáum við skip með drekahöfuð bera hæst og önnur stór skip leiðangursins. Fyrir miðju sjáum við skip með gullna fána, einskonar vindhana sem blakta á bógi þeirra.
Úr sögu Hákonar Hákonssonar. Þegar hann (Hákon) kom til Björgvinjarlagði hann skipi sínu uppá konungsgrund,hinir lögðu Langskipum sínum við bryggju bæjarins.
Seinna setti hann niður stærstu skip sín: Hugarró, Ólafssúð, Fitjabrandinn, Gullbringu og Rýjarbrandinn. En þegar Hugarró var sett niður skemmdist neðri hluti skipsins. Strax var skipið sett upp og gert við það. Hin skipin voru sett niður án áfalla. Skip konungs lágu við bryggjur um allan bæinn. Síðar komu konungsmenn og höfðingjar með mikinn búnað og menn.
Saga Ólafs Tryggvasonar: Ólafur kallar saman leiðangur til útsiglinga.
Ekki löngu eftir þessa atburði kallaði Ólafur til þings og tilkynnti að að sumri myndi senda gísl úr landi og hann myndi kalla saman leiðangur, skip og menn frá öllum fylkjum landsins og láta vita hvers mörg þau yrðu. Þá sendi hann boðbera innan lands, norður og suður, til eyja og lands til að kalla menn til vopna. Eftir það setti Ólafur konungur niður „Orminn langa“ og öll önnur skip hans, stór og smá; (….)Ennfremur fékk Ólafur konungur 11 stór, 20 rúma skip frá Þrándheimi og tvö smærri..

Ger Ormurinn langi ; Úr Ólafssögu Tryggvasonar
Þann vetur eftir er Ólafur konungur hafði komið af Hálogalandi lét hann reisa skip mikið inn undir Hlaðhömrum, það er meira var miklu en önnur þau skip er þá voru í landinu og eru enn þar bakkastokkar þeir svo að sjá má. Þorbergur skafhögg er nefndur sá maður er stafnasmiður var að skipinu en þar voru margir aðrir að, sumir að fella, sumir að telgja, sumir saum að slá, sumir til að flytja viðu. Voru þar allir hlutir vandaðir mjög til. Var skipið bæði langt og breitt og borðmikið og stórviðað.
Var það dreki og ger eftir því sem Ormur sá er konungur hafði haft af Hálogalandi en þetta skip var miklu meira og að öllum hlutum meir vandað. Það kallaði hann Orm hinn langa en hinn Orm hinn skamma. Á Orminum langa voru fjögur rúm og þrír tigir (120manns). Höfuðin og krókurinn var allt gullbúið. Svo voru há borðin sem á hafskipum. Það hefir skip verið best gert og með mestum kostnaði í Noregi.

Í Knútsdrápu Sighvats Þórðarsonar er talað um „harðbrynjuð skip kynjum;“
Í Hrynhendu Arnórs Þórðarson jarlaskáld, f.um. 1012, d. um 1070, sonur skáldsins Þórðar Kolbeinssonar. Arnór Þórðarson fór oft út sem kaupmaður og sigldi oft til Orkneyja, hann orti oft fyrir Orkneyjajarla og fékk viðurnefnið þaðan. Hann orti Hrynhendu sem lofkvæði til Magnúsar hin góða í nýjum stíl, hrynjanda; Hann orti einnig erfikvæði eftir Magnús Góða og Harald Harðráða og telst til höfuðskálda. Koma fyrir margar skipagerðir eins og herskip, knörr sem kaupfar, skeið og skíði er almennt heiti skipanna hjá skáldin